Grunnskóli

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 13:55:45 (3711)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla, sbr. og lög nr. 1/1992.
    Markmið frv. til laga um breytingu á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla, sbr. og lög nr. 1/1992, sem hér er lagt fram er að skapa grundvöll undir þann sparnað sem fjárlög 1993 gera ráð fyrir að náð verði í grunnskólum. Hér er um að ræða sömu aðgerðir til sparnaðar og fólust í 1. og 3. gr. I. kafla laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, lögum nr. 1/1992. Þau ákvæði laga um grunnskóla sem frestað var tímabundið með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, nr. 1/1992, og frestað verður á ný með frv. þessu, ef að lögum verður, er í fyrsta lagi ákvæði 3. mgr. 4. gr. grunnskólalaga um að í grunnskóla skuli nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma sem er frestað til loka skólaárs 1993--1994.
    Í öðru lagi eru það ákvæði 1. mgr. 46. gr. grunnskólalaga þar sem eru lágmarksákvæði um vikulegan kennslutíma nemenda í grunnskóla. Er gildistöku greinar þessarar frestað til loka skólaárs 1993--1994 og vikulegur kennslutími miðaður við það sem gert er ráð fyrir í frv. til fjárlaga 1993.
    Í þriðja lagi er svo 6. mgr. 46. gr. þar sem kveðið er á um að koma skuli á fót skólaathvörfum við hvern grunnskóla. Því er einnig einnig frestað til loka skólaárs 1993--1994.
    Auk þess er 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða sem breytt var með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, nr. 1/1992, breytt þannig að í stað 1992--1993 kemur 1993--1994. Með þessu ákvæði er frestað til loka skólaársins 1993--1994 að fækka nemendum í bekkjum í samræmi við 75. gr. laga um grunnskóla. Eins og á yfirstandandi skólaári verður næsta ár miðað við 22 nemendur í 1. og 2. bekk og 28 nemendur í 3.--10. bekk og að fræðslustjóri geti þegar sérstaklega stendur á ákveðið fjölgun um allt að tvo nemendur í bekkjardeild.
    Gera má ráð fyrir að frestun framkvæmdar ofangreindra ákvæða laga um grunnskóla, nr. 49/1991, spari ríkissjóði um 100 millj. kr. á árinu 1993. Í lögum um grunnskóla, nr. 49/1991, var í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir að vikustundum fjölgaði um alls 15 á þremur árum og má telja eðlilegt að þeim hefði verið fjölgað um 5 á ári. Sparar frestun þessa ákvæðis um 45 millj. kr. á næsta ári að því er ætlað er. Gera má ráð fyrir að frestun á því að fækka nemendum úr 22 í 18 í 1. bekk og úr 28 í 22 í 3. bekk spari um 55 millj. kr. Ekki er unnt að meta að fullu þann sparnað sem leiðir af frestun ofangreindra ákvæða grunnskólalaga allra. Einkum er erfitt að segja til um sparnað vegna frestunar á ákvæði um málsverði í skólum og skólaathvörf, en ljóst er að kostnaður við þessi ákvæði hefði að hluta fallið á sveitarfélögin.
    Hér er um að ræða, hæstv. forseti, einfalt mál sem þó er umdeilt. Það var ítarlega rætt á síðasta þingi þegar hliðstæð ákvæði voru þá samþykkt.
    Ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð en ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.