Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 22:20:16 (3661)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hefði sannarlega kosið að hér væri tími og ráðrúm undir þessu formi andsvara til þess að taka upp viðræður við hv. þm. um það efni sem hún var að fitja upp á. Ég efast ekkert um það að við lítum nokkuð misjafnt á heiminn og stöðu Íslendinga í heiminum eftir það sem fram er komið hjá hv. þm. Ég tel mig ekki vera einangrunarsinna að því er varðar samskipti Íslands við aðrar þjóðir. Ég tel hins vegar að smáþjóð eins og Íslendingar þurfi að gæta sín við hvert fótmál í alþjóðlegum samtökum og gæta þess alveg sérstaklega að ganga ekki í fang ólýðræðislegra samtaka og risa sem lúta óbeisluðum lögmálum sem ég held að séu smáþjóð ekki til farsældar.
    Ég er alveg viss um að hv. þm. þekkir gangverk Evrópubandalagsins og hefur kynnt sér það. Ég tel ekki að hagsmunum Íslendinga sé borgið með þátttöku í slíku. Ég tel að smáþjóðin Íslendingar með gnótt náttúruauðæfa og góða möguleika til þess að lifa í landinu án þess að binda sig í stór bandalög og láta taka af sér ráðin með þeim hætti sem hér er verið að gera eigi góðan hlut án þess að ganga þessu á hönd. Það má kalla það þjóðernishyggju. Ég mundi vilja skýra það með vissum hætti sem trú á það að Íslendingar geti haldið sínu án þess að afsala sér sjálfræði með þeim hætti sem hér er verið að gera.