Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 22:25:37 (3664)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. beindi til mín nokkrum orðum í upphafi máls síns fyrr í dag. Hann gerði að umtalsefni það sem ég sagði í gær og ítrekaði þá skoðun sína að Alþfl. hefði á sínum tíma haft alveg sérstakan áhuga á því og stefnt að því að Ísland gengi í Efnahagsbandalag Evrópu eins og það hét þá. Hann vitnaði máli sínu til stuðnings, að hann taldi, í tímamótaræðu, mjög merka ræðu sem dr. Gylfi Þ. Gíslason þáv. menntmrh., flutti á 100 ára afmæli Þjóðminjasafns Íslands árið 1963. Í þessari merku ræðu dr. Gylfa Þ. Gíslasonar er ekki eitt einasta orð um það að Íslendingar eigi að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu. Hins vegar var það svo að málgagn íslenskra kommúnista, Þjóðviljinn á þeim tíma, kaus að rangtúlka þessa ræðu og snúa út úr henni og gera það mjög lengi og leggja út af henni á þann veg sem hv. þm. gerði áðan. Hann hefur valið sér það hlutskipti að halda þessum málflutningi áfram, þessum útúrsnúningi Þjóðviljans frá gamalli tíð og það er satt best að segja ömurlegt hlutskipti.