Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 10:54:32 (3691)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Svo sem fram hefur komið í þessari umræðu er nokkuð sérkennilega staðið að flutningi þessa frv. þar sem í framsögu kemur fram að megnið af því muni ekki verða tekið fyrir í hv. allshn., sem ég á sæti í. Ég geri ráð fyrir að það hafi komið stjórnvöldum á óvart hversu mikil andstaða reyndist vera við það að svo stöddu að stíga það skref að leggja niður embætti hreppstjóra.
    Þar spilar margt inn í. Við kvennalistakonur, sem erum þannig settar að 3 / 5 hlutar þingflokksins eru

sagnfræðingar, höfum leitað svolítið til sögunnar. Ég verð að viðurkenna að rætur hinnar gömlu hreppaskipunar spila inn í þá afstöðu sem maður tekur. Ég ætla hins vegar ekki að taka efnislega afstöðu að svo stöddu. Ég held að þetta sé mál sem þarf meiri skoðunar við og það sem auðvitað varðar okkur er nútíminn fyrst og fremst. Það sem skiptir máli er að þjónustan verði ekki skert við fólk ef þetta skref verður stigið. Það kemur kannski ekki að sök í mínum hreppi, Bessastaðahreppi, að leggja niður embætti hreppstjóra þar sem stutt er í kaupstað og jafnvel fleiri en einn, en annars staðar þar sem lengra er til yfirvaldsins, sem væntanlega mundi taka við þeirri þjónustu sem hreppstjórar nú veita, sem er svo sem ekki afskaplega mikil að vöxtum en fjölbreytileg samt sem áður, gæti þetta þýtt þjónustuskerðingu.
    Varðandi kostnað þá geri ég ráð fyrir því að það sé rétt sem hér hefur komið fram að það yrði e.t.v. ekki hægt að vinna þau verk sem hreppstjórum eru nú ætluð á ódýrari hátt. Ég get ekki lagt mat á það, en vil bara taka það fram að þó að það sé kannski ekki eins og var í upphafi þegar það var verið að greiða hreppstjórum sérstaklega fyrir sín störf, og síðan hafa hin furðulegustu verkefni legið hjá hreppstjórum, er þetta samt sem áður gamall arfur. Ég hygg að greiðslur til hreppstjóra séu líka gamall arfur og sumir leggja á sig meiri vinnu og aðrir minna en greitt er fyrir. En þetta er mál sem hefur verið sett í salt og því mun ég ekki eyða fleiri orðum að þessari eldgömlu skipan. Við munum seinna fá tækifæri til að ræða sveitarstjórnarmál á breiðum grundvelli með einum eða öðrum hætti og þá tel ég ástæðu til að líta betur til sögunnar.
    Kem ég þá að því sem við munum fjalla um innan hv. allshn. og þar mun ég fá tækifæri til að koma að málum. Það eru tvö efnisatriði. Annars vegar varðandi málefni kirkjunnar og um þau mál treysti ég að verði fjallað með þeim hætti að ég geti glöggvað mig betur á innan nefndarinnar. En varðandi Umferðarráðið þá fagnar maður auðvitað alltaf því ef ætlaðir eru meiri peningar til umferðaröryggismála en áður hafa verið. En ég hlýt að spyrja tveggja spurninga: Verður það svo?
    Ég hef æ ofan í æ orðið vör við það að þegar verið er að velta kostnaði yfir á almenning, eins og klárlega er verið að gera hér, þá týnist eitthvað á leiðinni og ég vil vera alveg trygg á því að þessi auknu fjárráð Umferðarráðs verði aukin fjárráð. Þegar Bifreiðapróf ríkisins voru sameinuð Umferðarráði eftir töluverðar umræður og átök hér á Alþingi jukust umsvif Umferðarráðs verulega. Ég studdi þessa breytingu en ég varaði sérstaklega við því oftar en einu sinni og líklega oftar en tvisvar í ræðum á þingi að þetta mætti ekki verða til þess að skref yrði stigið áfram, sem greinilega koma fram í þeirri kerfisbreytingu sem var í þeim hluta frv. sem ég ekki studdi, að það ætti að velta útgjöldunum yfir á almenning.
    Ég bendi á að í gær var haldinn fjölmennur fundur Dagsbrúnarmanna þar sem því var mótmælt að einhvers konar þjóðarsátt væri við lýði á meðan sífellt væri verið að hækka álögur á fólk og allt hækkaði nema kaupið. Þetta er nefnilega staðreynd, þó að þetta sé fóðrað með þeim hætti að bara sé um einhverja hundraðkalla að ræða hér og þar. --- Nú á að fara að skerða persónuafsláttinn heyrist mér. Það getur vel verið að það hafi breyst á milli 10 og 11 frétta, ég hef ekki heyrt 11 fréttir, en alla vega veit ég ekki betur en það hafi ekki verið búið að breyta því seinast þegar fréttir bárust. --- En þessir hundraðkallar safnast þegar saman koma. Þetta eru kannski litlir peningar þegar maður ætlar þá til góðra hluta en þeir eru miklir þegar þeir safnast á tekjulágar fjölskyldur.
    Þar af leiðandi hljótum við í allshn. að verða að fá það skýrt að það sé í fyrsta lagi verið að veita fé til umferðaröryggismála, að það sé rétt. Það held ég að flestir ættu að geta sameinast um að sé af hinu góða. Í öðru lagi geri ég ráð fyrir að við, sem ekki sættum okkur við að sífellt sé velt meiri og meiri álögum yfir á almenning, munum mótmæla því að peningurinn sé tekinn með þessum hætti frá almenningi. Ég skal svo sem ekki kveða upp úr um hvort þarna skipti sköpum þær upphæðir sem er um að ræða, en prinsippið er slíkt að þetta er aðeins hluti af miklu meiri álögum sem verið er að leggja á almenning. Gjöldin vegna ökuprófa voru hækkuð verulega. Það getur vel verið að einhver hækkun hafi átt rétt á sér en þetta eru stórar summur og þetta er ekki eitthvað sem fólk getur neitað sér um. Ég held að það sé orðið þannig að flestir viðurkenni að þeir þurfi á ökuprófi að halda. Núna þegar verið er að deila um það hversu háa framfærslu þurfi fyrir börn og unglinga, m.a. í umræðunni um meðlög, er það auðvitað alveg ljóst að unglingar, eftir að hætt er að greiða meðlög með þeim, eru mjög dýrir í rekstri og þeir standa í mörgum tilfellum alls ekki sjálfir undir þeim kostnaði sem þeim fylgir.
    Þetta er eitt af því sem gerðist með þessari kerfisbreytingu. Hér er enn verið að halda áfram á sömu braut og það sem ég er hræddust við er að við sitjum uppi með kostnaðarhækkun en ekki aukið fé til þeirra mála sem við berum vonandi öll fyrir brjósti, þ.e. umferðaröryggismálin.
    Þetta verður án efa að athuga í hv. allshn. og mótmæla því ef hér er bara um einhverjar hækkanir að ræða sem koma engum til góða og bara með þeim hætti, sem oft gerist, að ríkið ýtir frá sér kostnaði og leggur á skatta í staðinn, ef verið er að tala um kostnað sem ríkið áður greiddi en er núna innheimtur sérstaklega, þá á auðvitað bara að kalla hlutina réttum nöfnum, skatta, en ekki einhver sérstök umferðaröryggisgjöld. Auðvitað á að það vera sjálfsagt mál að greiddur sé ákveðinn skerfur til umferðaröryggismála. Það er öllum í hag. Þetta er alveg eins og þegar átti að fara að taka upp mengunarskatt af bílum sem var bara ósköp venjulegur skattur og hafði ekkert með mengunarvarnir að gera. Ég vona að þetta skili sér til umferðaröryggismála en ég held það verði að ganga frá því að svo verði því tilhneiginguna til hins gagnstæða höfum við séð og það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, því miður.
    Ég tók það sérstaklega fram að ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um lagabreytingar sem ekki

er gert ráð fyrir að verði alla vega í bráð. Varðandi III. kaflann og þær breytingar sem þar eru þarf ég á meiri upplýsingum að halda áður en ég tek afstöðu til þess og ég ítreka það að aukið fé til umferðaröryggismála er af hinu góða. Aukin skattlagning á almenning er af hinu slæma og það hljóta að vera til ráð sem virka betur en að aukar álögur.
    Ég hef margbent á að það sem kemur úr hinum sameiginlega sjóði okkar landsmanna er í sumum tilvikum ekki eins íþyngjandi og það sem er lagt sem beinn skattur, því ég held það verði hér um bil að teljast nefskattur á fjölskyldur ef greidd eru gjöld vegna bifreiða.
    Allt er þetta sett fram sem vangaveltur. Kvennalistinn hefur ekki komið saman og tekið afstöðu til þessa máls, en mun án efa gera það ef í hyggju er að afgreiða þetta hér svo nærri jólum. Fram að lokum þings eru bara tveir dagar samkvæmt starfsáætlun og mörg verkefni ef marka má þau drög að forgangslista sem við höfum séð, sem er alveg með endemum langur og óraunsær.