Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 16:56:46 (3737)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Mér er ljóst að umræðan er ekki búin en í góðri sátt við þá sem þegar eru á mælendaskrá langar mig til þess að leggja orð í belg, fyrst og fremst til þess að svara þeim fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint.
    Í fyrsta lagi vil ég minnast á sértekjur Hafrannsóknastofnunar. Það er rétt að 83 millj. kr. eru inni á fjáraukalögum. Þegar hefur verið gengið frá sölu á heimildum upp á 130 millj. Það á eftir að bjóða út talsverðan hluta heimildanna og miðað við það verð sem hefur fengist á markaði geri ég ráð fyrir að ná inn því sem á vantar.
    Í öðru lagi er spurt um Atvinnuleysistryggingasjóð. Samkvæmt nýjustu heimildum okkar sýnist okkur að þeir fjármunir sem lagt er til að bætist við Atvinnuleysistryggingasjóð dugi út þetta ár. Það eru u.þ.b. 500 millj. kr. sem ganga til sjóðsins.
    Í þriðja lagi varðandi sölu eigna þá vil ég bæta við þá upptalningu sem kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., en sú upptalning gaf niðurstöðutöluna 242 millj., að Þróunarfélagið var selt á 130 millj. og þær koma til greiðslu á þessu ári og til viðbótar hafa komið inn um 83 millj. fyrir Jarðboranir ríkisins þannig að niðurstöðutalan er 455 millj. Því miður hef ég ekki nákvæmar upplýsingar um sölu fasteigna en það hefur bæst við þá fúlgu eitthvað. En það er auðvitað eins og allir vita ekki hægt að gera þennan reikning endanlega upp fyrr en með seinni fjáraukalögum þegar þau koma fram en það mun aldrei skakka nema örfáum tugum millj. Ég gæti giskað á í kringum 20 millj. kr.
    Ég minni á að 170 millj. bætast við tillögurnar vegna hæstaréttardóms sem féll vegna þess að fyrri ríkisstjórn hafði með bráðabirgðalögum gengið á rétt launamanna í BHMR samkvæmt stjórnarskránni eins og Hæstiréttur komst að. Ég ætla ekki að fjalla um stjórnlagabrot, mér finnst að þeir hafi verið sérfræðingar í stjórnlagagbrotum og talað mest um þau upp á síðkastið sem best þekkja af eigin raun en þessi niðurstaða breytir engu um það að við þurfum auðvitað að borga þessu fólki þá peninga sem það á inni hjá ríkinu og það er um 170 millj. kr. Ég vonast til þess að þeir peningar verði greiddir út á morgun þannig að þess vegna er ástæða til að afgreiða fjáraukalögin þótt auðvitað sé hægt að draga þessar heimildir og hefur stundum áður verið gert af því að allar tölur í fjárlögum eru auðvitað áætlaðar tölur.
    Ég á von á því að fyrir 3. umr. þurfi að ræða þessi mál frekar, það er augljóst að allar áætlaðar tölur geta breyst frá einum degi til annars.
    Nokkuð var spurt um hitaveitur. Um það vil ég aðeins segja að iðnrn. hefur forustu fyrir hitaveitumálum og viðræður þurfa að fara fram á milli þessara ráðuneyta áður en a.m.k. ríkisstjórnin aðhefst nokkuð um tillögugerð í þeim efnum. Það mál hefur ekki hlotið þá afgreiðslu sem þarf til að komast inn í frv., a.m.k. að svo stöddu, og engin ákvörðun verið tekin af hálfu ríkisstjórnarinnar um að slíkt gerist. Við vitum að það eru vandræði, ekki einungis hjá smærri veitunum sem minnst var á, heldur líka hjá veitu eins og Hitaveitu Suðureyrar þar sem greinilegt er að ríkisvaldið þarf að koma til skjalanna.

    Varðandi sparnað skal ég vera stuttorður. Ég ætla ekki að ræða ítarlega um sparnað, ég ætla einungis að segja að það er einu sinni þannig að ef einhver ákveður að spara, við skulum til einföldunar taka bara heimili hjá einhverri húsfreyju í Vesturbænum eins og stundum er sagt og hún ákveður að spara og þarf á því að halda. Þá gerist það oft að sá sparnaður bitnar á þeirri þjónustu sem hún hefur keypt. Sú þjónusta kann að hafa verið veitt af einhverju fólki sem þá missir spón úr aski sínum. Það er nefnilega þannig að efnahagslíf okkar er ein heild og ef einhver sparar einhvers staðar þá bitnar það oftast á einhverjum öðrum. Það er eðli málsins. Það er alveg hárrétt sem fram hefur komið að þegar ríkið sparar þá bitnar það á öðrum en sem betur fer leiðir það oft og kannski oftast til þess að menn draga úr þjónustunni og þá kannski einkum og sér í lagi þeirri sem má bíða. Þetta eru auðvitað heimspekilegar hugmyndir sem við getum rætt fram og til baka um það hvað sé sparnaður og til hvers hann leiðir, en ég held að þegar mál eru skoðuð ofan í kjölinn þá sé það þannig að sparnaður lýsi sér oftast með þessum hætti. Þetta er reyndar alþekkt í allri hagfræði og kannski nýjasta dæmið um þá umræðu sem mest fór fram um þessi atriði var í forsetakjörinu í Bandaríkjunum þar sem ágreiningur var á milli annars vegar Clintons, sem hefur verið kjörinn forseti Bandaríkjanna, og Bush, sem er fráfarandi forseti Bandaríkjanna, einmitt um það hvernig ætti að standa að svona málum. Þetta er auðvitað gömul saga og ný.
    Loks var ég spurður um kjarasamninga sem eru fram undan. Það liggur fyrir í fjárlagafrv. að við gerum ráð fyrir því að fylgja þeirri stefnu að ekki verði um launahækkanir að ræða á næsta ári. Við vitum að fjölmargir hafa sagt upp samningum sem eðlilegt er vegna þess að í kjarasamningum er ákvæði um það að gengisfelling leiði til þess að samningurinn sé uppsegjanlegur. Ríkisstjórnin hefur satt að segja talið að nú um stundir sé forgangsverkefni að styrkja atvinnulífið og koma í veg fyrir það að atvinnulausum fjölgi. Til þess að það sé hægt nú um stundir verða hinir, sem atvinnu hafa og tekjur af atvinnu sinni, að leggja meira á sig. Þetta er forgangsverkefnið sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir og ég minni á að ríkisstjórnin er að færa með lögum 4 milljarða af sköttum af atvinnufyrirtækjum yfir á einstaklinga til þess að freista þess að fyrirtækin ekki einungis lifi af, heldur eigi þess kost að efla atvinnulífið og þannig sé hægt að tryggja fleira fólki atvinnu.
    Þetta teljum við vera brýnasta verkefnið af því að í smáu þjóðfélagi eins og því íslenska er óþolandi að það verði frekari vöxtur í atvinnuleysi landsmanna. Ég verð hins vegar að segja að það er uggur í brjósti mér og ég skal gjarnan láta það koma fram í lok þessarar ræðu.
    Fyrir skömmu voru hér staddir menn á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, menn sem eru sérfræðingar í efnahagsmálum á Norðurlöndum, og í persónulegu viðtali við mig lýstu þeir því að við skyldum vara okkur einmitt á því að atvinnuleysistölur ættu það til að rjúka upp við þau skilyrði sem við höfum hér. Efnahagslífið hér á landi væri með mjög svipuðu móti og til að mynda í Svíþjóð og Finnlandi, jafnvel í Færeyjum, og þess vegna þyrftum við að gæta að okkur í þessum málum. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að tilraunir ríkisstjórnarinnar í þessum málum miðast við að koma í veg fyrir að það gerist hér á landi að atvinnuleysi rjúki upp með sama hætti. Við skulum minnast þess að aðeins eru tvö ár síðan að atvinnuleysi í Svíþjóð var minna en á Íslandi á sama tíma. Og það eru einungis tvö ár síðan að atvinnuleysi í Finnlandi var minna en atvinnuleysi er á Íslandi í dag. Nú stefnir atvinnuleysi í Finnlandi líklega í 15% á næsta ári og atvinnuleysi í Svíþjóð líklega 7--8%. Þetta segi ég hér vegna þess að við hljótum að hafa áhyggjur af því að þetta geti gerst hér á landi og verðum öll í sameiningu að freista þess að koma í veg fyrir að það geti gerst. Þess vegna hefur ríkisstjórnin lagt á það ofurkapp að efla atvinnulífið og koma í veg fyrir að atvinnuleysi aukist.