Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 14:05:24 (3780)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (frh.) :
    Virðulegur forseti. Ég var að ræða um áhrif af þeim breytingum sem nú verða á virðisaukaskatti. Ég hafði lítillega gert því skil hvaða áhrif það mundi hafa á ferðaþjónustuna í landinu. Það er jafnframt ljóst að sú breyting sem verður á endurgreiðslu á virðisaukaskatti í byggingariðnaðinum mun hafa veruleg áhrif. Hæstv. fjmrh. er ekki hér staddur en kemur væntanlega fljótlega. Það er rétt að gera sér grein fyrir því að þessi breyting verður ein og sér til þess að byggingarvísitalan hækkar um 3% sem verður síðan til þess að lánskjaravítitalan hækkar um 1%. Og hvaða áhrif ætli það hafi á skuldbindingar ríkissjóðs? Ætli verðtryggðar skuldir ríkissjóðs séu ekki um þessar mundir a.m.k. 60 milljarðar, jafnvel 65 milljarðar? Þannig að þessi breyting ein og sér hækkar skuldir ríkissjóðs um einar 600 millj. Þetta sýnir e.t.v. betur en margt annað hversu erfitt er að binda hlutina ákveðinni vísitölu, hvort sem það eru laun, lánsfé eða skattar. Ég er viss um að allir geta samþykkt að við þessa aðgerð aukast ekki möguleikar þjóðfélagsins til að fá meiri tekjur, þannig að það sem stendur að baki skuldbindingum í samfélaginu er í reynd rýrara í dag vegna efnahagsáfallsins heldur en var fyrir einu eða tveimur árum síðan. En það er nú svo að hinar ýmsu aðgerðir og jafnvel reglugerðir geta haft mikil áhrif á skuldbindingar ríkisins. Þannig getur reglugerð um meiri kröfur um öryggi í byggingu íbúðarhúsnæðis orðið þess valdandi að skuldir ríkisins stórhækka og þeirra sem eru með skuldbindingar samkvæmt lánskjaravísitölu. En þetta er ekki eingöngu gagnvart ríkissjóði heldur gagnvart öllum einstaklingum og fyrirtækjum í landinu. Einstaklingarnir skulda samkvæmt lánskjaravísitölu, fyrirtækin skulda samkvæmt lánskjaravísitölu og þessi aðgerð verður til að hækka skuldir allra einstaklinga og fyrirtækja í landinu um 1%. Það er þetta flókna samspil ríkisfjármála, viðskiptakjara og þjóðartekna sem þarf að hafa meira í huga nú en nokkru sinni fyrr. Ég tel að við gerð þessa frv. hafi þetta ekki verið haft í huga eða í minna mæli en nokkru sinni fyrr. Það má vel vera að ég muni ekki alla hluti rétt eða sé ekki hlutlaus í þeim efnum, en ég man ekki eftir öðrum eins hringlandahætti í kringum afgreiðslu fjárlaga og nú er á Alþingi. Það má vel vera að ég sjái það eitthvað í öðru ljósi nú, en a.m.k. er ég fullviss um það að svona vinnubrögð ganga ekki. Og ef þau eiga sér eitthvert fordæmi hér áður fyrr þá er það heldur engin afsökun.
    Mér finnst að oft og tíðum séu það sem við köllum ,,ákveðin prinsipp`` brotin og mér finnst eins og samspil embættismannakerfisins, ríkisstjórnar og stjórnmálamanna sé á margan hátt farið að gefa sig. Mér finnst eins og stjórnmálamennirnir séu hættir að virða þau prinsipp sem embættismannakerfið hefur þó reynt að halda uppi hér á landi. Yfirleitt hefur það verið þannig að ef eitthvað vanhugsað hefur komið frá ráðherrum, ríkisstjórnum eða stjórnmálamönnum þá hefur embættismannakerfið yfirleitt veitt visst viðnám. En ég hef það á tilfinningunni að þetta viðnám sé orðið mjög lítið og má vel vera að menn þoli ekki mikið lengur við því það er til siðs að taka menn fyrir og skamma þá jafnvel á almannafæri ef einhver leyfir sér

að segja og draga í efa það sem ríkisstjórnin er að gera eins og t.d. þann prófessor sem leyfði sér að senda álit á ákveðnu efni. Það má vel vera að það álit hafi ekki verið nægilega vel unnið, en það er dæmigert ef menn leyfa sér slíkt þá kemur hæstv. forsrh. ræðst á manninn persónulega með svívirðingum á opinberum vettvangi. Ég get út af fyrir sig ósköp vel skilið að ýmsir hiki við að láta í ljós álit í þjóðfélaginu þegar menn eiga von á svona gusum. Það má vel vera að embættismannakerfið sé að verða svo hrætt við ríkisstjórnina og stjórnmálamennina að það sé að meira eða minna leyti hætt að standa á ákveðnum prinsippum. Það má vel vera að hæstv. ríkisstjórn og ráðherrar séu ekki sammála mér í þessu mati en mér finnst þetta áhyggjuefni og í reynd á það ekki að vera svo að skattalagabreytingar í eins miklum mæli og hér eiga sér stað séu framkvæmdar á síðustu stundu meira að minna lítt undirbúnar og tekið fram í ýmsum atriðum að frekari athugunar þurfi við og að til standi að koma með frekari brtt. í upphafi næsta árs.
    Það er kannski eðlilegt að ríkisstjórnin vilji flýta þessu hér í gegn og reyna að koma því þannig við að sem minnst umræða verði um þetta mál, en það er svo stórt að vöxtum að ekki er hægt að reikna með öðru en að hún verði allveruleg.
    Þá er ég komin að því að það stendur til að leggja virðisaukaskatt á bækur, blöð og tímarit. Nú er það svo að auðvitað má færa rök fyrir því að þessi þáttur í neyslu manna beri skatt með svipuðum hætti og aðrar vörur sem fólk kaupir. Það er hins vegar ekki þannig að það standi til að leggja virðisaukaskatt á allt sem flokkast undir menningarstarf. Það er ekki ætlunin að gera það í sambandi við tónlistarflutning, leiklistarstarfsemi og margt annað. Það er ekki hugmyndin að leggja skatt á íþróttastarfsemi og ýmislegt fleira. En þetta eins og annað verður að skoðast í því ljósi sem er og í því umhverfi sem við búum við að því er varðar menningarstarfsemina. Bóka-, blaða- og tímaritaútgáfa er í mikilli vörn. Bóksala hefur dregist saman og gert er ráð fyrir að heildarvelta í bóka-, blaða- og tímaritaútgáfu dragist saman a.m.k. um 10--11% í kjölfar þessara breytinga að mati Þjóðhagsstofnunar. Bókaútgefendur sjálfir gera ráð fyrir að þessi samdráttur verði mun meiri. En ef mat Þjóðhagsstofnunar stenst þá er ljóst að þarna mun fækka um 100 störf. Því hefur verið haldið fram af útgefanda tímarita hér á landi að ríkissjóður tapi á þessari breytingu og að tímaritaútgáfa muni að meira eða minna leyti leggjast af. Ekki hefur farið fram neitt heildstætt mat á þeim staðhæfingum og þótt Þjóðhagsstofnun hafi framkvæmt þetta skyndimat þá er það í fyrsta skipti sem menn reyna að gera sér nokkra grein fyrir þessu á opinberum vettvangi. Þeir aðilar sem sömdu þetta frumvarp hafa í engu reynt að gera sér grein fyrir þessum áhrifum. Hér er því um mjög alvarlegar staðreyndir að ræða.
    Að sjálfsögðu eru áhrifin á menningarstarf hér á landi og bókmenntir okkar alvarlegust. Við erum að komast æ lengra inn í alþjóðlega samvinnu og við erum að komast í meiri snertingu við hið alþjóðlega umhverfi en við höfum nokkru sinni staðið frammi fyrir. Af þessum sökum mun reyna meir á íslenska menningu og menningarstarf okkar en nokkru sinni fyrr. Við lesum önnur tungumál meira en áður, við horfum meira á erlendar sjónvarpsstöðvar og hlustum meira á hvers kyns boðskap erlendis frá. Við þessar aðstæður er afar mikilvægt að standa fast við bakið á íslensku menningarstarfi og íþyngja því ekki heldur veita því stuðning þannig að það fái staðist þessa samkeppni og menningarstarfið viðhaldist sem er að sjálfsögðu mikilvægasti þátturinn í sjálfstæði okkar og fullveldi að við höldum uppi íslenskri menningu, bókaútgáfu og tónlist og öðru sem því tilheyrir.
    Nú dettur mér ekki til hugar að halda því fram að það sé ætlun hæstv. ríkisstjórnar að koma höggi á þetta starf. Hér er ríkisstjórn í leit að tekjum og er að reyna að koma saman vandasömu fjárlagaverki. Ég hef fullan skilning á því. En ég hef ekki skilning á því þegar ríkisstjórn gerir það án þess að gera minnstu tilraun til að gera sér grein fyrir afleiðingunum. Þetta er allt saman gert í fljótheitum og menn mega vart vera að því að lesa þetta enda á ég ekki von á því að nokkrum hv. þm. hafi í reynd gefist tími til að lesa þetta allt saman yfir í heilu lagi því að allt málið hefur verið að breytast fram á síðustu stundu. En ég vildi gjarnan heyra álit hæstv. menntmrh. á þessu en nú sé ég, hæstv. forseti, að enginn ráðherranna er viðstaddur í salnum en ég hef reynt að gera þá hógværu kröfu að a.m.k. einn þeirra væri hér. Ég hef skilning á því að hæstv. fjmrh. getur ekki verið hér sem stendur en auðvitað er það ekki nægilega gott. En mér finnst að það sé ekki mikil krafa að gera ráð fyrir því að a.m.k. einn fulltrúi ríkisstjórnarinnar sé viðstaddur umfjöllun þessa máls, en vænti þess að hæstv. forseti hafi fullan skilning á því og reyni að bæta þar úr. ( Forseti: Hæstv. ráðherrar, sem hv. þm. nefndi, eru ekki í húsinu eins og er. Forseti heldur að það sé af gildum ástæðum, sem forseti veit að hv. þm. mun taka tillit til, en er að láta kanna hvenær þeir eru væntanlegir.) Já, ég þakka, virðulegi forseti, fyrir það. Ég hef fullan skilning á fjarveru ráðherranna en ég varð hins vegar var við að sumir þeirra komu í upphafi fundar og gerði ráð fyrir að a.m.k. einn þeirra hafi aðstæður til að vera hér.
    En aðeins að lokum að því er varðar virðisaukaskattinn. Virðisaukaskatt á að leggja á húshitun og fólksflutninga. Rétt er að taka fram að jafnframt því að virðisaukaskattur er lagður á húshitun þá er gert ráð fyrir því að þær byrðar sem leggjast á fólk vegna þess séu að nokkru leyti jafnaðar út en þó munu verða meiri byrðar lagðar á það fólk sem býr við kostnaðarsömustu húshitunina. Það hefur verið kappsmál margra á Alþingi að draga úr því óréttlæti sem þar ríkir en með þessum aðgerðum mun það heldur vaxa en ekki úr því draga. Við könnuðum möguleika á því að framkvæma þessa skattlagningu með öðrum hætti og var það ágæt umfjöllun í nefndinni en ekki þótti fært að taka tillit til þeirrar vinnu og ganga til meiri jöfnunar á þessum álögum eins og hægt hefði verið að gera.

    Að því er varðar skattlagninguna og fólksflutningana þá mun það leggjast í mjög þungum mæli á þá sem þurfa að sækja þjónustu langt að, þá sem þurfa yfirleitt að fljúga til að komast að helstu þjónustumiðstöðvum landsins. Það er að sjálfsögðu það fólk sem býr við mestu einangrunina eins og fólk á Austfjörðum, Vestfjörðum, ákveðnum svæðum á Norðurlandi, Vestmannaeyjum o.s.frv. Þeir sem geta notað ökutæki sín munu að vísu verða fyrir nokkurri hækkun á skattlagningu í formi bensíngjalds, það mun leggjast jafnt á alla landsmenn. En þeir sem búa við mestu einangrunina verða fyrir meiri byrðum en almennt gerist. Þetta er hugsun sem við í minni hlutanum eigum mjög erfitt með að fella okkur við og teljum að þetta sé mál sem hefði þurft að fá miklu meiri umfjöllun og leita leiða til að jafna þessi áhrif. Þetta er e.t.v. eitt af því sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að skoða betur á næsta ári og má segja að það sé nú með flest af því sem nú stendur til að fá samþykkt að það sé undirbúið með þeim hætti að það þurfi frekari athugunar við.
    Ég hef þá lokið, hæstv. forseti, að fjalla um virðisaukaskattinn og ég hef farið lauslega yfir helstu atriði frumvarpsins. Upp úr stendur að hér er um að ræða verulega skattlagningu á einstaklingana í landinu. Sumt af þeirri skattlagningu kemur ekki á óvart. En kaupmáttarskerðingin er mun meiri en fram hefur komið að mínu mati. Fjmrn. telur að það sé milli 3 og 4% og Þjóðhagsstofnun telur að það sé svipað. Hins vegar hefur Alþýðusamband Íslands allt annað mat þar á og telur kaupmáttarskerðinguna mun meiri. Eftir því sem ég best veit stendur nú yfir miðstjórnarfundur Alþýðusambands Íslands til þess að fjalla um þetta mál, miðstjórnarfundur þeirra samtaka sem vildu ganga hvað lengst til þess að hafa samvinnu við ríkisstjórnina og vinnuveitendur um það alvarlega ástand sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Það verður fróðlegt að sjá niðurstöðu þess fundar síðar í dag. Ég er þess fullviss að þeir munu lýsa yfir mikilli óánægju og vonbrigðum með framvindu mála. Þeir munu ekki geta sætt sig við það að skattar séu lagðir á með þeim hætti sem hér er gert, íþynging á þá sem minnstu tekjurnar hafa er of mikil og of lítil á þá sem betur mega sín. Það er þetta grundvallaratriði sem vekur alla þessa úlfúð. Það er af þessum ástæðum að verkalýðshreyfingin kemur nú fram og krefst þess hreinlega að ríkisstjórnin fari frá. Það er mjög óvenjulegt að verkalýðshreyfing standi upp og lýsi því yfir að rétt sé að fara í aðgerðir til að koma ríkisstjórn frá, verkalýðshreyfing sem nokkrum vikum áður lýsti yfir miklum samstarfsvilja við sömu ríkisstjórnina. Hvernig í ósköpunum stendur á þessu? Er ekki alveg ljóst að eitthvað hefur komið fyrir í þessum samskiptum? Eða hafa menn trú á því að slík stefnubreyting hafi orðið hjá aðilum vinnumarkaðarins að ástæðulausu?
    Ég hefði talið nauðsynlegt að hæstv. forsrh. gerði þinginu grein fyrir skoðun sinni á því hvers vegna þessi stefnubreyting átti sér stað og vænti þess að hann komi til þessara umræðna einhvern tíma síðar í dag. Ég vil koma því á framfæri og bið menn að skila því til hans, því að hann getur ekki verið hér sem stendur, að ég vænti þess að við þessa umræðu geri hæstv. forsrh. þinginu grein fyrir því hvað hafi komið fyrir í samskiptum aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar sem veldur þessum ósköpum. Ekki er nóg að kenna öðrum um og hreyta í samtök og einstaklinga eins og ríkisstjórnin gerði gagnvart Alþýðusambandi Íslands og sagði einfaldlega að þeir vildu leggja miklu meiri álögur á landsmenn en ríkisstjórnin sjálf vildi. Það er ekki hægt að taka slíkar skýringar gildar enda eru þær til þess eins fallnar að vekja upp enn þá meiri úlfúð.
    Aðalatriðið er líka það að viðbrögðin eru miklu harðari vegna þess að margt af þessu fólki batt ákveðnar vonir við þá stjórnarflokka sem nú fara með völd og veitti þeim mikið brautargengi í síðustu kosningum. Ég býst við því að Sjálfstfl. hafi fengið góða kosningu m.a. vegna þess hvað hann lofaði miklu í skattamálum í síðustu kosningum. Ég held að ég muni það rétt að flokkurinn hafi lofað að lækka tekjuskattsprósentuna í 35%. Það má vel vera að því hafi ekki verið lofað í Norðurl. v. ( Gripið fram í: Landsfundurinn lofaði því.) en ég hygg að því hafi a.m.k. verið lofað á landsfundi og líklega víðast hvar hér í Reykjavík. Flokkur sem lofar því að leggja niður skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, sem nú er verið að framlengja í fimmtánda skipti --- látum það nú vera --- en lofar því líka að lækka tekjuskattinn í 35%, en nú er hann að komast í 45%, þ.e. þegar útsvarið er þar meðtalið. ( Gripið fram í: Nei.) Það fer nú að nálgast það, hv. þm., ja ekki alveg, en það er mjög að nálgast það. Ef við leggjum lækkaðar barnabætur og lækkaðar húsnæðisbætur við og hækkum skattprósentuna sem ígildi þeirrar lækkunar þá er ég nú helst á því að það fari vel yfir 45%, hv. form. efh.- og viðskn. Og svo ef hinn nýi hátekjuskattur upp á 5% er þar lagður til viðbótar, sem á nú sennilega ekki að taka með, að þá er það nú örugglega komið vel yfir það, en það er að vísu sérstakt mál.
    Þetta er að sjálfsögðu aðalástæðan fyrir viðbrögðunum nú. Sjálfstfl. hefur kynnt okkur, sem erum nú í stjórnarandstöðu, sem sérstakt skattpíningarfólk sem hefði unun af því að leggja skatta á fólk og vilja láta kjósa á milli þess. Annars vegar eru þeir ímynd mannanna sem vilja lækka skatta og gera allt fyrir menn í skattamálum, en hinir, þ.e. öll vinstri súpan eins og þeir segja, það er fólkið sem hefur ánægju af því að skattpína fólk. Þetta var málflutningurinn fyrir kosningar. Er það nema von að verkamenn í Dagsbrún, sem margir hverjir hafa stutt þennan flokk og verkafólk um land allt, sé vonsvikið? Og ekki bara vonsvikið, það fyllist reiði og krefst þess að svona menn fari frá og vill gjarnan athuga hvað þeir ætla sér að lofa í næstu kosningum. Ég held að þetta sé aðalástæðan fyrir þessum hörðu viðbrögðum og ætti engan að undra. Fróðlegt verður að heyra hæstv. fjmrh. koma einu sinni enn og lýsa því yfir að skattarnir hafi ekki verið hækkaðir nokkurn skapaðan hlut. Það gerði hann í allan fyrravetur og það gerir hann enn því að honum tókst með einu einföldu frammíkalli að halda því fram að þeir hafi ekkert hækkað. Það er óskynsamlegt af hæstv. fjmrh. að halda því fram. Hann á einfaldlega að viðurkenna það að hér eru miklir erfiðleikar og það er nauðsynlegt að mæta þeim með einum eða öðrum hætti, m.a. með endurskoðun á skattalögum en það verður að gera með réttlátari hætti. Það sem er alvarlegast er sá hringlandaháttur sem er í kringum málið.
    Ég tel mig ekki þurfa að hafa fleiri orð um nefndarálit okkar. Það er allítarlegt og við töldum nauðsynlegt að láta fylgja þau viðbrögð sem hafa komið frá hagsmunasamtökum í landinu þar sem eru útreikningar um þá miklu breytingu sem verður á skattbyrðinni. Vísa ég til þess sem Alþýðusamband Íslands hefur reiknað út og BSRB og fleiri og ætti það að gefa glögga mynd af þessu máli. Sjaldan hefur komið jafnstórt og umfangsmikið skattamál fyrir þingið og er vont til þess að vita að við skyldum ekki hafa meiri möguleika til að fjalla um það í nefndinni. Ég á von á því að enn eigi eftir að berast viðbrögð frá aðilum vinnumarkaðarins um þetta mál meðan það er hér til umfjöllunar. Í ljósi þessa alls erum við í minnihlutanum þeirrar skoðunar að óskynsamlegt sé að samþykkja frumvarpið og það sé í reynd óskynsamlegt að afgreiða það frá Alþingi í ljósi þess að viðbrögðin við því eru mjög hörð. Fram undan eru kjarasamningar þar sem þetta mál mun áreiðanlega verða efst á borðinu.
    Við erum því þeirrar skoðunar að þessu máli eigi að vísa til ríkisstjórnarinnar og taka það til frekari umfjöllunar þar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Við sem skipum minni hluta nefndarinnar fyrir hönd stjórnarandstöðunnar erum tilbúin að taka þátt í því verki með sama hætti og við höfum lýst yfir áður. Við lýstum því líka yfir í fyrra að við værum tilbúin að taka þátt í starfi að því er varðaði skatt á fjármagnstekjur sem ég hef ekki haft tíma til að koma inn á. Það boð var ekki þegið. En að leggja skatt á þær tekjur með samræmdum hætti er eitt af þeim málum sem nauðsynlegt er að hljóti úrlausn sem allra fyrst. Ekki verður við það unað að aðilar sem hafa miklar tekjur af fjármagni sleppi við skattlagningu en þeir sem hafa aðeins tekjur af launum sínum þurfi að greiða stöðugt hærri og hærri skatt. Sem dæmi um það munu þeir sem eiga verðtryggð verðbréf fá vegna skattaðgerða ríkisstjórnarinnar, endurgreiðslunnar á byggingarkostnaði, 1% hækkun á pappírum sínum en þrátt fyrir það munu skattar þeirra ekki breytast nokkurn skapaðan hlut. Jafnvel þótt ljóst sé að engin þau verðmæti standi að baki þessari hækkun í þjóðfélaginu sem geti staðið undir því.
    Ég er ekki að kenna hæstv. ríkisstjórn um þessa skipan mála, þetta eru leifar af því kerfi sem að var komið á þegar verðtryggingin byrjaði. Ég held að þetta sanni það svo ekki verður um villst að við eigum að koma okkur út úr því verðtryggingarkerfi sem var komið hér á.
    Ég vil svo að lokum þakka ágætt samstarf í þessu máli við fulltrúa meiri hlutans. Þeir hafa reynt eftir bestu getu að verða við öllum óskum okkar um upplýsingar og kallað fyrir þá aðila sem við höfum talið okkur þurfa að ræða við í sambandi við þetta mál þannig að ekki er yfir neinu að kvarta í því sambandi. Hitt er svo annað mál að hraðinn á þessu frv. var einfaldlega of mikill þannig að ekki vannst tími til að fara nægilega vel ofan í það. En það hefur verið orðið við okkar beiðnum um viðtöl við aðila og upplýsingaöflun og það ber að virða.
    Ég vil að lokum ítreka það að við leggjum til að þessu máli sé vísað til ríkisstjórnarinnar jafnvel þótt við höfum afar lítið traust á henni með sama hætti og allir þeir mörgu umsagnaraðilar sem að hafa verið kallaðir til. Ég vænti þess að hæstv. ráðherrar gefi sér tíma til að lesa þær yfirlýsingar sem ekki er nú mikið traust fólgið í og lesa þær helst fyrir jólin því það verður ekki skemmtileg jólalesning, hæstv. fjmrh.