Evrópskt efnahagssvæði

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 22:13:43 (3767)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. 9. þm. Reykv. fyrir yfirvegaða ræðu sem bar vott um sveigjanleika í hugsun og sáttfýsi og hvort tveggja ber að virða. Ég ætla að gera þrjár athugasemdir við ræðu hans.
    Í fyrsta lagi get ég ekki fallist á þá skoðun hv. þm. að hugmyndafræði EB hafi orðið til vegna kalda stríðsins. Hugmyndirnar um Evrópubandalagið eru fyrst og fremst sprottnar af öryggisþörf Evrópu sjálfrar, vandamálum sem tengjast þar minnihlutahópum og landamærum og þessar hugmyndir urðu til strax eftir stríð, í raun og veru áður en járntjaldið lokaðist, áður en menn áttuðu sig á því hvað var að gerast í Evrópu eftir stríðið. Ég held að það sé nauðsynlegt að þetta komi fram vegna þess að þetta skiptir máli fyrir það hvernig Evrópubandalagið er hugsað upphaflega burt séð frá því hvernig það þróast svo nú.
    Annað atriði sem mig langar til að taka fram er það að hv. þm. sagði að við værum að taka við hugmyndafræði Evrópubandalagsins. Það var alltaf meiningin með umræðunum um Evrópska efnahagssvæðið. Við værum varnarlausir gagnvart þessum hugmyndum án EES. Við erum þegar byrjaðir að heyra fyrirmæli Evrópubandalagsins. Þeir setja okkur ákveðin skilyrði um það hvernig þær vörur sem við flytjum til þeirra skuli vera og við reynum að laga okkur að þessum kröfum. Japanir setja skilyrði um það hvernig þeir vilja hafa þá vöru sem við flytjum til þeirra og við reynum að laga okkur að þessum kröfum. Við erum viðskiptaþjóð, hv. þm., og við verðum að laga okkur að þessu. Og þá spyr ég þingmanninn: Er það niðurlægjandi að vera viðskiptaþjóð og laga sig að mörkuðum? (Forseti hringir.) Ég verð að geyma mér þriðju athugasemdina þangað til síðar.