Framhald umræðna um EES og fjarvera utanríkisráðherra

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 14:06:48 (3639)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það liggur ljóst fyrir hvaða viðræður fóru hér fram í nótt og þingflokksformaður okkar hefur skýrt skilmerkilega frá því. Við aðrir þingmenn sem ekki höfum komið að þeim málum munum að sjálfsögðu ræða þetta á þingflokksfundi í dag og vega það og meta. Ég vek athygli á því að í því sem frá hefur verið greint er ekki tekið fram að leitað hafi verið eftir samkomulagi um að 2. umr. lyki áður en hæstv. utanrrh. kemur heim. Og ég vil líka láta það koma fram að mér mislíkaði nokkuð að heyra tóninn í hæstv. viðskrh. Ég skildi hans orð þannig að niðurstaðan væri í raun og veru sú að það væri allt í lagi að halda áfram umræðu að utanrrh. fjarstöddum. Ef formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar og formenn flokkanna væru því samþykkir skipti litlu hvað aðrir þingmenn í þeim flokkum segðu eða vildu um það mál. Ég vil mótmæla þessu. Ég tel aðra þingmenn jafngilda og okkar forustumenn og vænti að hæstv. viðskrh. leiðrétti þetta ef ég hef skilið hans orð rangt.