Evrópskt efnahagssvæði

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 22:24:04 (3772)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er vitaskuld fullkomlega sammála hv. 9. þm. Reykv. um það að Evrópumálin munu verða á dagskrá Alþingis á þessum vetri og væntanlega marga vetur fram undan. Hins vegar er ég honum öldungis ósammála um það að afgreiðsla þess þingmáls, sem nú er rætt, sé eitthvert ómark. Það er þvert á móti ákaflega mikilvægt til þess að tryggja íslenska hagsmuni og stöðu Íslendinga í því starfi sem nú verður að vinna vegna þeirrar stöðu sem upp er komin með því að Svisslendingar höfnuðu EES-samningnum, þar þurfum við að ná vopnum okkar til þess að tryggja sem best íslenska hagsmuni. Það gerum við best með því að afgreiða það frv. sem hér er nú til umræðu.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, taka undir með öðrum sem hér hafa talað að ég vil þakka hv. 9. þm. Reykv. fyrir hans fróðlegu ræðu. Ég vildi þó taka það fram að mér finnst það ekki makleg lýsing sem hann gefur á þátttökuríkjum Evrópubandalagsins að kalla það niðurlægjandi fyrir sjálfstæðar þjóðir að taka þátt í samstarfi eins og þar er og spyr um það hvort í raun og veru felist í þessum orðum þingmannsins að hann telji að Danir, Hollendingar, Bretar, svo ég taki nú dæmi af nokkrum þjóðum, séu ekki lengur sjálfstæðar þjóðir.