Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 15:43:00 (3718)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin leggur á skatta til þess að hægt sé að hafa ákveðin sálfræðileg áhrif. Ég held að hæstv. forsrh. hafi orðað það svo að það ætti að leggja á hátekjuskatt til þess að ná fram ákveðnum ,,psykólógískum`` áhrifum. En það vill nú svo til að hin sálfræðilegu áhrif að því er varðar atvinnustig og atvinnuleysi eru orðin mikil hér á landi. Það er ímynd ríkisstjórnarinnar sem er farin að hafa þau áhrif á fólk að allt frumkvæði hefur verið stöðvað. Skattar eru lagðir á ferðaþjónustu sem er einn helsti vaxtarbroddur í atvinnulífinu. Það hefur verið ákveðið að leggja skatta á prentiðnað og bókaútgáfu sem mun ganga að henni dauðri. Og það eru þessi áhrif sem eru orðin mjög hættuleg í íslensku atvinnulífi. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að hæstv. félmrh. rifji upp staðreyndir í þessu máli með tölum, en það er ekki nóg, hæstv. félmrh. Ástandið fram undan er mjög alvarlegt. Í yfirlýsingu verkalýðshreyfingarinnar kemur fram að ríkisstjórnin er að efna til mikilla átaka. Kjarasamningum hefur verið sagt upp og það virðist vera að ríkisstjórnin vilji átök þótt maður sjái ekki alveg hvernig hún ætlar að standa frammi fyrir þeim í stað þess að hafa samvinnu við aðila vinnumarkaðarins um að koma í veg fyrir atvinnuleysi.
    Ég tek undir með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur þegar hún sagði að eina ráðið sé að ríkisstjórnin fari frá. Það er að vísu ekki nóg, en sú ímynd, sú sálfræðilega ímynd sem er nú við völd stuðlar að atvinnuleysi og þess vegna er ég sammála því að hæstv. félmrh. ætti að lýsa því yfir að það væri rétt fyrir ríkisstjórnina að fara frá.