Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 14:46:59 (3783)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil fagna hingaðkomu hæstv. ráðherra, bæði fjmrh. og forsrh. Það vill einmitt svo vel til að ég hafði m.a. hugsað mér að vitna lítillega í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem að var, í ljósi reynslunnar, valið það kostulega heiti Velferð á varanlegum grunni. Mætti nú rifja upp titilinn eins og andinn er í garð hæstv. ríkisstjórnar, m.a. frá samtökum launamanna í landinu þessa dagana. Sömuleiðis vil ég geta þess að ég hyggst ræða síðar í ræðu minni um málefni ferðaþjónustunnar og m.a. álagningu virðisaukaskatts á flugfargjöld bæði innan lands og önnur fargjöld og væri þá ekki úr vegi að hæstv. samgrh. væri nærstaddur. Ég hef ítrekað reynt að eiga þess kost að eiga við hann orðastað um málefni þessarar greinar hér á undanförnum vikum. En svo hefur háttað til í hvert einasta skipti að hæstv. ráðherra hefur verið fjarstaddur þar sem færi hefur gefist á að ræða starfskjör ferðaþjónustunnar undir umræðum um skattamál, fjárlög eða önnur slík. En að þessu kem ég lítillega síðar, hæstv. forseti.
    Hv. 1. þm. Austurl. hefur gert ítarlega grein fyrir vinnunni að þessu máli og viðhorfum stjórnarandstöðunnar sem er mjög samferða hvað viðbrögð snertir við þessu skattafrumvarpi, þessum mikla skattaormi hæstv. ríkisstjórnar sem er e.t.v. til þæginda að kalla svo til aðgreiningar frá bandorminum sem hér var til meðferðar í fyrra og var að því leyti ólíkur að hann tók ekki aðeins til mismunandi skattalaga heldur og alls óskyldra málaflokka. En hér er á ferðinni frv. sem breytir allmörgum ákvæðum mismunandi laga um skattlagningu.
    En ég hlýt þó í byrjun að leyfa mér að fara fáeinum orðum um vinnubrögðin við þessar ákvarðanir og þeim aðstæðum, sem hv. þm. í efh.- og viðskn. eru skapaðar, hvað vinnu snertir að þessu máli. Auðvitað ekki bara þeim þingmönnum sem þar sátu heldur öllum þeim sem þessu starfi tengjast og þá ekki síður embættismönnum sem að eiga að vera þingmönnum til aðstoðar við þessa vinnu.
    Það var með hreinum ólíkindum, og hefur maður þó ýmislegt upplifað í þessum efnum, hvernig þetta var að þessu sinni. Ef maður fer yfir það hvernig efnahagsstefnan og skattastefnan hefur verið mótuð sl. tvö ár þá hlýtur það að vera fleirum en ræðumanni umhugsunarefni að viðkvæm atriði, sem varða álagningu gjalda og geta haft afgerandi áhrif á afkomu einstaklinga og fjölskyldna og heimila, skuli ákvarðast í einhverjum skyndisamningum eða á næturfundum og síðan skellt inn í formi breytingatillagna eða frumvarpa þannig að nánast enginn tími gefst til þess að athuga og reikna áhrif og útkomu slíkra ákvarðana.     Ég leyfi mér að taka dæmi af barnabótunum núna, sem hæstv. ríkisstjórn ákveður á einhverjum sparnaðarnæturfundi, ef ég man rétt í nágrenni við mánaðamótin nóvember/desember. Útfærslan lá ekki fyrir fyrr en að þetta birtist okkur hv. þm. í frumvarpsformi fyrir um viku eða svo. Þá er sest niður við að skoða þetta, hvernig þessi 500 milljón krónu skerðing á barnabótum til viðbótar meira en 500 milljón króna skerðingu í fyrra, komi nú út og snerti afkomu fjölskyldnanna í landinu. Við þetta sitjum við hv. þm. í nokkra daga að reyna að átta okkur á þessu. Við leggjum fyrir starfsfólk fjármálaráðuneytis og Þjóðhagstofnunar allmargar spurningar, við biðjum um upplýsingar, við óskum eftir því að keyrð séu út dæmi, hvernig tveggja, þriggja, fjögurra barna fjölskyldur komi út o.s.frv. Í allveglegu nefndaráliti okkar í minni hlutanum er að finna upplýsingarnar sem við létum draga saman. Hér er að finna línurit um það hvernig þetta hefur áhrif á ráðstöfunartekjur fjölskyldnanna. En hvað gerist svo? Um það bil sem við erum að fá þessi gögn í hendur og þar með loksins að verða --- svo ég bregði á loft einu sýnishorni af vinnu af þessu tagi sem til varð vegna óska frá okkur. Um það bil sem við fáum þessi gögn í hendur og það kemur auðvitað í ljós, að t.d. ráðstöfunartekjur fjölskyldna á ákveðnu tekjubili skerðast harkalega, hvað þá? Þá er þessu allt í einu kippt í burtu. Með skyndiákvörðun fyrir nokkrum klukkustundum, liggur mér við að segja, er bara ákveðið að slá striki yfir þetta allt saman sem búið er að valda miklu umróti í þjóðfélaginu, búið er að kosta heilmikla vinnu og við hv. þm. erum búnir að reyna á fundum dögum og nóttum saman að átta okkur á. Þá er því bara hent og ekki er ég að gráta það út af fyrir sig. En ég rek þetta sem dæmi um þær vinnuaðstæður sem okkur voru skapaðar. Í staðinn kemur splunkuný ákvörðun úr allt annarri átt um að lækka persónufrádráttinn við álagningu tekjuskatts. Þá höfum við þangað til að málið er sett á dagskrá og tekið til umræðu innan við sólarhring til þess að átta okkur á því hvernig sú breyting komi út. Öll sú vinna sem lögð var í það að greina áhrif barnabótabreytinganna er ónýt. Og glæný ákvörðun af allt öðrum toga komin og ég er að fá í hendurnar núna 3--4 mínútum áður en ég fór í ræðustólinn fyrsta skriflega gagnið sem við höfum beðið um og tengist útkomu þessarar nýju ákvörðunar. Síðan þetta var kynnt hafði ég reyndar þrisvar óskað eftir því að fjármálaráðuneytið tæki saman fyrir mig framreikning á raungildi persónuafsláttarins sl. undanfarin ár. Ég fékk þetta blað í hendur núna þremur mínútum áður en ég kom í ræðustólinn. Ég er ekki að ráðast hér að starfsmönnum fjármálaráðuneytisins sem gert hafa sitt besta, illa sofnir eins og þeir eru þessa dagana, þetta er bara til marks um þær vinnuaðstæður sem okkur eru skapaðar, bæði þingmönnum og starfsmönnum sem að þessu máli koma. (Gripið fram í.) Ég held ég leyfi mér að segja já, hv. frammíkallandi. Ég held að þetta sé það versta sem ég hef upplifað. Bæði sem þátttakandi í þessu sjálfur og sem þingmaður bráðum í 10 ár. Ég man ekki eftir þeim ósköpum að ákvarðanir af þessu tagi hafi verið teknar með slíkri óskaplegri skyndingu eins og þetta ber vitni um.
    Auðvitað er hárrétt að vinnubrögðin á undanförnum árum hafa ekki alltaf verið til fyrirmyndar. Heldur ekki í tíð annarra ríkisstjórna. En það er engin afsökun. Það er ekkert betra að þetta skuli gerast svona í dag þó að mönnum hafi áður verið mislagðar hendur í þessum efnum. Ég leyfi mér að segja það, ég leyfi mér að fullyrða það hér, að þetta sem við höfum verið að ganga í gegnum núna er með því allra versta sem ég hef nokkurn tíma tekið þátt í eða séð til. Ég held það sé þannig og það á að vera okkur öllum hv. þm. ærið umhugsunarefni.
    Tökum líka sem dæmi hringlið með skattalega meðferð fyrirtækjanna: hlutabréfafrádráttinn, arðsprósentuna og tekjuskattsprósentu á fyrirtækjunum. Hvers konar er þetta eiginlega? Ef farið er yfir það hringl núna á þessu rúma ári síðan að ríkisstjórnin var að baksa með þetta í fyrra og það er auðvitað alveg með ólíkindum að menn sem á tyllidögum kalla sig sérstaka stuðningsmenn einkaframtaksins og einkarekstrar í atvinnumálum og forsvarsmenn fyrirtækja og atvinnulífs skuli sitja uppi með svona útkomu eins og hæstv. ríkisstjórn gerir og hæstv. núv. fjmrh. Að verið sé að hringla fram og til baka með hluti eins og þá hvernig eigi að haga skattlagningu á arðgreiðslum hlutafélaga, hversu mikinn frádrátt einstaklingar skuli fá ef þeir leggja fé í atvinnulífið. Þetta er verið að möndla með fram og til baka ár eftir ár.
    Varðandi tekjuskatt fyrirtækjanna þá er þetta þannig, ekki satt, að ríkisstjórnin boðaði í fjárlagafrumvarpinu að hann skuli lækka um 33%. Þannig stendur það í eina tvo mánuði að fyrirtækin undirbúa sín mál og reikna með því að þau geti treyst því að skattprósenta þeirra lækki úr þessum 45, eða hvað það hefur verið, í 33%. Bíðum nú við. Svo kemur ein skyndiákvörðun ríkisstjórnarinnar enn. Allt í einu er þetta úrelt. Nú skal þetta vera 38% á næsta ári. Og það stendur í eina fjóra sólarhringa að þetta eigi að vera 38%. Svo hittast menn hérna niður í þingflokksfundarherbergi Sjálfstfl. og gefin er út tilkynning: Nei, þetta verða 39%. Og maður bíður bara spenntur, hver verður prósentan í dag og á morgun? Þetta er að verða eins og spennandi reyfari hvernig skattprósentan þróast dag frá degi hjá hæstv. ríkisstjórn. Þetta er myndarlegt eða hvað? ( Forsrh.: Áhrif þingsins.) Áhrif þingsins, segir svo hæstv. forsrh. sem hefur þóst þess umkominn að kenna góð fordæmi í vinnubrögðum, verkstjórinn fyrir þessu öllu saman, eða hvað? Eða er það kannski einhver annar sem á að fá skellinn núna þegar allt er komið í óefni. Á kannski að skella skuldinni á hæstv. sjútvrh.? Það hefur stundum verið vinsælt í ríkisstjórninni að muna eftir honum þegar eitthvað hefur tekist illa.
    Nei, hæstv. forseti, þetta er auðvitað þannig, að manni liggur við að segja að það sé þyngra en tárum taki hvernig þetta hefur gengið til. Og alveg eins má í raun og veru því miður fara yfir þetta gagnvart einstaklingunum. Og er það kannski að sínu leytinu til enn þá viðkvæmara þegar menn eru að frétta það allt í einu gegnum kvöldfréttirnar að það eigi að kippa undan þeim fótunum. Hvort það er í einu tilvikinu með hækkun meðlaga eða í öðru tilvikinu með stórkostlegri skerðingu barnabóta eða vaxtabóta. Núna með skerðingu persónufrádráttar lágtekjufólks. Það er auðvitað alveg ævintýralegt að hlutirnir skuli ganga svona fyrir sig. Og ég held að við verðum öll að horfast í augu við það að við þurfum að taka okkur á í þessum efnum. Þá á ég við stjórnmálamenn almennt. Og einhvern veginn verður að fara að taka upp þau vinnubrögð að þetta gangi ekki svona til.
    Sú ágæta hugmynd kom fram hjá einum ónefndum hv. þm. í efh.- og viðskn., ef ég man rétt, að það ætti hreinlega að banna að breyta skattalögum á haustþingi. Það ætti að setja það í lög, helst í stjórnarskrá, að allar skattalegar ákvarðanir skyldu teknar á vorþingi gagnvart því skattári sem í hönd færi. Þannig að það lægi fyrir hálfu ári áður hverjar yrðu álagningarprósentur tekjuskatts, eignarskatts, virðisaukaskatts o.s.frv. ( Fjmrh. : En útgjöldin, er ekki hægt að gera það sama líka þeim megin?) Ja, það væri líka til fyrirmyndar, hæstv. fjmrh., ef menn gætu reynt að vinna útgjaldaákvarðanir ríkissjóðs með það góðum fyrirvara að fjárlög lægju fyrir mörgum mánuðum áður en að þau tækju gildi. Eða t.d. að rammafjárlög, sem tekið væri mark á, lægju fyrir að jafnaði fjögur ár fram í tímann. Þetta er gert í öðrum löndum, hæstv. fjmrh. Og eins og hæstv. fjmrh. vafalaust veit þá hafa menn í því ráðuneyti, sem hann nú stýrir, á því ágæta búi, oft gert atrennur að því að reyna að koma einhverju slíku saman en menn hafa heykst á því. Og það er auðvitað mjög miður að við skulum vera á þessu frumstæða stigi enn þá.
    Það vakti athygli mína þegar ég var í heimsókn einu sinni sem oftar hjá landstjórn eða heimastjórn Grænlendinga og heilsaði þar upp á fjármálaráðherrann. Hann dreif í mig tvær allmiklar gular bækur. Þar voru á ferðinni annars vegar fjárlög næsta árs, nokkrum mánuðum áður en þau áttu að taka gildi, og hins vegar rammafjárlög til þriggja næstu ára þar á eftir sem voru notuð og færð fram jafnan um eitt ár í senn og lágu fyrir. Og það er enginn vafi á því að með skipulögðum vinnubrögðum af þessu tagi gætu menn bætt sig. Það hefur reynslan sýnt þar sem menn hafa tekið upp skipulögð vinnubrögð af þessu tagi. Svo sem eins og í ýmsum framkvæmdamálum, vegagerð, flugvallagerð og víðar.
    Hæstv. forseti, ég ætla að renna lauslega yfir nokkur efnisatriði þessa frumvarps. Ég þarf ekki að hafa um

það mjög langt mál. Ég get í flestum greinum vísað til þess sem hv. 1. þm. Austurl. sagði og ætla mér aðallega að reyna að bæta þar einhverju við eða koma inn á atriði sem hann ekki gerði til þess að vera ekki með miklar endurtekningar, enda engin ástæða til, hv. 1. þm. Austurl. fór ítarlega yfir þetta mál og gerði það vel.
    Ég fagna því þrátt fyrir allt að einstöku skynsemisglæta er þó á ferðinni í þessum breytingartillögum meiri hlutans og þar tel ég tvímælalaust, eins og ég lét koma fram við 1. umr., að það sé til bóta að sjá að sér og hætta við að lækka arðsprósentu fyrirtækjanna, þ.e. þá prósentu sem þeim er heimilt að draga frá tekjum vegna útborgunar arðs áður en til skattlagningar kemur. Ég held að það hefði verið heimskuleg ákvörðun við núverandi aðstæður í íslensku viðskiptalífi að draga þannig úr þeim þó fáum hvötum sem eru til þess að nýtt fé komi inn í atvinnulífið. Eða eru menn búnir að gleyma því hvernig skuldsetningu íslenskra fyrirtækja er háttað, að sjávarútvegurinn á ekki fyrir skuldum sem atvinnugrein og meðaltal fyrirtækja í íslensku atvinnulífi er með skuldsetningu, að mér er sagt, um 70%. Einhvers staðar sá ég fljúga fyrir tölur um þetta atriði nýlega.
    Og hvað er það þá sem við þurfum fyrir utan að lækka vexti og hafa þá hóflega næstu árin, mér liggur við að segja áratugina, ef menn eiga að geta unnið sig upp úr þessu, annað en hitt að ná nýju fé í þessi fyrirtæki. Það getur gerst með tvennum hætti. Annaðhvort að afkoman sé svo góð að það myndist hagnaður í fyrirtækjunum eða með því að fjármagn, sem er einhvers staðar á lausu, laðist að þessari starfsemi. Menn sjái sér hag í því frekar heldur en að leggja fé inn á bók, kaupa erlend skuldabréf sem menn geta farið að gera nú um áramótin eða sólunda því fé innan lands eða utan að leggja það frekar í einhverja uppbyggingu í atvinnumálum.
    Þarna hafa verið á undanförnum árum, með þessa hugsun að baki, búnir út ákveðnir hvatar, fyrst og fremst tvenns konar, til þess að reyna að beina fé inn í atvinnulífið, inn í fyrirtækin. Annars vegar heimildir fyrir fyrirtækin til að greiða hluthöfum sínum arð og draga þær greiðslur frá skatti og hafa þær heimildir sæmilega ríflegar og þó eru þær það ekki þegar betur er að gáð vegna þess að 15% reiknast af nafnverði hlutabréfanna en ekki markaðsverði. Ef við hugsum okkur að einhver sé að kaupa hlutabréf í Eimskipum og hann kaupir það á fjórföldu nafnverði þá þarf í raun og veru að deila í prósentuna með fjórum til þess að finna þann arð sem fyrirtækið getur í reynd borgað miðað við markaðsverð hlutabréfanna og fengið það frádráttarbært. Og þá er þetta ekki orðin merkileg prósenta, satt best að segja. Hún nýtist nokkuð vel þeim fyrirtækjum sem eru með hlutabréf hverra markaðsverð er nálægt nafnverði en síður hinum, af skiljanlegum ástæðum. Þannig að ég held að ekki sé of í lagt þó að þetta sé haft 15% og úr því að það er 15% þá er ákaflega óskynsamlegt að breyta því niður á við vegna þess að menn horfa á breytinguna og sjá að verið er að fara í þá átt. Og það eru kannski áhrifin af breytingunni sem hafa þarna meira að segja en inntakið sjálft, efnisbreytingin sjálf.
    Ég er ekki viss um að menn sitji almennt með vasatölvurnar og reikni nákvæmlega út hvað þessi breyting þýðir. Menn sjá bara að þarna eru stjórnvöld að fara í þá átt að minnka möguleika fyrirtækjanna til að greiða þeim arð sem leggja þar inn hlutafé og menn hugsa sem svo: Nú, það er þá væntanlega ekki mjög bjart yfir því í framtíðinni að reyna að ávaxta sitt fé svona úr því að stefnan er í þessa átt. Og sama er á ferðinni varðandi frádrætti einstaklinga sem lagt hafa hlutafé í fyrirtæki. Þeirri reglu hefur verið breytt á undanförnum árum, hún hefur verið lagfærð, sniðnir hafa verið af henni ágallar svo sem þeir að menn gætu keypt bréf fyrir áramót og selt það eftir áramót. Það er ekki hægt lengur. Misnotkun af því tagi er ekki fyrir hendi. Nú þurfa menn að eiga þessi bréf í lágmark tvö ár. Þetta eru samkvæmt skilgreiningu opin hlutafélög, lágmarksfjöldi hluthafa, ef ég man rétt, þarf að vera 25. Og reglurnar eru þannig að þetta eru ekki einhverjir lokaðir okurklúbbar sem þarna eru á ferðinni, það er séð fyrir því með takmarkandi reglum að þetta eiga að vera sæmilega opin hlutafélög sem lúta lögmálum sem slík, þannig að í raun og veru sé um að ræða tiltölulega hreina fjárfestingarákvörðun viðkomandi einstaklings eða fyrirtækis sem leggur þarna inn fé.
    Ég held að þetta hringl hæstv. ríkisstjórnar með skattafrádrættina hafi verið afar óskynsamlegt. Það er auðvitað ekki bara mitt mat. Fyrir því liggja skjalfest álit fjölmargra aðila eins og Vinnuveitendasambandsins sem hefur í tvígang, bæði í ár og í fyrra, gagnrýnt þessar ráðstafanir og þessa framgöngu hæstv. ríkisstjórnar mjög harkalega. Og það er auðvitað eftir öðru að það skuli þurfa að koma í minn hlut að standa í vörninni fyrir þessi sjónarmið á meðan að ráðherrar Sjálfstfl. og þingmenn koma þessu í gegnum þingið. Finnst mönnum það ekki til fyrirmyndar og alveg snilldarlegt að þannig skuli það ganga fyrir sig?
    Ég held svo að þetta hringl með skattprósentuna sjálfa sé auðvitað af sama toga óheppilegt. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það hefði verið betra að hrófla ekki við frá byrjun þessum tveimur liðum, arðinum og hlutabréfakaupafrádrættinum, þó að menn hefðu þá náð minni árangri í því að lækka skattprósentu fyrirtækjanna í bili.
    Það er nefnilega þannig að þau eru ekkert óskaplega mörg íslensku fyrirtækin sem borga fullan tekjuskatt, af tveimur ástæðum. Það hefur ekki verið svo góð afkoma hjá miklum þorra þeirra að þau hafi miklum hagnaði til að dreifa og t.d. eru sjávarútvegsfyrirtæki ekki upp til hópa í þeim flokki sem borgar tekjuskatt. Og í öðru lagi hafa fram undir það síðasta gilt svo rúmar heimildir til handa fyrirtækjum að kaupa yfirfæranlegt tap að mjög mörg þeirra fyrirtækja sem ella hefðu verið í umtalsverðum tekjuskattsgreiðslum hafa náð sér þannig í nægjanlega frádrætti sem þau búa nú að.

    Fræg eru kaup gróðafyrirtækja á borð við Vífilfell sem keypti ekki ómerkara fyrirtæki en Nútímann og tap hans til þess að eiga í handraðanum þegar að því kæmi að þeir gætu þurft að fara að borga tekjuskatt. Þetta var hægt á þeim tíma og hefur ekki nema að litlu leyti verið stemmt við þessu stigu. Að vísu eru ákvæðin nú þannig að fyrirtækin, sem keypt eru, þurfa að vera í skyldum rekstri. En enn eru þær reglur í gildi að fyrirtækin geta keypt tapfyrirtæki, pappírsfyrirtæki sem eru komin á hausinn, eiga ekkert nema nafnið og eitthvert gamalt tap sem menn þá bara kaupa og eiga svo til að jafna á móti tekjuskatti sem á þau er lagður.
    Að vísu er það þannig og það er nokkuð til í því að í orðaskiptum, sem ég átti við framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins á einum fundi í efh.- og viðskn., sagði ég sem svo: Ja, miðað við stöðu í íslensku atvinnulífi, sjávarútveginum sérstaklega, þá hefði ekki gert mikið til þótt tekjuskattsprósentan á fyrirtækjunum hefði bara verið óbreytt vegna þess að við erum ekki að hugsa um og við erum í raun og veru ekki að reyna að halda á lífi þeim fyrirtækjum sem borga tekjuskatt. Það er bara eitthvað langt, langt fyrir ofan það sem við þurfum að glíma við með þessum efnahagsráðstöfunum, að reyna að halda sjávarútveginum gangandi og öðrum útflutningsgreinum. Þá sagði sá vísi maður, að vísu er kannski ekki sanngjarnt að hafa slík orð eftir, en í grófum dráttum var hugsunin sú, að menn yrðu auðvitað að horfast í augu við það, svo nöturlegt sem það væri, að nýsköpunar, sóknar og uppbyggingar í fyrirtækjum væri í sjálfu sér ekki fyrst og fremst að vænta frá þeim fyrirtækjum sem berðust í bökkum, eða berðust fyrir lífi sínu, eðli málsins samkvæmt. Þar hugsuðu menn fyrst og fremst um að reyna að lifa af, halda sjó. Heldur væri það frá hinum fyrirtækjunum sem hefðu þokkalega afkomu og ættu afgang, ættu peninga til að gera eitthvað.
    Út af fyrir sig er þetta alveg rökrétt hugsun. Og af því leyti til má spyrja sig að því hvort að þarna verði ekki að reyna að gera hvort tveggja, að skapa þeim fyrirtækjum sem þokkalega afkomu hafa möguleika til að ráðast í einhverjar framkvæmdir og byggja eitthvað upp en jafnframt gera einhverjar ráðstafanir sem auðvelda hinum lífsbaráttuna.
    Þetta ætla ég, hæstv. forseti, að láta nægja um skattlagningu fyrirtækja enda fór hv. næsti ræðumaður á undan mér ítarlega yfir það. Ég tel sem sagt að niðurstaða meiri hluta efh.- og viðskn. sé þrátt fyrir allt frekar til bóta, það litla sem það er. Það er verið að reyna að klóra í bakkann. Undir forustu hv. formanns er af mikilli þrautseigju verið að reyna að koma einhverri glóru í þetta. En aðstæður voru mjög þröngar svo ekki sé meira sagt sem hv. form. hafði og hann megnar ekki frekar en aðrir að breyta því að mikið tjón hefur þegar hlotist af hringlandahættinum í þessum málum. Mikið tjón og mikil vitleysa. Og maður hefur þegar orðið var við að fólk sem í raun og veru hefur ekki verið að setja sig nákvæmlega inn í breytingarnar hefur þó náð að skynja það að þarna ætti að hverfa til baka í átt frá þessum hvötum sem við lýði hafa verið til að laða fjármagn inn í atvinnulífið og það er þessu fólki nóg. Það snýr sér þá að því að skoða aðra möguleika til að ávaxta sitt pund, ef það á eitthvert pund.
    Aðeins svo um skattlagningu einstaklinga, hæstv. forseti. Og þó, áður en ég sleppi alveg fyrirtækjunum leyfi ég mér að benda hv. þm. á umsögn Vinnuveitendasambandsins um þessi skattamál. Hún er býsna fróðleg, komandi úr þeirri átt sem hún kemur. Ég hygg að þeir textar muni nokkuð í minnum hafðir þeim sem yfir þá hafa farið. Það er nokkuð óvenjulegt svo ekki sé meira sagt að sjá þar setningar þar sem jafnfast er að orði kveðið af hálfu umsagnaraðila eins og Vinnuveitendasambandsins svo sem á bls. 2 í umsögninni þar sem segir: ,,Tilgangurinn með lækkun arðsfrádráttar er torskilinn því að ekki getur verið um nema óverulega fjárhagslega hagsmuni ríkissjóðs að ræða. Vandfundin er önnur skýring á þessu slysi en hér sé á ferðinni vanhugsuð pólitísk málamiðlun sem einungis getur grundvallast á skilningsleysi á aðstæðum á fjármagnsmarkaði.`` Þetta eru nú nokkuð mörg og nokkuð sterk lýsingarorð í einni og sömu setninguni. ( VE: Svo er . . .  að afgreiða slysið.) Það er svo annað mál að stundum er það þannig að menn verða að velja milli vondra kosta, hv. formaður. Og það er vel þekkt að mönnum er ætlað að velja á milli þess að þeir séu skotnir eða hengdir og þá kannski velja menn annaðhvort því þeir telja annað illu skárra en hitt. (Gripið fram í.)
    En ég er nú fyrst og fremst að vekja athygli á því hversu þetta hefur komið við menn, hv. formaður. Ég hygg að þeir hjá Vinnuveitendasambandinu mundu ekki taka svona djúpt í árinni nema þeim þætti ærin ástæða til.
    Ég ætla ekkert að fara út í pólitíkina á bak við þetta. Ég sé að vísu að Vinnuveitendasambandið er ófeimið við að nefna til sögunnar pólitískar málamiðlanir sem einhverjar skýringar þeirra á þessu slysi og þessum vanhugsuðu aðgerðum. En mér finnst það ekki síður merkilegt, hafandi í huga pólitíkina sem stundum hefur nú loðað við, að það væru nú greiðir gangvegir milli Vinnuveitendasambandsins og Sjálfstfl., ekki satt? Að þeir menn skuli senda hæstv. fjmrh. eða stjórnarmeirihlutanum þessar keðjur.
    Um persónuafslátt einstaklinga og skattamál einstaklinga --- eða manna, eins og það heitir nú víst í þessum textum og á ég frekar erfitt með að sætta mig við það, hæstv. forseti. Mér finnst þessi notkun á orðinu maður þó að það sé gamalt og gilt og gott og taki að sjálfsögðu til allra manna, jafnt karla sem kvenna samkvæmt gamalli fornri íslenskri málvenju þá finnst mér, þegar það beinist að greiningu, annars vegar milli manna og hins vegar annarra fyrirbæra eins og fyrirtækja eða dýra, að þá sé eins og verið sé að vitna til tegundaheitisins homo sapiens og það finnst mér hálfasnalegt í skattafrv. Ég hefði frekar talið að þarna ætti að koma einstaklingar. Vandinn mun vera sá að hugtakið einstaklingur er fyrir hendi í skattafræðum

og merkir annan hlut.
    En hvað um það. Menn skilja hvað átt er við. Það er skattlagning á tekjur fólks. Þar hafa í raun og veru gerst ævintýralegir hlutir, hæstv. forseti, eins og ég er þegar búinn að fara yfir að nokkru leyti og rakti í sambandi við barnabæturnar. En því miður er þar fleira á ferðinni og þá verður auðvitað að staldra við persónufrádráttinn sjálfan og hvernig hann er nú leikinn af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.
    Það er auðvitað með miklum ólíkindum að við skulum standa frammi fyrir því að verið sé að lækka persónufrádráttinn í reynd, eða skattleysismörkin um hátt á þriðja þúsund krónur. En það er niðurstaðan. Það er niðurstaðan með nýjustu ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar eða meiri hlutans í efn.- og viðskn. Ef það verður samþykkt í fyrsta lagi gegnum hækkun skattprósentunnar úr 32,8% í 34,3% án þess að persónuafsláttur sé hækkaður á móti, þá lækka skattleysismörk úr 60.258 kr. niður í 58.073 kr., eða um rúmar 2.000 kr., 2.185 kr. Þetta er óumdeilanlegt. Það er verið að lækka skattleysismörkin með þessari aðgerð um á þriðja þúsund kr. og hver hefði trúað því að við stæðum hér frammi fyrir því að skattleysismörk einstaklinga væru að lækka um á þriðja þús. kr. um áramótin 1992--1993 miðað við öll loforð og allt sem á undan er gengið?
    Fyrir ári síðan, bæði í desember og í janúar, vorum við í þessum ræðustóli að gagnrýna það og harðlega sumir, þar á meðal ræðumaður, að skattleysismörkin væru ekki færð upp til verðlags um þau áramót. Þá vorum við þó eingöngu að gagnrýna að þau stóðu í stað í krónutölu. Nú eru þau að lækka um 2.185 kr. þangað til í fyrrinótt. Þá var enn bætt um betur og ákveðið að lækka þau um 400 kr. í viðbót með sérstakri ákvörðun í efh.- og viðskn. í staðinn fyrir að falla að vísu frá skerðingu barnabóta. Hver er þá staðan orðin? (Gripið fram í.) Ég hef miklar efasemdir um að það sé mjög gott. Það er þetta sem ég sagði áðan, hv. þm., hvort menn vilja heldur láta skjóta sig eða hengja, berja sig eða hýða. Ég geri ekki mikinn greinarmun á því. Það getur vel verið að af einhverjum ástæðum finnist öðrum mönnum þetta mismunandi kostir en ekki mér.
    Niðurstaðan er sú, ef ég hef náð að reikna þetta rétt, að skattleysismörkin sem voru 60.258 kr. fara niður í 57.673 kr. og hafa þá lækkað um 2.585 kr. á mánuði. Þetta er auðvitað alveg ævintýraleg niðurstaða og mun leiða til þess ein og sér að ráðstöfunartekjur lágtekjufólks við skattleysismörkin lækka um 1,5% eða reyndar meira því þá á eftir að taka 400 kr. inn í dæmið og um sennilega milli 1,6 og 1,7% og um 2% hjá fjölskyldum með meðaltekjur.
    Ég fékk svo, hæstv. forseti, þetta blað frá fjmrn. sem ég var að tala um áðan þar sem framkvæmdur er sá framreikningur persónuafsláttarins sem ég hafði beðið um. Fljótt á litið, þó að ég hafi eðli málsins samkvæmt ekki haft mikinn tíma til að athuga það blað, sýnist mér það býsna merkilegt. Það kemur t.d. í ljós, sem ég þóttist vita og er e.t.v. ástæðan fyrir því að þetta blað virtist vera nokkurt feimnismál og gekk mjög seint að ná því fram í dagsljósið, að í gegnum þá framkvæmd að persónufrádrátturinn var ekki færður upp um síðustu áramót og síðan hækkaði lánskjaravísitala um 3,4% á fyrra helmingi ársins 1992, átti sér stað veruleg raunskerðing á persónufrádrættinum. Persónufrádrátturinn á tímabilinu janúar til júní 1992 var 23.922 kr. á mánuði sem þýðir að þessi skattleysismörk um 60 þús. kr. sem ég var að nefna áðan. En hann hefði þurft að vera til að halda raungildi sínu miðað við hækkun lánskjaravísitölu 25.091 kr. Þar kemur það auðvitað fram, sem gagnrýnt var um síðustu áramót, að til þess að halda raungildi sínu hefði þurft að hækka persónufrádráttinn um áramótin um a.m.k. helming af áætlaðri hækkun lánskjaravísitölunnar yfir tímabilið til þess að hann héldi nokkurn veginn raungildi sínu gagnvart þeim launum sem greidd væru. Í grófum dráttum er það væntanlega þannig, hæstv. fjmrh.
    Það sama verður á ferðinni nú. Að vísu byggja áætlanirnar að sjálfsögðu á engum launabreytingum, þar með talið minni verðlagshækkunum, minni hækkun lánskjaravísitölu, en ella verða ef launin hækka. Í raun og veru er því með þessu verið að tryggja það að persónufrádrátturinn skerðist um þær launahækkanir sem menn kynnu að ná í samningum á tímabilinu. Þetta er svo að vísu fært upp til verðlags miðað við lánskjaravísitölu í júlí ár hvert, eins og tilhögunin er nú, en þá hafa menn tapað hálfu árinu. Þá er helmingurinn af árinu búinn og persónufrádrátturinn hefur þá verið lægri sem verðlagshækkununum yfir tímabilið hefur numið.
    Þó að þetta virki kannski ekki mjög stórt og sérstaklega ekki ef verðlagsbreytingarnar eru litlar, þá er þetta ekki mikið tiltökumál og alla vega ekki borið saman við þá árás á persónufrádráttinn sem felst í ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar nú, munar þó engu að síður um þetta og mundi sérstaklega gera ef einhverjar umtalsverðar launabreytingar yrðu á árinu.
    Hæstv. forseti. Það er kannski ekki ástæða til þess að fara mikið fleiri orðum um þetta. Þetta mál liggur alveg kristaltært fyrir. Það er auðvitað alveg ljóst að hæstv. ríkisstjórn velur leið sem er hárbeitt gagnvart lífskjörum fólks með lágar tekjur. Það er engin ein aðferð eins virk til þess að skerða kjör yfir alla línuna hjá öllu venjulegu launafólki eins og sú að lækka persónufrádráttinn. Guð minn góður. Það er nánast sú beittasta aðferð sem til er í því sambandi ef menn vilja breyta skattstiganum neðan frá.
    Ég ætla ekki út í miklar rökræður um það hvort af tvennu illu sé betra að hætta hina sértæku skattlagningu á barnafjölskyldurnar og fara út í þessa aðgerð. Í mínum huga eru þetta tveir nokkurn veginn jafnslæmir kostir. Það er ekki hægt að ætlast til þess og maður á ekki að láta það gerast að manni sé stillt upp við vegg og boðið að velja um slíkt. Ég er einfaldlega á móti þessu hvoru tveggja. Ég hefði talið að þessa fjár ætti að afla og væri auðvelt að afla með miklu sanngjarnari hætti en þessum. Og ég verð að segja

alveg eins og er að ég er gersamlega hættur að skilja nokkurn skapaðan hlut hvað hæstv. ríkisstjórn er að fara því að ef ég reyni að horfa á þetta pólitískt eða taktískt, þá spyr ég mig að því, hvers vegna í ósköpunum gera mennirnir þetta svona? Af hverju taka þeir á sig allar þessar óvinsældir sem hljóta að verða af þessum aðgerðum, mér liggur við að segja fyrir svona lítið, hafandi ekki upp úr þessu nema í þessu tilviki 500 millj. kr.? Það hlýtur að verða aðgerð sem stingur alveg rosalega í augu almennings í landinu að færa niður persónufrádráttinn með þessum hætti. Ég get eiginlega ekkert annað gert, þó að þeir eigi hana ekki skilið, en að votta hæstv. ráðherrum samúð mína með þau ósköp að sitja uppi með þetta.
    Áður en ég skil alveg við þetta, hæstv. forseti, vil ég láta þess getið að ég ætla svo í lokin þegar ég hef farið yfir þessi einstöku atriði frv. fara yfir í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og reyna að koma þessu í eitthvert samhengi, ef ske kynni að hægt væri, við skattastefnu hæstv. ríkisstjórnar því að ég held að það sé að verða full þörf á því að lýsa eftir því hver stefna hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum er. Eða er það bara orðið þannig að ríkisstjórnin ætlist til þess að menn horfi á það grímulaust að stefnan sé búin til með þessum handabakavinnubrögðum og skyndiákvörðunum sem einkennt hafa störfin undanfarna daga? Er það sú vinna við stefnumótun í skattamálum sem hæstv. forsrh. telur vera væntanlega til eftirbreytni og vinnubrögð sem unnt sé að aðrir geti lært af? En eins og kunnugt er hefur hæstv. forsrh. gert talsvert af því að segja okkur hv. þm. til, hæstv. forseti, kenna okkur hvað væru rétt og hvað ekki rétt vinnubrögð á hinu háa Alþingi og við hljótum því að líta svo til að þegar hann segir okkur til, stjórnarliði í hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarmeirihluta, þá sé það sýnikennsla í faglegum og fínum vinnubrögðum. Væntanlega á það að vera svo, hinn mikli skólastjóri, hæstv. forsrh.
    Ég vísa, hæstv. forseti, til umsagnar Alþýðusambands Íslands um skattafrv. þetta þar sem hagdeild Alþýðusambandsins hefur farið nokkuð rækilega yfir áhrifin á einstaklinga og fjölskyldur og ég held að það sé ágætis úttekt. Það ber að vísu að taka fram að Alþýðusambandið hafði til umsagnar frv. sjálft, þ.e. þá útgáfu sem í frv. er, og hefur væntanlega ekki enn haft tóm til að skoða hvernig breytingarnar koma við þeirra umbjóðendur.
    Ég ætla þá, hæstv. forseti, að fara aðeins út í virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og nokkra aðra liði sem þar eru undir. ( Forseti: Forseta dettur í hug hvort það séu kannski heppileg kaflaskipti hjá hv. þm. í ræðunni vegna þess að gert er ráð fyrir atkvæðagreiðslu kl. 3.30 ( Fjmrh.: Búinn með formálann.) eða hvort hv. þm. er kominn að lokum sinnar ræðu. Nú er forseti ekki dómbær á það.) Mér heyrist hæstv. fjmrh. vera dómbær á það í frammíkalli sínu og telur að ég sé búinn með formálann og við getum þá vel haft það svo. Ef hæstv. fjmrh. vill líta á þetta sem formála eingöngu, þá skal ég reyna að gera honum það til geðs að fylla þá inn í aðalkaflann. ( Forseti: Forseti biður hv. þm. að taka frekar til greina það sem forseti var að spyrja um heldur en frammíköll utan úr sal.) Ég er að sjálfsögðu, hæstv. forseti, fús til að gera hlé á máli mínu hvenær sem hæstv. forseti óskar ef það er til hægðarauka við störfin og mig rekur minni til þess að forseti hafði boðað atkvæðagreiðslu. Það væri hentugt að hún færi fram. Ég tek það þá svo að það hafi tekist að berja hingað nægilega marga stjórnarliða til að stjórnin leggi í atkvæðagreiðsluna og mun að sjálfsögðu gera hlé á máli mínu ef það er það sem forseti fer fram á til þess að atkvæðagreiðslan geti farið fram. ( Forseti: Forseti þakkar hv. þm. fyrir lipurðina.)