Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 15:37:03 (3717)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Í ljósi nýjustu upplýsinga um atvinnuleysi hefur Þjóðhagsstofnun talið rétt að endurskoða spá sína um atvinnuleysi á næsta ári. Ný spá mun liggja fyrir öðru hvorum megin við jól en í nóvember spáði Þjóðhagsstofnun 4% atvinnuleysi á næsta ári. Í ljósi þessa er einnig rétt að vekja athygli á því að ASÍ spáði í nóvember að óbreyttu 20--25% atvinnuleysi á næsta ári og fram kom hjá VSÍ spá um 15--30% atvinnuleysi á næsta ári. 4--5% atvinnuleysi á næsta ári er vissulega allt of mikið atvinnuleysi en sem betur fer mun minna en víðast hvar í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Samanburður við aðrar þjóðir á næsta ári er þannig að atvinnuleysi er þar á bilinu, ef við tökum t.d. Evrópuríkin í OECD, 6,5--13%.
    Það er einnig ástæða til að vekja athygli á úrvinnslu Hagstofunnar úr könnun á atvinnuleysi sem fram fór í nóvember sl. sem gefur ákveðna vísbendingu um samsetningu atvinnuleysis og að hvaða hópum og starfsgreinum atvinnuleysi beinist. Þar kemur fram að 77% þeirra sem voru atvinnulausir og fram koma í könnun Hagstofunnar hafa verið atvinnulausir skemur en fimm mánuði og 17% í hálft ár eða lengur. Það er einnig athyglisvert að í þeirri könnun kemur fram að 7,5% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá eru hættir að leita að vinnu og treysta sér ekki út á vinnumarkaðinn.
    Ef við skoðum flokkun eftir atvinnugreinum þá kemur í ljós að stærstu hóparnir sem eru atvinnulausir koma úr iðnaði, þar með töldum fiskiðnaði, og verslun og þjónustu. Stærsti hópur kvenna kemur úr afgreiðslu- og þjónustustörfum en það voru um 33% þeirra sem komu fram í könnuninni og voru atvinnulausar. Ef við lítum á stærsta hóp karla sem eru atvinnulausir þá eru það karlar í ófaglærðum störfum en þeir voru um 30% þeirra sem mældust atvinnulausir.
    Einnig kemur fram í þessari könnun að langtímaatvinnuleysi hefur ekki aukist merkjanlega frá ágúst til nóvember en í nóvember voru 297 einstaklingar sem höfðu verið lengur en eitt ár atvinnulausir sem er 0,2% af heildarvinnuafli sem hafi þá verið lengur atvinnulausir en í heilt ár.
    Það er einnig ástæða til að vekja athygli á gjaldþrotum. Í samanburði við sömu mánuðina í fyrra, ef við skoðum mánuðina september til og með nóvember í fyrra, voru það 776 einstaklingar sem fengu úr Ríkisábyrgðasjóði launa sem hefur minnkað verulega á sömu mánuðum á þessu ári, frá september til nóvember, en þá voru það 436 einstaklingar samanborið við 776 á sömu mánuðum í fyrra.
    Ef við skoðum hópuppsagnir þá eru þær einnig töluvert færri síðustu þrjá mánuði þessa árs heldur en á árinu 1991. Á árinu 1991 voru það um 1.295 einstaklingar en verða væntanlega núna síðustu þrjá mánuði ársins innan við 1.000.
    Ef litið er á aðgerðir sem snúa beint að félmrn. og snerta aðgerðir gegn atvinnuleysi þá hefur starfsmenntun verið stóraukin sem er helsta vopn nágrannaþjóða okkar gegn atvinnuleysi. Á þessu ári úthlutaði Starfsmenntasjóður 48 millj. til 18 aðila og má ætla að með því njóti 6.000 manns góðs af þessari aðgerð með einum eða öðrum hætti. Könnun á högum og aðstæðum atvinnulausra, sem félmrn. er að

beita sér fyrir og nú er að fara af stað og verður á vegum Hagstofunnar og Félagsvísindastofnunar, mun gefa okkur ákveðnar vísbendingar um hagi og aðstæður atvinnulausra sem ég tel mjög mikilvægt að fá fram. Sérstakt framlag, 15 millj. á ári, sem verður á næsta ári þriðja árið í röð, til atvinnuskapandi aðgerða vegna atvinnumála kvenna sérstaklega og loks má benda á það að félmrn. hyggst á næstunni hrinda af stað sérstöku átaki í samvinnu við ýmsa aðila sem beinist að því að auka verulega starfs- og endurmenntun í hópi atvinnulausra.
    Í lokin er rétt að vekja enn athygli á þeim almennu aðgerðum sem gripið hefur verið til í því skyni að rétta hag atvinnulífsins, afnám aðstöðugjaldsins, aðgerðir í gengismálum og aðgerðir í ríkisfjármálum sem miða að því að draga úr halla á ríkissjóði og fela í sér viðnám gegn versnandi afkomu fyrirtækja með því að bæta rekstrarskilyrði þeirra. Áhrif aðgerðanna eru að styrkja stöðu atvinnulífsins, einkum útflutnings- og samkeppnisgreina. Þetta stafar af lækkun á gengi krónunnar og því að aflétt hefur verið sköttum af atvinnulífinu. Einnig dregur úr þjóðarútgjöldum frá því sem áður var gert ráð fyrir sem mun leiða til minnkandi viðskiptahalla gagnvart útlöndum. (Forseti hringir.) Ég er rétt að ljúka máli mínu, virðulegi forseti.
    Ég vil bæta því við að til viðbótar þessum almennu aðgerðum þá gætir auðvitað áhrifa af EES-samningnum og stærsti ávinningur þess er að sjálfsögðu þeir möguleikar sem skapast með niðurfellingu tolla á mörkuðum EB-landa til frekari úrvinnslu sjávarafurða og síðan eru aðgerðir sem fram koma í fjárlagafrv. en þar er verulegum fjármunum varið til framkvæmda til að treysta atvinnu, einkum til vegaframkvæmda og að nokkru leyti til viðhaldsverkefna. Og í tengslum við afgreiðslu fjárlagafrv. var ákveðið að verja auknu fé til rannsókna- og þróunarstarfsemi og til markaðsmála. Ríkisstjórnin hefur einnig ákveðið að verja 500 millj. kr. til aðgerða í atvinnumálum á Suðurnesjum í samstarfi sveitarfélaga, Íslenskra aðalverktaka og annarra fyrirtækja.