Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 10:50:53 (3690)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að leggja hér nokkur orð í umræðu um frv. til laga um fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumrn. Eins og fram kom í ræðu hæstv. dóms- og kirkjumrh. hafa komið fram nokkrar efasemdir varðandi I. kafla frv. Ég get staðfest það sem fram kom í ræðu hæstv. ráðherra að fjárln. þingsins mun gera tillögu við 3. umr. fjárlagafrv. um að fjárveiting verði til þeirrar starfsemi sem varðar hreppstjóra landsins.
    Eins og fram kemur í I. kafla frv. eru uppi fyrirætlanir um að gera breytingar á störfum og verkefnum sem hreppstjórar hafa haft á hendi. Það vita þeir sem þekkja til að verkefni hreppstjóra hafa breyst í tímans rás og ekki óeðlilegt að hugað sé að því að endurskipuleggja og breyta skipan þeirra mála. Hins vegar kom það fram í umræðum í fjárln. og er mín skoðun í þessu máli að eðlilegra væri að tengja þessa breytingu breytingum á umdæmaskipan sveitarfélaganna. Ekki síst vegna þess að menn eru ekki sannfærðir um að þessi breyting leiði til sparnaðar fyrir ríkið. Það komu fram athugasemdir og ábendingar hjá fjárln. um það og af þeirri ástæðu hefur fjárln. tekið þetta mál upp og flutt brtt. sem tryggir það að starf hreppstjóra verður áfram með þeim hætti sem verið hefur.
    Við þessa umræðu vil ég segja það að ég tel eðlilegt og nauðsynlegt engu að síður að huga að breytingum á verkefnum sem hreppstjórum hefur verið falið en ég tel óeðlilegt að gera það á þann veg að ekki sé tryggt að sparnaður verði af breytingunni.
    Að öðru leyti lýsi ég stuðningi við II. og III. kafla frv. en brtt. mun koma fram, eins og hefur komið fram áður, frá fjárln. sem tryggir það að hreppstjórastarfið verður áfram. Ég vil undirstrika aftur og ítreka að það er engu að síður nauðsynlegt að endurskoða verkefni og viðfangsefni þessara merku hreppstjóra sem svo lengi hafa starfað fyrir íslenska ríkið.