Húsnæðisstofnun ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 13:32:47 (3707)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Umræðan hér síðustu mínúturnar milli tveggja síðustu ræðumanna hefur nokkuð farið út fyrir efni frv. eins og það birtist á þingskjalinu og hefði verið ástæða til þess að ræða húsnæðismálin í víðum skilningi því að hér er auðvitað um mikilvægan málaflokk að ræða sem snertir flest fólk í landinu. En til þess gefst ekki tími á þessari stundu. Vonandi gefst tími til þess síðar.
    Ég sagði í framsöguræðu minni að ég legði áherslu á það að frv. þetta yrði að lögum fyrir jól þar sem það tengist að verulegu leyti afgreiðslu fjárlagafrv. og þeim sparnaði sem þar er ætlaður varðandi Húsnæðisstofnun. En mér skilst að samkomulag sé milli flokkanna um að afgreiða þetta mál aðeins til nefndar nú fyrir jól. Ég mun því stytta mál mitt eins og kostur er en reyna þó að svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint.
    Mér fannst koma sérstaklega fram þegar við ræddum þetta frv. fyrir nokkrum dögum hjá hv. 2. þm. Austurl. og hv. 5. þm. Vestf. sú gagnrýni að hér væri um að ræða miðstýringu. Hér væri um það að ræða að útlán Húsnæðisstofnunar ríkisins ættu nú að fara inn á borð félmrh. Sú breyting fælist í þessu frv. að verið væri að gera Húsnæðisstofnunina að deild í félmrn. og með þessu fengi félmrh. vald til að skipta sér af einstaka úthlutun. Reyndar kom fram að meginefni þessa frv. væri raunverulega tvíþætt: að reka fólk og að félmrh. fengi það vald að hafa afskipti af einstaka úthlutunum. Þetta er ekki réttur málflutningur og ekki í samræmi við efni frv. eða tilgang. Jafnvel þó Alþingi vildi fá mér það vald að hafa afskipti af einstaka úthlutun þá mundi ég ekki kæra mig um slíkt vald og tel að slíkt vald eigi ekki að vera í höndum ráðherra.
    En vegna þessarar gagnrýni frá 2. þm. Austurl. og 5. þm. Vestf. tel ég ástæðu til að benda á að frv. um breytingu á stjórnsýslulegri stöðu Húsnæðisstofnunar ríkisins var lagt fram fyrir 113. löggjafarþing á árunum 1990 og 1991 þegar Framsfl. og Alþb. var í ríkisstjórn. Meginefni frv. sem þá var lagt fram er í þessu frv. sem við fjöllum um nú, m.a. um breytingu varðandi yfirstjórn stofnunarinnar og varðandi breytingu á húsnæðismálastjórn. Það atriði sem þeir hafa sérstaklega verið að gagnrýna í frv., sem er 3. tölul. 4. gr., þar sem stendur: ,,Áður en lánveiting á sér stað skal leitað staðfestingar félmrh. á forsendum lánveitingar . . .  `` og að túlka þá grein sem með því væri verið að færa úthlutunarvald á einstaka lánveitingum til ráðherra er alrangt. Í því frv., sem var lagt fram fyrir tveim til þremur árum af þáv. stjórnarflokkum, m.a. Alþb. og Framsfl., er að finna hliðstætt ákvæði. Í því frv., sem þá var lagt fram, kemur fram að húsnæðismálastjórn eigi að gera tillögur til ráðherra þar sem fram komi m.a. meginsjónarmið um útlánaflokka og ráðstöfun á fjármagni að svo miklu leyti sem skipting er ekki ákveðin í lögunum. Það er einmitt tekið skýrt fram í þessu frv. núna í athugasemd um 4. gr. hvað þetta þýðir. Þar segir: ,,Þá er og með tillögunni reynt að tryggja að ekki liggi aðeins fyrir fyrirhuguð skipting milli lánaflokka samkvæmt lögunum, heldur einnig þau sjónarmið sem húsnæðismálastjórn leggur til grundvallar úthlutun lána innan einstöku lánaflokka . . .  `` Ég tel því að efni þessarar ákveðnu greinar, sem ég hef hér gert að umtalsefni, sé svipað í báðum frv. Og ef menn vilja velja eitthvert annað orðalag á þessu þegar málið fer til umfjöllunar í nefnd þá geri ég engar athugasemdir við það.
    En af hverju er þetta sett fram? Af hverju er þetta sett fram núna og af hverju var þetta sett fram fyrir tveimur til þremur árum? Ég tel mjög mikilvægt að ráðherra sem ber ábyrgð á þessum málum hafi eðlilegt svigrúm til að fylgjast með, t.d. að því er varðar framlagningu á fjárlagatillögum stofnunarinnar og að því er varðar meginsjónarmið við úthlutun sem Húsnæðisstofnun leggur til grundvallar, án þess að í því felist afskipti af einstaka lánveitingum. Ég vil t.d. nefna að ríkisstjórnin hefur reynt að leggja grunn að því að hægt sé að haga útlánum til lengri tíma. Það verði hægt að gera áætlanir til þriggja ára um úthlutun á lánum. Ríkisstjórnin hefur líka markað ákveðna stefnu til þess að draga úr kostnaði við lánveitingar, m.a. með því að vinna að því að fram komi lækkun á byggingarkostnaði, meðallánum á íbúð, að ákveðnum fjölda af lánum verði úthlutað til notaðra íbúða en ekki nýbygginga, að ákveðnum fjölda verði úthlutað til almennra kaupleiguíbúða sem bera hærri vexti en aðrar félagslegar íbúðir o.s.frv.
    Fyrst og fremst er því um það að ræða að félmrh. á hverjum tíma gæti haft yfirlit og yfirsýn yfir þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar. Ég vil minna á í því sambandi að það hefur komið fyrir, mig minnir að það hafi verið fyrir tveimur árum, að ágreiningur reis milli félmrn. og reyndar fjmrn. einnig og húsnæðismálastjórnar þar sem fjmrn. taldi að húsnæðismálastjórn hefði úthlutað fleiri íbúðum heldur en fjármagn var til fyrir í fjárlögum. Um þetta spruttu nokkrar deilur. Hér er því fyrst og fremst um það að ræða að ráðherra sem ber ábyrgð á þessum málaflokki geti haft heildaryfirsýn yfir þessi mál en ekki að hér sé um að ræða afskipti af einstaka úthlutunum. Mér finnst, hv. þm., ekki sæmandi að bjóða það fram í þingsölum að hér sé verið að fara fram á vald til að hafa afskipti af einstaka úthlutun.
    Hv. 5. þm. Vestf. nefndi að ekki hefði staðið á Húsnæðisstofnun að reiða fram nauðsynleg gögn t.d. í sambandi við það verkefni sem er verið að vinna varðandi það að ná niður rekstrarkostnaði Húsnæðisstofnunar. Vegna þessara orða stjórnarmanns Húsnæðisstofnunar vil ég láta það koma fram hér að við höfum oft og tíðum átt í mesta basli með það að hafa eðlilegan aðgang að upplýsingum úr stofnuninni til að geta unnið það verk sem okkur er sett í fjárlagafrv., að ná niður rekstrarkostnaði Húsnæðisstofnunar.
    Ég ætla ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta. Ég tel þó ástæðu til að minna á tvo þætti sem fram komu í máli hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingríms J. Sigfússonar. Hann spurði hvort það væri aukin áhersla hjá félmrh. að taka upp þjónustugjöld í auknum mæli varðandi þessa stofnun. Svo er ekki. Það eru engin áform um það af hálfu félmrn. eða með þessu frv. að það sé verið að taka upp aukin þjónustugjöld fyrir þjónustu veitta af hálfu stofnunarinnar. Hins vegar vil ég nefna það af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vitnaði í úttekt Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, þar sem fram kemur að yfirstjórnin leggi áherslu á aukin þjónustugjöld, þá get ég staðfest það sem þar kemur fram vegna þess að ég hef bæði núna og á sl. ári óskað eftir tillögum stofnunarinnar til þess að geta náð niður rekstrarkostnaði hennar og dregið úr útgjöldum og þar hefur komið fram þessi áhersla á aukin þjónustugjöld af hálfu stofnunarinnar. En það er alls ekki svo að af hálfu ráðuneytisins eða þess ráðherra sem hér stendur sé lögð áhersla á aukin þjónustugjöld, þvert á móti.
    Varðandi það að hönnunardeildin standi undir sér, eins og fram kom hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrími J. Sigfússyni, þá kemur það fram í frv. að það er rekstrarhalli á hönnunardeildinni um 8--9 millj. kr. á árinu 1991. Það er því ekki rétt sem fram kemur hjá hv. þm. að sértekjur standi hér alfarið undir. Og ég vil leggja áherslu á að hér er fyrst og fremst verið að tala um hönnunardeildina sem slíka. Og af hverju er verið að leggja niður hönnunardeildina sem slíka? Vegna þess að menn telja að í því sé fólgin ákveðin mótsögn að íbúðirnar séu hannaðar og teiknaðar á vegum Húsnæðisstofnunar sem síðan á að hafa eftirlit með byggingu þessara sömu íbúða. Þess vegna þykir rétt að aðskilja þetta og þó hönnunardeildin hafi einhvern tímann átt rétt á sér sé tímabært að leggja hana niður eins og hún er. En auðvitað stendur eftir þjónustuþátturinn í þessari deild og allt eftirlit.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég vil þó þakka ýmislegt sem fram kom í máli 18. þm. Reykv. Hún, eins og margir sem hér hafa talað við þessa umræðu, ræddi mjög efnislega um þetta mál. Ég tel að það komi fyllilega til greina og sé réttlætanlegt að skoða það, og tel raunar að stofnunin sé að gera það, að það megi sameina t.d. Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Ég er henni alveg sammála varðandi húsnæðismálastjórnina og er það mikið fagnaðarefni hvað hún hefur mikla víðsýni til að bera í því efni að það megi endurskoða skipanina á stjórn Húsnæðisstofnunar og velta fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að breyta þar um. Og eins og hún réttilega nefndi hvort það sé endilega það rétta í þessu efni að setja málin fram með þeim hætti að aðilar atvinnumarkaðarins, ASÍ og VSÍ, séu sjálfskipaðir fulltrúar fólksins í landinu. Menn spyrja af hverju ekki t.d. BSRB? BSRB hefur ítrekað, og nú síðast fyrir nokkrum dögum, lagt áherslu á það við mig að fá sæti í stjórn þessarar stofnunar.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál og geri mér grein fyrir því samkomulagi sem hér hefur náðst um að fyrir jól verði málinu einungis vísað til umfjöllunar í nefnd. Væntanlega mun nefndin fjalla um frv. í jólaleyfi þingmanna. Ég legg áherslu á að það að verði fljótlega að lögum í byrjun næsta árs vegna þess, eins og ég nefndi, að afgreiðsla málsins er mjög tengd því að félmrn. nái fram þeim sparnaði sem því er uppálagður í fjárlagafrv.