Evrópskt efnahagssvæði

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 22:20:25 (3770)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 9. þm. Reykv. beindi þeirri spurningu til mín auk hv. 3. þm. Reykv. hvert framhald þessa máls á þingi mundi líklega verða. Það er alveg ljóst að nauðsynlegt er að bæta stuttri bókun við EES-samninginn þess efnis að ákvæðin í honum sem varða Sviss verði óvirk vegna þess að Svisslendingar höfnuðu samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 6. des. Það er hins vegar ekki á þessari stundu hægt að svara því hvort form þingmálsins, sem af þessu verður hér á Íslandi, verður till. til þál. sem ríkisstjórnin að sjálfsögðu mun flytja eða frv. til laga. Það fer eftir efni bókunarinnar. Verði efni bókunarinnar eingöngu þjóðréttarsamningseðlis nægir að sjálfsögðu að hér verði flutt þáltill. eins og hv. 3. þm. Reykv. nefndi og heimild til að staðfesta þann samning veitt með þeim hætti. Verði einhver fylgiákvæði í þessari bókun sem enn hefur ekki verið samin sem gerir það nauðsynlegt að þau verði lögfest hér, og eins og kom hér fram áðan þá hefur ein af bókununum með EES-samningnum verið sett í frv. sem hér er rætt með tillögu um lögfestingu á þeirri bókun þá þarf lagafrv.
    Það hafa þegar verið samin drög að bókun um þetta mál. Þau verða væntanlega fullgerð í fyrri hluta janúar. Þá verður kölluð saman ráðstefna stjórnarerindreka til þess að afgreiða slíka tillögu. Það er einmitt vegna þessa undirbúnings sem það er afar mikilvægt að það þingmál sem við ræðum hér verði afgreitt og gert að lögum til þess að við stöndum jafnfætis okkar samstarfsaðilum í þessu máli þegar að því kemur að ráða því til lykta hvernig þessi bókun verður og framhald málsins.