Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 16:35:15 (3650)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vildi áður en ég hef mál mitt leita eftir við virðulegan forseta upplýsinga um það hvernig fyrirhugað er að haga þinghaldinu núna á næstunni. Ef ég hef tekið rétt eftir er gert ráð fyrir þingflokksfundum eftir 20 mínútur eða rösklega það sem stæðu í klukkutíma og þá er klukkustund fram að kvöldmatarhléi. Er þetta rétt, virðulegur forseti, og er fyrirhugaður kvöldfundur? ( Forseti: Já, þessum fundi verður frestað kl. 5 og þá væntanlega til kl. 8.30 í kvöld. Ef forseti fær ekki einhverjar nýjar upplýsingar kl. 5 þá verður honum frestað til 8.30.) Ég þakka upplýsingarnar. Ég vildi aðeins átta mig á því hvernig á tímanum stæði.
    Við heyrðum það í umræðunni rétt áðan í sambandi við andsvör að hv. stjórnarliðar eru að kveinka sér mikið yfir því að alþingismenn þurfi að tjá sig um þetta stóra mál og taka til þess dálítinn tíma. Ég er satt að segja mjög undrandi á því að menn eins og hv. þm. Tómas Ingi Olrich sjái ástæðu til þess að finna að því þó talsmenn Framsfl. og fulltrúar flokksins í utanrmn. þurfi að eyða nokkrum tíma í að fjalla um þetta viðamikla mál. Er þó ljóst að möguleikarnir til þess að eiga orðastað við ráðherra eru skertir vegna fjarveru hæstv. utanrrh. frá þingfundi. Ég held að alþingismenn þurfi að átta sig á því að hver og einn okkar sem sitjum á þingi ber ábyrgð á því hvernig þetta stóra mál ræðst. Það er ekki aðeins að við þurfum að bera ábyrgð á atkvæði okkar heldur hljótum við að þurfa að bera ábyrgð á afstöðu okkar gagnvart kjósendum í landinu og þeim sem hafa sýnt okkur þann trúnað að velja okkur á löggjafarsamkomu Íslands, íslensku þjóðarinnar. Þeir sem kynnu að ætla sér að leita eftir endurkjöri þurfa væntanlega að standa þar einhver reikningsskil gjörða sinna. Það er ekkert undarlegt þó að þingmenn þurfi við meginumræðu um þetta mál, 2. umr. málsins, þegar fyrir liggja nefndarálit, að taka nokkurn tíma til að ræða það. Sýnist mér þó að það gangi ekkert fram yfir það sem hefur verið varðandi mál sem eru þó langtum veigaminni en þetta mál t.d. efnahagsfrv. ríkisstjórna sem við höfum oft séð á Alþingi um þetta leyti þinghalds í nóvember og desembermánuði og hafa oft tekið eðlilega drjúgan tíma til umræðu og athugunar á vegum þingsins.

    Ég vek sérstaka athygli á því við upphaf míns máls að hver einasti alþingismaður hefur atkvæði í þessu efni. Það er ekki eingöngu að málin ráðist hér á vettvangi stuðningsmanna ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu heldur ráðast úrslitin á vettvangi þingsins sem heildar. Og hver einasti þingmaður ber jafna ábyrgð á úrslitum málsins. Þeir sem styðja það, þeir sem eru andvígir því og ekki síður þeir sem kjósa að sitja hjá við afgreiðslu málsins og láta aðra um niðurstöðuna. Það blasir við með mjög skýrum hætti nú þegar að málið ræðst ekki einvörðungu milli stuðningsmanna ríkisstjórnar á Alþingi heldur ekkert síður af því hvernig stjórnarandstaðan stendur að málum og þeir sem tilheyra stjórnarandstöðuflokkunum ætla að verja atkvæði sínu í þessu máli.
    Það hefur þegar komið fram að tveir af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, eða a.m.k. sem eru í þingflokkum sem styðja stjórnina á þingi, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og hv. þm. Eggert Haukdal hafa þegar skýrt frá andstöðu sinni við málið með mjög skýrum og ótvíræðum hætti. Og ástæða er til að ætla að það geti verið fleiri í stuðningsliði ríkisstjórnarinnar sem líta þetta mál gagnrýnum augum og hafa ekki gert upp hug sinn um hvernig þeir ráði atkvæði sínu varðandi málið. Jafnframt hefur komið fram að í þingflokkum stjórnarandstöðunnar eru þingmenn sem veita málinu óbeinan stuðning með því að ætla að sitja hjá við afgreiðslu þess. Þá á ég við yfirlýsingar sem liggja fyrir frá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni. Það hefur verið leitt getum að því af hálfu hæstv. utanrrh., og vil ég þó helst ekki kveðja hann mikið til vitnis um mál eins og hann hefur tjáð sig utan þings að undanförnu, að það geti verið um meiri stuðningsvon að ræða úr röðum stjórnarandstæðinga við þetta mál hans á þingi heldur en ég hef nefnt. En ég vil ekki leiða neinum getum að því. Annað liggur ekki fyrir mér vitanlega en það sem ég hef hér nefnt.
    Ég nefni það við upphaf máls míns við þessa umræðu að það er alveg ljóst að það var ekkert gefið mál að þetta mál næði fram að ganga á þinginu sem stjórnarfrv. til staðfestingar á samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Þær aðstæður gátu vel verið hér uppi ef stjórnarandstaðan sameinuð, 27 þingmenn, stæðu saman í andstöðu um þetta mál og greiddi atkvæði gegn frv. um það þegar marktækt frv. kemur fram um málið, en svo er ekki um það frv. sem við ræðum hér. Það er ekki það frv. sem ræður úrslitum. Þess vegna er það auðvitað afar afdrifaríkt þegar þingmenn úr röðum stjórnarandstöðuflokkanna ljá ríkisstjórninni lið með þeim hætti sem þegar er fram komið. Ég tala nú ekki um ef þeim fjölgar sem kjósa að verja atkvæði sínu á Alþingi með þeim hætti.
    Ég hafði satt að segja vænst þess að til þeirra ótíðinda kæmi ekki að ríkisstjórnin fengi þennan stuðning úr röðum stjórnarandstöðunnar á þingi. Af ýmsum ástæðum og út frá margháttuðum rökum sem ég hef heyrt menn flytja gegn þessu máli, út frá efnisatriðum málsins, út frá stöðu málsins með tilliti til stjórnarskrár lýðveldisins og út frá kröfu stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæði sem skellt hefur verið hurðum á af hálfu flestra stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar við atkvæðagreiðslu í þinginu. Ég hafði vænst þess að þessi rök nægðu til þess að stjórnarandstaðan hið minnsta stæði sameinuð gegn málinu. Og einnig í ljósi þess hvernig haldið er á landsmálunum almennt um þessar mundir og þar á meðal varðandi ýmis efni sem tengjast þessum stóra samningi. Þar á ég m.a. við samninginn um sjávarútvegsmálefni sem honum tengjast.
    Ég mun víkja að nefndarálitum sem fyrir liggja vegna þess að ég tel nefndarálitin og þau sjónarmið sem þau endurspegla sérstakrar umræðu verð við 2. umr. málsins. En auðvitað er það svo að margháttuð atriði tengjast þessum álitum sem fram hafa komið sem óhjákvæmilegt er að nefna. Ég vil þó taka það fram, virðulegur forseti, að ég ætla mér ekki að fara að nota rétt minn sem þingmaður til þess að fara yfir málið með þeim hætti sem ég teldi í raun þörf á að gert væri við þessa umræðu, m.a. vegna fjarveru hæstv. utanrrh. og vegna þess að ég hef möguleika á að tjá mig um málið á síðari stigum við þessa umræðu og 3. umr. málsins ef til hennar kemur. Svo og vegna þess að þingið hefur afar miklum störfum að gegna um þessar mundir eins og ekki þarf að orðlengja. Hitt er jafnóhjákvæmilegt að ég þurfti að verja nokkrum tíma til umfjöllunar um málið. Og mér sýnist það helst til þröngur rammi sem sniðinn er miðað við þingflokksfundi fram undan að ég fái

lokið því áður en kvöldmatarhlé verður gert eftir rúman klukkutíma eða svo sem gefst til ræðuhalda.
    Hér liggur fyrir af hálfu . . .   ( Forseti: Þessum fundi verður frestað eftir tólf mínútur, kl. 5.) Já, virðulegur forseti. Ég hef tekið eftir að svo væri en ég hafði reiknað með kannski að stefnt væri að fundi á milli klukkan sex og sjö en það er kannski misskilningur. Það er misskilningur. Þá er nokkuð ljóst að ég kemst ekki langt í mínu máli á þessum tíma. Þá er kannski rétt að verja ekki þessum tólf mínútum í að víkja að nefndarálitum heldur aðeins til þess að lýsa með örlitlum hætti inn í baksvið málsins, samnings um Evrópskt efnahagssvæði, sem við ræðum, og spurningarinnar um tengslin við Evrópubandalagið.
    Ég tók eftir því í umræðu í gærkvöldi eða í nótt var það víst, það var komið fram á þennan sólarhring, að hér steig í ræðustól hæstv. umhvrh. Allnokkru eftir að hv. þm. Eggert Haukdal hafði flutt merka ræðu og hér höfðu farið fram orðaskipti um þingsköp, ef ég hef tekið rétt eftir, kom hér hæstv. umhvrh. þeirra erinda að bera það til baka sem borið hafði fyrir í umræðunni að Alþfl. hefði á fyrri stigum verið mikill áhugaaðili um það að tengja Ísland Evrópubandalaginu sem á þeim tíma fyrir nokkrum áratugum var kallað Efnahagsbandalag Evrópu og sú nafngift er reyndar enn þá viðloðandi þá stofnun með vissum hætti. Hæstv. umhvrh. vildi ekkert við þetta kannast og vísaði því öllu frá. Þetta varð til þess að ég greip upp í hillu hjá mér eftir gömlu málsgagni sem snertir fyrstu upptök þessa máls hér, samskipti og tengsl Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu í tíð svonefndrar viðreisnarstjórnar. Ég hef fyrir framan mig ræðu sem þáverandi menntmrh., sem raunar var um leið viðskrh. landsins, flutti 26. febr. 1963 á aldarafmæli Þjóðminjasafnsins. Þeir sem hafa langt minni og voru þá kannski komnir á það aldursskeið að fylgjast með stjórnmálum muna vafalaust eftir þeirri ræðu sem þarna var flutt á aldarafmæli Þjóðminjasafnsins. ( Umhvrh.: Hún birtist í Morgunblaðinu fyrir nokkrum vikum.) Það er ánægjulegt að hæstv. umhvrh. er kominn í salinn og fylgist með þessu. Þessi ræða fékk þau ummæli í blaðaskrifum strax á eftir að menn hefðu haldið, sem sátu þennan fögnuð, minningarafmæli Þjóðminjasafnsins, að ráðherrann hefði tekið skakka ræðu og flutt hana fyrir misskilning, a.m.k. var það trú manna til að byrja með. Ég ætla að vitna í örstuttan kafla úr ræðunni að gefnu tilefni. Þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Auðvitað ber ekki að skilja þetta svo að sérhverju mannsbarni sé ekki ljóst hversu gerólík veröldin er nú því sem hún var um aldamótin síðustu, að ég ekki tali um aldamótin þar á undan. En þótt það sé ljóst sem orðið er getur hitt dulist mönnum sem er að verða og enginn veit að sjálfsögðu hvað verða mun.`` --- Ég vil skjóta því að að þetta minnir svolítið á stíl sem við heyrðum á gamlárskvöld hér frá ættmenni þess sem hér talar og er ekkert skrýtið. --- ,,Einn mestur stjórnmálaskörungur á fyrri hluta þessarar aldar sagði ekki alls fyrir löngu að svo virtist nú komið að helsta ráðið til þess að efla sjálfstæði þjóðar væri að fórna sjálfstæði hennar. Þetta kann að hljóma sem öfugmæli. En orðið sjálfstæði er hér auðvitað notað í tvenns konar merkingu. Átt er við það að svo virðist sem ein tegund sjálfstæðis verði ekki efld nema á kostnað annarrar.``
    Ég læt tilvitnun í þessa þekktu ræðu nægja því hún segir í rauninni kjarnann af því sem þáv. mennta- og viðskrh. var að koma á framfæri við þjóð sína í tilefni af aldarafmæli Þjóðminjasafnsins eða öllu heldur í tilefni af draumum sínum og hugðarefnum sem fram komu auðvitað með margháttuðum hætti á þessum árum, að tengja Ísland við Evrópubandalagið, ef ekki með inngöngu þá með aukaaðild eða öðrum hætti sem ráðherrann fjallaði um við mörg tækifæri í sínu máli á þessum árum.
    Ég hef líka handa á milli aðeins eldra málsgagn sem er skýrsla ríkisstjórnarinnar til Alþingis frá 12. nóv. 1962 flutt af viðskrh., Gylfa Þ. Gíslasyni, og ber yfirskriftina ,,Efnahagsbandalag Evrópu og Ísland``. Í þessum bæklingi, sem var sérútgefinn 1962, er fjallað um kostina --- og ég tek fram að þetta er skýrsla ríkisstjórnar, þetta er ekki ræða eða einhliða túlkun Alþfl. heldur ríkisstjórnarinnar á þeim tíma. Þar er ekki lögð til innganga í Evrópubandalagið en þeim möguleika er velt upp með ýmsum hætti, þar á meðal aukaaðild á grundvelli 238. greinar Rómarsamningsins. Það er hins vegar jafnljóst að þessi stefna og

þessar hugmyndir sem þarna liggja að baki og voru orðaðar á jafnmerkilegan hátt og gert var í þessari ræðu hafa lifað mjög góðu lífi allar götur síðan hjá forustusveit Alþfl. Það er Alþfl. sem hefur haldið þeim hugmyndum við öðrum flokkum fremur að Ísland þyrfti að treysta tengsl sín við Evrópubandalagið jafnvel með því að sækja um aðild að bandalaginu. Ef litið er ekki langt til baka þá minni ég á að það er þingmaður Alþfl., Karl Steinar Guðnason, sem fyrstur manna lýsti úr þessum ræðustól yfir áhuga sínum á að Ísland sækti um aðild að Evrópubandalaginu í ræðu sem hann flutti 30. mars 1990 en tveimur vikum áður hafði formaður Alþfl., Jón Hannibalsson, lýst því yfir á fundi í Kaupmannahöfn að ef Norðmenn og Svíar gengju í Evrópubandalagið þá sæi hann ekki annan kost fyrir Ísland heldur en að fylgja á eftir.
    Það er líka skammt að minnast skýrslu hæstv. utanrrh. til Alþingis í marsmánuði sl. þar sem ráðherrann á mörgum blaðsíðum ræddi og rökstuddi og átti eintal við sjálfan sig og síðan Alþingi, viðtal við Alþingi, um þá spurningu hvort ekki væri tímabært einmitt nú að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Það urðu margir undrandi þegar þessi skýrsla kom á borð þingmanna og má vel vera að meira að segja samráðherrar ráðherrans hafi sperrt eyrun og lyft brúnum þegar hún var lögð á borð án þess að ég viti með hvaða hætti var fjallað um þessa skýrslu á vettvangi ríkisstjórnar. En satt að segja kom þessi stefna og þessar vangaveltur utanrrh. á þessum tíma mönnum afar kynlega fyrir sjónir í ljósi stöðunnar varðandi Evrópskt efnahagssvæði og það mál sem við erum að ræða. Hvers vegna er ég að draga þetta fram hér og nú? Vegna þess að sá samningur, sem hér er sótt eftir að lögfestur verði, er stórt skref til tengsla við Evrópubandalagið sem að efnisumfangi til er metið á 70--80% að því er varðar gerðir Evrópubandalagsins, þ.e. lög, reglur og annað sem flokkast undir gerðir Evrópubandalagsins, bindandi samþykktir þeirra. Og þó þar sé ekki saman að jafna fullveldisafsali þá er þetta mjög stórt skref og alveg er ljóst að ef samningurinn verður samþykktur á Alþingi er miklum hindrunum rutt úr vegi fyrir því að ganga götuna á enda, að ganga inn í Evrópubandalagið fyrir þau öfl sem í reynd ætla sér þangað alla leið.
    Ég hef enga löngun til þess að gera mönnum upp skoðanir, en auðvitað hljótum við í stjórnmálum að leitast við að ráða í framtíðina út frá því hvernig stjórnmálamenn túlka sitt mál, hvernig menn leggja mál fyrir og má margt út úr því lesa. Það má t.d. leiða getum að því að allnokkur sveit innan Sjálfstfl. sé alláhugasöm um að látið verði reyna á umsókn um aðild að Evrópubandalaginu. Ég orða þetta svona vegna þess að sumir eru að gæla við það að hægt sé að láta reyna á umsókn án þess að stíga skrefið til fulls, án þess að hafa skuldbundið sig til að ganga að þeim kostum sem Evrópubandalagið veitir. ( Gripið fram í: Gleymdu ekki krötunum.) ( Gripið fram í: Eða Vinnuveitendasambandinu.) Já, það er auðvitað hægt að vitna til fjölmargra sem tengjast Sjálfstfl. og hagsmunasamtökum sem standa Sjálfstfl. nálægt og auðvitað ekki mjög langt að minnast þess þegar núv. hæstv. forsrh. lagði fyrir landsfund flokksins 1989 skýrslu aldamótanefndar flokksins þar sem lagt var til, eða a.m.k. leiddar líkur að því að það væri skynsamlegt fyrir flokkinn og fyrir Íslendinga að leggja það til að sótt yrði um aðild, látið yrði reyna á aðild að Evrópubandalaginu.
    Nú höfum við vissulega tekið eftir því að frá því að Davíð Oddsson, þáv. borgarstjóri, nú hæstv. forsrh., lagði þetta til innan síns flokks hefur hann dregið í land varðandi þetta mál á Alþingi í orðum sínum, t.d. í ræðu sinni 12. okt. sl. og við fleiri tækifæri, en það er samt alveg ljóst að þessi hugmynd er þarna til staðar, hún hefur verið til staðar hjá áhrifamönnum í Sjálfstfl. og við þurfum að meta stöðuna úr frá þeim sólarmerkjum sem hér eru uppi --- (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, ég er að ljúka setningu --- og ekki síst þeir sem eru í reynd mjög andvígir þeirri framtíðarsýn að Ísland verði aðili að Evrópubandalaginu.
    Hér skal ég ljúka þessum kafla ræðu minnar, virðulegur forseti, og fresta máli mínu sem ég geri ráð fyrir að sé erindi forseta og tek þá til við það þegar fundi er fram haldið. --- [Fundarhlé.]