Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 14:44:09 (3782)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hef ekki séð nákvæma útfærslu á því hvað það þýddi að hækka skattprósentuna lítillega og hækka persónuafsláttinn á móti. En það gefur auga leið að það hlífir miklu betur þeim

sem minnstu tekjurnar hafa. Ég er sannfærður um að um það hefði verið meiri friður við launþegasamtökin. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ekki er um einfalda hluti að ræða. En þetta er einfaldlega hluti af kjörum fólks og þetta mál verður tekið upp í kjarasamningum. Það veit hæstv. ríkisstjórn. Það er óskynsamlegt að hlusta ekki á þær raddir. Þess vegna gengur það ekki að hæstv. fjmrh. skuli alltaf vilja ganga frá skattbreytingum með þeim hætti að hreyfa aldrei prósentuna en allt annað megi hreyfa: persónuafsláttinn, barnabæturnar, vaxtabæturnar og það annað sem að skiptir máli í sambandi við skattlagningu. (Gripið fram í.) Já, og sjómannaafsláttinn. Ég þakka leiðréttinguna frá hæstv. fjmrh. Þessu öllu má breyta og það þýðir ekki skattahækkun. Ástæðan er sú að þessi sami fjmrh. lofaði því í síðustu kosningum að lækka skattprósentuna í 35% á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, einhver er með landsfundarsamþykktina hér. Það er kannski von að þessum mönnum líði illa og séu í stöðugum feluleik.