Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 16:19:36 (3642)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Vegna þess sem hv. ræðumaður sagði um fundi í utanrmn. og okkar samskipti um það efni vil ég taka það fram að hv. ræðumaður var farinn af fundi nefndarinnar í gær áður en honum lauk þannig að hann fylgdist ekki með lyktum mála þar. Ég vil einnig lýsa því yfir að ég tel það ekki á verksviði utanrmn. að bera undir stofnun utan Alþingis mál sem forseti Alþingis hefur úrskurðað um. Það lá þannig fyrir á þessum fundi í gær. Ég fagna því hins vegar að Framsfl. hefur leitað svara við þeim spurningum sem hann hafði og það kom fram á fundi nefndarinnar í gær að að sjálfsögðu mun þetta mál verða rætt áfram í nefndinni. Að tilmælum Framsfl. verður áfram um það fjallað.
    Það er alveg tvímælalaust, og ég styðst þar m.a. við rit Ólafs heitins Jóhannessonar um stjórnskipun Íslands, að úrskurðir forseta eru fullnaðarúrskurðir, jafnt innan þings sem utan. Hafi menn eitthvað við þá úrskurði að athuga þá geta þeir reynt að hnekkja þeim með því að lýsa vantrausti á þann forseta sem úrskurðar. Ég tel að ekki eigi að vísa málum sem forseti Alþingis hefur úrskurðað um með þeim hætti sem okkur var kynnt í gær

til aðila utan Alþingis.