Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 16:01:46 (3726)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það er gott að vera bjartsýnn og gott er að atvinnuástandið skyggir ekki verulega á jólagleði ráðherrans. En það kann að vera að jólagleðin sé eitthvað minni hjá því fólki sem gengur atvinnulaust og það er miklu fleira en skráningin segir til um. Margt fólk er óskráð og það þýðir lítið að reyna að telja því trú um að þess bíði einhver himnaríkisvist eftir að Evrópskt efnahagssvæði er komið á hér á landi. Það getur vel verið að það bíði velsæld þeirra uppa sem verið er að ráða þessa dagana til starfa út í Brussel fyrir allt að 800 þús. kr. á mánuði en það dugir lítið fyrir atvinnulaust fólk sem er hér heima á Íslandi. Það þýðir nefnilega lítið að vera með svona blekkingar. Það er verið að samræma atvinnuleysið á Íslandi því atvinnuleysi sem er fast úti á Evrópsku efnahagssvæði. Það er sorglegt að hlusta á þennan ágæta ráðherra, hæstv. félmrh., sem iðulega er miklu nær raunveruleikanum en aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin hefur búið til þetta atvinnuleysi að verulegu leyti með mislukkuðum ráðstöfunum og aðgerðaleysi. Hún vegur að velferðarþjóðfélaginu hvar sem hún kemur því við og félagslegu öryggi í landinu og lækkaði skattleysismörkin í gærkvöldi. Það er hárrétt hjá Dagsbrún og undir það þarf öll þjóðin að taka að

ríkisstjórnin verður að fara frá.