Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 22:09:02 (3654)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Í áliti meiri hluta utanrmn. kemur fram sú staðreynd að aðeins einn umsagnaraðili, BHMR, lýsti andstöðu við þátttöku Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu. Þessu verður ekki mótmælt, þetta er staðreynd og liggur fyrir. Ef hv. þm. vill kynna sér þessar umsagnir þá getur hann gert það og það kemur í ljós að aðeins einn aðili, BHMR, lagðist gegn því Ísland gerist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Þessi staðreynd er ítrekuð í okkar áliti og er ekkert um það frekar að segja. Það liggur alveg ljóst fyrir.
    Varðandi afstöðu Alþýðusambandsins, þá liggur hún einnig skýr fyrir og við höfum báðir lesið þá ályktun og menn geta dregið sínar niðurstöður af því. En ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt í orðræðum við hv. þm. um þetta mál að ég virði hans skoðanir. En við skulum minnast þess að þessar skoðanir eru hér á Alþingi og á vettvangi Norðurlandaráðs, þar sem hv. þm. lætur oft að sér kveða um þetta mál, algerar sérskoðanir, alger sérvitringssjónarmið varðandi þátttöku þjóða í samstarfi Evrópuríkjanna. Og það vakti athygli mína í þessu langa máli hv. þm. að hann bauð aldrei upp á neinn annan kost. Hann hefur engan annan kost. Ef hann vísar til ályktana þings Alþb. þá er sá kostur sem þar er boðið upp á samvinna við Evrópubandalagið á þeim forsendum sem lagðar eru í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það er alveg ljóst --- og einnig að tvíhliða samningurinn, sem Alþb. vill að gerður verði við Evrópubandalagið, er efnislega alveg samhljóða samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Hv. þm. skýrði ekki afstöðu sína til 3. minnihlutaálitsins og hefði verið mjög fróðlegt að heyra um það og heyra hans sérskoðanir á því áliti eins og öllum hinum og aðeins það hefði verið staðfesting á því að hér á Alþingi eins og á þingi Norðurlandaráðs er hann algerlega í sérhópi sem sérvitringur í þessu máli.