Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 20:31:40 (3651)

     Hjörleifur Guttormsson (frh.) :
    Virðulegur forseti. Á þeim mínútum sem ég hafði tekið hér í ræðuflutning áður en fundi var frestað klukkan fimm vakti ég athygli á stöðu þessa máls í þinginu og þeirri staðreynd sem blasir við að bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar eru ekki samferða í þessu máli, þ.e. í stuðningsliði ríkisstjórnarinnar eru þingmenn sem eru ráðnir í og hafa þegar kveðið upp úr um það að þeir greiði atkvæði gegn því frv. sem hér er rætt, eða gegn staðfestingu á EES-samningnum því það verður víst annað þingmál sem kemur til afgreiðslu, og í liði stjórnarandstæðinga hafa þegar tveir alþingismenn gefið til kynna að þeir ætli með óbeinum hætti að styðja framgang málsins með því að greiða ekki atkvæði, sitja hjá við afgreiðslu þess. Þetta minnir okkur á að hér er vissulega um að ræða mál sem hver og einn alþingismaður verður að taka afstöðu til óháð því hvernig hann er staddur í tengslum við ríkisstjórn hverju sinni. Þetta mál er miklu stærra en svo að það geti ráðist af því hvort þingmenn sitja stjórnarmegin eða stjórnarandstöðumegin við borðið. Það er ekki síður afdrifaríkt ef þingmenn kjósa að láta aðra um afgreiðslu málsins, taka ekki þátt í atkvæðagreiðslu og kjósa að sitja hjá eins og þegar hefur verið greint frá að a.m.k. tveir hv. alþm. ætli að ráða atkvæðum sínum með þeim hætti.
    Ég hafði jafnframt vikið að forsögunni sérstaklega með tilliti til afstöðu Alþfl. til Evrópubandalagsins á fyrri árum. Það gerði ég að gefnu tilefni vegna þess að hæstv. umhvrh. kom inn í umræðu í gær og vildi bera það af Alþfl. á fyrri árum að hafa stefnt inn í Evrópubandalagið eða til mjög náinna tengsla við Evrópubandalagið og tel ég að það þurfi ekki langt að leita til þess að sýna fram á að staðreyndirnar voru allt aðrar.
    Það er rétt, virðulegur forseti, nú þessa daga hérlendis þegar atvinnuleysið er eitt helsta umræðuefni meðal almennings og ógnvaldur á fjölmörgum heimilum, að velta því aðeins fyrir sér hvort sá samningur sem hér er til umræðu sé líklegur til að breyta einhverju í sambandi við þá stöðu mála. Ég held að þeir sem líta á þetta mál og skoða aðstæður í Evrópubandalaginu átti sig á því að samningurinn um EES er síst til þess fallinn að bæta stöðu atvinnulífs og atvinnumála á Íslandi í bráð og þó kannski enn síður í lengd. Ég vil í þessu sambandi minna á stöðuna innan Evrópubandalagsins sjálfs þar sem þeim fer dagfjölgandi sem fylla biðstofur atvinnuleysingjanna, þar sem atvinnuleysingjar voru um 16 milljónir og fer stöðugt fjölgandi og talið að það verði 2 milljónum fleiri atvinnuleysingjar innan skamms innan Evrópubandalagins og að atvinnuleysi þar fari upp í 11% að meðaltali innan skamms. Þetta má m.a. sjá í blaðaviðtali við efnahagskommissar framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, Danann Henning Cristophersen í Politiken 3. des. sl. og fyrirsögnin er sótt í orð þessa ráðamanns hjá Evrópubandalaginu í Brussel, yfirskriftin er: ,,Tro skal bekæmpe ledigheden`` --- Trú er það sem á að ráða bót á atvinnuleysinu. Og þótt mönnum þyki það kannski sérkennilegt að viðhorfin séu jafnóskýr og þetta ber vott um þá er það beinlínis staðhæfing þessa ráðamanns að það séu frekar huglæg atriði en hlutlæg sem geti orðið til þess að ráða einhverja bót á þeirri stöðnun sem nú ríkir í efnahagslífi Vestur-Evrópu og ekki síst innan Evrópubandalagsins og dregur þar þróttinn úr atvinnulífi.
    Það er alveg áreiðanlegt að Íslendingar leita ekki styrks í efnahagslegu tilliti með því að ganga undir veldissprota þessa stóra bandalags og þó atvinnuleysi sé vissulega utan þess og víða vaxandi innan OECD-svæðisins þá er það þó búið að vera hlutskipti í löndum Evrópubandalagsins í allt öðrum og meiri mæli undanfarin tíu ár. Þess ættum við að minnast. Við skulum einnig hafa það í huga að sú umræða sem hér fer fram skiptir engu máli um það hvenær samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði tekur gildi. Þetta er ekki það þingmál sem ræður því eða afstaða til þessa þingmáls sem við ræðum hér, það þarf að koma annað mál inn á borð alþingismanna, samningur sem er raunverulegur og tekur tillit til stöðu mála hjá aðilum EES og við vitum ekki enn þá hvenær von er á því máli. Ég minni á þetta vegna þess að þeir sem bera þetta fram, bæði hæstv. utanrrh. svo og talsmenn atvinnulífsins sem svo eru kallaðir sem m.a. hafa sent hv. alþm. erindi, skorað á þá til að samþykkja þetta mál og lögfesta þennan samning, sem ekki er lengur samningur, virðast standa í þeirri trú af einhverjum ástæðum að það breyti einhverju hvort við afgreiðum þetta mál á Alþingi vikunum fyrr eða seinna. Það gerir það ekki, það er hreinn misskilningur og þess vegna er það einnig misskilningur hjá stjórnvöldum að leggja kapp á að knýja fram afstöðu Alþingis til þessa þingmáls sérstaklega.
    Ég greindi frá því, virðulegur forseti, að ég ætlaði að fara sérstaklega yfir fram komin nefndarálit frá utanrmn. og ég ætla að gera það á ekki allt of löngum tíma en þar er vissulega að mörgu að hyggja. Nál. eru fjögur talsins. Ég hef ekki ástæðu til að ræða sérstaklega nema þrjú þeirra þar sem ég tala sem einn af þingmönnum Alþb. sem er samferða í þessu máli, sem er einn af tveimur þingflokkum á Alþingi sem virðist vera samferða í afstöðu til þessa máls, annars vegar Alþfl., við vitum ekki annað en þingmenn hans standi að þessu máli óskiptir, og hitt er einnig ljóst og hefur þegar verið greint frá því og legið fyrir um alllangt skeið að Alþb. og þingflokkur þess óskiptur mun greiða atkvæði gegn þessum samningi. ( JGS: Það eru tíðindi að þingmaðurinn sé sammála flokksbræðrum sínum.) Það eru engin tíðindi fyrir mig að Alþb. taki þessa afstöðu, það hefur legið fyrir lengi og ef hv. þm. hefur haft fyrir því að fylgjast með umræðum og afgreiðslu Alþb. undanfarin ár og frá því að þetta mál kom á dagskrá, þá þarf hann ekkert að vera undrandi yfir því að nú við lokayfirferð þessa máls, eins og það liggur hér fyrir þó það sé ekki endanleg yfirferð, þá hefur það legið fyrir að Alþb. mundi ekki geta gengið að samningi sem lítur út eins og það mál sem hér er fram sett. Ég gæti vel vitnað til þess með því t.d. að fara yfir samþykkt Alþb. á síðasta landsfundi og einnig á landsfundi 1989. En til huggunar hv. þm. þá skal ég einnig líta yfir landsfundarsamþykktir Framsfl. og ræða svolítið afstöðu Framsfl. til málsins, ekki síst vegna þess að hv. þm. kallar eftir því.
    En ég ætla fyrst að víkja að meirihlutaáliti utanrmn. sem hv. þm. og formaður utanrmn. Björn Bjarnason mælti fyrir fyrir tveimur dögum eða svo. Það eru vissulega mörg atriði sem þar þyrfti að taka til umræðu og ástæða væri til að benda á og gagnrýna. Ég vel hér nokkra þætti af mörgum og vil aðeins koma að einu atriði sem fjallað er um í þessu nál. meiri hlutans sem er undirritað af fulltrúum Sjálfstfl. í nefndinni og einnig af fulltrúum Alþfl. Má það þykja dálítið sérstakt að fulltrúar Alþfl. skuli einnig taka undir þá söguskoðun sem sett er fram, eða þá túlkun á afstöðu til málsins sem sett er fram í þessu meirihlutaáliti. Ég vísa til þess, virðulegur forseti, sem fram kemur á bls. 5 í nál. meiri hluta utanrmn. þar sem fjallað er um afstöðu þingmanna Sjálfstfl. til málsins á seinni hluta árs 1989, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þegar þátttaka í EES var rædd á Alþingi haustið 1989 héldu þingmenn Sjálfstfl. þeirri skoðun fram að skynsamlegt væri að reyna til þrautar að halda fast í tvíhliða viðræður einstakra EFTA-ríkja við EB. Töldu þeir að með því yrðu hagsmunir Íslands betur tryggðir en ella. Jafnframt vildu sjálfstæðismenn að Alþingi samþykkti sérstakt umboð til handa utanríkisráðherra í viðræðunum við EB.`` --- Þetta er álit sem fulltrúar Alþfl. í nefndinni einnig skrifa upp á.
    Ég held að menn ættu aðeins að staldra við. Var það nú svo haustið 1989 að Sjálfstfl. stæði ekki á bak við þáv. utanrrh. í efnislegri afstöðu til undirbúnings þessa máls? Ég veit að hæstv. viðskrh. er það langminnugur að hann man eftir þeirri stöðu. Það lá alveg skýrt fyrir frá talsmönnum Sjálfstfl. á þessum tíma að þeir stóðu að baki stefnu utanrrh. að því er varðaði könnunarviðræður og undirbúning samningaviðræðna við Evrópubandalagið á þessum mánuðum. Ég get vitnað í einstök ummæli því til stuðnings og vænti að menn taki eftir þeim, en hitt lá auðvitað einnig fyrir að Sjálfstfl., þá í stjórnarandstöðu, lék með vissum hætti tveim skjöldum í málinu, þ.e. reyndi á sama tíma að láta líta svo út sem hann vildi taka upp tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið og það væri hans stefna öðrum þræði. En hér sagði við umræður um þetta mál í þinginu 27. nóv., þáv. hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarssonar, með leyfi forseta:
    ,,Þingmenn Sjálfstfl. hafa allnokkrir lýst sínum sjónarmiðum hér í þessari umræðu og ég þarf ekki að hafa mörg orð um það að við erum fylgjandi því að Ísland taki þátt í

þeim viðræðum sem að er stefnt milli EFTA og Evrópubandalagsins og við viljum að í þeim viðræðum sé lögð áhersla á okkar sérstöðu.``
    Þetta er talsmaður Sjálfstfl. á þessum tíma. Hann bætir því við, svo öllu sé til skila haldið: ,,Við höfum hins vegar jafnframt lagt áherslu á það að fram fari tvíhliða viðræður milli Íslands og Evrópubandalagsins, ekki viðræður við framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins eins og sumir hafa viljað skilja okkar málflutning, heldur hina pólitísku leiðtoga bandalagsins.`` --- Takið eftir þessu. Og ætli þetta sé nú ekki nokkuð annað en látið er í skína í nál. meiri hlutans. Ég veit að hæstv. viðskrh., nú starfandi utanrrh., getur staðfest með hvaða hætti forusta Sjálfstfl. reyndi að leika tveim skjöldum, tala í tvær áttir í þessu máli, til þess auðvitað að reyna að halda friðinn í eigin röðum. Því hver var þá í forustu fyrir Sjálfstfl. í utanrmn.? Það var auðvitað hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sá hinn sami og nú hefur lýst andstöðu sinni við þetta mál og lagði vissulega áherslu á það á þessum tíma að teknar yrðu upp tvíhliða viðræður og flutti um það tillögu og annar hv. fulltrúi Sjálfstfl. sem ekki situr lengur á þingi, hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, sem sat þá í utanrmn. og skrifaði upp á þetta álit en hafði einnig nokkra sérstöðu innan þingflokks Sjálfstfl. á þessum tíma því þingmaðurinn lýsti því á Alþingi um þetta leyti, að vísu nokkru síðar, að hún vildi taka skrefið strax inn í sjálft Evrópubandalagið og sigldi þar í kjölfar hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar að túlka þá afstöðu að við ættum að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Þannig að á bak við þennan sérkennilega málatilbúnað stóðu tveir þingmenn Sjálfstfl. með allnokkra sérstöðu í viðhorfinu til Evrópubandalagsins. Annar mjög andsnúinn, hinn þingmaðurinn í rauninni vildi fara alla leið.
    Ég get svo vitnað í hv. þm. Þorstein Pálsson, þremur dögum síðar, 1989. Hvað segir þingmaðurinn þá um þetta efni? Hann segir svo, með leyfi forseta: ,,Formaður Alþfl., núv. hæstv. utanrrh., metur meira að halda Alþb. í ríkisstjórn en að leita samstöðu ábyrgra afla á Alþingi í þessu mikilvæga máli. Sjálfstfl. var reiðubúinn til slíkra viðræðna og svaraði fyrirspurn hæstv. utanrrh. jákvætt þar um.`` --- Málatilbúnaður Sjálfstfl. á þessum tíma var auðvitað að reyna að sundra röðum ríkisstjórnarinnar þáv. á þessum tíma, fyrst og fremst, enginn ákafari í að hnýta upp á þennan samning í raun en forusta Sjálfstfl., þó að hún reyndi að leika tveimur skjöldum hið minnsta í málinu á þessum mánuðum. Svo má nefna, af því það er núv. hæstv. sjútvrh. sem þarna talaði, hvernig talaði hæstv. ráðherra þá um sjávarútvegsþátt þessa máls í samskiptum við Evrópubandalagið? Með leyfi forseta: ,,En íslenskur sjávarútvegur`` --- takið eftir, virðulegu þingmenn --- ,,getur ekki beðið eftir því að krafan um að Evrópubandalagið hætti styrkjum til sjávarútvegsins nái fram að ganga.`` --- Ekki að fella niður tolla heldur hætti styrkjum, leggja af styrkjapóltíkina. Það var krafan þá og segir: ,,Þá þyrftum við að bíða fram á næstu öld. Það er einfaldlega of mikil áhætta að geyma höfuðkröfu Íslendinga þangað til síðast í almennum viðræðum EFTA og Evrópubandalagsins. Með því móti látum við viðsemjendurna króa okkur af í meginhagsmunamáli Íslendinga.``
    Þetta sagði hv. þm. á þessum tíma. Beri menn þetta svo saman við þá túlkun á stöðu mála sem fram kemur á bls. 5 í nál. meiri hluta utanrmn. Það er Alþfl. og fulltrúa hans í utanrmn. ekki til mikillar vegsemdar að skrifa upp á slíka túlkun mála að því er varðar stöðu Sjálfstfl. á þessum tíma.
    Hér er það einnig reitt fram að fyrir kosningar til Alþingis í apríl 1991 hafi utanrrh. lýst því yfir að samið hefði verið um 98% þeirra úrlausnarefna sem voru á borði samningamannanna. Þetta er vissulega mjög sérkennileg túlkun á stöðu mála. --- Samið hafði verið um 98%.
    Sannleikurinn er sá að á þessum tíma hafði utanrrh. ekki samningsumboð frá þáv. ríkisstjórn. Ráðherrann hafði falast eftir því að geta gengið frá málum þar sem fyrirvarar voru felldir niður í velflestum atriðum í sambandi við samningana, en ekki fengið það frá samstarfsaðilum sínum í ríkisstjórn. Svo er reynt að láta það líta svona út, að þannig hafi staðan verið rétt fyrir kosningar 1991. Hins vegar þurfti ekki að bíða nema örfáa daga þegar bjarghellan mikla með lóðsinn, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, um borð, bjarghellan mikla var sest á stóla, þá fékk utanrrh. óskorað umboð ríkisstjórnar til að ganga frá samningnum þó allt væri komið fyrir borð sem hæstv. núv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson var að krefjast á haustdögunum 1989 að því er varðaði sjávarútvegsmálin og þann þátt í þessum samningum.
    Ég veit ekki hvort hv. þm. Björn Bjarnason er í kallfæri eða heyrir mál mitt. Það skiptir kannski ekki öllu máli, en ég vísa til nál. sem hann hefur mælt hér fyrir. Hann víkur að því með hvaða hætti staða mála hafi verið og vitnað er þar til Hannesar Hafsteins sem aðalsamningsmanns íslensku ríkisstjórnarinnar með þessum orðum, virðulegi forseti, með þínu leyfi:
    ,,Spurt hefur verið hvað verði um EES-samband Íslands við Evrópubandalagið ef önnur EFTA-ríki fara í EB.`` --- Og þar er vitnað til ummæla aðalsamningamanns með þessum hætti:
    ,,Á hinn bóginn er ljóst að stofnanaþættir samningsins verða að koma til endurskoðunar og einföldunar. Allir sem komið hafa að þessar samningsgerð gera sér grein fyrir þessu. Engin ástæða er til að ætla að Íslendingum mundi henta verr sú einföldum sem þá yrði gerð á stofnanaþættinum né að hagsmunum þeirra yrði þar verr borgið. Það kemur í ljós þegar þar að kemur. Þá verður samningurinn líka í reynd sá tvíhliða samningur sem sumir virðast óska eftir.``
    Litlu seinna í nál. er greint frá því að forsrh. hafi lýst yfir vilja ríkisstjórnarinnar til að kanna með bréfi og formlega hjá framkvæmdastjórn EB hver staða Íslands yrði á grundvelli EES kæmi til þess að önnur EES-ríki gengju í EB.
    Hins vegar greinir ekkert frá því að hæstv. forsrh. hafi komið þessari beiðni á framfæri við framkvæmdastjórnina, hvað þá að það sé upplýst hvaða undirtektir hafi orðið við slíkri orðsendingu. Hér er talað í hreinum véfréttastíl. Það mætti ætla að hér væri verið að beina orðum til þess hluta af Framsfl. sem virðist stefna að því eða hefur sér það til huggunar í sambandi við afstöðu til þessa máls, að úr þessu megi gera ósköp þokkalegan tvíhliða samning þegar önnur ríki eru hlaupin frá borði í samfloti EFTA-ríkja. Reyndar er þegar kominn brestur í það lið sem kunnugt er og menn þekkja. En til þess kunna refirnir að vera skornir.
    Hv. þm. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannes Geir, spyr hver sé afstaða mín í þessu máli. Það er ekki mitt að svara því sem hæstv. forsrh. átti að spyrja um til þess kannski að hugga einhverja góða framsóknarmenn. Ég vil þó segja þingmanninum það að ég hef ekki mikla trú á því að Evrópubandalagið afhendi Íslendingum á einhverju silfurfati nánast að kostnaðarlausu þann samning sem nú liggur fyrir efnislega utan stofnanaþáttarins og láti vera t.d. að biðja um eitthvað meira úr þeim sjóði sem þrátt fyrir allt er enn að finna á íslenskum fiskimiðum, innan landhelgi Íslendinga. Ætli hv. talsmaður Framsfl. í sjávarútvegsmálum þyrfti ekki aðeins að skoða jöfnunina og hvernig stendur með skiptin á veiðiheimildum áður en því kæmi með öðrum hætti en nú er gert.
    Það er sannarlega nokkuð sérstakt að ekki skuli vera haft fyrir því að senda þetta bréf og láta það fylgja með, heldur aðeins að það sé vilji ríkisstjórnarinnar að spyrjast fyrir. Þeir eiga kannski ekki fyrir frímerkjunum. Það kann að vera að fjmrh. komi í veg fyrir það.
    Í nál. er síðan vikið að norrænu samstarfi og stöðu norræns samstarfs með tilliti til þessa máls. Þar er fjallað um hlutina með þeim hætti sem við þekkjum nokkuð vel sem höfum verið starfandi á vettvangi Norðurlandaráðs, því þar hafa íslensku fulltrúarnir sem eru opnir fyrir þessum samningi ekkert látið sig muna um að taka undir þá vegferð sem ríkisstjórnir hinna Norðurlandanna, sem stefna inn í Evrópusamstarfið, eru að fara þvert á meirihlutavilja almennings á Norðurlöndum, utan Danmerkur sem er þegar í neti Evrópubandalagsins. Það eru ekki aðeins fulltrúar Sjálfstfl. heldur hefur einnig fulltrúi Framsfl. á þeim bæ í Norðurlandaráði ekkert látið sig muna um að taka eindregna afstöðu með samrunaþróuninni. Það kemur mér ekkert mjög á óvart að heyra um þá afstöðu sem hv. 1. þm. Austurl. hefur þegar túlkað á Alþingi eins og hann hefur ráðið atkvæði sínu í Norðurlandaráði á undanförnum missirum.
    Nú er það vissulega svo að Íslendingar munu auðvitað ekki ráða siglingu Norðurlandaráðs í þessu máli og munu ekki ráða fyrir afstöðu annarra Norðurlandaþjóða. En það ætti kannski ekki að vera hlutskipti okkar Íslendinga á vettvangi Norðurlandaráðs að ýta á eftir þessari siglingu, ýta á eftir þessari þróun og reyna að viðhalda þeirri blekkingu að norrænu samstarfi sé best borgið innan vébanda Evrópubandalagsins, eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson hefur m.a. skrifað upp á og greitt atkvæði með ályktunum þar að lútandi á vettvangi Norðurlandaráðs. ( ÖS: Meiri hluti þingflokks framsóknarmanna.) Virðulegur þingmaður, Össur Skarphéðinsson. Það er kannski best að vera ekki of veiðibráður í þessum efnum. Ég orðaði það svo fyrr í umræðunni að ég vildi ekkert fullyrða um það hvernig þingmenn réðu atkvæði sínu og það gildir jafnt um stjórnarliða og stjórnarandstæðinga aðra en þá sem þegar hafa greint frá því hver þeirra afstaða sé til þessa máls. Þeir eru nokkrir og því miður ekki allir á þann veg sem mér finnst skynsamlegt í þessu efni.
    Það er fullyrt í nál., með leyfi forseta:
    ,,EES-samstarfið er til þess fallið að styrkja norræna samvinnu ef rétt er á málum haldið. Stæðu Íslendingar utan við EES væru þeir jafnframt að einangra sig frá stórum og mikilvægum þáttum í norrænu samstarfi. Slíkt er að sjálfsögðu mjög varasamt.`` --- Segir í nál.
    Þetta eru slíkar blekkingar sem hér eru á ferðinni sem vissulega er haldið fram af forustumönnum á Norðurlöndum í þeim ríkjum sem hafa þegar sótt um aðild að Evrópubandalaginu og eru að reyna að hugga sína umbjóðendur, almenning í löndunum, með að þeir ætli að viðhalda norrænu samstarfi þegar komið er inn fyrir múra Evrópubandalagsins. Nei, ætli það verði ekki annað sem dregur menn þar í dilka, hvort sem er á vettvangi ráðherraráðs eða á vettvangi Evrópuþingsins. Ég er hræddur um að það verði ekki samnorræn afstaða sem þar ráði ferðinni og ég held að menn ættu ekki að blekkja sig með því að þar séu skapaðir möguleikar, eins og sumir halda fram, jafnvel betri möguleikar til þess að halda utan um norrænt samstarf á vettvangi EES en nokkurn tímann hefur verið á hinum samnorræna vettvangi sem við þekkjum.
    Í nál. meiri hlutans er síðan rakið efni frv. og hið mikla umfang þessa samnings sem hér um ræðir og ætla ég ekki að rekja það út af fyrir sig sérstaklega en staldra við þar sem komið er að stofnunum hins Evrópska efnahagssvæðis og áhrifum þess að tengjast efnahagssvæðinu að því er varðar m.a. lagasetningarvald og stöðu Alþingis í því samhengi. Þar segir, virðulegur forseti, á bls. 10, með þínu leyfi:
    ,,Í 3. gr. frv. er að finna skynsamlega og nauðsynlega reglu varðandi lögskýringu og takmörkun á skýringarreglu greinarinnar. Af ákvæðum 3. gr. ræðst að engar kvaðir eru lagðar á Alþingi varðandi framtíðarlagasetningu vegna EES.``
    Þetta er einhver gróflegasta fölsun, virðulegur forseti, sem ég hef fundið í nál. Hér er verið að vitna til lagagreinar sem í rauninni leggur Alþingi og íslensku löggjafarsamkundunni það á herðar að standa að lagasetningu þannig að ekki brjóti gegn lagasetningu Evrópubandalagsins sem meginviðmiðun. Hefur það vissulega legið fyrir og liggur fyrir í sjálfum samningnum að þannig liggja málin. Að ætla að halda því fram að engar kvaðir séu lagðar á Alþingi varðandi framtíðarlagasetningu með því að undirgangast þennan samning er að snúa málunum talsvert rækilega á haus því staðan í þessu efni er auðvitað sú að því er varðar meiri hluta þeirra málasviða sem fjallað er um á Alþingi og íslensk löggjöf tekur til, þá erum við búin að binda okkur hvað snertir meginstefnu að því er varðar löggjöf og getum kannski aðeins leyft okkur þann munað í einstökum undantekningartilvikum að reyna að andæfa gegn þeim lögum sem Evrópubandalagið eitt hefur heimild til að gera tillögur um, bera fram og setja.
    Ég hef orðið var við það að margir utan þings, sem ekkert er undarlegt, hafa ekki áttað sig á þeirri staðreynd að á samningssviðinu, sem tekur til mikils meiri hluta af ákvæðum byggðum á Rómarsamningnum og afleiddum ákvæðum, allt að 80% af samningssviði hvað snertir umfang Evrópubandalagsins, er verið að binda Alþingi Íslendinga hvað snertir meginstefnu. Löggjafinn á þessu samningssviði er ekki lengur Alþingi nema hreint að forminu til heldur er 17 manna framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins í Brussel, embættismenn, óbundnir af þingræðislegu valdi. Þetta er fámennisveldi. Ég veit ekki

hvort mætti kalla það menntað einveldi. Ég treysti mér ekki til að gefa því einkunnina menntað einveldi því ég held það verðskuldi ekki að fá samjöfnuð við menntað einveldi í Mið-Evrópu á fyrri öldum sem svo var kallað á dögum Friðriks mikla. Þetta eru starfsmenn, fulltrúar stóriðnaðarins í Evrópu, stórfyrirtækjanna í Evrópu, fjölþjóðafyrirtækjanna í Evrópu, sem þarna ráða lögum og móta stefnu. Þing Evrópubandalagsins hefur aðeins orð að því er varðar fjárlögin. Eina málið sem þeir geta haft einhver teljandi áhrif á fyrir utan samninga af því tagi og hér um ræðir, þ.e. samninga við önnur ríki.
    Það eru þessir kostir sem Alþingi og öðrum löggjafarsamkomum EFTA-ríkjanna sem gerast þarna þátttakendur eru búnir. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem talaði fyrir nál. í gær var að tala um nauðsyn þess að vernda þingræðið. Margt má nú segja og koma síðan sem stuðningsmaður þessa máls þar sem búið er að þingræðinu eins og raun ber vitni. Auðvitað er reynt að breiða yfir þennan kjarna í stöðu málsins í áliti meiri hluta utanrmn. vegna þess að þetta er hlutur sem má ekki sjást. Í staðinn er hér brugðið upp huliðshjálmi með þeim orðum að engar kvaðir séu lagðar á Alþingi varðandi framtíðarlagasetningu vegna EES. Hafa menn séð það skrautlegra?
    Síðan gengið var frá efni þessa samnings sem tengist því frv., sem er raunar ekkert frv., sem hér er til umræðu um mánaðarmótin júlí/ágúst 1991 hefur Evrópubandalagið samþykkt á þriðja hundrað gerðir. Við getum kallað það lög eða reglugerðir. Það er verið að þýða þessi bindandi ákvæði innan Evrópubandalagsins með nýyrðinu, gerðir. Það bíður hinna sameiginlegu nefndaraðila, ef þessi stofnun EES verður að veruleika, að fjalla um þennan bunka sem þarna bíður og ekkert verður undan vikist og mikill meiri hluti varðar þetta svæði. Ég er ekki að segja að þarna séu einhver stórtíðindi á ferðinni. Ég hef ekki kynnt mér nákvæmlega efni þessara gerða sem liggja fyrir. Því hefur verið safnað í bók og var út gefið 18. nóv. sl. gróft yfirlit um þetta. En svo mikið er víst að þarna er á ferðinni á mótunarstigi, að vísu ekki alveg frágengið, ein gerðin sem snertir hagsmuni nágranna okkar í Noregi, þ.e. gerð varðandi olíumálefni og olíuvinnslu, sem er þess eðlis að forsætisráðherra Noregs og talsmenn norsku ríkisstjórnarinnar, sem er harla blíð þegar Brussel er annars vegar og hefur beygt sig djúpt og hneygt, hafa þegar orðið að lýsa því yfir að þeir muni beita neitunarvaldi gegn þessu sem er á leiðinni frá Brussel sjái þeir sig tilknúna til þess. Það verður eitt af því sem tekist verður á um því ekki mun það ganga hljóðalaust fyrir sig.
    Ég held það sé hollt fyrir þingið að átta sig á því hvernig framhaldið verður. Þetta er ekki eitthvert mál sem við afgreiðum á Alþingi og búið. Ó, nei. Hér verður um að ræða stöðugt samningaþóf við Evrópubandalagið. Ef við ætlum að reyna að verja okkar hagsmuni að einhverju leyti, þá verður hér stöðugt viðvarandi samningaþóf við Evrópubandalagið varðandi lög sem koma í stríðum straumi frá Brussel og heimtað er að Alþingi stimpli. Ef það stimplar þau ekki --- hvað þá? Þá koma gagnaðgerðir. Þá metur Evrópubandalagið það. Þá setur það upp spennitreyjuna, þumalskrúfuna, gagnvart þeim löndum sem voga sér að segja nei við þeim lögum sem Evrópubandalagið eitt ræður.
    Því það var í kröfugerðinni og hæstv. viðskrh. man vafalaust eftir að það var eitt í nestispakkanum sem hæstv. utanrrh. hafði með sér á sínum tíma ásamt fulltrúum annarra EFTA-ríkja að því er snerti tök EFTA-ríkjanna varðandi lagasetningu sem lagt var upp með. Það var ekki þetta kerfi. Það sem lagt var upp með í mars 1989 var ekki þetta færiband, ó, nei. Markmiðið var að verða þátttakandi í lagasetningu, að öðlast vald varðandi lagasetningu þannig að um sameiginlega lagasetningu EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins væri að ræða. En þegar á undirbúningsstigi málsins, ég held það hafi verið 23. nóv. 1989, var kveðið upp úr um það af ráðherrum Evrópubandalagsins að ekki kæmi til mála, það væri bara ekki til umræðu að EFTA-ríkin fengju aðild að lagasetningarvaldi Evrópubandalagsins. Og voru það ekkert minni tíðindi en fríverslun með fisk, hinn pólitíski aðgöngumiði sem var í feita letrinu í fjölmiðlunum í mars 1989, en hæstv. utanrrh. upplýsti í umræðu í gær að hefði bara verið plat og hefði bara aldrei staðið til. Það hefði bara verið skraut á tertunni að setja fram kröfuna um fríverslun með fisk og honum aldrei dottið í hug að það fengist. Hann upplýsti það, sem var nýtt fyrir mér og ég bið þá sem fylgdust með þessu máli í ríkisstjórn að rifja upp, að það hefði komið neitun við þessari kröfu þegar í ársbyrjun 1990. Ég reyndi að fylgjast með þessu máli á þeim tíma og man ekki betur en við í utanrmn. á þeim tíma og Evrópustefnunefnd fengjum ekki að vita um þá neitun af hálfu Evrópubandalagsins fyrr en í nóvember 1990, að krafan um fríverslun með fisk væri neitun og þvert nei af hálfu Evrópubandalagsins, en ekki í ársbyrjun eins og hæstv. utanrrh. orðaði það. Það er svo sem ekki stórt atriði þó ég nefni það hér.
    Svo er kafli í áliti meiri hluta utanrmn. um þjóðhagsleg áhrif EES-samningsins og þar er ekkert verið að skafa utan af því hvers konar guðsblessun þetta sé sem hér er á ferðinni. Það eru reiddar fram tölur frá Þjóðhagsstofnun og það er fabúlerað. Það er spunninn lopinn og endað með því að reiða fram töluna 6 milljarðar --- gjörið svo vel, veskú 6 milljarðar kr. er hagurinn af því á ári hverju að tengjast Evrópsku efnahagssvæði. Lækkun vaxta, aukinn kaupmáttur, 2--3%, og gull og grænir skógar með viðlíka hætti. Mikil er trú þeirra sem þarna halda á penna. Mikil er trú þeirra að þessu leyti. Ætli væri ekki rétt að doka við að reikna og reiða fram tölur af þessum toga? Ætli væri ekki rétt að gera það og bíða aðeins eftir reynslunni af þessum samningi? Það verður sjálfsagt erfitt að greina í sundur hvað má rekja til hins Evrópska efnahagssvæðis, hvort sem það er hnignun, plús eða mínus, þegar þar að kemur. Kannski er það í trausti þess að menn eru með gyllivonir af þeim toga sem hér er um að ræða.
    Ég held að staðan sé nefnilega þannig, virðulegur forseti, að hér sé á ferðinni ósköp svipuð gylling og varðaði álmálið sem hæstv. viðskrh. man kannski eftir, þó það liggi talsvert langt til baka, þegar hæstv. ráðherra var að reiða fram það gull og þá grænu skóga sem ættu að tengjast því ef tækist að koma álbræðslunni á Keilisnesi á koppinn. Það var ekkert minna en svo að þar var komið ígildi alls þorskstofnsins eins og hann er reiknaður núna. Það var ekkert minna að því er snerti upp úr sjó . . .   ( Gripið fram í: Tonn á móti tonni.) Tonn á móti tonni var það eins og hv. þm. og þjóðin man kannski sem þarna var von á. Það er mesta furða að menn skuli þó ekki vera verr staddir þjóðhagslega á Íslandi en raun ber vitni fyrst þessi happdrættisvinningur gekk ekki eftir.
    Hin huglægu áhrif af áróðrinum hvað þetta mál snertir og hins vegar álið eru kannski ekkert ólík. Þ.e. það er búið að halda þjóðinni í þrjú ár í þeirri trú að efnahagslega vinninginn sé að sækja í hið Evrópska efnahagssvæði. Ætli þessi síbylja hafi ekki haft sín áhrif á frumkvæði manna hérlendis og í spurningunni um að leita að möguleikum til þess að styrkja atvinnulíf og efnahag í landinu með hliðstæðum hætti og áldraumurinn virkaði lamandi á efnahagsþróun og atvinnuþróun í landinu á meðan sá söngur var kyrjaður í heilan áratug? Því hann upphófst árið 1983 og var meginstef að því er varðaði atvinnuþróun í landinu öll árin síðan þar til að svo fór að meira að segja hæstv. iðnrh. er hættur að minnast á málið. Og þá er nú fokið í flest skjól.
    Já, virðulegur forseti. Það er margt sem má gera athugasemdir við í áliti meiri hlutans. Hér er sérstakur kafli sem varðar stjórnarskrána og EES-samninginn. Þar er verið að halda því fram af meiri hluta utanrmn. að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafi látið kanna hvort einhver ákvæði EES-samningsins brytu í bága við íslensku stjórnarskrána. Hv. þm. Björn Bjarnason hefur kyrjað þetta um allnokkurt skeið og skrifaði um þetta kjallaragrein í blöð á sínum tíma. Hálmstráið sem hann er að halda í hérna að þessu leyti er svar utanrrh. í mars 1991 við beiðni þingflokks Sjálfstfl. um skýrslu varðandi stöðu samningaviðræðna. Þetta er greinargerðin og afstaðan sem þarna á að liggja fyrir. Staðhæfing utanrrh. var vissulega sú að það væri ekkert athugavert við málið frá íslensku stjórnarskránni. En að halda því fram að íslenska ríkisstjórnin hafi látið kanna hvort einhver ákvæði EES-samningsins brytu í bága við íslensku stjórnarskrána er mjög frítt farið með veruleikann.
    Ég óskaði eftir því að það yrði kannað hvar þessi greinargerð lægi í forsrn. eða í utanrrn. eftir að hv. þm. Björn Bjarnason reiddi fram þennan stóra sannleik fyrir hálfu ári eða svo. Svörin sem ég fékk voru: Enga slíka úttekt að finna. Ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. getur leyst málið, hvort þetta er einhvers staðar niður í kistu svo innarlega í búri að embættismenn komist ekki að þessu. En ég hef grun um að það sem verið er að byggja

á sé þetta svar utanrrh. í skýrslu í mars 1991.
    Hitt er svo annað mál að hæstv. þáv. ríkisstjórn gerði ekki hlutlægu athugun á málinu sem þörf hefði verið á og sá sem hér talar m.a. hafði vakið athygli á að nauðsyn væri að gera vegna þess að það stefndi í það ljóslega, að mínu mati, á þessum árum að samningurinn stangaðist á við ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Í áliti mínu sem fulltrúi Albþ. í Evrópustefnunefnd, sem þingflokkurinn fjallaði einnig um, tiltók ég ákveðnar greinar og rökstuddi það að þessi samningur gengi a.m.k. gegn ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar þannig að þörf væri á að því máli væri gaumur gefinn.
    Síðan vék framsögumaður meiri hlutans að álitum einstakra umsagnaraðila. Þar kemur m.a. fram hvernig hægt er að túlka mál þannig að misskiljist því hv. þm. lýsti því svo að það væri bara einn umsagnaraðili, BHMR, sem hefði í rauninni lýst andstöðu sinni við samninginn. Aðeins einn umsagnaraðili stendur hér, virðulegur forseti, treysti sér ekki til að mæla með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Þannig er það orðað. --- Treystir sér ekki til að mæla með. Það þýðir væntanlega að hinir mæltu með. En sannleikurinn er sá að það er leitun að þeim umsagnaraðilum sem mæltu með þessum samningi. Síðan kom formaður utanrmn. í framhaldi af þessu og fór að vitna í afstöðu Alþýðusambandsins. --- Hér er kominn formaður utanrmn. Ég hef saknað formannsins þegar ég hef verið að fjalla lið fyrir lið um álit meiri hluta utanrmn. og gert þar fjölmargar athugasemdir sem þingmaðurinn hefur vonandi heyrt, í hliðarsal eða annars staðar, því ég gerði ráð fyrir að þingmaðurinn fylgdist með umræðu um málið. Það er aðeins rétt að víkja að þessum sérkennilegu túlkunum á afstöðu m.a. fjöldasamtaka eins og Alþýðusambands Íslands í þessu máli.
    Hvernig ætli þetta mál líti út? Starfsmenn og embættismenn hjá Alþýðusambandi Íslands hafa verið að víkja að málinu alveg fram undir þetta. Það er auðvitað þeirri góði réttur að gera það, en þá vantar bara stuðning frá Alþýðusambandinu. Alþýðusambandið er ekki einstakir starfsmenn uppi á kontór á Grensásvegi. Það er ekki Alþýðusamband Íslands. Forseti Alþýðusambands Íslands, sá mæti maður fyrr og síðar, er ekki Alþýðusamband Íslands. Alþýðusamband Íslands er stofnunin með sitt þing og með sína stjórn. Auðvitað getur miðstjórn sambandsins talað og túlkað mál út frá sínu viðhorfi en hvorki miðstjórn Alþýðusambandsins né sambandsstjórn Alþýðusambandsins skrifuðu nokkurn tímann upp á þennan samning sem sitt álit. Það var nefnd sem var að undirbúa málið fyrir ASÍ-þing sem skilaði áliti sem lá fyrir 37. þingi Alþýðusambandi Íslands. Þar segir, svo ég víki aðeins að kjarna þeirrar ályktunar, með leyfi forseta:
    ,,ASÍ telur EES-samninginn vera ásættanlega niðurstöðu fyrir Íslendinga sé litið á hann sem heild og miðað við að nauðsynlegar innlendar lagabreytingar og aðrar viðhlítandi ráðstafanir sem bent hefur verið á og einnig er fjallað um í þessari greinargerð nái fram að ganga. Hér er einkum átt við lagasetningu sem tengist réttindum launafólks, fasteigna- og landakaupum og nýtingu náttúruauðlinda. Þá telur ASÍ eðlilegt að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn og að öllum vafa varðandi samhengi stjórnarskrárinnar og EES-samningsins verði eytt.``
    Þetta er tillagan sem lá fyrir ASÍ-þingi, hugmynd að samþykkt. En hún fékk ekki byr hjá æðstu stofnun sambandsins.
    Hvað segir Alþýðusambandið um þetta mál? Þar er þessi tillaga rekin til baka. Það eru hugmyndir að stuðningi við málið, að vísu skilyrtum stuðningi sem lá fyrir í þessari tillögu, reknar til baka. Það eru tvær samþykktir um svokölluð Evrópumál frá ASÍ-þingi. Þær eru ekki langar og með þínu leyfi, virðulegi forseti, ætla ég að lesa þær upp.
    Hin fyrri heitir ,,Afgreiðsla á EES-samningi``:
    ,,37. þing ASÍ átelur þá afstöðu Alþingis að hafna kröfu fjölmargra félagasamtaka og einstaklinga að viðhafa þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og hvetur alþingismenn til að endurskoða afstöðu sína. Þingið bendir á að ýmis atriði samningsins eru með þeim hætti að vafi leikur á að þau séu í samræmi við stjórnarskrá og minnir alþingismenn á þá ábyrgð sem þeir hafa gagnvart stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.``

    Þetta er fyrri samþykktin. Hin síðari hefur yfirskriftina ,,Starf að Evrópumálum``. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,37. þing ASÍ telur brýnt að ASÍ, landssambönd og stéttarfélög vinni ötullega að því að mæta þeim breytingum sem fram undan eru á íslenskum vinnumarkaði, ekki hvað síst ef Ísland gerist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu.`` --- Ekki hvað síst ef Ísland gerist aðili.
    ,,Þingið leggur áherslu á að stjórnvöldum sé veitt öflugt aðhald. Ýmsar lagasetningar og aðgerðir sem skipta launafólk miklu máli fylgja aðild að EES ef af henni verður. Verkalýðshreyfingunni ber skylda til að fylgja því eftir að ekki sé gengið á réttindi launafólks. Þá kalla aukin samskipti við aðrar þjóðir á öflugt upplýsingastarf í verkalýðshreyfingunni.
    37. þing ASÍ telur að með starfi sambandsins að Evrópumálum hafi verkalýðshreyfingin náð verulegum árangri. Þingið felur miðstjórn að efla samstarfið við Evrópusamband verkalýðsfélaga, Norræna verkalýðssambandið og ráðgjafarnefnd EFTA til að koma sjónarmiðum íslenskrar verkalýðshreyfingar á framfæri.``
    Þetta er samþykktin og hér kemur formaður utanrmn. og túlkar það svo að það sé stuðning að sækja frá æðstu stofnun Alþýðusambands Íslands við þennan samning. Þetta er málflutningur satt að segja með fádæmum. Ef svo væri að það væri ár liðið frá því að um þetta var fjallað en svo er ekki. Það eru aðeins örfáar vikur síðan æðsta stofnun Alþýðusambands Íslands rak til baka tillögu um stuðning við samninginn. Rak til baka eins og hér hefur fram komið. Þannig er háttað með margar sögulegar útleggingar sem fram komu hjá hv. talsmanni meiri hluta utanrmn. og er að finna bæði í hans ræðu frá því í fyrradag sem og í nál. eins og ég hef bent á mörg dæmi um.
    Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að fara mikið lengra út í efni þessa nál. því ég þarf að koma að fleiri álitum sem liggja fyrir í þessu máli. Þá ætla ég að víkja næst að áliti 1. minni hluta utanrmn. Ég vildi biðja virðulegan forseta að gera viðvart þeim hv. þm. sem þar hafa um fjallað, hv. þm. Steingrími Hermannssyni og Páli Péturssyni, og einnig varaformanni Framsfl., hv. 1. þm. Austurl., a.m.k. láta þessa hv. þm. vita að ég er að fjalla um álit sem varðar Framsfl. Ég er ekki að gera neina kröfu til að þingmennirnir verði kallaðir til fundar ef þeir eru ekki í þinghúsi en ég sá hv. 1. þm. Austurl. í þingsal og geri ráð fyrir að hinir þingmennirnir séu ekki langt undan.
    Álit 1. minni hluta utanrmn. er vissulega ekki stórt að vöxtum eins og bent hefur verið á. Það er aðeins á tveimur blaðsíðum, einu blaði, álit 1. minni hluta, en það túlkar það meginviðhorf og þá meginniðurstöðu af hálfu þessara fulltrúa í utanrmn. að þeir munu leggjast gegn samningnum. Ein meginástæðan í rökstuðningi fyrir þeirri niðurstöðu þingmannanna er staðan gagnvart íslensku stjórnarskránni. Þó einnig sé vikið þar að ýmsum fleiri þáttum er það þó kjarnaatriði í rökstuðningi að samningurinn standist ekki íslensku stjórnarskrána og með vísan til þess sérstaklega sé útilokað annað en að greiða atkvæði gegn samningnum. Hins vegar er ekki svo að það virðist ætla að vera samhljóða niðurstaða framsóknarmanna á Alþingi að fylgja leiðsögn fulltrúa flokksins í utanrmn. því þegar hefur einn þingmaður flokksins greint frá því að hann sjái ekki ástæðu til að meta vafann að því er varðar íslensku stjórnarskrána meira en svo að hann ætlar að sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Það var athyglisvert að fylgjast með flokksþingi Framsfl. varðandi málið og er eðlilega vísað til þessa álits í ræðum og ritum bæði hv. framsóknarmanna og fleiri. Ég vildi vegna þess að ég sé ekki marga hv. framsóknarmenn nærstadda biðja virðulegan forseta að láta þá sem í þinghúsi eru, m.a. hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannes Geir Sigurgeirsson, sem var að óska eftir því að sérstaklega yrði vikið að afstöðu Framsfl. til málsins, og láta hann vita af því að ég er einmitt að fjalla um það efni. Ég trúi því varla að hv. þm. vilji vera utan þingsalar til þess að komast hjá því að vera við þessa umræðu sem varðar einmitt álit fulltrúa Framsfl. í utanrmn. --- Hér er kominn hv. þm. Guðmundur Bjarnason, mjög verðugur fulltrúi flokksins sem ekki hefur enn þá tjáð sig um afstöðu til málsins, en á vafalaust eftir að gera það innan tíðar í skýru máli eins og hans er vandi. Ég veit að hv. þm.

kann nokkuð vel samþykkt flokksþingsins en ég ætlaði einmitt að vitna til þeirrar samþykktar, með leyfi forseta. ( Forseti: Forseti vill láta hv. þm. vita að þeir menn sem hann óskaði eftir að yrðu látnir vita um ræðu hans hafa þegar verið látnir vita.) Ég þakka virðulegum forseta og vænti þess að þeir bætist hér við þann flokk sem þegar er í þingsal, hv. þm. Guðmund Bjarnason. En í ályktun þingsins segir m.a.:
    ,,Flokksþingið ítrekar samþykktir miðstjórnar Framsfl. sem nauðsynlegar lagfæringar á ýmsum efnisatriðum samnings um hið Evrópska efnahagssvæði.`` --- Þetta er samþykktin frá 2. og 3. maí 1992. --- ,,Sérstaklega leggur flokksþingið áherslu á að komið verði í veg fyrir kaup erlendra aðila á íslensku landi umfram það er nauðsynlegt er vegna atvinnureksturs og á öruggt eignarhald Íslendinga á orkulindum og bönkum. Þingið ítrekar þá afstöðu framsóknarmanna að veita ekki fiskveiðiheimildir í íslenskri fiskveiðilögsögu í stað viðskiptafríðinda. Flokksþingið leggur jafnframt áherslu á að þegar verði sú stefna mörkuð með samþykkt á Alþingi að leitað skuli eftir því að breyta samningi um Evrópskt efnahagssvæði í tvíhliða samning Íslands og Evrópubandalagsins strax og önnur EFTA-ríki hafa sótt um aðild að bandalaginu.`` --- Það er til að uppfylla þessa kröfu flokksþingsins sem hér er komin tillaga frá tveimur hv. þingmönnum Framsfl. sem tengjast þessu efni. Hins vegar er ekki tekið fram hvort það sé skilyrt að því er varðar afstöðu til málsins að það nægi að leggja fram þingmál að þessu leyti á Alþingi. Síðan segir:
    ,,Jafnvel þótt ofangreind atriði verði tryggð og efnishlið samningsins talin viðunandi telur flokksþingið vafasamt að það standist hina íslensku stjórnarskrá að framselja til eftirlitsstofnunar og dómstóls EFTA vald eins og gert er ráð fyrir í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði.`` --- Hvar er nú framsóknarþingflokkurinn staddur? Eru engir hv. þm. framsóknarmanna í þinghúsi, virðulegur forseti? ( Forseti: Forseti getur svarað því til að þeir eru allflestir staddir í húsinu og ég hef verið látin vita að þeir fylgist með umræðu.) Hér er hv. þm. Guðmundur Bjarnason kominn á ný í þingsal og kannski staldrar hann aðeins við, nema hann hafi verið að ýta við sínum mönnum.
    ,,Flokksþingið ber virðingu fyrir íslensku stjórnarskránni og telur að túlka beri allan vafa henni í hag. Flokksþingið telur því nauðsynlegt að breyting fari fram á íslensku stjórnarskránni áður en unnt væri að samþykkja aðild Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði.
    Flokksþingið leggur jafnframt áherslu á að allar vonir um hið Evrópska efnahagssvæði eitt og sér verði einhvers konar bjarghringur fyrir íslenskt atvinnulíf eru tálvonir einar. Ef íslenskt atvinnulíf er ekki sjálft sterkt mun það eiga erfitt með að nýta þá kosti sem samningnum kunna að fylgja. Staðreyndin er að erlent samstarf, eins og gert er ráð fyrir í umræddum samningi, getur orðið hættulegt íslensku fullveldi og sjálfstæði ef íslenskt atvinnulíf er veikt.``
    Þetta er tilvitnun í þann kafla samþykktar flokksþings, æðstu stofnunar Framsfl., sem varðar þetta efni og satt að segja hélt ég að ekki þyrfti lengur vitnanna við eftir að flokksþingið hafði afgreitt mál með þessum hætti en þingflokkur framsóknarmanna, allir sem einn, einhentu sér í andstöðu við þetta mál á Alþingi Íslendinga, mál sem að mati formanns flokksins og flokksþings stríðir gegn íslenskum hagsmunum og íslenskri stjórnarskrá með þeim hætti sem hér er sett á blað og samþykkt að mér skilst einróma á flokksþingi Framsfl. Ég held það hafi ekki verið nokkur hönd þar uppi á móti --- eða var svo, hv. þm. Guðmundur Bjarnason? Í einu hljóði samþykktu þeir þetta.
    Ég held að það þyki nokkur tíðindi á þeim bæ hjá þeim þúsundum sem veitt hafa Framsfl. brautargengi, m.a. á yfirstandandi kjörtímabili, ef það ætlar að verða niðurstaða hjá einhverjum hluta af þingmönnum Framsfl. hér á Alþingi að hjálpa þeim sem eru að bera þetta mál fram með því að sitja hjá við afgreiðslu málsins eins og varaformaður flokksins hefur þegar tjáð að verði niðurstaða hans í málinu. Ég er ekkert undrandi þó að hv. þm. Jón Kristjánsson þurfi að taka við allmörgum blaðagreinum og áminningum til þingmanna flokksins í gegnum flokksblaðið Tímann eins og lesa má þessa dagana, kveðjur og heitstrengingar til þingmanna Framsfl. þar sem þeir eru minntir á það hvað verið var að samþykkja. Þessar greinar eru mislangar, það er ein stutt sem birt var í Tímanum sem

hv. ritstjóri léð rúm í Tímanum 9. des. sl., undir fyrirsögninni ,,Ítrekun um EES``. Það er bóndi norður í Þingeyjarþingi sem heldur þar á penna og segir, með leyfi forseta:
    ,,Í samtali við dagblaðið Dag 17. október 1992 sagði ég m.a. um EES-samningagerð:
    ,,Ef það gerðist að þeir þingmenn, sem ég hef stutt til kjörfylgis, létu sér verða það á að samþykkja þennan samning, þá er það mitt mat að þeir hafi sýnt dómgreindarleysi um svo þýðingarmikinn grundvallarþátt að ég tel ekki hægt að lána þeim atkvæði áfram.``
    Við atkvæðagreiðslu 3. desember sátu 7 af 11 viðstöddum þingmönnum Framsfl. hjá við afgreiðslu hins viðsjárverðasta fylgifrumvarps EES. Eigi þetta að verða æfingarganga þess sem koma skal við lokafrágang málsins þá er þarna blautur hanski í andlit fjölmargra kjósenda, trúnaðarbrot og lítilsvirðing þeim sýnd.
    Formlega svara ég aðeins fyrir sjálfan mig en margir --- mjög margir --- munu hugsa eins: ``Þessa þingmenn kýs ég ekki oftar.``
    Enginn skal ætla að þessi orð séu ekki af fullri alvöru sögð.``
    Þetta er mjög skýr kveðja, þetta eru mjög skýr skilaboð til þingflokks framsóknarmanna í þessu afdrifaríka máli.
    Einum degi síðar birtist grein í Tímanum undir fyrirsögninni ,,EES-málið í nýju ljósi`` eftir Guðmund Jónas Kristjánsson, sem iðulega skrifar í flokksmálgagn Framsfl. Hið nýja ljós er það að samningurinn hafði verið felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss og þar er höfundur greinarinnar, Guðmundur Jónas Kristjánsson, að rifja upp samþykktir flokksþings framsóknarmanna og ítreka og draga fram þá niðurstöðu sína að auðvitað geti ekki komið til greina að þingmenn Framsfl. fari að veita þessu máli óbeinan stuðning með því að sitja hjá við afgreiðslu þess á Alþingi. Ég þarf ekki að lesa langt í mál þessa stuðningsmanns Framsfl. sem ég hygg að hafi setið þingið því hann tekur sérstaklega fram að það hafi ekki verið ein einasta athugasemd gerð við þá samþykkt sem ég vitnaði til áðan og hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Það er því ljóst að sá þingmaður Framsóknarflokksins sem nú færi að styðja samninginn um EES gengi þvert á hinar nýgerðu flokkssamþykktir. Óhugsandi er hins vegar að nokkur þingmaður Framsfl. geri slíkt. Allar sögusagnir um annað hljóta því að vera úr lausu lofti gripnar.`` --- Og hann víkur einnig að möguleikanum um hjásetu í þessu máli.
    Í sama blaði er áminning eftir öldung á Austurlandi sem heitir Sigurður Lárusson og hefur verið áhugamaður um sjálfstæðismál Íslands um langa hríð og iðulega beitt penna sínum og varað við og hvatt í þeim efnum og hann skrifar grein undir fyrirsögninni ,,Er sjálfstæði Íslands söluvara?`` Þar kveður við sama tón, þar eru sömu áherslurnar og aðvörunarorðin eins og ég hef þegar nefnt úr greinum annarra. Í dagblaðinu Tímanum 15. des. stígur fram á ritvöllinn fyrrv. ritstjóri Tímans og alþingismaður og formaður utanrmn. um hríð að ég hygg á liðinni tíð, Þórarinn Þórarinsson ritstjóri, og ritar þar undir fyrirsögninni ,,Þjóðin er æðri Alþingi``. Ég leyfi mér að vitna stutt í annars stutta en skýra grein ritstjórans í blaðinu. Hann víkur að atkvæðagreiðslunni 1944 varðandi lýðveldið, og segir:
    ,,Báðar tillögurnar voru samþykktar nær samhljóða [þ.e. tillögurnar um lýðveldisstofnun].
    Meginefni þessara atkvæðagreiðslna var það að færa æðsta valdið inn í landið.
    Síðan hefur engin breyting verið gerð á þeirri skipan.
    Nú liggur hins vegar fyrir Alþingi frumvarp um róttæka breytingu á þessari skipan. Samkvæmt því á að færa umtalsverðan hluta æðsta valdsins úr landi, eða verulegan hluta löggjafarvaldsins og talsverðan hluta framkvæmdarvaldsins og dómsvaldsins.
    Hér er átt við frumvarpið um Evrópskt efnahagssvæði.
    Það er tvímælalaust stærsta og örlagaríkasta mál sem hefur legið fyrir Alþingi síðan 1944.
    Eins og nú horfir getur forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, staðið frammi fyrir þeim vanda innan fárra daga að ákveða hvort hún á að veita því endanlegt samþykki eða vísa því til þjóðarinnar.

    Þetta er tvímælalaust stærsta ákvörðun sem íslenskur þjóðhöfðingi hefur þurft að taka.
    En hvers vegna hefur forsetanum verið fært þetta vald?
    Það er vegna þess að höfundar stjórnarskrárinnar hafa talið að þegar mest á reyndi væri vald þjóðarinnar æðra en vald þingsins og þess vegna ætti forsetinn að hafa vald til þess að skjóta málum til hennar.``
    Þetta er kjarninn í grein fyrrv. formanns utanrmn. Alþingis, alþingismanns um langa hríð og ritstjóra Tímans um ártugi, sem hér talar. Þannig er hægt að vísa til orðsendinga stuðningsmanna Framsfl. og trúnaðarmanna á liðinni tíð sem hafa tjáð sig með opinberum hætti og aðrir hafa kannski ekki sagt mikið upphátt en hugsað þeim mun fleira í þessu máli. Hvað ætli t.d. fyrrv. forseti sameinaðs þings, fyrrv. ráðherra og þingmaður um áratuga skeið, hugsi í þessu máli, Eysteinn Jónsson, þingmaður Austfirðinga? Ætli honum bregði ekki við að sjá hvað er að gerast á Alþingi þessa dagana ef hann hefði stöðu til þess að mæla á þinginu í þessu máli.
    Það er eðlilegt að málgagn utanrrh. hælist um eftir atkvæðagreiðsluna hér varðandi frv. um samkeppnislögin á dögunum þar sem verið var að greiða atkvæði um það sem er hvað mest ákvarðandi í sambandi við stjórnarskrárþátt þessa máls og þau brot á stjórnarskránni sem verið er að framkvæma með því að afsala dómstólum landsins valdi eins og gert er með eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstól svo dæmi sé tekið sem tengist þessum lögum. Ég held að það ætti að verða umhugsunarefni fyrir framsóknarmenn utan þings sem innan þegar farið er að skrifa með þeim hætti sem lesa má í leiðara Alþýðublaðsins, 10. des. sl.
    Við hljótum líka að minna á það með hvaða hætti Framsfl. hagaði máli sínu og áróðri sínum fyrir kosningarnar 1991. Hver var ein helsta uppistaðan í kosningaáróðri flokksins á þeim tíma sem sett var út með miklu flóði auglýsinga um afstöðu flokksins til Evrópubandalagsins? Var ekki viðlagið það að X-B er sama og ekki EB? Var það ekki kjarninn í þeim áróðri sem var sendur út á öldum ljósvakans frá kosningaskrifstofu Framsfl.?
    En hvað er að gerast nú á Alþingi? Að mati kjördæmisráða flokksins í sumum kjördæmum landsins er verið að stíga stórt skref inn í Evrópubandalagið og varaformaður flokksins hefur þegar lýst því yfir á Alþingi að hann hafi ætlað að styðja þetta, hann styðji það í raun efnislega þó hann kjósi að bera ekki pólitíska ábyrgð á því en ljái því samt brautargengi á Alþingi með því að sitja hjá við afgreiðslu málsins. Þetta er samhengi á milli orða og efnda, eða hitt þó heldur. Hvar er líftaug Framsfl. í sambandi við þjóðfrelsismál Íslendinga? Er búið að slíta á þá taug, er búið að rjúfa jarðsamband forustumanna Framsfl. með þeim hætti sem birtist í yfirlýsingum frá sumum talsmanna hans?
    Það tekur sárt þegar við blasa staðreyndir af þessum toga. En ég ætla sannarlega að vona að það verði ekki margir í þeirri sveit sem skipa sér þannig eins og varaformaður flokksins hefur lýst að hann kjósi að gera á Alþingi í sambandi við afgreiðslu þessa máls.
    Hv. 1. þm. Austurl. sagði síðla í ræðu sinni í gærkvöldi eitthvað á þá leið að þó það væri greinir með mönnum í þessu máli þá vænti hann þess að menn sameinuðust um það að leggjast á árar að gera hið besta úr því þegar þessi samningur væri komin í höfn með óbeinum stuðningi hans. Þá ættu menn að leggjast saman á árar.
    Ég átta mig satt að segja ekki á því með hvaða hætti menn skoða þetta mál. Halda menn að þetta mál sé af dagskrá eftir að samningurinn hefði verið samþykktur á Alþingi sem hugsanlega verður niðurstaðan? Halda menn að átökin við Evrópubandalagið séu af dagskrá? Ónei, þá tekur við hið stöðuga samningaþóf og átök við Evrópubandalagið um hagsmuni, m.a. um sjávarútvegshagsmuni okkar Íslendinga þar sem þannig er um hnútana búið að þeir geta árlega samningsbundið tekið það mál upp og knúið á um að fá meira af íslenskum fiskimiðum. Þá er ekki spurningin um hvort veiðiheimildirnar eru einhverjum prósentum meiri eða minni til eða frá. Það er satt að segja með ólíkindum hvernig menn skoða þetta mál. Og sem ég vænti að sé sannleikanum samkvæmt að það sé ekki hugur

framsóknarmanna að fara alla leið þá eru það blindir menn sem ekki sjá það og raunar tekið beint fram í nál. 1. minni hluta utanrmn. að verið sé að stíga stórt skref inn í Evrópubandalagið og taka stoðirnar úr vörnum okkar gegn því sem verður á dagskrá þegar á næsta ári og menn vissu fyrir kosningarnar 1995, ef þessi ríkisstjórn hangir þangað til, verður orðið dagskrármál í þjóðmálaumræðunni á Íslandi að fara alla leið. Hér eru þegar komnir þingmenn inn á Alþingi Íslendinga, eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem telja það allrar athugunar vert að skoða það mál opnum huga að fara alla leið inn í höfn Evrópubandalagsins í Brussel. Þegar þeir brestir eru komnir innan Kvennalistans sem vísa á það, ætli þurfi mikið til að vekja upp þær raddir sem hafa verið grunntónninn í viðhorfum alþýðuflokksmanna um áratugi og þá fylkingu innan Sjálfstfl. sem ætlar sér inn í Evrópubandalagið þó hún hafi hljótt um sig um sinn af taktískum ástæðum.
    Ætlar Framsfl. að efna kosningaloforðin og áheitin með þeim hætti að taka styrkinn úr vörnunum gegn því að þetta verði niðurstaðan, með því að stíga stórt skref og innbyrða á einu bretti mikinn meiri hluta af lagasafni og gerðum Evrópubandalagsins sjálfs? Ég held að menn ættu að athuga sinn gang og ég held að menn ættu að átta sig á því að sá fleinn, sem rekinn er inn í stjórnmálalíf á Íslandi með þessum samningi, á eftir að verða fleinn í holdi þessarar þjóðar og átakamál í landinu áframhaldandi og sú orrusta sem verður er skemmra undan en marga grunar um inngöngu í Evrópubandalagið sjálft.
    Kem ég þá, virðulegur forseti, að áliti 2. minni hluta utanrmn. sem ég leyfði mér að mæla ögn við í orðaskiptum hér í gær eftir að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði mælt fyrir álitinu. Um það álit mætti sannarlega býsna margt segja því að öllu sérkennilegri samsetningu hef ég ekki séð og andstæður á milli rökstuðning annars vegar og mats á máli þar sem er mat hv. þm. á þessum samningi rakið á einum 16 síðum í þessum nál. og síðan niðurstöður málsins þar sem er eins og tveir ólíkir persónuleikar haldi á penna. Þingmaðurinn fyllir fyrri síður nál. með því að tíunda ávirðingar Evrópubandalagsins, skerðingar á grundvallarviðhorfum Kvennalistans m.a., en boðar það síðan sem niðurstöðu sína að hún styðji málið efnislega og sé opin fyrir því að skoða inngöngu í sjálft Evrópubandalagið. Þetta er satt að segja hugarheimur sem er mjög erfitt að botna í og dálítið átaksillt viðfangsefni og ekki síst hvað það er nú sem knýr þennan hv. þm. til þess að snúa við blaðinu með þeim hætti sem gert er og ganga gegn meginsjónarmiðum í sínum flokki sem hafði þá sérstöðu að mæla einum rómi opinskátt allan tímann gegn Evrópsku efnahagssvæði þar til þingmaðurinn tók sitt heljarstökk. Ég gæti vitnað í alllöngu máli, virðulegi forseti, í ræður, viðtöl við þennan hv. þm., rit og þingræður hv. þm. hér á Alþingi á undanförnum árum og alveg fram á síðasta sumar þar sem gagnrýnin á Evrópskt efnahagssvæði er grunntónninn. Það er vissulega rétt hins vegar að þingmaðurinn var farinn að taka ,,intermezzo`` í þessu máli sem vakti furðu ýmissa sem fylgudst með því, t.d. þegar hún gerðist talsmaður eða tók undir með framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins í apríl sl. í sambandi við spurninguna um inngöngu í Evrópubandalagið, taldi sig fá alveg nýja sýn, hugljómun, nú yrði að fara að taka það mál til opinnar lýðræðislegrar umræðu og velta því öllu upp rétt eins og menn hefðu ekki verið að skoða það mál allan tímann, rétt eins og menn væru fyrst að fara að líta á hagana hjá Evrópubandalaginu á þeim tíma og hún ætlaði að breyta til og væri sú sem vildi nú opna þetta til opinnar og lýðræðislegrar athugunar.
    Í nóvember fyrir ári síðan rakti hv. þm. ávirðingar hins Evrópska efnahagssvæðis í þingræðu, 5. nóv., og menn geta auðvitað kynnt sér það. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, rétt aðeins að vitna þar til orða: ,,Það sem ég óttast kannski öðru fremur er aukin samkeppni erlendra fyrirtækja við íslensk fyrirtæki og aukin og ómæld fjárfesting erlendra aðila hér á landi,`` segir þingmaðurinn.
    ,,Við getum líka tekið erlend þjónustufyrirtæki sem munu koma hingað til lands. Auðvitað er ákveðin hætta á því að þessi þjónustufyrirtæki leggi starfsemi sína niður, þegar þau eru búin að ná hér ákveðinni fóstfestu á markaðnum, þau líti svo á að þetta sé ekki hagkvæmur markaður, enda búa hér ekki nema 250.000 manns og þá geta þau auðvitað lagt niður starfsemi sína eins og hvert annað óhagkvæmt útibú. . . .   Sjónarmið af því tagi, sem

ég er hér að færa fram, hafa stundum verið kölluð músarholusjónarmið, sem er ekki málefnalegt innlegg í umræðuna. En ég verð þó að segja það mér finnst betra að vera ákærð um músarholusjónarmið og hafa jarðsamband heldur en að stunda einhverja háloftaleikfimi sem getur virst glæsileg úr fjarska en endar oft, sérstaklega fyrir þá sem ekki kunna vel til verka, með falli og tilheyrandi beinbrotum.``
    Ég óttast að einmitt nú um stundir hafi þingmaðurinn lent í þessari háloftaleikfimi og má mikið vera ef hún sleppur óbrotin út úr þeim fimleikum. Og fjölmargt annað telur þingmaðurinn í þessari þingræðu sinni til ávirðinga hins Evrópska efnahagssvæðis og hið sama var uppi í þingræðu 17. des. sl., þ.e. fyrir réttu ári eða svo, þá segir þingmaðurinn, með leyfi forseta, í umræðu utan dagskrár, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:
    ,,Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær er ég spurð að því hvor kosturinn mér þætti betri ef við ættum aðeins tveggja kosta völ, þ.e. aðild að Evrópska efnahagssvæðinu eða að ganga í EB og þá segi ég, með leyfi forseta: ,,Mér finnst náttúrlega hvorugur þessara kosta góður en mér finnst í rauninni Evrópska efnahagssvæðið vera bara hálfgert skipulagslegt skrímsli og af tveimur vondum kostum kysi ég frekar inngöngu í EB  . . .  ````
    Og svo eru menn enn að velta vöngum yfir því hvert ferðinni sé heitið. Síðan gerist það að hv. þm. vill gerast liðsmaður lýðræðisvakningarinnar í Evrópu á sl. sumri og einkum á haustdögum með þeim hætti að fara að setja fram spurningarmerki við stefnu þingflokksins í sambandi við Evrópskt efnahagssvæði og túlkar þá afstöðu sína að vilja nú tengjast Evrópsku efnahagssvæði og taka upp stuðning við það mál sem stuðning við einhverja lýðræðisvakningu úti í Evrópu. Ja, þvílíkur rökstuðningur. Ætli það sé stuðningur við þá á Norðurlöndum og úti í Evrópu sem eru að reyna að verjast fjötrunum frá Maastricht eða brjóta af sér fjötra Evrópubandalagsins og Maastricht í Danmörku svo að ekki sé talað um þá á Norðurlöndum sem hafa verið að verjast inngöngu í Evrópskt efnahagssvæði og í Evrópubandalagið sjálft að gerast hér talsmaður inngöngu í Evrópskt efnahagssvæði og vilja skoða í fullri alvöru aðild að sjálfu Evrópubandalaginu? Er það stuðningur við lýðræðisöflin úti í Evrópu? Fyrr má nú vera að snúa hlutunum á haus og ég skil það ekki ef hv. þm. fær mikinn stuðning við slík sjónarmið hjá stjórnmálaafli sem hefur staðið býsna vel í fæturna í þessu máli þannig að athygli hefur vakið og varar einmitt við út frá sjónarmiðum kvenna og kvenfrelsis að ganga á vald því miðstýrða skrímsli sem hér er verið að setja á fót og tengja og sem stefnir inn í sjálft Evrópubandalagið, stórt skref inn í sjálft Evrópubandalagið.
    Í viðtali við morgunútvarpið 19. okt. skömmu eftir að sinnaskiptin urðu ljós segir hv. þm. þar sem spurt er, með leyfi forseta: ,,En fólk sem fylgist með stjórnmálum hefur veitt því athygli eða margir alla vega að þú hefur verið dálítið tvístígandi í þessu máli. Hvað gerði útslagið núna?`` Þingmaðurinn svarar: ,,Já, það er rétt hjá þér. Ég er búin að vera dálítið tvístígandi og það lengi og það má kannski líkja því við það að ég hafi setið á girðingunni milli já og nei með lappirnar sína hvoru megin í dálítinn tíma. Það sem gerir eiginlega útslagið núna er kannski það sem hefur verið að gerast í Evrópu í sumar. Þessi sterka lýðræðisbylgja sem hefur verið í Evrópu, lýðræðiskrafa, og ég hef sagt það að hún er ekkert ósvipuð þeirri lýðræðiskröfu sem kom upp í Vestur-Evrópu.`` Væntanlega er þetta misritun, á að vera Austur-Evrópu, ,,Sú krafa sem er að koma upp í Vestur-Evrópu núna og þar er fólk að berjast gegn miðstýringunni og það er alveg ljóst að ráðamenn í Brussel, þó þeir fegnir vildu búa til þarna eitt sambandsríki og auka miðstýringuna verulega þá er þeim ekkert stætt á því því að þeir hafa ekki fylgi fólksins til þess að gera það og mér finnst ég alveg sjá núna að EB er ekki þetta kyrrstöðufyrirbæri sem manni fannst kannski í vor.`` Þetta er leiðsögnin frá fulltrúa Kvennalistans í utanrmn. Og allt endurómar þetta nál. 2. minni hluta utanrmn. þessa undarlegu stöðu þingmannsins á girðingunni sem hefur nú orðið þannig að hún hefur velst af girðingunni yfir í pyttinn miðstýringarmegin með efnislegum stuðningi við hið Evrópska efnahagssvæði og vísar öðrum fremur inn í höfnina, Evrópubandalagið, með þeim hætti sem menn geta lesið í nál. sjálfu sem og í ræðum hv. þm. og túlkun hennar á þessu máli.
    Ég verð að segja að þessi niðurstaða er að mínu mati mjög dapurleg og ekki síst

vegna þess að hún kemur á þeim tíma þegar þörfin til að fylkja liði gegn því sem hér er að gerast er meiri en nokkurn tíma fyrr. Þeim mun tilfinnanlegra er það þegar krosstré, sem talin hafa verið, bresta þeim mun tilfinnanlegra og afdrifaríkara getur það orðið og ég verð að lýsa yfir verulegri hryggð með það að sjá annars gildan talsmann félagslegra sjónarmiða missa átta með þeim hætti í afdrifaríku og örlagaríku máli sem er hér til meðferðar á Alþingi og á eftir að verða viðfangsefni okkar, ekki bara nú í bráð heldur vafalaust einnig í lengd ef að líkum lætur.
    Virðulegur forseti. Ég hef fjallað um nál. fulltrúa utanrmn. annarra en talsmanns Alþb. sem túlkar viðhorf okkar í þessu máli með þá meginniðurstöðu sem Alþb. hefur tekið og kunngert fyrir allnokkru síðan og þingflokkur þess, hvernig þingmenn flokksins munu ráða atkvæði sínu í þessu máli. Það er engin tilviljun hvernig Alþb. mótar sína stefnu í þessu. Það var eftir mikla umræðu í flokknum og með breiðri þátttöku í þeirri umræðu sem Alþb. tók þá afstöðu sem hér um ræðir og hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson var að óska sér að yrði einnig hlutskipti Framsfl. eða gæti orðið það ef ég hef skilið frammíköll hans hér rétt skömmu eftir að ég hóf mál mitt eftir kvöldmat. Ég hélt satt að segja að niðurstaðan eða málafylgja flokksþings Framsfl. vísaði í sömu átt en því miður ætlar það ekki að verða að heilsteypt niðurstaða verði af hálfu þingmanna flokksins ef marka má það sem þegar er fram komið. En þeir sem hafa fylgst með umræðu og ályktunum Alþb. í þessu máli allan þann tíma, sem þetta mál var til meðferðar á athugunarstigi, þurfa ekkert að vera undrandi á þeirri rökstuddu niðurstöðu sem þingflokkur Alþb. hefur komist að í þessu máli. Það væri sannarlega fagnaðarefni ef eins hefði verið tekið á málum efnislega af öðrum flokkum hér á Alþingi þannig að sú niðurstaða sem menn komast að sé vel undirbyggð, vel rökstudd og þar sem saman fari orð og æði, þ.e. orð og niðurstaða máls en ekki eins og það birtist okkur hjá þingflokkum sem mæta með mismunandi túlkun og mismunandi viðhorf til þessara mála.
    Hvað sem þessu líður hins vegar, virðulegur forseti, þá verðum við enn að vænta þess að hér á Alþingi megi safna liði gegn þessum óheillasamningi sem hér er verið að reyna að knýja fram því að enn er nokkur tími til stefnu. Þessu máli verður ekki ráðið til neinnar ákvörðunar í tilefni þessa þingmáls sem hér liggur fyrir og hér er rætt. Það eiga eftir að koma önnur mál fyrir þingið þar sem reynir á lokaafstöðu til þessa máls og þannig er enn nokkurt ráðrúm. Ég vona að hv. alþm. beri gæfu til þess að meiri hluta til að vísa þessu máli frá og noti þann tíma og það ráðrúm sem enn er til að komast að þeirri niðurstöðu sem að mínu mati er ein í samræmi við hagsmuni Íslendinga bæði í bráð og ekki síður í lengd.
    Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.