Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 02:55:53 (3681)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að minna hv. 5. þm. Norðurl. e. á það að hæstv. utanrrh. fékk ekki umboð til samninga fyrr en núv. ríkisstjórn komst á koppinn með stuðningi hv. 5. Norðurl. e. Þar fékk hann þann stuðning sem hann þurfti til að gera þennan samning sem gerir það að verkum að það er óheimilt að mismuna mönnum eftir þjóðerni við landakaup.
    Því miður verð ég að láta koma fram að mér finnst hv. 5. þm. Norðurl. e. dálítið á skjön við venjulega röksemdafærslu í málum sem þessum að neita með öllu að ræða yfirlýsingu sína gagnvart kjósendum en ráðast í staðinn á fyrrv. landbrh. Ég sé ekki alveg samhengið í því. Hv. þm. hefur gefið út sína yfirlýsingu og ég spyr: Ætlar hann að standa við hana eða ekki? Það var einföld spurning sem ég er í tvígang búinn að leggja fyrir hv. þm. Tómasar Inga Olrich en hann hefur ekki svarað því enn. Hins vegar hefur hann svarað því óbeint með því að skrifa upp á nál. meiri hluta utanrmn. þannig að kjósendur vita það að hv. þm. ætlar ekki að standa við loforðið sitt frá 18. apríl 1991.