Evrópskt efnahagssvæði

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 22:12:18 (3766)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Reykv. fyrir þetta svar vegna þess að það var auglýst eftir því í umræðum hér í gær eða fyrradag af hv. 5. þm. Vestf. Því að gildistökuákvæðið er auðvitað með þeim hætti að nauðsynlegt er að allir þingmenn skilji hvað í því felst. Það er tvíþætt. Það er annars vegar 1. gr. sem kveðið er á um í fyrri málsgreininni en hins vegar, eins og hv. þm. gat um, kemur þarna fram að samningurinn tekur ekki gildi að því er Ísland varðar fyrr en þessu ferli, í framhaldi af því að Sviss er út úr þessu, er lokið sem staðfestir í raun og veru það sem við stjórnarandstæðingar höfum verið að segja að það er óþarfi að klára málið eins og það lítur út með skírskotun til efnisinnihaldsins. Innihald málsins krefst þess ekki þó að maður styðji EES. Jafnvel þótt maður gerði það, þá krefst innihaldið þess ekki að málið sé afgreitt. Hins vegar kann metnaður utanrrh. að krefjast þess en það er utan við mitt áhugasvið.