Evrópskt efnahagssvæði

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 22:25:36 (3773)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það fer nú þannig fyrir skilningarvitunum í okkur þegar við erum búin að sitja á löngum fundum að þá vilja þau kannski missa þá skerpu sem menn kunna að hafa útsofnir að morgni dags. Það sem ég átti við var fjarri öllu lagi það sem hæstv. iðnrh. spurði um. Það sem ég átti við er ósköp einfaldlega það, og ég hef rökstutt það áður, að ef við erum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði þá verðum við að taka við talsverðu af bókunum, samþykktum og lögum sem koma frá Evrópubandalaginu. Ég

tel að það setji okkur í niðurlægjandi stöðu en ekki þá sem eru þarna innanvert í Evrópubandalaginu. Ég skal ekki taka afstöðu til þess. Þeir hafa samþykkt þessi mál á sínum forsendum. Og ég tel að það hafi verið staðfest í þessari lotu sem mjög mikilvægt atriði, í fyrsta lagi það að menn vilja kannski haga þessari umræðu aðeins öðruvísi en við höfum oft gert. Mér finnst að í þeim orðum sem hér hafa verið sögð í andsvörunum, og ég þakka fyrir, hafi komið fram vissar undirtektir m.a. við þau orð sem ég viðhafði um stöðu þingmanna til að taka þátt í umræðum. Mér finnst það mikilvægt. Og mér finnst að í þessum orðum, sem hér hafa komið fram í andsvaralotunni, felist það líka að menn vilji kannski halda aðeins öðruvísi á framhaldinu og vera þolinmóðari við að leita að samnefnurum heldur en menn hafa stundum verið í seinni tíð.