Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 02:45:17 (3675)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er kannski ekki miklu að svara. Það liggur bara fyrir að þær kröfur sem settar voru fram fyrir einu og hálfu ári hafa svo mjög breyst hjá hv. 3. þm. Vestf. að hann sættir sig við samning sem á margan hátt uppfyllir ekki þau skilyrði sem hann setti fram á þeim tíma að samningurinn yrði að fela í sér svo hann væri aðgengilegur, þ.e. fríverslun með fisk og að opna ekki landhelgina fyrir erlendum veiðiskipum. Það má benda á að í sjávarútvegssamningnum erum við að heimila Evrópubandalaginu að veiða innan okkar fiskveiðilögsögu án þess að fá neinar veiðiheimildir í þeirra lögsögu. Það er því ekki einu sinni að menn geti varið sig með gagnkvæmni.
    Það liggur líka fyrir staðfest hjá hv. þm. að um valdaafsal er að ræða og því miður verð ég að segja að eftir svar hans er niðurstaða mín sú að þá þótti honum valdaafsalið ótækt en hann sættir sig við það nú. Það er því miður afstöðubreyting sem ég harma, svo ekki sé fastar að orði kveðið.