Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 16:29:23 (3734)

     Frsm. minni hluta fjárln. (Guðmundur Bjarnason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að útskýra það hvernig mér taldist til að þarna gæti verið um að ræða 500--600 millj. kr. en ég gerði reyndar grein fyrir því áðan. Mér sýnist að fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir núna geri ráð fyrir milli 100--200 millj. kr. sparnaði. Síðan voru, ef ég man rétt, a.m.k. 30 millj. kr. í viðbótartillögum hæstv. ráðherra sem hann lagði fyrir fjárln. á dögunum. Svoleiðis upphæð er kannski bitamunur en ekki fjár í þeim potti sem lyfjakostnaðurinn í heildina er, líklega milli 4 og 5 milljarðar kr. ef allt er til talið. Síðan segir hæstv. ráðherra að það kunni að vera 200 millj. sem verið er að færa yfir núna, en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég greindi frá áðan og tel mig hafa frá Tryggingastofnuninni muni það vera nær 300 millj. kr. Þá erum við aftur komnir upp í 500--600 millj. eins og ég nefndi áðan. En ég fagna því ef svo er ekki og ég veit það, eins og hæstv. ráðherra sagði áðan, að það mun verða honum nógu erfitt að leysa það að spara 400--450 millj. kr. þó það kunni að vera að ekki sé um hærri tölu að ræða. Þó sýnist mér að það kunni að vera eitthvað meira.
    Varðandi lyfjareikninginn sem sendur hefur verið almenningi og kann að virðast að séu ekki mjög háar tölur að breyta hlutfallsþátttöku almennings úr 18% í 25%, þá gæti ég trúað að sá reikningur væri á bilinu 350--400 millj. kr. Það eru því engir smáaurar sem menn eru að tala um í þessum lyfjamálum. Ég þekki það vissulega af eigin raun að það er ekki auðvelt mál við að eiga en fagna því ef menn glíma við skipulagsbreytingar og stend við hitt sem ég sagði að reikningurinn hefur verið æðihár sem sendur hefur verið almenningi.