Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 17:06:25 (3738)

     Frsm. minni hluta fjárln. (Guðmundur Bjarnason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru greinargóð, a.m.k. við þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Mig langar þó að ítreka það aðeins að varðandi Hafrannsóknastofnunina þá finnst mér að það vanti allmikið á að líklegt sé að þetta standist þær fyrirætlanir sem hæstv. ráðherra gerir hér grein fyrir. Eftir stendur náttúrlega það hvernig fjárreiðum stofnunarinnar er háttað á þessu ári þegar upp á vantar 300 millj. kr. Hvort það er þá lán frá ríkissjóði eða hvort stofnunin sjálf . . .   ( Fjmrh.: Yfirfærsla milli ára.) yfirfærsla þar sem stofnunin sjálf hefur ekki heimild til að taka lán. Í öðru lagi varðandi Atvinnuleysistryggingasjóðinn, það sem spurning mín laut að var að samkvæmt grg. frv. er gert ráð fyrir að nú stefni í nálægt 4% atvinnuleysi og þær 500 millj. sem hér er bætt við hafa þá auðvitað tekið mið af því en nú vitum við, eins og kom fram í okkar nál., að atvinnuleysi er nú þegar meira og þessar tölur eru hærri í dag og þess vegna spurðum við um þann vanda sem kynni að skapast en auðvitað má sjálfsagt leysa það með því að sjóðurinn gangi á eignir.
    Ég ætla ekki að taka þessi hitaveitumál neitt frekar til umræðu hér, hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu rétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, að þetta er mál iðnrn. Iðnrn. hefur því miður lítið viljað sinna þessu og svo var vissulega með þær veitur sem teknar voru til meðferðar hér á seinasta ári. En látum það mál liggja um sinn og sjáum hvort hægt er að vinna betur að því og skoða það nánar hvar skórinn kreppir mest.
    Að lokum um sparnaðinn. Auðvitað kemur það einhvers staðar við, ef menn skera niður, við skulum segja rekstur sjúkrahúsanna, eins og hér hefur verið haldið fram, um kannski 700 millj. kr. á árinu. Það fækkar störfum og það þrengir að hjá því fólki sem ekki hefur vinnu eða ekki fær yfirvinnu eða hættir

störfum, það kemur einhvers staðar niður. Það sem ég vildi fyrst og fremst benda á --- og bara í einni eða tveimur setningum, hæstv. forseti, --- var það að ég óttast að sparnaðurinn, sem þarna er boðaður eða umræddur, eigi eftir að bitna á okkur síðar með öðrum og verri hætti. Hvað er að gerast með það fólk sem er sjúkt og er á biðlistunum sem nú lengjast? Sumt af því er á örorkubótum af því að það fær ekki sína meðferð á sjúkrahúsinu. Er það sparnaður að borga því út í gegnum tryggingakerfið? Það eru svona aðstæður sem ég er að tala um og svo auðvitað langtímaafleiðingin af því að skera niður í skólakerfinu sem ég hef því miður ekki tíma til að ræða hér núna.