Framleiðsla og sala á búvörum

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 11:31:47 (3696)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46 27. júní 1985, með síðari breytingum.
    Frv. þetta er samið að tilhlutan landbrh. og hefur verið unnið að gerð þess í landbrn. og haft samráð við Stéttarsamband bænda en tilgangur frv. er einkum sá að gera nauðsynlegar lagabreytingar í framhaldi af samningi landbrh. og Stéttarsambands bænda um stjórnun mjólkurframleiðslu. Samningurinn var undirritaður 16. ágúst 1992 og gerður á grundvelli 7. gr. í svokölluðum búvörusamningi sem undirritaður

var 11. mars 1991 og a-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 46/1985, sbr. 6. gr. laga nr. 5/1992. Gildistími samningsins er 1. september 1992 til 31. ágúst 1998 nema um annað verði samið. Um efni samningsins vísast til fskj. I með frv. þessu.
    Af hálfu Stéttarsambands bænda var samningur um stjórn mjólkurframleiðslu undirritaður með fyrirvara um samþykki aðalfundar, en þar var hann samþykktur 28. ágúst sl. Af hálfu ríkisstjórnarinnar var samningurinn undirritaður af landbrh. og fjmrh. með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis.
    Með frv. þessu er lagt til að gerðar verði nauðsynlegar lagabreytingar vegna samningsins en þær þurfa að ganga fram fyrir áramót.
    Í athugasemdum með frv. til breytinga á búvörulögum, sem lagt var fram á Alþingi sl. vetur, kom fram að stefnt væri að því að taka búvörulögin til heildarendurskoðunar og leggja fram frv. þess efnis haustið 1992. Á því verður hins vegar einhver dráttur, m.a. vegna þess að svokölluð sjömannanefnd hefur ekki skilað lokaskýrslu sinni sem höfð yrði til hliðsjónar við heildarendurskoðun búvörulaga.
    Helstu breytingar sem felast í samningi um stjórn mjólkurframleiðslu eru einkum:
    1. Ein stærsta breytingin er sú að stuðningi ríkissjóðs við útflutning mjólkurvara er hætt frá og með 1. sept. 1992 vegna afurða sem framleiddar eru eftir þann tíma. Ríkissjóður ábyrgist að birgðir mjólkurvara þann 1. sept. 1992 verði ekki umfram ígildi 16 millj. lítra mjólkur.
    2. Horfið er frá verðábyrgð ríkissjóðs á umsömdu ákveðnu magni mjólkur með samningi um stjórnun mjólkurframleiðslunnar sem felur í sér beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda mjólkur á lögbýlum. Framleiðsla eftir 1. sept. 1992 er því á ábyrgð framleiðenda og afurðastöðva.
    3. Í stað niðurgreiðslna á heildsölustigi koma nú beinar greiðslur til bænda. Núverandi fyrirkomulag á niðurgreiðslum fellur niður á verði mjólkur sem framleidd er eftir 1. jan. 1993. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að þessi breyting hafi áhrif á sérstaka niðurgreiðslu fjmrn. af hluta virðisaukaskatts. Beinar greiðslur til mjólkurframleiðenda hefjast vegna framleiðslu eftir 1. jan. 1993.
    Beinar greiðslur til bænda greiðast út á greiðslumark sem ákveðið verður árlega og byggist á neyslu innlendra mjólkurvara hér á landi. Bændur sem hafa haft fullvirðisrétt í núverandi kerfi fá hlutfallslegan rétt miðað við innanlandsneyslu. Réttur þeirra til beinna greiðslna nefnist greiðslumark og er mælt í lítrum mjólkur. Heildargreiðslumark hækkar eða lækkar í takt við breytingar á innanlandsneyslu mjólkurvara eftir vissum reglum. Meginatriðið er að heildargreiðslumark er tengt innanlandsmarkaði. Verði framleiðsla mjólkurvara eitthvert ár umfram sölu þannig að birgðir aukast kemur mismunur til lækkunar á heildargreiðslumarki næsta árs og öfugt. Bændum verða heimiluð aðilaskipti að greiðslumarki sem ætti að stuðla að hagræðingu að greininni og auðvelda búháttabreytingar. Afurðaverð mjólkur til framleiðenda verður eftir þessar breytingar þeim mun lægra sem beinum greiðslum nemur en þeim er ætlað að svara til 47,1% af framleiðslukostnaði mjólkur.
    4. Gert er ráð fyrir að byggt verði áfram á núverandi verðlagningarkerfi. Í samningnum en þó gert ráð fyrir að verðlagningarkerfi mjólkurafurða verði endurskoðað fyrir árslok 1994.
    Mjólkursamningurinn kveður á um að bændur taki á sig framleiðnikröfu á árinu 1992--1994 sem alls felur í sér 5% raunlækkun á afurðaverði þeirra á þessu tímabili. Samhliða þessum samningi tókst samkomulag við samtök mjólkuriðnaðarins um um það bil 7,5% lækkun á vinnslu og heildsölukostnaði á næstu tveimur árum. Þar við bætist að lagt er til í frv. þessu að heimild til töku verðmiðlunargjalds sem leggst á heildsölu á mjólkurverði er mjög þrengd frá því sem nú er en allt vinnur þetta að lækkun á verði mjólkurvara til neytenda.
    5. Skv. 19. gr. búvörulaga, nr. 46/1985, skal innheimta verðmiðlunargjald af heildsöluverði mjólkur að hámarki 5,5% og er því varið til þess að jafna afkomu mjólkursamlaga og gera kleift að greiða framleiðendum sama verð fyrir sams konar búvörur. Í dag er verðmiðlunargjald 2,77 kr. á lítra eða 3,91% af óniðurgreiddu heildsöluverði án verðtilfærslu og verðmiðlunargjalda. Þetta samsvarar um það bil 288 millj. kr. innheimtu á ári miðað við 100 millj. lítra framleiðslu. Um verðmiðlun vísast að öðru leyti í kafla 5 í fskj. II.
    Í frv. er lagt til að fallið verði frá innheimtu verðmiðlunargjalda 31. des. 1992 en þó verði gjöldin innheimt lengur að því marki sem nauðsynlegt er til að uppfylla skuldbindingar Verðmiðlunarsjóðs um greiðslu allt að 250 millj. kr. fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar og allt að 450 millj. kr. til að styrkja úreldingu mjólkurbúa eða hagræðingu í mjólkuriðnaði.
    Þá er gert ráð fyrir að í stað verðmiðlunargjalda komi flutningsjöfnunargjald til að jafna flutningskostnað af mjólk og veita rekstrarstyrki til einstakra búa og geti það numið allt að 1% af heildsöluverði allra mjólkurafurða.
    Auk þess sem að framan greinir eru heimildir til bráðabirgða í frv. þessu sem gera ráð fyrir að verðmiðlunarsjóðir mjólkur standi straum af kostnaði við niðurfærslu á mjólkurkvótanum sem varð nú í haust, svo og kostnaði við úreldingu mjólkurbúa og hagræðingu í mjólkuriðnaði sem nauðsynlegt er að verði nú á næstu árum.
    Þá er gert ráð fyrir því að sami sjóður kosti tímabundið hluta af niðurgreiðslum þeirra mjólkurbirgða sem til verða nú um áramótin. Þetta er í samræmi við fyrirliggjandi fjárlagafrv. þar sem fram kemur að ríkissjóður endurgreiði þetta fé árið 1994. Loks ber að geta þess að í frv. eru nokkrar breytingar er varða búvörulögin almennt. Þar er fyrst að nefna ákvæði sem heimila allt að 5% verðskerðingu á afurðaverði til bænda til að kosta nauðsynlegar markaðsaðgerðir. Heimild til slíkrar skerðingar er þó bundin því að fyrir liggi ósk um hana frá aðalfundi Stéttarsambands bænda en ákvæði þetta er sett í frv. að óskum bændasamtakanna. Þá eru tekin af tvímæli um það að greiðslur fyrir þvingaða niðurfærslu á sauðfjárkvóta nú í haust skuli greiddar handhöfum beinna greiðslna, þ.e. framleiðendum sjálfum, enda verður að líta svo á að þetta séu bætur vegna skertrar framleiðslustöðu þessara manna og þetta sé sanngjörn niðurstaða þegar um svo mikla og lögþvingaða skerðingu er að ræða. Að síðustu eru gerðar nokkrar lagfæringar á lögunum sem ekki eru efnislegar breytingar heldur einungis til samræmis við breyttar aðstæður, m.a. í félagskerfi bænda og afurðastöðva.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og landbn. Ég legg áherslu á að góð samvinna megi takast milli landbrn. við nefndina og er landbrn. reiðubúið að láta í ljósi allar þær upplýsingar sem óskað er eftir. Auk þess legg ég áherslu á að nefndin kanni sjálfstætt nauðsyn einstakra efnisatriða í frv. þessu um leið og ég legg áherslu á að sá kafli þess sem lýtur að búvörusamningnum um breytt fyrirkomulag í afurða- og sölumálum mjólkurframleiðslunnar nái fram að ganga fyrir áramót.