Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 15:57:26 (3724)

     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Hér er til umræðu mesta þjóðfélagsböl sem við eigum við að stríða um þessar mundir. Skráðir atvinnulausir eru orðnir fimm þúsund og það er verulegt dulið atvinnuleysi í landinu. Ég vil minnast sérstaklega á það að í sveitum hefur um langa hríð verið mikið dulið atvinnuleysi. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessum efnum eru að koma í ljós þessa dagana. Það er verið að byggja loftkastala, gefa fólki væntingar, gefa fólki væntingar um 500 millj. til viðhalds opinberra byggnga, skera það svo niður í 100 millj. í gær en innheimta samt gjöld upp á 350 millj. til að standa straum af þessum 100 millj. Þetta eru kúnstir. En þetta eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar í málinu. Vegaframkvæmdirnar voru skornar niður um 250 millj. kr. í gær og svo talar hæstv. félmrh. hér eins og hann viti ekkert um það. Talar um viðhald og vegaframkvæmdir sem einhverja lausn í atvinnumálum fyrir það fólk sem gengur atvinnulaust þessa dagana. En ég vil gefa ríkisstjórninni ráð. Ríkisstjórnin ætti að kanna hag þessa fólks sem er að koma inn atvinnulaust núna með skuldbindingarnar á herðunum. Ég held að það sé m.a. hlutverk lánastofnana í þjóðfélaginu að kanna kjör þessa fólks sem ræður ekkert við þær skuldbindingar sem það hefur á herðunum vegna þess að nú er verið að segja upp fjölmörgu fólki á besta vinnualdri með drápsklyfjar á herðunum af skuldbindingum. Hag þessa fólks þarf að skoða sérstaklega og þar þurfa allir að leggjast á eitt.