Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 22:22:12 (3662)

     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hér greinir okkur þingmanninn greinilega á um það hvort Íslendingar séu að afsala sér sjálfræði með þessu máli eða ekki. Ég lít ekki svo á og ég held að það sé alveg óþarfi að líta þannig á málið.
    Ég vil enn þá koma inn á þetta með vinstrimennskuna því hann tilheyrir félagshyggjuflokki sem er Alþb. og mér finnst dálítið sérkennilegt þegar þingmaðurinn stillir málinu alltaf þannig upp að allir þeir sem vilji taka þátt í þessari samrunaþróun í Evrópu sé með einhverjum hætti að púkka undir stórauðvaldið í heiminum. Við verðum að athuga að þessi umræða á sér stað t.d. í öllum félagshyggjuflokkum. Ég get bent honum á greinar

sem birtast í Dagens Nyheter sem er um Vänsterpartiet í Svíþjóð þar sem fer fram heilmikil umræða um þessi mál og menn greinir mjög á. Ég veit ekki betur, ef við tökum t.d. ítalska vinstri menn, en að þeir hafi verið einna ákafastir í EB-samstarfinu. Það er því mjög margbreytileg flóra í þessum málum og gengur þvert á alla flokka. Mér finnst stundum að þingmaðurinn stilli því þannig upp að þeir sem vilja taka þátt í samrunaþróuninni með einhverjum hætti vilji selja landið, þeir vilji selja sjálfstæðið og þeir vilji selja menninguna.
    Mér fannst dálítið athyglisvert að sjá í nýjasta tímariti Máls og menningar grein eftir Árna Bergmann þar sem fjallað er um vinstrimennskuna og söguna og hrun heimskommúnismans. Þar bendir hann einmitt á að þetta hafi oft verið borið upp á svokallaða vinstri menn, Sovétvini, eins og hann setur innan gæsalappa auðvitað. Hann segir að það hafi verið borið upp á þá að þeir vildu fórna frelsinu, sjálfstæðinu og menningunni fyrir heimskommúnisma undir sovésku forræði. Mér finnst þingmaðurinn vera sjálfur að falla í þessa gryfju gagnvart því fólki sem sér með einhverjum hætti að samrunaþróunin í Evrópu geti átt rétt á sér.