Húsnæðisstofnun ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 13:48:51 (3710)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi þá nefnd sem hæstv. ráðherra vitnaði til síðast þá er ég ekki alveg sammála því að Húsnæðisstofnun eigi aðild að þeirri nefnd, a.m.k. á stjórnin ekki aðild að henni. Hins vegar hygg ég að sú nefnd sem hæstv. ráðherra vitnar til sé nefndin sem forstjóri stofnunarinnar situr í. Hann var skipaður í hana af ráðherra en e.t.v. má líta svo á að ráðherra hugsi sem svo að hann sé fulltrúi stofnunarinnar en hann er ekki fulltrúi stjórnar. En ég verð að segja að það kæmi mér á óvart ef forstjóri stofnunarinnar hefði ekki þau tök á upplýsingastreymi til þeirrar nefndar sem hann á sjálfur sæti í að það sé til einhvers baga varðandi starf nefndarinnar. Það kemur mér mjög á óvart að heyra það en ég vil segja hæstv. ráðherra að ég mun að sjálfsögðu láta athuga það mál.