Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 14:11:22 (3641)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég verð nú fyrst að gera athugasemdir við þennan fallega og góða ræðustól okkar. Þegar svo viðamikil mál eru til umræðu sem nú er þá er næsta þröngt hér og ég held ég verði að fá að leggja frá mér gögn hér á skrifaraborðið. ( Forseti: Það er bara alveg sjálfsagt að hjálpa til.)
    Svo er mál með vexti að ég þarf að fara fáeinum orðum um þetta mál. Þetta er áreiðanlega afdrifaríkasta mál sem núverandi þingmenn hafa fjallað um og sennilega ekki nema eitt sem ég get hugsað mér enn þá afdrifaríkara sem gæti mætt okkur síðar á þingferli okkar. Ég hef átt sæti í utanrmn. og stend að nál. 1. minni hluta ásamt hv. 7. þm. Reykn., Steingrími Hermannssyni. Hann flutti í framsögu fyrir þessu nál. mjög yfirgripsmikla ræðu þar sem hann rakti viðhorf okkar til málsins, gagnrýndi ýmsa þætti þessa samnings og þessa máls. Ég mun forðast að endurtaka það sem hann sagði og get þar með stytt ræðu mína talsvert mikið. Ég er sammála þeim röksemdum sem hann kom fram með, í einstaka atriði þó hefði ég tekið ofurlítið dýpra í árinni og reyndar einstaka atriði aðeins grynnra.
    Ég tel að sú ræða sem hv. 7. þm. Reykn. flutti sem framsögu fyrir þessu nál. okkar hafi verið alveg til fyrirmyndar og mjög efnisrík. Hæstv. forsrh. lætur sér hins vegar sæma í Morgunblaðinu í morgun að kalla þessa ræðu málþóf. Það tel ég ekki skynsamlegt hjá honum. Nú er hæstv. forsrh. ekki viðstaddur þessa umræðu í dag en ég get ekki annað en látið það koma fram að ef hæstv. forsrh. vissi þó ekki nema helminginn af því sem hæstv. 7. þm. Reykn. veit um málið, þá hef ég ekki trú á því að hann kæmi því fyrir í styttra máli en hv. 7. þm. Reykn. gerði.
    Ég hef unnið talsvert í þessu máli á undanförnum árum. Ég hef átt sæti sem fulltrúi Framsfl. í Evrópustefnunefnd sem hér starfaði og vann mikið starf, fyrst undir forustu hv. fyrrv. þm. Kjartans Jóhannssonar, sem nú er sendimaður okkar í Genf, og síðan undir forustu hv. 4. þm. Reykv., Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Evrópustefnunefnd lagði grunninn að þekkingu okkar þingmanna á Evrópubandalaginu og á henni byggir þingið að sjálfsögðu eða hefur aðgang að feiknarmiklum og allvönduðum gögnum um eðli og uppbyggingu Evrópubandalagsins.
    Ég hef átt sæti í utanrmn., sem eins og kunnugt er er búin að halda um þetta mál eitthvað á milli 90 og 100 fundi, ég hef átt sæti sem fulltrúi Alþingis í þingmannanefnd EFTA. Ég hef reynt að nálgast þetta viðfangsefni með opnum huga og ég hef reynt að forðast eftir því sem ég hef getað að vera með upphrópanir, hallelújahróp eða fordæmingu á málinu. Ég hef að vísu allan tímann verið mjög andvígur því að Ísland gerðist aðili að Evrópubandalaginu og sú skoðun mín hefur ekkert breyst. Ég vonaðist hins vegar lengi vel eftir að samningum um Evrópskt efnahagssvæði kynni að ljúka þannig að viðunandi væri fyrir Íslandi en lagði jafnframt alltaf áherslu á að meta lokaniðurstöðuna þannig að við værum ekki að loka okkur inni í einhverjum samningi sem e.t.v. yrði ekki hagkvæmur.
    Hv. fyrrv. forsrh., 7. þm. Reykn., Steingrímur Hermannsson, setti fram í Ósló í mars 1989 fyrirvara fyrir Íslands hönd þegar við gengum að þessu samningaborði og ég var þeim samþykkur. Og ég var því samþykkur að viðræður voru teknar upp, að sjálfsögðu með það í huga að við gætum ekki gefið okkur það fyrir fram að við mundum samþykkja lokaniðurstöðuna, hver sem hún yrði, og á það legg ég áherslu.
    En nú hefur orðið önnur lending heldur en sú sem við vonuðum í mars 1989. Fyrirvararnir eru flestir að engu orðnir eða þá svo útvatnaðir að þeir eru þýðingarlitlir. Það er breyttur samningur sem liggur hér fyrir, hann er meira að segja í grundvallaratriðum breyttur síðan á vordögum 1991.
    Hv. 7. þm. Reykn. gerði í ræðu sinni ítarlega grein fyrir þeim breytingum sem orðið hefðu á samningnum og ég get því farið fljótt yfir sögu að því leyti til. En í þessum samningi, eins og hann liggur nú fyrir á þingskjölum --- svo langt sem þau ná því hér er ekki um endanleg þingskjöl að ræða heldur einungis leifarnar af gömlu samkomulagi sem fellt var í Sviss og stendur ekki lengur sem slíkt, stendur ekki lengur sjálfstætt. --- Í þessum leifum af samkomulagi er ekki það sem við vonuðumst eftir. Í þeim er yfirþjóðlegt vald. Í þeim er fullveldisskerðing fyrir Ísland. Það er ekki fríverslun með fisk. Aðgangur að fiskimiðum Íslands er seldur fyrir tollalækkun og augljóst stórt skref inn í Evrópubandalagið. Auðlindir og land fer að einhverjum hluta í hendur útlendinga. Og síðast en ekki síst, ekki má ég gleyma því, væri með þessum samningi, ef samþykktur yrði, verið að fremja stjórnarskrárbrot því að það er ekki nokkur vafi í mínum huga eftir þá ítarlegu skoðun sem fram hefur farið í utanrmn. og eftir þeim gögnum sem ég hef aflað mér frá okkar fremstu fræðimönnum, að þessi samningur samræmist ekki íslensku stjórnarskránni.
    Ég hafði hugsað mér að ræða nokkuð framgöngu hæstv. utanrrh. í þessu máli bæði fyrr og síðar. Bæði hvernig hann hefur staðið að samningum og eins hvernig hann hefur kynnt þennan samning og barist fyrir honum eða auglýst hann eftir atvikum. En eins og þegar hefur komið fram fór utanrrh. til Brussel með samþykki mínu og ég áskildi mér rétt til þess að geyma það þangað til síðar í umræðunni að ræða þau atriði, þannig að ég sleppi því í þetta sinn og geymi mér það þangað til síðar í umræðunni. Ég vil reyndar, svo öllu sé til skila haldið, taka það fram að ég tel rangt að vera að ræða þetta mál á þessu stigi. Ég hef orðað það svo, sem sumum hefur orðið minnisstætt, að þetta væri eins og að ætla að fara að gifta dauðan mann og ég stend alveg við þau orð. Þessi samningur verður ekki í endanlegri mynd eins og hann liggur fyrir á þingskjölum. Það getur skeð að hér fari fram gifting einhvern tímann en það verður þá nýr og öðruvísi maður og í öðrum fötum sem giftur verður. Það kann að vera að það verði uppvakningur en það verður ekki sá sami sem hér er lýst á þingskjölunum.
    Mig langar til að lesa, með leyfi forseta, 1. gr. þess frv. sem hér er til umræðu, þ.e. frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið. 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Heimilt er að fullgilda fyrir Íslands hönd:
    1. Samning um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn), þ.e. meginmál samningsins, bókanir við hann og viðauka, ásamt gerðum sem í viðaukunum er getið, milli Efnahagsbandalags Evrópu, Kola- og stálbandalags Evrópu og aðildarríkja þessara bandalaga annars vegar og aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu hins vegar, sem undiritaður var í Óportó hinn 2. maí 1992;
    2. samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sem undirritaður var í Óportó hinn 2. maí 1992;
    3. samning um fastanefnd EFTA-ríkjanna sem undirritaður var í Óportó hinn 2. maí 1992.``
    Ég sé það, frú forseti, að ég má til að lesa hinar greinarnar líka svo samhengi fáist í málið. 2. gr. hljóðar svo:
    ,,Meginmál EES-samningsins skal hafa lagagildi hér á landi. Sama gildir um ákvæði bókunar 1 við samninginn og ákvæði 9. tölul. VIII. viðauka og g-liðar 1. tölul. XII. viðauka við samninginn.`` --- Til að spara tíma þá ætla ég ekki að lesa þessa viðauka eða ákvæði. Síðan segir í 2. gr.:
    ,,Ákvæði EES-samningsins, bókunarinnar og viðaukanna, sem vísað er til í 1. mgr., eru prentuð sem fylgiskjöl 1--4 með lögum þessum.``
    3. gr. hljóðar svo:
    ,,Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.`` --- Ég endurtek þetta til frekari fróðleiks: ,,Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.``
    4. gr., sem meiri hluti hv. utanrmn. leggur til að falli niður úr samningnum, er svona:
    ,,Ráðherra, sem í hlut á, getur, ef sérstök nauðsyn krefur, sett reglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd EES-samningsins.`` Þetta var náttúrlega algjörlega fáránlegt að setja inn í frumvarp, að gefa ráðherra sem í hlut á --- eða að láta sér detta í hug að setja það á blað að ráðherra sem í hlut á --- ef sérstök nauðsyn krefði --- gæti sett reglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd EES-samningsins. Ég skil nú ekkert í hvað þeir hafa verið að fara í utanrrn. þegar þeim datt í hug að setja þetta svona saman --- eða ríkisstjórninni að láta þetta frá sér. Og það ber að þakka hv. meirihlutamönnum í utanrmn. undir forustu Björns Bjarnasonar, hv. 3. þm. Reykv., að leggja til að taka þessa grein út. Ég ætla því ekki að fjölyrða meir um hana.
    5. gr. orðast svo:
    ,,Ákvæði 1. gr. laga þessara öðlast þegar gildi.
    Önnur ákvæði laganna öðlast gildi um leið og EES-samningurinn öðlast gildi að því er Ísland varðar.``
    Svona hljóðar frumvarpið.
    Ég ætla fjarri því, forseti, að fara yfir þær tíu þúsund eða tólf eða fimmtán þúsund síður sem okkur hafa borist um þetta mál en ég taldi nauðsynlegt --- vegna þeirrar umræðu, sem ég er ekki viss um að menn hafi gert sér grein fyrir sem ekki hafa fyllsta kunnugleika á málinu --- hvernig umræðan undanfarna daga frá hendi ríkisstjórnarinnar hefur verið misvísandi um þetta efni.
    Það er sem sagt í 1. gr., sem öðlast þegar gildi, kveðið á um það að aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu annars vegar og svo Evrópubandalagið hins vegar geri með sér samning og fullgildi meginmál hans, bókanir við hann og viðauka, ásamt gerðum sem í viðaukunum er getið. Þetta finnst mér nokkuð langt gengið. Og þetta er ekkert smáatriði.
    Nú eru aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu auk Íslands, Noregur, Svíþjóð, Finnland, Austurríki, Sviss og Liechtenstein. Efnahagslega sterkasta ríkið hefur fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu að verða aðili að þessu kompaníi. Þar af leiðandi er þetta ekki samningur á milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu heldur er þetta bara orðinn samningur eða uppkast að samningi á milli Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Austurríkis og Liechtenstein. Sviss vantar í þetta kompaní. Og af því leiðir að fjármunaleg uppbygging, stjórnmálaleg uppbygging, dómsmálaleg uppbygging samningsins hlýtur öll að breytast. Um þetta er ekki ágreiningur.
    Í öðru lagi er lagt til að lögfesta samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sem undirritaður var í Óportó hinn 2. maí 1992. 2. maí 1992 undirritaði Sviss, eða utanríkisráðherra Sviss fyrir hönd þjóðar sinnar, þetta samkomulag. Það var fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu og undirskrift hans gildir ekki lengur. Þar af leiðandi verður þetta ekki samningur á milli EFTA-ríkjanna heldur á milli þeirra ríkja sem ég tiltók og Evrópubandalagsins. Þar að auki breytist dómstóllinn fyrirsjáanlega ásamt með kostnaðarskiptingu. Síðan á að löggilda nú þegar samning um fastanefnd EFTA sem undirritaður var í Óportó hinn 2. maí 1992. Það er það sama um þetta atriði að segja.
    Þetta eru rökin fyrir því að þessi samningur er ekki í raunveruleikanum eins og hann verður prentaður í íslenska lagasafninu, ef hann verður staðfestur hér á landi. Og það er þetta sem ég er að tala um þegar ég er að tala um að gifta dauðan mann. Ég tel að þetta sé ekki þingtækt mál. Það er reyndar fullkomin ástæða fyrir okkur, eftir þær umræður sem fram hafa farið og eftir málflutning stjórnarsinna hér í þingsölum, að gera okkur grein fyrir því hversu absúrd, hversu fjarstætt mál megi vera og fjarri raunveruleikanum til þess að eðlilegt sé að Ísland lögfesti það. Ég lít svo á að heilbrigð skynsemi hljóti að vera með í spilinu og við séum ekki að eyða tíma í að lögfesta það sem ekki kemur til með að verða og við vitum að kemur ekki til með að verða.
    Við förum ekki að setjast hér niður --- eða hér á Alþingi að lögtaka t.d., svo ég nefni hliðstætt dæmi, tvíhliða samning eða uppkast að tvíhliða samningi sem hv. formaður Alþb., 8. þm. Reykn., gerði milli milli Íslands og Evrópubandalagsins. Við förum ekki að eyða tíma í að lögfesta það. ( Forsrh.: Þetta var uppkast að einhliða samningi.) Þetta er nefnilega alveg rétt, hæstv. forsrh., þetta hér er einhliða samningur. Evrópubandalagið er ekki búið að segja sitt orð um hvort það vilji hafa hann svona. Og við vitum af ástæðum sem fram hafa komið að EFTA-ríkin þurfa að breyta sinni hlið, við vitum ekkert um Evrópubandalagið. Það er alveg eins mikið út í bláinn og sá tvíhliða samningur sem Ólafur Ragnar skrifaði --- ég vil nú ekki fullyrða, til þess að segja ekki of mikið, skrifaði. Ég hugsa að hann hafi nú lesið hann inn á band og fengið einhverja af hinum ágætu vélritunarkonum Alþingis til þess að pikka hann inn á tölvu fyrir sig. En ég tel það þýðingarlaust fyrir okkur. Þó að margt sé gott í þeim hugmyndum sem Ólafur Ragnar setti fram, þá tel ég það bara alveg þýðingarlaust fyrir okkur að vera að eyða tíma Alþingis í það að lögfesta þann samning. Og það er nákvæmlega hliðstætt því sem við erum að gera. ( Gripið fram í: Liggur hann fyrir?) Nei, hann hefur ekki verið lagður fyrir. En hv. formaður Alþb. gæti alveg eins lagt hann fyrir eins og ríkisstjórnin leggur þetta fyrir. Ég tel nefnilega að samningur Ólafs Ragnars Grímssonar, hv. 8. þm. Reykn., sé ekki þingtækur fremur en þetta.
    Það hafa verið að undanförnu átök í utanrmn. um þetta mál, nokkur átök. Ég setti fram eindregna ósk á laugardaginn var á fundi nefndarinnar um það að leita álits Lagastofnunar Háskóla Íslands um málið. Fyrir okkur lá --- samkvæmt beiðni frá fundi á föstudag --- álitsgerð frá utanrrn. Ég er því miður ekki með álitsgerðina hér í bunkanum mínum þannig að ég vitna til hennar eftir minni. Niðurstaðan varð sú að það var ekki lagður dómur á túlkun hæstv. utanrrh. um það hvort Ísland ætti leið að því samningaborði sem menn hafa verið að ræða um og sum ríkin ætla að ganga til. Þar rak sig ýmislegt á annars horn í þessari álitsgerð. Þetta var minnisblað frá utanrrh. til utanrmn. og kallað lögfræðilegt álit. Þess var getið að viðskrn. og dómsmrn. hefðu komið að þessari samningagerð og þetta var óundirskrifað.
    Þegar ég las þetta þá sannfærðist ég ekki. Vegna þess að mér fannst að rökin sem færð voru fram væru ekki nógu sterk og taldi að nauðsynlegt væri að fá álit óvilhallra manna á málinu. Nú vil ég ekki lasta þá menn sem unnu þetta álit. Ég hélt nú fyrst að utanrrh. hefði skrifað þetta sjálfur á hnénu á sér. En það reyndist ekki vera. Á fundi utanrmn. --- nú er ég búinn að finna þessa greinargerð --- kom það nefnilega fram að greinargerðin var unnin af einum starfsmanni utanrrn., Pétri Gunnari Thorsteinssyni, ráðuneytisstjóranum í viðskrn., Birni Friðfinnssyni, og ráðuneytisstjóra dómsmrn., Ólafi Walter Stefánssyni. En hún var reyndar með orðaleppa hæstv. utanrrh. og mjög í samræmi við þann málflutning sem hann hafði haft hér í þinginu.
    Nú ætla ég ekki að kasta steini að þeim ágætu mönnum sem settu þessa greinargerð saman, hvað þá að mér detti í hug að draga lagaþekkingu þeirra í efa. Og ég ætla alls ekki að halda því fram að þessir herrar beri einhvern þrælsótta fyrir hæstv. ríkisstjórn, síður en svo. En nú veit ég það að hæstv. ráðherrar eru góðir húsbændur og vinir hjúa sinna. Og mér finnst það mjög ósennilegt að t.d., svo ég taki eitt dæmi, ráðuneytisstjórinn í viðskrn., Björn Friðfinnsson, færi nú að gera utanrrh. þann óleik að þefa uppi einhverjar misfellur í málflutningi hans. Fyrir utan það að vera flokksbróðir ráðherrans, fyrir utan það að vera persónulegur vinur bæði húsbónda síns og hæstv. utanrrh. ( Heilbrrh.: Úr MA eins og við allir.) og úr MA eins og við, ja sumir. Þar á ofan náfrændi utanrrh. og nýbúinn að taka við starfi úr hendi utanrrh., sem mér er sagt að sé launað með sem svarar 800 þús. ísl. kr. á mánuði, skattfrjálsum. Að búast við því að ég kaupi það sem góða vöru að hann sé sérstaklega að leita eftir veilum í málflutningi ráðherrans nú á þessari jólaföstu, það geri ég ekki. Ég er ekki að lasta Björn Friðfinnsson, ég bið menn að athuga það. Ég met Björn Friðfinnsson ákaflega mikils og tel hann vera starfhæfan mann og kannski of starfhæfan því að einstöku sinnum verður hann of duglegur. En hann er verkmaður.
    Það er nefnilega algjörlega óþolandi fyrir stjórnarandstöðu á hverjum tíma, og þá er ég ekki bara að tala fyrir hönd okkar framsóknarmanna --- ég hef lengst af mínum þingferli verið stjórnarmegin hér á Alþingi. Ég hef verið stuðningsmaður flestra ríkisstjórna, ja,

nema þessarar og svo í nokkra daga var lítil stjórn sem kratarnir áttu 1979 og ég var ekki stuðningsmaður hennar heldur. En það er óþolandi fyrir Alþingi, fyrir hinn almenna alþingismann að geta ekki leitað sér lögfræðilegs úrskurðar í ágreiningsefnum, e.t.v. hápólitískum ágreiningsefnum. Í þessum vangaveltum hef ég komið auga á það að skynsamlegast sé að flytja þáltill., og það mun ég gera og vonast eftir að geta myndað um hana breiða samstöðu, ekki bara stjórnarandstæðinga, heldur líka með stuðningi úr þingflokkum stjórnarinnar. Og ég mun, með leyfi forseta, lesa tillgr. eins og mér dettur í hug að hafa hana:
    ,,Alþingi ályktar að koma á fót lagaráði til ráðuneytis um lögfræðileg úrlausnarefni. Ráðið sé skipað þremur mönnum, einum tilnefndum af Hæstarétti, einum af Lagastofnun Háskólans og einum af Lögfræðingafélagi Íslands. Varamenn skuli tilnefndir af sömu aðilum. Kostnaður greiðist af Alþingi.``
    Einhvern veginn svona gæti tillgr. verið, ég er til viðræðu um að breyta henni til samkomulags ef menn hafa aðrar betri hugmyndir. En svona stofnun held ég að við verðum að setja á fót. Hún gæti verið nokkuð svipaðs eðlis og þetta væri svipað skref og þegar Ríkisendurskoðun var gerð að sjálfstæðri stofnun og tekin út úr fjmrn. Danir hafa búið við það að deild í dómsmrn. veitir þinginu lögfræðilega ráðgjöf. Þeir eru óánægðir með það og telja að eðli málsins samkvæmt hljóti sú ráðgjöf alltaf að vera ríkisstjórn hallkvæm og Danir eru að breyta þessu. Ég held að okkur vanti svona stofnun til þess að geta varast árekstra eins og þá sem hér hafa orðið. Ég ætla ekki að orðlengja þetta meir, ég mun mæla fyrir þessari tillögu síðar, frú forseti.
    Eftir að greinargerð þessi frá utanrrh. hafði verið kynnt og rædd í utanrmn. óskaði ég eftir því og hlaut stuðning allmargra nefndarmanna að senda málið til athugunar hjá Lagastofnun. Hv. 3. þm. Reykv., formaður nefndarinnar, tók hins vegar ekki undir það á þeim fundi, lagðist ekki gegn því en samþykkti ekki. Starfsmaður utanrmn. kom að máli við mig og spurði hvers ég vildi spyrja Lagastofnun. Ég greindi honum frá því hver væri meginspurningin sem ég ætlaði að leggja fyrir Lagastofnun, hún væri sú hvort að eðlilegt væri að Alþingi afgreiddi sem lög gjörning sem vitað væri að mundi taka breytingum. Starfsmaður utanrmn., forstöðumaður nefndadeildar, fór með þessa spurningu mína til hv. formanns nefndarinnar. Ég óskaði eftir því að þetta yrði lagt fyrir aðra fulltrúa stjórnarandstöðunnar í utanrmn. og þeir gætu þá komið með athugasemdir sínar fram eða viðbótarspurningar. Mér barst bréf að kvöldi 14. des. og ég vil lesa það vegna þess að hv. þm. Björn Bjarnason var óánægður með að ég skyldi ekki lesa öll okkar bréfaskipti í umræðum um þingsköp í gær. Það gerði ég ekki vegna þess að ég hafði ekki tíma til þess á þeim mínútum sem mér voru skammtaðar. Ég les það nú, frú forseti.
    Bréfið sem mér barst, og ég verð nú að játa það að ég varð nú hálfhissa þegar ég fékk tilskrif, af því við vorum í sama herberginu. En allt um það, það liggur þá skjalfest fyrir hvað okkur fór á milli. Þetta er til Páls Péturssonar frá Birni Bjarnasyni og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þorsteinn Magnússon, ritari utanrmn., hefur kynnt mér þá spurningu sem þú telur nauðsynlegt að utanrmn. leiti álits um frá Lagastofnun Háskóla Íslands. Að mínu mati er ástæðulaust að senda slíka spurningu út fyrir veggi Alþingis. Ég lít þannig á að skrifstofa Alþingis sé fullfær um að veita þá ráðgjöf sem hér er rætt um. Innan skrifstofunnar eru starfandi lögfræðingar sem hafa góða þekkingu á málefnum Evrópska efnahagssvæðisins og sem þingmenn geta leitað lögfræðilegra ráða hjá.
    Með vísan til þessa ítreka ég að ég tel ástæðulaust að senda áðurgreinda fyrirspurn til Lagastofnunar en er að sjálfsögðu reiðubúinn að ræða málið nánar.`` --- Þetta er nú óundirskrifað en vélritað bréf.
    Mér fannst, þegar ég las þetta bréf, að hv. þm. væri að neita mér um þennan sjálfsagð rétt sem ég tel að utanrmn. hafi, að senda mál til athugunar hjá Lagastofnun Háskólans, og skrifaði honum annað samdægurs, þ.e. að kvöldi 14. des. og við horfðumst hér í augu meðan ég var að setja þetta saman. Þetta er til Björns Bjarnasonar frá Páli Péturssyni:
    ,,Mér hefur borist bréf þitt dagsett í dag þar sem þú neitar að verða við ósk minni

um að utanrmn. leiti álits Lagastofnunar Háskólans. Ég sætti mig ekki við neitun þína og óska eftir að þú endurskoðir afstöðu þína. Sjáir þú þér ekki fært að verða við ósk minni verð ég að óska eftir fundi í utanrmn. á hentugum tíma á morgun.``
    Mér barst annað bréf eftir nokkra bið og var þá farið að líða að miðnætti. Þetta er til Páls Péturssonar frá Birni Bjarnasyni, enn þá var samt 14. des. 1992:
    ,,Þakka bréf þitt. Þar gætir misskilnings því ég taldi einungis ástæðulaust að senda þá spurningu sem mér var kynnt af nefndarritara til Lagastofnunar. Í mínum huga snerist orðsending mín til þín um efni fyrirspurnarinnar. Að mínu mati ræður úrslitum hvaða atriði það eru sem þarf að upplýsa nánar. Spurningunni, sem mér var kynnt, er auðvelt að svara innan veggja Alþingis. Jafnframt minni ég á að ég sagðist reiðubúinn að ræða málið frekar.``
    Ég lét gott heita í bili og lauk nú bréfaskriftum okkar hv. þm. Ég ætla ekki að eyða tíma í að rifja það upp að mér barst í hendur afrit af bréfi Björns Þ. Guðmundssonar, prófessors við Háskóla Íslands, til forseta Alþingis, frú Salome Þorkelsdóttur, dags. 15. des. Mér barst það í hendur í byrjun fundar í gær, afrit af því bréfi --- og það kynnti ég hér undir umræðum um þingsköp því ég taldi að það ætti erindi inn í málið í framhaldi af því --- þar sem hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Fyrir Alþingi liggur frv. til laga um staðfestingu á samningnum um EES. Þetta frv. er formlega, eins og hvert annað lagafrumvarp, borið upp á Alþingi og lýtur aðeins íslenskum lögum. Fyrir alþingismönnum liggur því eins og endranær lagatexti, sem þeir samþykkja sem lög frá Alþingi eða synja, eins og hann liggur fyrir, nema honum sé breytt samkvæmt þeim reglum sem þar um gilda og þarf ekki að tíunda. Sé lagatextanum hins vegar breytt er hann svo breyttur borinn upp til samþykkis eða synjunar.
    Nú hefur eitt EFTA-landanna, Sviss, sem lagatextinn tekur til, fellt samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lagatextinn samkvæmt því frv. sem nú liggur fyrir Alþingi er því ekki í samræmi við raunveruleikann. Af því leiðir, að mínu viti, að íslensk lög leyfa ekki að lagafrumvarpið verði afgreitt frá Alþingi í óbreyttri mynd, hvorki með samþykki eða synjun.
    Því leyfi ég mér að skrifa yður þetta bréf, hæstv. forseti, að aldrei má það verða að Alþingi gleymi eigin lögum í hita leiks.
    Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn að gera nánari grein fyrir máli mínu, verði þess óskað.
    Virðingarfyllst, Björn Þ. Guðmundsson. Afrit til formanna allra þingflokka.``
    Þetta bréf kynnti ég hér --- eða þetta afrit af bréfi --- og urðu um það umræður í gær sem ég ætla ekki að rekja. Ég krafðist fundar í utanrmn. og óskaði eftir því að Björn Þ. Guðmundsson yrði kvaddur á fundinn. Áður en að fundurinn hófst, sem ég þakka fyrir að hv. formaður féllst á að halda, kvað forseti upp úrskurð að málið væri þingtækt að hennar mati, þ.e. taldi fram að það væri borið fram af þingmanni, frumvarpið væri með lagasniði, frumvarpið væri ekki um breytingar á stjórnarskrá og lagt fram á tilsettum tíma. Þetta var meginefni úrskurðarins. Í þennan úrskurð fannst mér þó vanta aðalatriðið, það var ekki tekið fram að það yrði að vera einhver heil brú í þessum lagatexta eða í málatilbúnaðinum. Mér fannst sem sagt vanta heilbrigða skynsemi í málið.
    Björn Þ. Guðmundsson prófessor mætti á fundi utanrmn., ítrekaði afstöðu sína og færði frekari rök fyrir henni. Það virkaði þannig á mig að ég varð enn þá sannfærðari um að hér er ekki um þingtækt mál að ræða og ekki formlega rétt að afgreiða það. Og Alþingi setur niður við að standa svona að lagasetningu.
    Á þeim fundi neitaði hv. formaður því formlega, hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason, að leita til Lagastofnunar. Þá átti ég ekki eftir nema eitt ráð sem ég tel að hægt sé að grípa til í þessari stöðu. Ég hef sent Lagastofnun Háskólans bréf sem ég vil kynna hér, með leyfi forseta:
    ,,Lagastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
    15. des. 1992.
    Málefni: Frumvarp til laga um Evrópska efnahagssvæðið.

    Fyrir Alþingi liggur nú eins og kunnugt er ofangreint frumvarp. Að því mun vera stefnt að afgreiða málið á næstu dögum sem lög frá Alþingi. Þó er ljóst að málinu verður að breyta eftir þá ákvörðun Svisslendinga að taka ekki þátt í fyrirhuguðu efnahagssvæði.
    Þingflokkur framsóknarmanna vill leita álits Lagastofnunar Háskóla Íslands á því hvort það samræmist íslenskum lögum eða íslenskri lagavenju að afgreiða sem lög mál sem við afgreiðslu liggur ekki fyrir í endanlegri mynd. Ekki er heldur vitað hver endanleg gerð málsins verður.
    Þingflokkurinn væntir þess að fá svar svo fljótt sem frekast er unnt.

Virðingarfyllst, Páll Pétursson.``


    Þetta er bréfið sem ég hef sent Lagastofnun.
    Ég hefði miklu, miklu fremur kosið að þetta mál hefði verið sent í nafni utanrmn. heldur en í nafni þingflokks framsóknarmanna. Ég hefði talið það öruggara og líklegra til skjótra viðbragða í Lagastofnuninni ef utanrmn. hefði sent þetta bréf. En það fékkst ekki gert og því varð ég að grípa til þessa ráðs og þingflokkur minn.
    Þetta segi ég hér vegna þess að ég tel að hér sé dæmi um óeðlileg vinnubrögð. Ég minnist þess ekki í því nefndarstarfi sem ég hef unnið hér á Alþingi, líklega síðan 1974 að neitað hafi verið formlega um beiðni um upplýsingar um mál, eða álits á álitaefni svo að öllu sé til skila haldið, fyrr en nú. Mér þykir fyrir þessu því að ég tel að fram að þessum tíma hafi hv. 3. Reykv. stjórnað utanrmn. vel, óaðfinnanlega. Hann hefur mikla skapsmuni og ákveðinn vilja en hann hefur sýnt okkur nefndarmönnum lipurð og sanngirni í hvívetna eftir að hann settist í formannsstól, fram að þessu.
    Ég veit það að hv. 4. þm. Reykv., sem lengi var formaður utanrmn., hefði aldrei látið þetta henda sig, jafnvel þó að hann hefði verið að fjalla um mál sem honum hefði verið hjartans mál og baráttumál, þá hefði hann ekki látið það henda sig að neita minni hluta --- nú tek ég það fram að ég var ekki einn í utanrmn. um það að setja þessa ósk fram --- allir stjórnarandstæðingarnir í nefndinni studdu þá hugmynd mína að leita til Lagastofnunar. Ég tel að þetta séu ekki viðeigandi vinnubrögð og ég deili á þau. Reyndar er rekið á eftir þessu máli með óeðlilegu offorsi. Og það hefur verið gengið svo langt að hér í skúmaskotum eru menn að reyna að gera lítið úr dr. Birni Þ. Guðmundssyni prófessor. Sumir af stjórnarliðum eru að kasta á milli sín lítilsvirðandi athugasemdum um hann, sem draga í efa lögfræðiþekkingu hans, reyna að gera tortryggilegar þær ályktanir sem hann dregur. Það er gengið svo langt að það er vitnað til og gengur hér í ljósriti milli manna spauggrein sem prófessorinn hafði látið frá sér fara í Úlfljóti, tímariti laganema. Þessi grein er skrifuð undir nafni og er öllum ljóst að þarna er um spaug að ræða. Greinin heitir ,,Ný námsskrá fyrir lagadeild`` og er uppsetning á því hvernig námsskrá lagadeildar gæti litið út ef sparnaðarhnífur ríkisstjórnarinnar héldi áfram að rista. Þetta er náttúrlega augljóslega sett fram sem spaug. Þetta eru sumir forustumenn Sjálfstfl. að reyna að nota sem einhverja hneykslunarhellu. Ég hygg að hæstv. forsrh., sem er virkilega skemmtilegur maður og góður spaugari, hafi aldrei risið hærra á ferli sínum eða verið í meira dálæti hjá þjóð sinni heldur en þegar hann var einn af þremur góðum spaugurum sem stóðu fyrir Útvarpi Matthildi hér um árið. Ég er alveg viss um það að a.m.k. eins og ferill hans hefur verið undanfarið á hann ekki eftir að komast þar aftur með tærnar þar sem hann hafði hælana þá. Þó efast ég um það að hann vildi núna láta taka allt það sem hann sagði þá í spaugi sem alvöru.
    Síðan er það líka mælt til ámælis prófessor Birni að þessarar ritsmíðar hans, þó lítil sé og ekki beint merkileg, er getið í efnisyfirliti í tímariti lögfræðinga. Svona vinnubrögð finnast mér ámælisverð og því hef ég orð á þessu að ég hef áhyggjur af því pólitíska umhverfi sem er að skapast í kringum okkur með þessum vinnubrögðum.
    Frú forseti. ( Gripið fram í: Nei, nei, ekki frú.) Herra forseti. Maður er orðinn svo vanur frúm hér í forsetastóli að ég biðst afsökunar á því að ég tók ekki eftir því að herra forseti er nú séra Gunnlaugur Stefánsson, hv. 5. þm. Austurl., sem ég vil láta koma fram

að mér þykir fremstur af forsetunum, veita gleggsta og skynsamlegasta úrskurði og vera samvinnuliprastur við okkur þingmenn og ég fagna því sérstaklega að hann skuli vera kominn í þennan stól og hlýði hér á mál mitt. Mér er sérstök ánægja að tala hér þegar hann er í forsetastóli og tel mér það heiður.
    Eins og ég sagði áðan, herra forseti, þá er hér um að ræða afdrifaríkasta mál vorra daga, þ.e. vorra þingdaga sem hér sitjum nú og ég get ekki hugsað mér nema eitt mál sem gæti komið á dagskrá þingsins og við getum búist við að komi hér áður en við hættum sem erum nú, þ.e. innganga Íslands í Evrópubandalagið sem, ef svo fer fram sem horfir, verður hugsanlega til meðferðar á næsta kjörtímabili. Þetta mál er stórt í eðli sínu. Það kemur til með að hafa áhrif á framtíð hvers einasta Íslendings og líka þeirra sem ekki eru fæddir, líka þeirra barna sem nú eru í móðurkviði og hæstv. heilbrrh. er sérstaklega að sinna þessa dagana, líka þeirra sem ekki eru getin enn þá. Þó að hæstv. heilbrrh. hafi nú lagt til að heilbrigðar konur á besta aldri hætti að eiga börn, þá vona ég að fjölgun verði jafnvel þó það verði ekki á elliheimilunum eins og hæstv. heilbrrh. virðist stefna að.
    Ég hef eins og ég sagði áðan reynt að forðast upphrópanir um þetta mál og ég hef lagt mikla vinnu í að reyna að kynna mér það og reyni að gera það fordómalaust. Raunar er maður aldrei fordómalaus, en ég hef reynt að gera það með opnum huga. Ég hef reynt að greina þá kosti sem í þessari samningsgerð kynnu að felast fyrir okkur Íslendinga. Ég hef líka reynt að gera mér grein fyrir þeim hættum sem í samningnum felast og greint frá þeim, svo og þeim göllum sem ég hef tekið eftir. Ég hef ekki verið með neina fordóma. Ég hef ekki verið með neinar hallelújaupphrópanir. Ég hef reynt að hafa augun opin.
    Hér kom fram í gær í einni ræðu að málflutningur sumra andstæðinga samningsins hefði verið öfgafullur. Ég get tekið undir það en ég vil líka taka það fram að málflutningur margra stuðningsmanna samningsins hefur verið ekki síður öfgafullur og jafnvel hávaðasamari og öfgafyllri heldur en hinna.
    Samningurinn er gerður fyrst og fremst í því skyni að treysta afkomu sjávarútvegsins, þ.e það var hugmyndin að gerð þessa samnings. Við skulum aðeins líta á það, herra forseti, hvernig það hefur tekist.
    Sjávarútvegshluti þessa samnings innifelur vafalítið einhvern fjárhagslegan ábata fyrir sumar greinar sjávarútvegsins. Það er felldur niður tollur á saltfiski þar sem við höfum búið með 18% toll á hluta af saltfiskútflutningi okkar. Það er felldur niður tollur á ferskum flökum, þ.e. dálítið annarri aðferð við að flytja fiskinn út óunninn og lítils háttar aðrar tollalækkanir. Svo hafa menn farið að reikna hvað þetta er nú mikill gróði og þeir hafa tekið útflutninginn eins og hann er og hefur verið á síðasta ári, reiknað hvað tollurinn var mikill á þeim útflutningi, þ.e. hverju tollaniðurfellingin næmi og sagt: Húrra, við eigum þennan toll. Tollaniðurfellingin er okkar gróði.
    Þetta er nú ekki aldeilis rétt. Til þess að tollalækkunin kæmi öll í vasa Íslendinga þyrfti í fyrsta lagi að vera fast verð, þá þyrfti að vera fríverslun með fiskinn. Nú geta Evrópuþjóðir breytt verði á fiski og gera það á sínum markaði með niðurgreiðslum, útgerðarstyrkjum og þetta er þrælrotið kerfi og með engu móti hægt að líta svo á að svo fari. Þar að auki, þó að hæstv. utanrrh. hafi ekki haft orð á því eða talsmenn ríkisstjórnarinnar, að þegar tollur er lækkaður, þá kemur hann ekki allur í vasa þess sem selur. Neytendur heimta að fá sinn hlut af tollinum. Ef Íslendingar lækka toll á aðkeyptri vöru, þá ætlast Íslendingar til þess að hún lækki í verði. Þeir eru ekki tilbúnir að borga sama verð og áður þó að ekki sé greitt af henni gjald til ríkisins. Þeir ætlast til þess að fá vöruna á lægra verði.
    Fyrirmaður í sjávarútvegi hefur slegið á það að taka mætti þessa tollalækkun og helminga hana, þ.e. helmingurinn kynni að skila sér í vasa Íslendinga. Ég er ekkert viss um að það sé helmingurinn en það er áreiðanlega ekki meira en helmingurinn. Og hvað er það þá orðið í krónum og aurum? Setjum svo að heildartollalækkunin hafi verið 1.900 millj. Þá er hún komin niður fyrir --- ja, þetta er svona eins og hálft hús sem Davíð Oddsson er að byggja þegar hann er að byggja um sig minnismerki sem borgarstjóri. Þetta er svona eins og hálf Perlan eða ekki eins og hálf Perlan, þetta er bara partur af Perlunni,

þessi fjármunagróði Íslendinga. Út af fyrir sig væri svo sem allt í lagi að fá nýbyggingar hér á landi. Ég held að við höfum ekkert að gera með fleiri perlur en þarna er ekki um neinar gífurlegar fjárhæðir að ræða. Þetta eru bara vasapeningar hjá Davíð Oddssyni, svona framkvæmdir hjá Reykjavíkurborg. Að vísu verður byggingin Perlan dýr á endanum því að reksturinn er óskaplegur ómagi á skattgreiðendum í Reykjavík og kemur til með að verða, þ.e. þeim sem kaupa heitt vatn í Reykavík. Því tók ég þetta dæmi að ég veit að hæstv. forsrh. veit hvar Perlan er og ef hann mætti vera að því að hlýða á mál mitt. Ég er ekkert að óska eftir því að hæstv. forsrh. verði sóttur vegna þess að hér er staddur í salnum formaður utanmrn., hv. 3. þm. Reykv. Björn Bjarnason, og fyrir mér eru þeir eitt. Og ég veit að hv. 3. þm. Reykv. kemur athugasemdum mínum á framfæri við hæstv. forsrh. og svarar fyrir hann eftir því sem á þarf að halda. Ég býst við að hann svari betur fyrir hæstv. forsrh. heldur en ef forsrh. gerði það sjálfur og verði málefnalegri í sínum svörum þannig að ég læt mér það alveg nægja að hann sé hér í salnum.
    Þarna er sem sagt ekki um stórar fjárhæðir að ræða. Það gæti verið um nokkrar fjárhæðir að ræða en ekki stórar og ekki neitt svipað því sem fylgismenn samningsins eru að vona. Þeir eru að spá í það að fersk flök eða flakavinnsla kunni að verða stórkostlegur atvinnuvegur hér á Íslandi og sé óskaplega gott að fella niður tollinn af þeim. Auðvitað verða þau flutt utan. Þetta eru verkefni fyrir nokkrar Baader-vélar og ég hef enga trú á því að sú þróun í fiskiðnaði, sem menn eru að láta sig dreyma um eða reyna að gylla hver fyrir öðrum að muni verða, sé nein staðreynd. Ég hef bara enga trú á því og ég óttast það að reynslan sanni að ég hafi rétt fyrir mér í þessu efni eins og ég hafði t.d. í Blöndumálinu á sínum tíma þegar ég taldi óþarfa að byggja Blönduvirkjun á þeim tíma sem gert var. Þá máttu menn ekki heyra á það minnst og töldu að þetta yrði mikið gróðafyrirtæki. Reynslan hefur sannað að ég hafði rétt fyrir mér sem mér reyndar þykir miður vegna þess að það er þjóðarbúinu dýrt að hafa gert þessa skyssu þrátt fyrir aðvaranir mínar.
    En út á hvað fáum við svo þessar tollalækkanir sem við erum út af fyrir sig ánægðir með jafnvel þó þær séu litlar? Hverju verði þurfum við að kaupa þær? Við kaupum þær með því að veita Evrópubandalaginu aðgang að íslenskri landhelgi. Það er það sem við gerum. Það er alveg sama hvernig við setjum þetta mál upp. Hv. 1. þm. Austurl. rakti það í ágætri ræðu hér í gær hversu fáránlegur sá verðsamanburður er sem menn hafa verið að gera á 30.000 tonnum af loðnu og 3.000 tonnum af karfa. Niðurstaða hv. 1. þm. Austurl., sem ég tel að hafi meira vit á sjávarútvegsmálum en núv. ríkisstjórn samanlögð, var sú að það væri helmingsmunur. Þó tók sjútvrh. það ekki með í reikninga sína að það væri ekkert víst að við þyrftum á þessari loðnu að halda. Þessi loðna er nefnilega pappírsfiskur. Samningurinn er í hnotskurn sá að Evrópubandalagið fær að koma með 18 frystitogara, sem í Evrópubandalaginu eru kölluð verksmiðjuskip þó í samningnum sé bannað að hafa þau verksmiðjuskip og á Íslandi séu frystitogarar ekki taldir verksmiðjuskip, þá eru þeir taldir það annars staðar. 18 verksmiðjuskip fá leyfi til að veiða á Íslandsmiðum. Á þessu ári að vísu ekki nema 3.000 tonn af karfa fyrir loðnu sem við e.t.v. ekki veiðum og mestar líkur til að við þurfum ekkert á að halda, þ.e. ef ástand er eins og venjulega. Loðnan þarna er pappírsfiskur.
    Evrópubandalagið gerði það að ófrávíkjanlegu skilyrði að gerður yrði samningur um þessi 3.000 tonn af karfa, þ.e. um það að við opnuðum landhelgina, ef á annað borð ætti að verða af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Ekki bara fyrir okkur, heldur var þetta aðgangseyrir allra EFTA-ríkjanna að Evrópsku efnahagssvæði að Íslendingar opnuðu landhelgina. Hún er að vísu ekki opnuð nema í hálfa gátt eða kannski ekki nema til þess að reka þar inn fingur í fyrstu lotu en um magnið er bara talað árið 1993. Síðan undirgöngumst við það að standa í þrefi við þá og reiptogi um auknar heimildir karfa eða hvað annað sem þeim kann að detta í hug að vilja fiska hér í framtíðinni, a.m.k. til næstu 10 ára samkvæmt þeim samningum sem hér liggja fyrir. Það eru að vísu loðin og óljós ákvæði, sem áttu að vera dúsa fyrir hæstv. sjútvrh., sem drengilega hafði þó reynt að koma því viti sem mögulegt var í þessa samningagerð þegar hann loksins kom að henni, þ.e. að það kæmi fiskur fyrir fisk. Utanrrh. féllst ekki á þann málflutning nema bara í orði í

nokkra daga og bakkaði síðan strax. Það var augljóst af ummælum hans í utanrmn. að hann vildi vinna allt til að ná þessum samningi og bakkaði ekki hæstv. sjútvrh. upp með þá sjálfsögðu kröfu að fá fisk fyrir fisk. Það er sett inn loðin klásúla um endurskoðun ef af líffræðilegum ástæðum verði brestur á annarri tegundinni. Það er ekkert hald í því. Það væri alveg sama þó þessi tilvitnun væri ekki í samningnum.
    Herra forseti. Ég hef dvalið dálítið við sjávarútveginn. En það er fleira. Það er að vísu tekið fram í þessari samningagerð að lög sem við höfum nú um eignarhald Íslendinga á útgerð og frumfiskvinnslu megi standa. Það er tekið fram. Hins vegar er ekkert tekið fram um það að við megum setja ný lög og harðari og þau megi standa. Hins vegar höfum við fullvinnslu aflans og hún er ekki ,,príoriteruð`` fyrir Íslendinga og óbein eignaraðild útlendinga að útgerðarfyrirtækjum er ekki bönnuð. T.d. má olíufélag að hluta til í útlendri eigu eiga hér í útgerð samkvæmt þeim skilningi sem menn hafa lagt í hlutina. Ég vil bæta því við að meira að segja innan ríkisstjórnarinnar, hjá hæstv. fjmrh. t.d., hafa komið fram sterkar kröfur um að breyta því skipulagi sem við höfum nú og fá erlent fjármagn og erlenda aðila inn í útgerð á Íslandi og fiskvinnslu. Nú veit ég ekki hvort hæstv. fjmrh. fær einhvern tímann að ráða einhverju í þessari ríkisstjórn, en ég vona að hann fái ekki að ráða þessu. Fyrirsjáanlega færist eignarhald á útgerð og fiskvinnslu að einhverju leyti í hendur útlendinga hvað sem í samningnum stendur.
    Ég hafði hugsað mér að tala allnokkurt mál um landbúnað og landbúnaðarþátt samningsins. Ég verð að spara það vegna þess að hæstv. utanrrh. er fjarstaddur, en því miður er sá þáttur ekki kræsilegur. Ég tel að utanrrh. hafi ekki gætt hagsmuna íslensks landbúnaðar og Íslendinga við þessa samningagerð. Þvert á móti. Hann hefur hins vegar unnið að því að koma í framkvæmd landbúnaðarstefnu Alþfl. sem ekki hefur haft, að hans mati, nægan hljómgrunn á hinu háa Alþingi. Alþfl. hefur ekki komið fram landbúnaðarstefnu sinni en þeir sigrar sem þeim hefur ekki tekist að vinna hér heima, þ.e. að auka innflutning hefðbundinna búvara, er Alþfl. að takast í gegnum EES-samninginn og GATT. Að vísu komast þeir ekki alla leið í þessari lotu, en allt of langt.
    Samkvæmt þessu verður um talsvert aukinn innflutning búvara að ræða. Það skiptir engu máli hvaða álitsgerðir starfsmenn utanrrh. kunna að gefa þegar hann býður þeim svo. Það er kunnugt að annar skilningur ríkir á tiltekinni bókun í a.m.k. sumum Evrópubandalagsríkjunum og úr því fæst ekki skorið, eins og hæstv. viðskrh. lýsti skilmerkilega í umræðum utan dagskrár á sl. vori, fyrr en fyrir viðeigandi dómstól úti í Evrópu hvort túlkun utanrrn. stenst eða túlkun tiltekinna Evrópuríkja. Ég fullyrði að hagsmuna landbúnaðarins hafi ekki verið gætt. Hér er opnað fyrir verulegan innflutning landbúnaðarvara og því meira að segja lýst yfir í einni grein samningsins að stefnt sé að auknum viðskiptum með landbúnaðarafurðir, þ.e. við verðum að hlíta því að þurfa að ganga til árlegra samninga, eða hvort það var annað hvort ár, um að auka innflutning landbúnaðarvara.
    Ég ætla að spara mér að tala um GATT, sem freistandi hefði verið að gera í framhjáhlaupi, vegna þess að hæstv. utanrrh. er ekki viðstaddur og eins og ég tók fram fyrr í dag mun ég taka tíma í að ræða síðar í þessari umræðu þegar ráðherrann er kominn heim.
    Landbúnaðinum er í þessum samningi sköpuð veruleg hætta og fjárhagstjón og er þó ekki á bætandi eins og staða landbúnaðarins er orðin. Ég er ekki að kenna núv. ríkisstjórn um það allt. Hún hefur að vísu lagt sitt af mörkum og nú seinast í fjárlagafrv. með því að skera meira niður til landbúnaðarins en nokkurs annars í þjóðfélaginu og vill þó skera meira, þ.e. sumir ráðherrarnir. Blóðþorstinn er ógurlegur. Frá síðustu fjárlögum er skorið niður til þessarar atvinnugreinar á fimmta milljarð og sviknir samningar á bændum. Undirskrifaðir samningar sem ríkisstjórnin hefur gert við bændur eru sviknir. Ég ætla að spara mér það til fjárlagaumræðunnar að rekja hvernig það mál er vaxið.
    Hvað varðar iðnaðinn, þá breytir þessi samningur sáralitlu og skiptir engu máli hvað iðnrekendur segja. Þessi samningur í sjálfu sér breytir ekki neinu að því leyti til að iðnaðurinn hefur haft tollfrjálsan aðgang að mörkuðum Vestur-Evrópu síðan 1972 þegar EFTA-samningurinn var gerður. EFTA-samningurinn var gerður kannski fyrst og fremst til þess að efla íslenskan iðnað. Íslenskur iðnaður taldi sig þá þurfa meira frelsi. Ég var ungur þingmaður 1974 þegar við héldum iðnstefnu mikla á Sauðárkróki. Það var ein af fyrstu ráðstefnum sem ég fór á sem þingmaður og mér er hún sérstaklega minnisstæð því ég var svo bjartsýnn og menn voru svo bjartsýnir. Þar átti aldeilis að nota tækifærin. Heimurinn var ekki orðinn nema eins og hálft kálfskinn eftir að menn höfðu fengið meginlandið galopið fyrir sér og þá var töluverður iðnaður í Norðurlandskjördæmi vestra. Við fórum meira að segja til Hofsóss og skoðuðum blómlegt hljóðkútaverkstæði sem var rekið af sérstakri umhyggju og miklu dugnaði og hefur reyndar verið rekið alla tíð. Flest hin iðnfyrirtækin sem við skoðuðum á Sauðárkróki hafa verið að dragast upp vegna þess að þau hafa ekki þolað samkeppnina sem frelsið færði þeim. Norðurlandskjördæmi vestra er ekki nein undantekning í þessu sambandi. Við höfðum blómlegan húsgagnaiðnað í landinu. Frelsið drap hann. Nú sitjum við í innfluttum stólum. Meira að segja á Alþingi sitjum við í innfluttum stólum. Við göngum í útlendum fötum því við erum búin að rústa fataiðnaðinn. Við siglum á skipum sem búin eru til í Póllandi og Noregi, niðurgreidd af Pólverjum og Norðmönnum. Sum eru bara dregin frá Póllandi til Noregs til þess að dubba þau þar upp og gera þau nógu fín fyrir okkur. Svona mætti lengi telja. Ullariðnaðurinn berst í bökkum, ekki dugði honum frelsið.
    Staða iðnaðarins breytist sáralítið við þetta. Þau tækifæri sem menn sjá eru fyrst og fremst í því að Íslendingar lagi til heima hjá sér og létti gjöldum af iðnaðinum, sem að vísu var líka forsenda að gert yrði 1972 en hefur ekki verið gert. Þetta eru allt saman gyllivonir. Iðnaðurinn kemur til með að eiga í basli. Það er að vísu undanskilið í þessum samningi að skipaiðnaðurinn íslenski þarf ekki að vænta sér neins af þessum samningi, enda hafa forráðamenn skipaiðnaðarins ekki verið háværir um hagræðið af samningnum.
    Hvað varðar verslun á Íslandi þá liggur það í augum uppi að hún færist að einhverju leyti í hendur útlendinga. Það tel ég vera óheppilegt vegna þess að ég tel að Íslendingar eigi að reka verslunina fyrir sig sjálfa. Það var mikið undirstöðuspor í framfarasókn Íslendinga og sjálfstæðisbaráttu þegar þeir tóku verslunina í eigin hendur. Ég tel að það henti vel að Íslendingar annist verslun á Íslandi fremur en erlendar verslanakeðjur. Það getur vel verið að það megi skipuleggja verslunina betur en gert er. Mér þykir t.d. ofrausn að heildsalarnir skuli vera nærri jafnmargir og smásalarnir í Reykjavík. A.m.k. eru þeir litlu færri en smásalarnir. Það held ég að sé ofrausn. En við þennan atvinnuveg vinnur fjöldi fólks og hagsmunir þess eru settir í ákveðinn vanda með þessum samningi. Fyrir utan það, og það á reyndar við um aðra hluti þessa samnings, að það er heilmikill dulinn kostnaður sem menn gera sér ekki grein fyrir enn hver verði vegna ákvæða sem í samningnum eru. Þessi samningur bindur okkur nefnilega fjárhagsbyrðar. Það er ekki bara inntektin. Við höfum líka útgjaldavon.
    Frelsi í fjármagnsflutningum getur orðið okkur til eflingar en það er álitamál. Það getur líka verið okkur hættulegt. Hv. 7. þm. Reykn. tók dæmi af því í ágætri ræðu sinni í fyrrakvöld hvort menn teldu líklegra að Deutsche Bank keypti Landsbankann eða Landsbankinn keypti Deutsche Bank. Ég held það væri óheppilegt fyrir okkur að Deutsche Bank keypti Landsbankann. Ég tel heppilegra að Íslendingar eigi sína banka og reki þá sjálfir, jafnvel þó að kannski mætti bæta rekstur þeirra. Vextir mundu hugsanlega lækka eitthvað í bili. Það gæti orðið eitthvert innstreymi fjármagns utan að frá í sambandi við fjármagnsfrelsið. Það gæti líka orðið útstreymi. Það er rétt að vekja athygli á því að ef fjármálastofnanir af EES-svæðinu setja hér upp útibú eða starfsemi þá heyrir hún ekki undir hið íslenska bankaeftirlit. Hún kemur til með að heyra undir bankaeftirlit heimaþjóðarinnar og Íslendingar geta ekkert fylgst með hvað gerist þar.
    Frjáls för launafólks. Á henni eru líka tvær hliðar. Það er að sjálfsögðu gott fyrir okkur að geta farið um Evrópska efnahagssvæðið og fengið þar vinnu ef hana er að fá. Það er reyndar eitt af keyrunum á þessum samningi að allstór hópur manna, ágætra vel menntaðra Íslendinga, hugsar sér að fá vinnu við þetta bákn sem verið er að setja upp og þeir eru aldeilis ekki að draga úr. Ég nefndi áðan kunnan krata og ráðuneytisstjóra sem búinn er að fá þar starf, sem að vísu er í lausu lofti eftir að Sviss gekk úr skaftinu, en mér er sagt að launakjörin séu 800 þús. á mánuði skattfrjáls. Ég vona að hæstv. viðskrh. leiðrétti

ef ég fer með rangt mál og segi okkur hvað launin eru og hvernig þau eru sköttuð. Það er ekkert óeðlilegt að hann sé ánægður með þennan samning. Það er heldur ekkert óeðlilegt að einn aðstoðarmaður ráðherra, fyrrv. félagi okkar og þingbróðir, sem hefur fengið starf úti í Brussel, vel launað starf, sé áfram um að þessi samningur verði samþykktur. Það er töluverður hópur af Íslendingum kominn út, töluverður hópur á förum og los á mörgum sem lifa í voninni. Þeir eru ánægðir með þennan samning.
    En það er líka önnur hlið á málinu. Við erum að gerast aðilar að efnahagssvæði þar sem atvinnuleysið er fast 10% og er sums staðar komið upp í 17%. Við höfum ekki búið við það atvinnuleysi. Ríkisstjórnin hefur að vísu gengið hart fram í því að auka atvinnuleysi á Íslandi með ýmsum ráðstöfunum sínum en við erum þó blessunarlega lausir við þær hörmungar sem fólk annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu býr við í þessu efni. Fyrir norðan er það svo að vatnið leitar undan brekkunni og ég hygg að það gildi eitthvað svipað lögmál um fólkið á Evrópska efnahagssvæðinu að það leiti fremur þangað sem vinnu er að fá og þar með séu líkur til að atvinnuleysi aukist hér fremur en hitt af þessu. Iðnaðinum og atvinnulífinu kann að verða það til þæginda að fá erlent vinnuafl til starfa sem er tilbúið að vinna hér á strípuðum töxtum fremur en þurfa að vera að yfirborga Íslendinga.
    Þetta atriði hefði maður getað ímyndað sér að þeir kratar sem stýrt hafa Alþýðusambandi Íslands kynnu að reka hornin í. Það hafa þeir ekki gert, enda eru þessir kratar, eins og fram kom í gærkvöldi, miklir alþjóðahyggjumenn. Afstaða sumra forustumanna Alþýðusambandsins hefur verið mér óskiljanleg.
    Kennarafélag Íslands kom á fund utanrmn. og lagði þar fram athyglisverð gögn og greindi frá hvernig þessi frjálsi vinnumarkaður kynni að þróast. Ég er hér með bréf frá Kennarasambandi Íslands til utanrmn. Ég ætla ekki, herra forseti, að lesa það allt saman. Mig langar til að vitna í tvær, þrjár línur í niðurlaginu. Þar segir:
    ,,Kennarasambandið er ekki reiðubúið til að fórna eða draga úr þeim réttindum sem áunnist hafa og telur það verkefni sitt að sækja enn frekari rétt félagsmönnum sínum til handa í kjarasamningum á komandi árum. Valdi aðild að Evrópsku efnahagssvæði því að réttarstaða launafólks og/eða stéttarfélaga versni eða skerðist fer það í bága við grundvallaratriði kjarastefnu Kennarasambandsins. Í þessu efni þarf sérstaklega að huga að réttindum á sviði almannatrygginga, lífeyrisréttindum, aðbúnaði og hollustuháttum á vinnustöðum, skylduaðild að stéttarfélögum og forgangsréttarákvæðum kjarasamninga. Kennarasambandið mun ekki ljá máls á að afsala sér að hluta eða öllu leyti þeim réttindum sem eru í gildi hér á landi.``
    Þetta finnst mér eðlileg afstaða verkalýðsfélags og nefni það hér sem dæmi um það hverjar ég tel líkurnar á að þróunin komi til með að verða.
    Það er rétt að láta þess getið líka að við verðum að taka við fólki. Við getum ekki haldið uppi sama standard eins og við höfum gert t.d. um menntun iðnaðarmanna. Iðnmenntun í Suður-Evrópu er með allt öðrum hætti en hér. Þar þurfa þeir ekki að vera í skóla nema örlítið eða kannski ekkert. Þeir þurfa að vinna eitthvað hjá meistara. Síðan fá þeir réttindi sem gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, geta komið hingað og unnið við hliðina á okkar iðnaðarmönnum sem hafa þurft að leggja á sig langt nám og dýrt. Þessir menn geta boðið vinnu sína fyrir lægri prísa. Það er alveg eins gott að menn geri sér grein fyrir þessu og láti það ekki koma sér á óvart þegar iðnaðarmenn með eitthvert pungapróf fara að koma hingað og þau eru fullgild á Íslandi. Atvinnustigið er sem sagt í óvissu og jafnvel í töluvert mikilli hættu.
    Menn hafa talað hér um menntun. Það væri nauðsynlegt fyrir okkur að fá aðgang að menntuninni í Evrópu. Það vill svo til að fyrrv. háskólarektor, dr. Sigmundur Guðbjarnason, var reyndar búinn að semja við 17 eða 18 háskóla í Evrópu um það að taka við Íslendingum. Hann var því búinn að tryggja þetta háskólamenntunarsvið ágætlega og það er okkur nauðsynlegt. Ég geri ekki lítið úr því. Það er okkur nauðsynlegt að halda dyrunum opnum og okkur væri mikill vandi á höndum ef við ættum ekki kost á því að sækja menntun til Evrópu á einhverjum skikkanlegum jafnréttisgrundvelli. Það væri okkur mikill háski. En að við þurfum að ganga í Evrópskt efnahagssvæði til þess er ekki rétt. Það er hægt að gera það með öðrum hætti. Það er reyndar hægt að sækja menntun víðar en til Evrópu þó að þær þjóðir séu skyldar okkur að menningu og við búum við menningu sem er ekki ósvipuð þeirra og að mörgu leyti eðlilegt og margt að sækja til þeirra. Ég hef það fyrir satt, og leiðrétti mig þá menn sem vita betur, að á undanförnum áratugum hafi ekki verið opnaðir nýir háskólar í Evrópubandalaginu. Það væri ágætt að fá þá nafngreinda ef einhver veit um háskóla sem opnaður hefur verið í Evrópubandalaginu sl. 10 árin. Ég get sagt frá einum háskóla sem hefur verið opnaður og er til mikilla þjóðþrifa í sínu þjóðfélagi í litlu landi sem þarf ekki að jafna sig við Evrópubandalagið. Það var opnaður háskóli á Akureyri fyrir skömmu síðan góðu heilli og er ég þakklátur öllum þeim sem hafa lagt því máli lið úr flestum flokkum.
    Gróska í háskólastarfi, sem er þó undirstaða framtíðarvelmegunar þjóða, hefur ekki verið sérstök í Vestur-Evrópu eftir því sem mér er tjáð af menntamönnum sem hafa miklu meira vit á háskólamenntun en ég. Gróska í því er miklu meiri bæði vestan hafs og eins í löndum sem fremst eru í austrinu.
    Menn hafa verið að tala um að út af norrænu samstarfi sé okkur nauðsynlegt að tengjast Evrópsku efnahagssvæði vegna þess að aðrar norrænar þjóðir séu ýmist komnar þangað eða á leiðinni þangað. Nú hef ég að vísu varið verulegum tíma í norrænt samstarf og efast um að mörgum hér inni sé ljósara gildi norræns samstarfs fyrir Íslendinga. En að ímynda sér að norrænt samstarf blómgist sérstaklega þó það flytjist til Brussel, og þangað er það komið. Þangað er norræna samstarfið á leiðinni og verður komið innan fárra ára. Nú mega menn á norrænum vettvangi ekki tala um eitt eða neitt nema það sem skeður í Brussel. Menn eru að búa sig undir að berjast saman undir einhverjum norrænum hugmyndum eða norrænum fána í Brussel og láta sér detta í hug að þeir nái frekar árangri ef þeir standa saman. Það getur vel verið og ég óska þeim velfarnaðar sem berjast þar undir norrænum fána, en það er náttúrlega fjarstæða að halda því fram að Íslendingar eigi að elta norrænar grannþjóðir til Brussel, að norrænt samstarf, þó mikilvægt sé, sé það mikils virði að fórnandi sé öðru sem er stærra og meira fyrir það að taka þátt í norrænu samstarfi. Hlálegast af öllu er þegar hæstv. utanrrh. heldur þessu fram, sem illu heilli er ekki viðlátinn hér og hefur fram að þessu gefið skít í allt norrænt samstarf. Fyrstu átök okkar, mín og hæstv. utanrrh., sem þá var ungur og upprennandi spútnikk í Alþfl., voru út af norrænu samstarfi sem hann taldi þá algerlega óferjandi og óalandi og fór um háðulegum orðum. Nú er hann að vitna í norrænt samstarf eins og það sé eitthvað fyrir okkur. Mér bara dauðbrá hvers konar sinnaskipti voru orðin á hæstv. ráðherra.
    Herra forseti. Við í utanrmn. höfum leitað umsagna fjöldamargra aðila. Ég er ákaflega ánægður yfir hve mann hafa brugðist vel við að koma til nefndarinnar og ræða við hana, reyna að gera okkur grein fyrir væntingum sínu og draumum, grun sínum eða þeim áhættum sem þeir hafa séð. Ég er þakklátur öllu því fólki sem mætt hefur á fundum utanrmn. Það er sannast sagna að margir forkólfar úr atvinnulífi hafa á fundum utanrmn. lagt áherslu á að við gerðumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði og talið það atvinnulífi landsins og þeim samtökum sem þeir hafa verið þá og þá í fyrirsvari fyrir til framdráttar. Margir hafa sagt: En það verður að gera mikið fyrir okkur hérna heima til þess að við séum samkeppnisfær. Það er sjálfsagst allt saman rétt hjá þeim. Ef þeir eiga að standast eða eiga nokkra von um að standast þá samkeppni sem opnast með Evrópsku efnahagssvæði, þá verður náttúrlega að gera lifandi ósköp mikið fyrir þá en ég er ekki viss um að það verði gert. Það sér ekki á að ríkisstjórnin sé að gera það. Ég held því að draumar þeirra séu ekki marktækir.
    Það er líka spurning í mínum huga hversu umsagnir sumra þeirra eru marktækar. Ég hef nefnilega orðið var við töluverðan pólitískan þrýsting. Það eru yfirleitt frammámenn í stjórnarflokkunum sem hafa komið á vettvang og veitt umsagnir sínar í utanrmn. Ég hef orðið var við töluverðar pólitískar hræringar þar sem menn hafa verið að ýta á sitt lið að greiða nú fyrir Evrópsku efnahagssvæði og ávíta menn af mikilli hörku ef þeir hafa verið að fetta fingur út í Evrópskt efnahagssvæði eða finna á því einhverja galla.

    Ég hef meira að segja í fórum mínum fax, eins og þeir kalla það, frá einum úr forustusveit annars stjórnarflokksins til tiltekins aðila sem hafði látið sér detta í hug að skrifa litla blaðagrein þar sem hann varaði við inngöngu Íslands í Evrópskt efnahagssvæði. Hann fékk samstundis og greinin kom út, sem var í litlu héraðsfréttablaði, bréf frá einum aðalpótentátanum í Sjálfstfl. þar sem hann fann að þessari grein hans. Maðurinn leit svo á að það væri verið að beita sig skoðanakúgun. Ég veit ekki hvort bréfritari hefur hugsað sér það. Í þessu bréfi er að vísu orðalag sem ég kann ekki við og hefði tekið óstinnt upp, bæði ef því hefði verið beint til mín persónulega og eins ummælum um tiltekna háttsetta persónu. Ég læt útrætt um það í bili.
    Ég tel að pólitískum þrýstingi hafi verið beitt á suma þessa menn. Á sama hátt og ég sting við fótum þegar ég hef lögfræðilegar álitsgerðir Björns Friðfinnssonar í höndum um verk hæstv. utanrrh., þá sting ég ofurlítið við fótum og það rís á mér eitthvert tortryggnishár þegar þessir menn ganga fram og vitna um nauðsyn þess að samþykkja samninginn um Evrópskt efnahagssvæði jafnvel eftir að hann var hættur að vera til.
    Spurningin er hins vegar sú og mér finnst kannski vera ein sú stærsta: Eigum við erindi í Evrópubandalagið? Ég fyrir mitt leyti er tilbúinn að svara þeirri spurningu á sama hátt og ég hef svarað henni á undanförnum árum. Ég tel að við eigum það ekki. Það er hins vegar ekki samdóma álit allra alþingismanna. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var að gera gælur við það í ræðu sinni í gær að það væri kannski ekkert síður skynsamlegt að ganga bara í Evrópubandalagið heldur en í Evrópskt efnahagssvæði ef ég skildi hana rétt. Formaður fjárln. hefur gengið hart fram í því á opinberum vettvangi að fullyrða að við ættum að ganga í Evrópubandalagið. Svo er um fleiri forustumenn Alþfl. þó að þeir séu aðeins gætnari. Ég hef að vísu ekki heyrt þann menntaðasta þeirra, dr. Össur, leggja það til enn þá en hver veit. Báðir stjórnarflokkarnir eru orðnir holgrafnir af svona viðhorfum. Alls konar órar um það að við gætum átt eitthvert erindi þangað eru farnir að ná alla leið upp í forustuna. Við munum að þeirra mati einangrast ef við komumst ekki í samflot með þessum herrum. Við munum verða áhrifalausir ef við komumst ekki í evrópska efnahagssamvinnu. Ég held að það sé mikil fásinna að ímynda sér að við komum til með að hafa einhver stór áhrif þó við dinglum þarna sem aftasti liður í hundsskottinu.
    Það væri freistandi, herra forseti, að fara nokkrum orðum um þau áhrif sem á sveitarfélögin verða með þessari samningsgerð ef af verður. Ég er ekki viss um að mönnum sé það ljóst hversu gífurleg áhrif aðild að Evrópsku efnahagssvæði hefur bara á daglegan rekstur sveitarfélaganna í landinu og sérstaklega þeirra stærri. Það leggur þeim hindranir og skyldur á hendur sem ég er ekki viss um að forráðamenn sveitarfélaganna hafi almennt gert sér grein fyrir. Stærri útboð t.d. verða að bjóðast út á Evrópsku efnahagssvæði öllu, ekki bara á heimamarkaði. Sveitarfélögin geta ekki gaukað verkum að heimamönnum heldur verða þau að bjóða þau út á Evrópumarkaði.
    Danir ætluðu að byggja stórvirki, brú yfir Stórabelti. Þetta var mikið verk og dýrt og þeir hugsuðu sér að með því mundu þeir geta létt á atvinnuleysispressunni í Danmörku, sem er mjög mikil, og þeir hugsuðu gott til glóðarinnar. Þeir lögðu í mikla fjárfestingu og ætluðu að rétta við atvinnuástandið hjá sér. Þeir buðu verkið út og dönsk fyrirtækjasamsteypa tók verkið að sér. Bíðum við. Það kom náttúrlega samstundis kæra til Evrópubandalagsins. Danir væru að pukra út af fyrir sig og ætluðu sér að hygla sínum og það má ekki í Evrópubandalaginu. Dómur féll í málinu, danska fyrirtækið var dæmt úr leik. Verkið varð að bjóða út á öllu Evrópsku efnahagssvæði og þýskt fyrirtæki fékk verkið. Og þar eru ekki Danir að vinna. Það eru ekki Danir sem eru undirverktakar. Ég skal ekki segja að það séu ekki í kokkhúsinu einhverjar danskar píur, en kjarninn og arðurinn af framkvæmdinni fer til Þýskalands. Alveg það sama kemur til með að gilda um önnur aðildarlönd Evrópska efnahagssvæðisins.
    Ég sé reyndar ekki nema einn ljósan punkt í þessu sambandi. Hann er sá að íhaldinu er gersamlega ómögulegt að halda Reykjavíkurborg í heljargreipum sínum eftir að þetta er komið í gang. Þá getur ekki meiri hluti borgarstjórnar í Reykjavík gaukað arðvænum verkum að vildarmönnum sínum lengur. Það verður að bjóða stærri verkin út á Evrópsku

efnahagssvæði. Það er bara tittlingaskítur sem þeir sem borga í kosningasjóðinn geta fengið. Þetta er eini kosturinn sem ég sé við þessa tilhögun. Ég tel að við Íslendingar eigum að reyna að kappkosta að vinna þau störf hér heima hjá okkur sem okkur er mögulegt.
    Sveitarfélögin verða líka fyrir verulegri hindrun við að hjálpa atvinnulífi í eigin sveitarfélagi. Setjum svo að steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki, svo að ég taki dæmi sem ég þekki, lenti í vandræðum. Þar vinnur álitlegur hópur manna og rekstur verksmiðjunnar er mjög mikilvægur fyrir það bæjarfélag, Sauðárkrók. Setjum svo að bæjarstjórnin á Sauðárkróki vildi reyna að hjálpa þessu fyrirtæki í erfiðleikum, t.d. með því að veita því skattaívilnanir eða annað hagræði. Það yrði ekki heimilt vegna þess að þá væri samkeppnisstöðu fyrirtækisins raskað. Þá mundi það hafa fengið betri samkeppnisaðstöðu en tilfallandi fyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu. Bæjarstjórn Sauðárkróks er óheimilt að hlaupa undir bagga. Verksmiðjan yrði að fá að velta. Þetta er frelsið. Svona mætti lengi telja.
    Hv. 7. þm. Reykn. greindi frá hvernig færi fyrir Áburðarverksmiðjunni. Áburðarverksmiðjan hefur ekki óskað eftir rammasamningi við Landsvirkjun nema til ársloka 1993. Áburðarverksmiðjan taldi að hún hefði ekki áhuga á lengri samningi en til árs miðað við það að allar hofur eru á að áburðarframleiðslan leggist niður og Áburðarverksmiðjan verði pökkunarstöð fyrir áburð með einhverri lítilli starfsemi.
    Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga leitar eftir samningum við Landsvirkjun um verulegan afslátt á rafmagnsverði. Þeir járnblendiverksmiðjumenn hafa reyndar ekki verið duglegir að borga rafmagnsreikningana frá Landsvirkjun undanfarið í erfiðleikum sínum en það er önnur saga. Setjum svo að Landsvirkjun ákvæði að gefa Járnblendiverksmiðjunni rafmagn til þess að fleyta henni yfir tímabundna erfiðleika. Hvernig halda menn að samkeppnisstaða Járnblendiverksmiðjunnar yrði þá á mörkuðum Evrópska efnahagssvæðisins? Ég er hræddur um að það væri bannað. Það hefur reyndar verið þrefað í forstjóra Járnblendiverksmiðjunnar sem hefur orðið að standa fyrir máli sínu út í Brussel því nú þegar þykir einhverjum herrum í samkeppni við Járnblendiverksmiðjuna hún fá rafmagn fyrir óeðlilega lítið gjald frá fyrirtæki sem er að hálfu í eigu íslenska ríkisins og það er náttúrlega ekki heimilt í öllu frelsinu.
    Einn mikill galli á þessum málatilbúnaði öllum er sá að eignarréttur á landinu og auðlindum verður ekki einskorðaður við Íslendinga. Menn hafa verið að bralla við að setja upp girðingafrv. og hugmyndir um girðingar sem kynnu að geta tryggt íslenskt eignarhald á landinu og auðlindum þess. Því miður lítur ekki vel út með það. Því miður eru þau frv. sem hér hafa verið tekin til umræðu, reyndar ekki tekin til umræðu því þau liggja nú fyrir einungis á þingskjölum, ekki þess eðlis að þau séu líkleg til að fá lögfestingu.
    Í fyrsta lagi er frv. um breytingar á jarðalögum. Það er sjálfsagt gert í góðri meiningu og ég vil ekki lasta þá tilraun sem þar er gerð. En sá er galli á gjöf Njarðar að ef það nær fram að ganga í þeirri mynd sem það er þá gerir það jarðir verðlausar. Þá er í því eignaupptaka frá núverandi eigendum, þ.e. það hefur í för með sér að menn mega ekki selja jarðir nema nágrönnum sínum. Það leggur jafnar hindranir á Íslendinga og þar af leiðir að Íslendingum, t.d. fólki í Reykjavík, verður meinað samkvæmt frv. ef það verður að lögum, að kaupa jarðir. Ég hef samúð með hestamönnum í Reykjavík sem langar til að kaupa sér jarðir í dreifbýli og eiga þar unaðsreit. Ég vil að vísu halda landinu sem mest í landbúnaðarnotum eftir því sem við höfum markað og efnahagslegar kringumstæður til. En ég vil ekki gera hestamönnum í Reykjavík ómögulegt að eignast jarðir t.d. fyrir austan fjall, hvorki sumarbústaðalönd eða aðstöðu til að stunda sína hestamennsku.
    Ég hef í höndum álitsgerð sem er samin að beiðni dóms- og kirkjumrh. og landbrh. af þeim Ólafi Walter Stefánssyni, Stefáni Má Stefánssyni og Tryggva Gunnarssyni og gefin var út í júní 1992. Hún heitir Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og fasteignir á Íslandi. Ég vil meina að þetta sé vönduð úttekt. Ég hef að vísu tekið með fyrirvara sumu sem úr ráðuneytunum hefur komið og það hefur komið fram fyrr í ræðu minni. En það sem hér er sett fram finnst mér vera skynsamlegt og skilmerkilegt. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

    ,,EES-samningurinn og þeir viðaukar sem honum fylgja heimila ekki að gerður sé munur á rétti íslenskra aðila og þeirra er nýta sér EES-réttindi til að eignast virkjunarrétt vatnsfalla og jarðhita hér á landi. Ljóst er því að framangreindum ákvæðum fjárfestingarlaga um virkjunarrétt verður að breyta vegna tilkomu samningsins en Ísland hefur þó frest til þess hvað varðar beina fjárfestingu til 1. jan. 1996.``
    Síðan segir: ,,Kaupi erlendur aðili sem nýtur EES-réttar hér land fær hann eins og aðrir landeigendur eignarráð yfir þeim námum sem finnast þar í jörðu. Þannig gæti aðili sem nýtur EES-réttar almennt fest kaup á landi hér til að stofnsetja þar námuvinnslu á grundvelli stofnsetningarréttar.``
    Ég ætla, herra forseti, ekki að lesa meira úr þessu riti. Ríkisstjórnin hefur vissulega haft uppi dálítla tilburði til þess að koma í veg fyrir þá þróun að útlendingar eignist hér auðlindir í stórum stíl eða jarðhita, vatnsréttindi eða landið sjálft. Eins og ég sagði áðan þá er sá galli á jarðalagafrv. að það gerir jarðirnar verðlitlar og hindrar Íslendinga í eðlilegum eignaskiptum á Íslandi. Þarna er eignaupptaka án þess að bætur komi fyrir sem ég tel að samrýmist ekki 67. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í sumar var okkur iðnaðarnefndarmönnum kynnt frv. sem samið var í iðnrn. um eignarhald á auðæfum í jörðu. Það tók til náma, jarðefna hvers konar, olíu, gass, vatns, jarðhita og kalda vatnsins. Það skyldi lýst þjóðareign ef það var fyrir neðan 100 metra án þess að bætur kæmu fyrir. Ef menn vildu hins vegar nýta rétt sem væri neðan við 10 metra yrðu þeir að sækja um leyfi til iðnrn. til þess. Þá er betra að hafa ekki malarkrúsirnar of djúpar ef ekki má fara nema 10 metra niður í jörðina. Ákvæði þessa frv. voru augljóslega eignaupptaka vegna þess að landeigendur eiga jarðhitann undir jörðum sínum og hafa átt samkvæmt íslenskri réttarvenju. Bætur hafa komið fyrir ef þetta hefur verið gert upptækt. Þarna var hugmyndin að gera það upptækt bótalaust.
    Ég hef verið þeirrar skoðunar að við ættum að hafa ákvæði 67. gr. stjórnarskrár í heiðri og ekki taka eignir manna án þess að bætur kæmu fyrir. Þar af leiðandi hef ég verið á móti þjóðnýtingarfrv. af þessu tagi og hef hlotið talsvert ámæli t.d. frá hæstv. utanrrh. fyrir að ég væri að þrjóskast við að vernda eignarréttinn að þessu leyti. En það tek ég ekki nærri mér. Það kann að vera að ég geti ekki haldið lengur þeirri afstöðu minni. Það sé eina leiðin til að halda jarðhitanum í höndum Íslendinga að þjóðnýta hann eins og hann leggur sig. Ég vil leggja áherslu á að þetta tekur ekki bara til einhverra bænda sem einstöku herrar hafa heldur horn í síðu heldur tekur þetta líka til t.d. sveitarfélaga. Reykjavíkurborg á gífurlegan jarðhita í landareignum sínum t.d. Svo er með Sauðárkrók og reyndar fjöldamörg sveitarfélög á landinu.
    Þetta frv. hefur þeim sennilega þótt gallað og það var dregið til baka. Við stöndum alveg berskjaldaðir eins og stendur. Ég hef ekki trú á að jarðalagafrv. verði samþykkt í óbreyttri mynd vegna þeirra ágalla sem á því eru. Þetta frv. var dregið til baka en það kemur kannski einhvern tímann eitthvað í líkingu við það síðar. Ég er ekki að lýsa andstöðu við það. Það getur skeð að það sé nauðvörn að samþykkja það þegar þar að kemur. En ég er sammála þeim sem álitsgerðina sömdu að það er mjög torvelt að setja upp skynsamlegar girðingar sem eitthvert hald er í.
    Það vantar reyndar frv. um vatnsréttindi sem við höfum alla tíð í meðferð þessa máls lagt höfuðkapp á að kæmi fram. Það vantar frv. um vatnsréttindi. Vatnsréttindin eru í uppnámi. Þau eru að vísu í eigu á meðan ríkið heldur sínu einkaleyfi á að virkja. En um leið og einkavæðingin haslar sér völl í orkufyrirtækjunum þá eru vatnsréttindinn líka í uppnámi.
    Herra forseti. Ég vil endilega fara að ljúka máli mínu en mér finnst ég eiga margt ósagt. Ég er búinn að stytta þessa ræðu mjög mikið en á þó einn bút eftir. Einn höfðuðgallinn, sem ég sé þrátt fyrir marga stóra, á ingöngu í Evrópskt efnahagssvæði fyrir Íslendinga er að ég tel að það sé stórt skref inn í Evrópubandalagið. Ég er hér með ljósrit af blaðaskrifum hv. 3. þm. Reykv. frá því fyrir síðustu kosningar þar sem hann skýrði frá þeirri skoðun sinni hversu stórt skref myndun Evrópsks efnahagssvæðis væri inn í Evrópubandalagið og taldi að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar væri að stíga það. Ég ætla

tímans vegna ekki að lesa langt úr þeim ritverkum en t.d. segir hann þriðjudaginn 16. apríl 1991: ,,Þeir sem hafa kynnt sér umræðurnar um EES og þær vonir sem bundnar eru við samningaviðræður EFTA og EB í ríkisstjórnum EFTA-landanna (utan Íslands?) vita að þar líta menn á EES sem fyrsta og annað skrefið inn í Evrópubandalagið.``
    Það er alveg rétt hjá hv. 3. þm. Reykv. sem var frambjóðandi í Reykjavík á lista Sjálfstfl. þegar hann skrifaði þessa grein að hér er um að ræða skref inn í Evrópubandalagið og hinar EFTA-þjóðirnar gera sér grein fyrir því.
    Ég átti þess kost í fyrri viku að hlýða á ræðu utanríkisviðskiptaráðherra Norðmanna, Bjørn Tore Godal, sem hann flutti út í Brussel á fundi þar sem nokkrir íslenskir alþingismenn voru viðstaddir. Þar fór hann ekkert dult með að þrátt fyrir að Noregur væri að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og aðrar EFTA-þjóðir en Ísland ýmist búnar eða að senda inn umsókn, þ.e. allar hinar væru á hraðferð inn í Evrópubandalagið, væri mjög mikilvægt að samþykkja þennan samning vegna þess að þar með væru þær hér um bil komnar inn. Það er réttlætingin fyrir því að aðrar þjóðir sem ætla sér annað og enn þá meira en í þessum samningi felst leggja svo mikla áherslu á að samningurinn verði staðfestur.
    Ég tel að við eigum ekki erindi inn í Evrópubandalagið. Við erum að loka okkur þar innan tollmúra. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það sem hv. 7. þm. Reykn. sagði um það mál í fyrradag. Ég vek bara athygli á því með því að greiða fyrir viðskiptum við Vestur-Evrópu erum við jafnframt að setja upp beinar og óbeinar hindranir til annarra átta. Evrópskir bílar verða hér væntanlega í forgangi í framtíðinni en bandarískir og japanskir t.d. koma til með að hækka verulega í verði. Sumir segja 10%. Ég hef ekki gáð að því sjálfur.
    Ríkisstjórn Íslands gerðist fyrir nokkrum dögum aðili að hernaðararmi Evrópubandalagsins með aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu. Það er annað skref, þetta er hitt. Hvorugt skrefið er að mínu mati skynsamlegt að taka og bæði skrefin eru að mínu mati hættulegt að taka. Ég ætla ekki að útlista eðli Evrópubandalagsins. Til þess vinnst ekki tími og ég vil stytta mál mitt svo mjög sem ég mögulega get.
    Eftir því sem ég hef tekið eftir og af þeim kunnugleik sem ég hef af Evrópubandalaginu af starfi mínu í Evrópustefnunefnd og t.d. í þingmannanefnd EFTAríkjanna þá er Evrópubandalagið ekki lýðræðislegt. Þingmenn, lýðræðislega kjörnir fulltrúar, hafa þar skelfing lítið að segja. Þessu bandalagi er stjórnað af kontóristum sem sitja hver í sínu horni, finnst þeir vera kóngar yfir ákveðnu sviði og upphugsa reglur sem okkur hinum finnast fáfengilegar. Í morgun var greint frá því í útvarpinu að Evrópubandalagið vantaði staðla um hvað munnbiti væri stór. Kelloggs-fyrirtækið fór að tala um næringarefni og hollustu í framleiðsluvöru sinni sem væri eins og í, ég man ekki hvað mörgum munnbitum af brauði. Það kom í ljós að hjá Evrópubandalaginu vantaði staðal um hvað munnbiti ætti að vera stór. Það var einstaklingsbundið hvað munnbitarnir voru stórir. Sumir töldu að þeir ættu að vera sjö í brauðsneiðinni. Aðrir töldu að þeir ættu að vera fleiri. Við þetta geta menn dundað sér og sjálfsagt kemur bráðum úrskurður frá Evrópubandalaginu, gerð sem við eigum að lögtaka hér eða hafa fyrir satt hvað munnbiti sé stór.
    Menn minnast deilu sem reis í Evrópubandalaginu og varð býsna heit um það hvað smokkurinn ætti að vera víður. Ítalir beittu sér af alefli gegn þeim staðli sem herrarnir í Brussel höfðu stungið upp á. Þeir töldu að smokkurinn væri óhæfilega stór. Um það deildu þeir allt sumarið hvað smokkurinn ætti að vera stór. ( Gripið fram í: Er þetta satt varðandi Ítalina?) Ég veit ekkert um hvernig Ítalirnir eru skapaðir en þeir töldu staðalinn vera of stóran. Um þetta hafa menn deilt fram og aftur í Evrópubandalaginu. Niðurstöðu fundu þeir eins og við finnum á Alþingi. Alltaf endar með því þó ósamkomulag sé eins og þessa daga að við finnum einhvern flöt á samkomulagi. Evrópubandalagið fann líka flöt á þessu með smokkana. Staðallinn byggist nefnilega á því að smokkurinn sé þeim mun teygjanlegri þannig að hann passi á litlu Ítalina líka eins og stóru karlana í Brussel. Þarna leystu þeir það.
    Svo koma karlar eins og hæstv. utanrrh. --- jæja, ég er nú ekki að segja það. Öflugir stjórnmálamenn koma fljúgandi til Maastricht eða Brussel eða Edinborgar eða einhvers annar staðar sem ákveðinn hefur verið, setjast þar eins og kríur á stein og flytja ræður hver yfir öðrum sem kontóristarnir þeirra hafa samið handa þeim. Sumir halda blaðamannafund og flestir komast skynsamlega að orði og fólkið heldur að þessir menn hafi eitthvað um þennan rekstur að segja en hann gengur af sjálfu sér. Áhrif kjörinna fulltrúa og áhrif stjórnarherra hafa sáralítið að segja. Það eru kontóristarnir sem ráða þessu. Ég held að ekkert hafi verið ofmælt í ræðu hv. 7. þm. Reykn. þar sem hann ræddi um báknið í Brussel.
    Í þessum samningi, herra forseti, felst verulegt fullveldisafsal. Hann samræmist ekki hinni íslensku stjórnarskrá og það er kannski alvarlegasti hluturinn. Mig langar til að tala svo sem klukkutíma enn um íslensku stjórnarskrána og benda á fleiri atriði en hv. 7. þm. Reykn. gerði í sinni ræðu því hann fór ekki ítarlega í stjórnarskráratriðin þó hann tæki dálitla stund í það. Hann drap ekki nema á fá atriði sem stangast á við stjórnarskrána af mörgum því þau eru fleiri en hv. 7. þm. Reykn. taldi upp, þó kannski séu það meginatriðin. Með þessum samningi heftum við löggjafarvaldið sem á að vera hjá Alþingi og forseta Íslands. Við látum úr landi hluta af framkvæmdarvaldinu. Við framseljum það. Við látum dómsvaldið að hluta til úr landi. Allt er þetta andstætt 2. gr. stjórnarskrár en skv. 1. gr. stjórnarskrárinnar er Ísland lýðveldi með þingbundinni stjórn. 2. gr. hljóðar svo:
    ,,Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.``
    Þingið verður að taka við forskriftum frá Evrópubandalaginu. Framkvæmdarvaldið færist að hluta til út og við verðum að lúta dómum frá erlendum dómstóli og þeir eru aðfararhæfir hér á landi.
    10. gr. tekur fram að forseti Íslands vinni eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum. Af eiðstaf þessum eða heiti skal gera tvö samhljóða frumrit. Geymir Alþingi annað en Þjóðskjalasafnið hitt.
    26. gr. segir, og ég rifja hana upp, ekki það að hún brjóti stjórnarskrána en hún kemur til athugunar við meðferð þessa máls. Þá á ég líka við tímasetningar í greininni.
    26. gr. stjórnarskrár hljóðar svo: ,,Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Ný synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.``
    Þessa grein las ég þingheimi til fróðleiks ef mönnum hefði skotist yfir hana.
    Forseti verður að staðfesta eða synja ef honum býður svo við að horfa, innan hálfs mánaðar. Ef við afgreiðum þetta mál við þrjár umræður er það ekki aðeins niðurlæging fyrir Alþingi heldur verður sjálfur forseti Íslands að skrifa undir þessi lög eða taka afstöðu til þess hvort hann skrifar ekki undir þau og athuga þá jafnframt 10. gr. innan hálfs mánaðar.
    Ég nefni fleiri greinar sem koma til álita.
    36. gr. segir að Alþingi sé friðheilagt og enginn megi raska friði þess né frelsi. Þetta er gott og vel og greinin stendur fyrir sínu.
    Samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði hefur Alþingi ekki lengur frelsi til þess að haga lagasetningu eftir því sem því sjálfu kann að þykja hentugt. Það verður að gerast í samræmi við lög sem sett eru úti í Brussel.
    Ég þarf ekki að minna hv. þm. á 47. gr. sem hljóðar svo:
    ,,Sérhver nýr þingmaður skal vinna drengskaparheit að stjórnarskránni þegar kosning hans hefur verið tekin gild.``
    Þetta er greinin sem m.a. stendur í okkur framsóknarmönnum og hindrar þá okkar sem eru jákvæðir fyrir evrópskri samvinnu í því að greiða frv. atkvæði, ef einhverjir eru.
    Mér finnst að þingmenn allir ættu að hugleiða vandlega hvað þeir eru að gera áður

en þeir gera þennan gjörning því hér er ekki um að ræða neitt dulið brot á stjórnarskránni. Það er að ræða lögljóst brot.
    48. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum.``
    Nú verðum við bundnir við reglur frá Brussel. Þar eru að vísu ekki kjósendur okkar en við erum bundnir við reglur frá Brussel og það er ekki samkvæmt anda stjórnarskrár.
    60. gr. segir:
    ,,Dómendur skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Þó getur enginn, sem um þau leitar úrskurðar, komið sér hjá að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta málinu til dóms.`` --- Þessi grein kemur líka til athugunar.
    67. gr. kemur líka til athugunar eins og ég hef áður sagt um eignarréttinn.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta meira, herra forseti. Við óskuðum eftir því að þetta mál yrði borið undir þjóðaratkvæði. Ég tel að það hefði verið skynsamlegast allra hluta vegna og ekki síst fyrir ríkisstjórnina að bera málið undir þjóðaratkvæði og fá að vita hvernig þjóðin hugsaði í þessu máli. En það þorði ríkisstjórnin ekki að gera. Hún þorði ekki að taka áhættu. Þetta voru ekki sigurvissir menn. Þeir þorðu ekki að taka áhættuna af því að bera þetta undir þjóðaratkvæði. Þjóðaratkvæðagreiðslan hefði að vísu ekki orðið bindandi en væntanlega leiðbeinandi og það var fellt með offorsi á Alþingi, því miður.
    Kynning þessa samnings hefur verið ámælisverð. Fé hefur verið ausið í auglýsingastofur. Ég ætla að geyma mér þetta þangað til utanrrh. er kominn heim, en bara segja í örstuttu máli að það hefur verið ausið fé í auglýsingastofur. Menn hafa gengið fram í að gylla kosti samningsins langt fram yfir það sem nokkur eðlilegheit eru um. Það hefur verið röng kynning á þessu máli í sumum fjölmiðlum. Ég hef deilt á sjónvarpið fyrir að gefa ekki rétta mynd af umræðum á Alþingi og villandi og nokkuð einhliða frásagnir af Evrópubandalaginu og Evrópsku efnahagssvæði.
    Málgagn Alþfl., Morgunblaðið, skrifar í mörgum tilfellum . . .   ( Gripið fram í: Hvað sagði þingmaðurinn?) Málgagn Alþfl. Samkvæmt því sem hv. 1. þm. Austurl. sannaði hér í umræðum í gær fylgir Morgunblaðið stefnu Alþfl. en ekki Sjálfstfl. Það hefur gyllt þennan samning fyrir þjóðinni með óeðlilegum hætti. Allt er þetta gagnrýni vert.
    Frú forseti. Ég vil láta máli mínu lokið. Það hefur teygst meira úr þessari ræðu en ég var að vona. Ég var þó búinn að stytta hana mikið og á, eins og ég sagði áðan, margt ósagt. Ég vísa til þess sem hv. 7. þm. Reykn. sagði í framsöguræðu sinni og geri flest af hans orðum að mínum. Ég læt máli mínu lokið en ég vil taka það fram, ef það vefst eitthvað fyrir einhverjum, að ég ætla að greiða atkvæði gegn þessum samningi.