Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 16:23:35 (3644)


     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil að það liggi alveg ljóst fyrir að spurningin var ekki um það hvort leitað yrði álits Lagastofnunar. Það var í sjálfu sér engin deila um að það kynni að vera ástæða til þess, heldur um það hverju skyldi skotið til Lagastofnunar. Þar var ágreiningsefnið. Ég tel, eins og ég sagði áðan, að það sé ekki á verksviði utanrmn. Alþingis að skjóta til Lagastofnunar spurningu um það sem forseti Alþingis hefur úrskurðað um. Ef ég má lesa það sem um slík mál í ritinu ,,Stjórnskipun Íslands`` eftir Ólaf heitin Jóhannesson, segir, með leyfi forseta:
    ,,Eins og áður er sagt, sker forseti úr ágreiningi um skilning á þingsköpum. Úrskurðir hans eru almennt fullnaðarúrskurðir. Á úrskurðum forseta þarf ekki að leita staðfestingar þingsins. . . .   Þótt þingmaður sé óánægður með úrskurð forseta, á hann þess almennt ekki kost að hefja um hann umræður og getur ekki fengið úrskurðinn borinn undir atkvæði þingsins. Hins vegar getur hann síðar borið fram tillögu um frávikningu forseta.``
    Ég leit þannig á og lít þannig á að um þetta sé okkar ágreiningur. Þetta er málefnalegur ágreiningur en ekki ágreiningur um störf nefnda þingsins. Þetta er málefnalegur ágreiningur um þetta atriði. Ég lít þannig á að þegar forseti hefur úrskurðað um mál sem snerta þingsköp, eins og fram kom á fundi nefndarinnar í gær þá snertir þetta mál þingsköp Alþingis, eigi ekki að skjóta þeim úrskurði eða því álitaefni út fyrir veggi Alþingis.