Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 17:41:47 (3752)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt athugað hjá hv. 4. þm. Norðurl. v. að það er afar mikilvægt að sjávarútvegurinn eigi öfluga talsmenn hjá Sjálfstfl. og ekki síst á Alþingi. Ekki skiptir máli hversu margir þeir eru, aðalatriðið er að þeir séu öflugir og ég get fullvissað hann um það að hann þarf ekki að hafa nokkrar áhyggjur af því að sjálfstæðismenn í þinginu leggja ríka áherslu á málefni sjávarútvegsins eins og hann þekkir. Hins vegar get ég ímyndað mér það að ef íbúar á Norðurl. v. hefðu tækifæri til þess að horfa á Sýn þá undruðust þeir mjög þá söguskýringu sem hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur uppi um sterka stöðu sjávarútvegsfyrirtækja í lok þess tíma sem Framsfl. fór með sjávarútvegsmál á Íslandi.