Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 11:28:36 (3695)


     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður, vil aðeins víkja að þeim ummælum tveggja hv. þm. sem rætt hafa um III. kafla frv. sem lýtur að fjármálaráðstöfunum á sviði kirkjumála.
    Hv. 2. þm. Vesturl. sagði það sem sína skoðun að eðlilegra hefði verið að gera hér á heildarbreytingar og hv. 3. þm. Vesturl. lýsti svipuðum sjónarmiðum og get ég í sjálfu sér tekið undir þau. Þegar kirkjumálaráðuneytið fór að huga að þessum viðfangsefnum var það upphafleg tillaga ráðuneytisins sem rædd var við kirkjuyfirvöld og kirkjuráð að kirkjugarðsgjald yrði lækkað og það svigrúm sem það gæfi notað til þess að efla Jöfnunarsjóð kirkjunnar þannig að hann gæti tekið að sér tiltekin verkefni sem kostuð hafa verið af ríkissjóði og þau með þeim hætti flust frá ríkissjóði til kirkjunnar sjálfrar. Um leið yrði þetta þáttur í því að auka fjárhagslegt sjálfstæði og fjárhagslega ábyrgð kirkjunnar varðandi ýmis þau efni sem ég hygg að menn séu almennt sammála um að betur fari á að hún stjórni sjálf eins og til að mynda viðhald prestsbústaðanna. Kirkjuráð ræddi þessar tillögur en taldi að of skammur tími væri til stefnu til þess að ákveða svo róttæka breytingu því að huga þyrfti að ýmsum grundvallaratriðum og óskaði því eftir því að bráðabirgðaskipun yrði höfð á varðandi fjárlög næsta árs. Kirkjumálaráðuneytið féllst á það sjónarmið fyrir sitt leyti og þess vegna var málið borið fram með þessum hætti og í fullu samkomulagi og samráði við kirkjuráð og ætlunin er að vinna að framgangi málsins með áframhaldandi samráði við kirkjuna og koma fram þeirri heildarbreytingu sem ég hygg að gott samkomulag sé um að vinna að.
    Ég vildi koma þessum skýringum að að gefnu tilefni.