Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 15:47:24 (3785)

     Steingrímur J. Sigfússon (frh.) :
    Hæstv. forseti. Ég held þá áfram máli mínu. ( Forseti: Forseti vill vekja athygli á því að fundinum er hreint ekki lokið. Það eru að hefjast hér umræður að nýju.) Það er rétt hjá forseta, fundinum er ekki lokið. Ég held þá áfram máli mínu, hæstv. forseti. Ég hafði rétt rúmlega lokið við formála ræðu minnar eins og hæstv. fjmrh. var svo vinsamlegur að vekja athygli á. Út af fyrir sig get ég boðið hæstv. fjmrh. upp á að endurtaka formálann ef hann hefur áhuga á að heyra hann aftur og væri mér það ljúft og skylt. En í öðru lagi ætlaði ég að snúa mér að því að ræða álagningu virðisaukaskatts á nokkrar greinar, ferðaþjónustu, bækur og húshitun og þætti nú vænt um að þeir hæstv. ráðherrar sem eiga eitthvað undir í þessum málum yrðu hér viðstaddir fyrir utan hæstv. fjmrh. ef forseti vildi vera svo vænn að gera hæstv. samgrh. aðvart um það að málefni ferðaþjónustunnar séu hér komin á dagskrá. E.t.v. væri einnig áhugavert fyrir einstaka hv. alþm. af landsbyggðinni að dvelja stundarkorn við að skoða hvaða áhrif upptaka virðisaukaskatts á fargjöld innan lands í innanlandssamgöngum hefur á verðlagningu þeirrar þjónustu. Svo vill til að ég útvegaði mér upplýsingar um það í morgun hvað kosti t.d. að ferðast með flugvélum á helstu flugleiðum innan lands og hvernig þeirri verðlagningu verði orðið háttað þegar hvorar tveggja verða komnar til framkvæmda, hækkanir sem boðaðar hafa verið nú um næstu áramót og . . .   ( Forseti: Forseti vill fá hljóð í salnum.) Já, ræðumaður væri auðvitað feginn því líka ef það yrði hljóð í salnum, hæstv. forseti. En það standa margir litlir fundir úti í salnum og aðalatriðið er nú að þeir fari fram í hljóði.
    En ef menn hafa t.d. áhuga á að vita hvað það kostar að fljúga frá Reykjavík til Þórshafnar í dag og þá er flugleiðin gjarnan þannig að flogið er til Akureyrar og skipt þar um vél og haldið áfram, þá er fargjald fram og til baka 17.350 kr. 17.350 kr. kostar það íbúa á Þórshöfn að fara suður, t.d. til lækninga eða í einhver önnur erindi, og til baka. Nú liggur fyrir samþykkt hækkun í innanlandsflugi upp á 4% um næstu áramót og kemur hún til framkvæmda. Þá verður fargjaldið á þessari flugleið orðið rúmar 18 þús. kr., 18.044 kr. nánar reiknað. Nú skulum við segja að virðisaukaskatturinn komi til framkvæmda að óbreyttu verði og samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá Flugleiðum, munnlega að vísu, en þar er unnið að því að taka saman greinargerð um þetta mál, þá mun þurfa að hækka fargjöld í innanlandsfluginu um nálægt 8% við upptöku 14% virðisaukaskatts. Það var a.m.k. mat forstjóra Flugleiða þegar við ræddum um þessi mál nýlega. Þá skulum við reikna 8% hækkun í viðbót ofan á þetta rúmlega 18 þús. kr. fargjald frá Þórshöfn til Reykjavíkur og til baka og þá er það komið í tæpar 19.500 kr.
    Ef við tökum aðra flugleið, með þeim lengri í landinu, Reykjavík--Egilsstaðir, þá er fullt fargjald þar í dag 15.390 kr., verður rúmar 16 þús. kr. eftir hækkunina um áramótin og fer í 17.280 kr. með 8% hækkun vegna virðisaukaskatts þegar þar að kemur. Nú skulum við taka eina flugleið enn sem er að vísu ekki mjög fjölfarin eða stór, en þarf þó einstöku sinum að leggja undir sig að mér skilst. Það er flugleiðin Reykjavík--Breiðdalsvík. Samkvæmt verðtöflum hjá einni söluskrifstofu í borginni í morgun kostar það í dag 18.350 kr. að fljúga Reykjavík--Breiðdalsvík með áætlun sem er þrisvar í viku. Nú hækkar þetta um 4% um áramótin og þá fer það í 19.084 kr. sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, eða Alþingi fyrir hans hönd, má reiða fram í hvert skipti sem hann flýgur fram og til baka flugleiðina Reykjavík--Breiðdalsvík. ( Gripið fram í: Glasgow-verð.) Það er Glasgow-verð. Bætum svo 8% hækkun við vegna virðisaukaskattsins og þá mun flugfarið milli Reykjavíkur og Breiðdalsvíkur fram og til baka kosta 20.610 kr. ( Gripið fram í: Það borgar sig að fara til Glasgow.) Halda menn virkilega að þetta sé þjónusta sem megi við verðhækkun af þessu tagi? Um 1.500 kr. hækkun eins og þetta er orðið ef 8% leggjast ofan á rúmar 19 þús. kr. sem flugfargjaldið þarna verður um áramótin. ( GunnS: Hefurðu prófað að keyra?) Ég hef að vísu oft ekið þessa leið hv. þm., frammíkallandi og vígður maður, 5. þm. Austurl. En ég hef þó grun um það að menn neyðist til þess, ef svo má að orði komast, af og til að nota sér flugþjónustuna, m.a. þegar vetrarveður geisa eins og nú er og færð er vond eða aldrað fólk sem ekki leggur á sig langa bílferð, kannski við erfiðar aðstæður, þarf að leita sér lækninga og annað slíkt. Eða fólk sem á ekki bíl. Við skulum horfast í

augu við það að þó svo þarna sé um litlar flugleiðir að ræða þá er mjög mikilvægt að unnt sé að halda þessari þjónustu uppi. Ég þykist hafa þá þekkingu á þessum málum að ég leyfi mér að fullyrða að þetta mun drepa innanlandsflugið á fjölmörgum flugleiðum ef svo heldur sem horfir. Það hefur ekki verðþol til að taka á sig þessa hækkun í viðbót. Það er þegar of dýrt og þegar hækkanirnar núna um áramótin bætast við og 8% hækkun ef hún verður svo vegna virðisaukaskatts, þá er þetta komið upp úr því sem nokkur von er til þess að ætla að þessi rekstur þoli. Hann er þegar mjög veikur fyrir.
    Við getum tekið líka þá hækkun á annarri flugleið sem er sú stærsta innan lands, leiðin Reykjavík--Akureyri--Reykjavík. Einhverjir okkar muna það kannski að það kostar 11.610 kr. að fljúga þar á milli í dag. Eftir áramótin fer það væntanlega í rúmar 12 þús. kr. og í rúmar 13 þús. kr. eftir að virðisaukaskatturinn hefur verið lagður ofan á ef áhrif hans verða um það bil þau sem Flugleiðamenn meta nú í dag. Ég spyr ykkur að því, telja menn virkilega líklegt að það verði mikið flug á flugleiðinni Reykjavík--Breiðdalsvík þegar fargjaldið þar verður komið yfir 20 þús. kr.? Það er allmikið undir þeim tilboðsverðum sem ferðaskrifstofur og flugfélög hafa verið að bjóða til erlendra stórborga núna fyrir áramótin. Við getum líka velt því fyrir okkur hvað þetta þýðir fyrir ýmiss konar umsvif og samtengingu í viðskiptum hér innan lands að samgöngumátinn er orðinn svona dýr. Ekki styrkir það samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar eða íslenskrar framleiðslu að það sé orðið svona okurdýrt að komast á milli staða í landinu.
    Ef við lítum á vegina þá er það þannig, hv. 5. þm. Austurl., af því að kallað var fram í og spurt af hverju maður færi ekki á bíl, að það eiga nú ekki allir bíl. Allmargir eru að reyna að nota sér almenningssamgöngur annaðhvort í lofti eða á láði og þá skulum við líta á það hvað kostar að fara með rútum. Milli Reykjavíkur og Akureyrar er fullt fargjald aðra leiðina 3.300 kr., á þessari leið er víst eitthvert tilboð ef farið er fram og til baka. En ef útkoman hjá sérleyfishöfunum verður svipuð og hjá flugfélögunum, þ.e. að af þessum 14% þurfi um 8% að birtast í hækkun fargjalda þá mun fargjaldið fara á þessari leið í 6.480 kr. Ef við tökum lengri áætlunarleið sem er t.d. Reykjavík--Höfn, þá er fullt fargjald þar 3.500 kr., fram og til baka 7 þús., fer í 7.560 kr. Ef við tökum enn lengri leið sem er hægt að fara með áætlunarbílum á sumrin sem er leiðin Reykjavík--Höfn--Egilsstaðir þá er fargjaldið þannig samsett á þeirri leið að það eru 3.500 til Hafnar og 2.270 í viðbót til Egilsstaða, samtals 11.540 kr. báðar leiðir, Reykjavík--Höfn--Egilsstaðir, EgilsstaðirHöfn--Reykjavík, og þegar virðisaukaskatturinn kæmi ofan á er fargjaldið komið í 12.463 með rútu milli Reykjavíkur og Egilsstaða fram og til baka. Það er að verða næstum því jafndýrt að fara með rútu frá Reykjavík til Egilsstaða miðað við þetta og kostar að fljúga til erlendra stórborga miðað við tilboðsverðin þar í haust. Ef ferðalangur ætlar að nýta sér þessa þjónustu og fara með fjörðunum þá er það líka hægt samkvæmt áætlunarleiðum yfir sumartímann og þá er þetta þannig að Reykjavík--Höfn--Egilsstaðir með fjörðum er um 3.500 á Höfn, 2.940 áfram til Egilsstaða. Það gera 12.880 kr. báðar leiðir og með virðisaukaskatti 13.910 kr. eða tæpar 14 þús. kr. Ég segi það við ykkur að þetta er ekki verðlagning sem þolir 14% virðisaukaskatt. Ég hef ekki aflað mér upplýsinga og væri þó vel til fundið að ræða hvað kostar fara t.d. með Herjólfi fram og til baka en það mun að sjálfsögðu hafa sín áhrif þar eins og annars staðar að leggja þetta ofan á. Það er alveg ljóst að virðisaukaskatturinn kemur hlutfallslega þungt við flutningsaðilana. Það verður án efa nokkuð mismunandi hvernig hann kemur út fyrir hinar einstöku greinar ferðaþjónustunnar og það hefur reyndar komið fram í mati Þjóðhagsstofnunar sem unnið hefur verið fyrir efh.- og viðskn. Það er alveg ljóst að vegna samsetningar útgjalda í þessum rekstri leggst hann tiltölulega þungt á fargjöldin og ég vísa aftur í það mat Flugleiðamanna eins og það stendur um þessar mundir að það muni þurfa að hækka flugfargjöldin í innanlandsfluginu um 8% við þessa breytingu.
    Ég vil spyrja hv. þm. stjórnarliðsins sem koma af landsbyggðinni: Hafa þeir engar efasemdir um þessa aðgerð? Er það virkilega svo að menn séu tilbúnir til þess að skella þessari hækkun ofan á flugfargjöldin? Ég minni á það að á sínum tíma var tekinn upp flugvallarskattur þegar felldur var niður söluskattur af fargjöldum í innanlandssamgöngum og ef menn ætla nú að skella á þetta virðisaukaskatti án þess að gera neinar aðrar ráðstafanr, þá eru menn í raun og veru enn að þyngja skattlagninguna á þessa grein.
    Það er líka ljóst að þau flugvallargjöld og þau gjöld sem til komu, t.d. vegna flugmálaáætlunar á sínum tíma og voru hér lögfest í tíð Matthíasar Bjarnasonar, hv. 1. þm. Vestf. sem samgrh., lögðust þungt á þessa grein og það vissu menn. En menn höfðu sér það til réttlætingar að það var mjög rík þörf fyrir uppbyggingu á þessu sviði og hún er nú í gangi. En hún hefur kostað álögur á greinina. Það vitum við öll og hefur gert það að verkum að flugið er dýrara en ella því að annars lendir þessi kostnaður á notendunum, hann getur endað annars staðar. Ég held að menn séu að fara í hreinar ógöngur og mér er til efs að þessi skattstofn ríkisins eða ríkisstjórnarinnar verði jafnbreiður og ætla má þegar áhrifin af þessu verða komin fram því að það hlýtur að verða stórkostlegur samdráttur ef ekki hrun í innanlandsfluginu og öðrum innanlandssamgöngum á fjölmörgum leiðum sem þegar standa mjög höllum fæti fyrir.
    Ég tek eftir því að stjórnarliðar hverfa úr þingsalnum hver á fætur öðrum og það er þó ein hetja hér eftir, hv. 5. þm. Austurl., og ber að virða það. En þeir eru ekki að verða margir og tæmdumst úr salnum jafnóðum og þetta umtalsefni var tekið upp. Hvort það vitnar um sérlega vonda samvisku eða kæruleysi eða þeir séu roknir út til að kaupa sér flugfarseðla áður en þeir hækka skal ósagt látið, en mér finnst það dapurlegt ef menn geta a.m.k. ekki staldrað við þetta tiltekna atriði því að nú er það svo að tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu að undanþiggja t.d. fargjöldin í fólksflutningum innan lands, ekki nokkur skapaður hlutur. Ég vek athygli á því að einni grein flutninga er ætlað að vera undanþegin og það er leiguakstur eða

fargjöld með leigubifreiðum. Þar voru m.a. færð þau rök að erfitt væri að hafa eftirlit með því en ekki sanngirnis- eða réttlætisrök eða efnisrök af öðru tagi. Ég held að þau séu fyrir hendi a.m.k. hvað flugfargjöldin snertir og reyndar held ég einnig á flutningum á landi og sjó. Ég held að þetta sé bara einfaldlega ekki skynsamlegur skattstofn og langt frá því að leggja þetta ofan á fargjöldin.
    Auðvitað er enginn vafi á því að þetta er eitt af því sem hefur mjög mikil áhrif og varðar aðstöðumun fólksins í landinu hvað lífskjör snertir. Það er óhemjukostnaður við samgöngur hjá því fólki sem afskekktast býr í landinu. Það væri auðvelt að setja hér upp dæmi t.d. fyrir fjölskyldu á norðausturhorni landsins sem þarf að koma börnum sínum til og frá skóla og í frí hér í Reykjavík og reikna það út að þessi hækkun ein og sér og hleypur það á mörgum, mörgum þúsundum kr. ef ekki tugum þúsunda, bara virðisaukaskatturinn ofan á þessi fargjöld. Við skulum nú hugsa okkur að fimm manna fjölskylda á Breiðdalsvík sé með þrjú börn í skóla hér á höfuðborgarsvæðinu og sendi þau með flugi vor og haust og jólaleyfi og jafnvel páska. Fargjaldið er komið í yfir 20 þús. kr. Hvernig eiga menn að kljúfa svona lagað?
    Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort það hefur nokkuð upp á sig að reyna að vekja athygli á þessu. Kannski talar maður algerlega fyrir daufum eyrum en það eru nokkur tíðindi fyrir mig ef þingmenn af landsbyggðinni eru svo heillum horfnir. Auðvitað verð ég að játa að ég er þá ekki síst að beina orðum mínum til þeirra sem koma úr stjórnarliðinu að þetta komi ekkert við þá og þeir verði ekkert hugsi yfir þessu. Hvað segir þá t.d. hv. þm. og formaður efh.- og viðskn., Vilhjálmur Egilsson? Nú veit e.t.v. hv. þm. að flug á Sauðárkrók á undir högg að sækja. Sumpart af eðlilegum ástæðum vegna þess að bættar samgöngur á landi veita fluginu harða samkeppni. En hv. þm. veit væntanlega líka að þessi samgöngumáti er eftir sem áður mjög mikilvægur fyrir viðkomandi byggðarlag. Það er geysilega mikilvægt fyrir Skagafjörð að hafa greiðar og góðar samgöngur við höfuðborgina þó að flutningarnir séu eitthvað minni en áður var á meðan vegirnir voru verri. ( Gripið fram í: Okkur vantar millilandaflugvöll.) Ég tala nú ekki um ósköpin, en ekki hefðu menn meiri not fyrir hann ef enginn væri farinn að nota flugið. Þá stæði hann sem heldur háðulegt minnismerki um fjárfestingarmistök er ég hræddur um, hv. þm., ef aldrei kæmi þar nein flugvélin eða farþeginn. Ég held að líka sé ástæða til að horfa á það að flugið á í vörn á ýmsum svæðum. Og ég segi aftur, það er sumpart eðlileg þróun sem á ekki að reyna að snúa við þegar vegirnir batna en að hinu leytinu er mikilvægt að reyna að verja þessa þjónustu og tryggja að hún sé til þar sem er grundvöllur fyrir hana á annað borð, að aðgerðir af þessu tagi geta haft mikil áhrif á slíkt. En í öðrum tilvikum er um lífsnauðsynlegar og óumflýjanlegar samgöngur að ræða við afskekktustu byggðarlög landsins. Það er ósköp einfaldlega ekki kostur á öðru en að nota flugið stóran hluta ársins. Þar má taka sem dæmi Vestfirðina sem eru geysilega háðir flugi allan vetrartímann. Nánast einu mögulegar samgöngur fyrir almenning eru með fluginu mikinn hluta vetrartímans. Menn hafa kannski séð það í blöðunum að einstöku Vestfirðingar koma sér suður í jólafrí með því að húkka far með togurum sem eru á leið í slipp. En það leysir ekki vanda fjöldans. Byggðarlög eins og á norðausturhorni landsins, tökum Vopnafjörð sem dæmi, þar sem er svipað flugfargjald og á Breiðdalsvík. Ætli flugfargjald með virðisaukaskatti fari ekki í um 20.000 kr. á Vopnafjörð? Það byggðarlag er auðvitað mjög háð flugi. Það hefur að vísu þolanlegar samgöngur með sjó um Norðurland. En það er orðin geysilega löng leið, á níunda hundrað km með ströndinni fyrir Vopnfirðinga að koma sér til Reykjavíkur. Það er nokkurt ferðalag fram og til baka. Hátt í 1.800 km og menn leggja ekki upp í það bara svona að gamni sínu á smábílum um hávetur.
    Ég vona, hæstv. forseti, að útlistun mín á þessum þætti málsins hreyfi við einhverjum. Mér finnst dálítið merkilegt að ekki skuli hafa komið til umræðu fyrr hvað menn eru að hugsa sér með því að leggja virðisaukaskatt ofan á fargjöldin í innanlandssamgöngum. Ég held að það sé alveg óskaplegt glapræði og næstum því eins vitlaust og það sem ég ætla að koma að næst en það er að leggja virðisaukaskatt á húshitun. Ég held þó að ég verði að segja að af tveimur vitlausum skattstofnum þá sé húshitunin enn vitlausari en flugfargjöldin. Þó veit ég ekki hvort það má ekki færa nokkurn vegin sömu rök fyrir því með flugfargjöldin að þar sé um sértæka og mjög ósanngjarna skattlagningu að ræða því að talsverður hluti landsmanna er þannig í sveit settur að hann kemst algerlega af án þessa útgjaldaliðar, hann er algerlega laus við hann. En annar hluti landsmanna situr uppi með hann og á ekki annan kost en að greiða hann.
    En hvernig er þetta með húshitunina? Virðisaukaskattur ofan á hana verkar í raun og veru eins og öfugur tekjuskattur. Ég segi: Hæstv. ríkisstjórn getur alveg eins tekið upp öfugan tekjuskatt sem er þannig úr garði gerður að menn borgi þeim mun meira sem tekjurnar eru lægri eins og að skattleggja húshitun. Vegna þess að þeim mun meira sem menn hafa þegar borgað í kostnað við að hita upp húsnæði sitt þeim mun meira eiga þeir að borga í skattinn. Hver er þá orðinn munurinn á því að menn borguðu bara hreinlega öfugan tekjuskatt, þeim mun meira sem menn hefðu minni tekjur? Ég sé ekki annað en að það komi mjög svipað út. Við í efh.- og viðskn. létum draga að nokkrar upplýsingar um þetta atriði, m.a. dæmi um það hvort ekki væri hægt að leggja þennan skatt á með einhverjum skynsamlegri hætti ef menn ætluðu út í það á annað borð. Ég tel í raun að við höfum fengið gögn sem sýna að ef menn ætla í þessa skattlagningu á annað borð þá er a.m.k. hægt að gera það með gáfulegri hætti en hæstv. ríkisstjórn leggur til. Þ.e. tryggja það að almenningur í landinu borgi þetta með jafnari hætti en ella. Skattstofninn eins og hann er í dag er auðvitað svo geysilega mismunandi að hann verður bersýnilega ósanngjarn. Þannig eiga t.d. samkvæmt tillögu ríkisstjórnarinnar íbúar á þeim svæðum sem lægstan hafa hitunarkostnaðinn, við getum tekið dæmi af Húsavík og Flúðum, að greiða tiltölulega lága upphæð í þennan skatt eða 2.800 kr. á Flúðum, 3.400 kr.

á Húsavík á sama tíma og íbúar Hvammstanga eiga að greiða á sjöunda þúsund í skattlagningu til viðbótar kostnaði sem er á hverju ári upp á 50--60.000 kr. fyrir að hita húsnæðið. ( Gripið fram í: Þetta er nú ekki sanngjarn samanburður.) Samkvæmt þeim töflum sem við höfum, hv. þm., og komu frá iðnrn. að beiðni efh.- og viðskn. eða einstakra nefndarmanna þar. Það er best að fara yfir þetta með hv. þm. Þá borga íbúar á Flúðum 20.000 kr. á ári fyrir að hita tiltekna samanburðaríbúð og eftir þessari fínu endurgreiðsluformúlu sem ríkisstjórnin kom sér væntanlega ofan á þá fá þeir að sjálfsögðu ekkert endurgreitt. 14% virðisaukaskatturinn ofan á gefur 2.809 kr. og það er það sem þeir borga. Greiðslur þeirra verða þá með virðisaukaskatti komnar í 22.873 kr. Á Húsavík er kostnaður rúmar 24.800 kr., virðisaukaskatturinn 3.476 kr., Húsvíkingar fá enga endurgreiðslu. Kostnaður þeirra með virðisaukaskatti er þá kominn í 28.302 kr. En á Hvammstanga borga menn 49.818 kr. fyrir að hita sambærilega íbúð. 14% virðisaukaskattur er 6.975 kr., þeir fá 10% endurgreidd eða 698 kr. og sitja því uppi með 6.277 kr. í skatt. ( Gripið fram í: En Reykjavík---Breiðdalsvík?) Og útkoman verður 56.000 kr. á íbúð á Hvammstanga. Við getum auðvitað tekið enn svæsnari dæmi eins og Reykjahlíð sem reyndar var nú talað um að væri ekki marktæk í þessari töflu vegna hækkana sem þar hefðu komið inn. Nú hef ég ekki Breiðdalsvík hér undir en reyndar getum við séð að þar mun kostnaðurinn verða sá sami og á öðrum rafmagnsveitusvæðum. Það er vissulega rétt hjá hv. þm. að rafmagnssvæðin lenda þarna í milliflokki. Þau sleppa heldur betur en þær hitaveitur sem fara verst út úr þessu. En menn borga þó þar eftir sem áður talsvert miklu meira en hitaveiturnar sem eru ódýrastar. Það breytir ekki hinu að þessi skattur leggst ofan á kostnað sem er gífurlegur fyrir. Við skulum segja að Breiðdalsvík sé í þeirri stöðu að hún sé dæmigerð eins og meðaltalið fyrir Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins. Þá er kostnaðurinn á ári á þessari viðmiðunaríbúð 72.000 kr. Finnst hv. þm. það vera góður skattstofn til að leggja enn meira ofan á? Þó svo útkoman verði sú að hver íbúðareigandi þar borgi, ja, það er varla hægt að segja ,,ekki nema`` 4.459 kr. Þá þýðir það að kostnaðurinn fer í 76.000 kr. á sama tíma og hann er ekki nema 40.000 kr. í Reykjavík. Ég segi bara aftur, hv. þm., þetta er ekki gáfulegur skattstofn. Einhver sá allra vitlausasti sem ég hef nokkurn tímann séð. Þó að menn reyni með einhverju endurgreiðslukerfi að koma pínulitlu viti í hann, gera hann ekki alveg jafnóréttlátan og hann ella væri, þá er hann samt vitlaus. Ég held að það væri að minnsta kosti þess virði að menn settust á nýjan leik yfir aðrar mögulegar útfærslur á þessu. Ein er sú að þetta verði ósköp einfaldlega fast gjald á orkueiningu. Það kæmi miklu skár út. Því orkunotkunin er þó ekki mjög misjöfn. Hún er að vísu eitthvað misjöfn eftir landshlutum miðað við loftslag eða hitastig en með föstu gjaldi á orkueiningu væri þetta þó jafnað til mikilla muna frá því sem nú er. Annar möguleiki, sem við létum reikna út, var ósköp einfaldlega sá að hafa skattinn ekki 14% heldur 24,5% en endurgreiða allt sem innheimtist til viðbótar því að 14% væru lögð á til meiri jöfnunar. Hv. þm., með því fengi maður miklu meiri jöfnuð en að leggja bara á 14%. Það er ein aðferð ef menn vilja afla sér tekna með þessum sérkennilega hætti að skattleggja húshitun.
    Hæstv. forseti. Að lokum ætla ég að fjalla undir þessum lið um virðisaukaskatt á bækur. Gleður mig nú að sjá hér hæstv. menntmrh. Við höfum fengið frá Þjóðhagsstofnun samkvæmt beiðni úttekt hennar á því hvernig þetta komi út gagnvart bókum, blöðum og tímaritum á umsvif í bókagerð í landinu og prentiðnaðinum. Það eru harla fróðlegar upplýsingar sem þar koma fram og ég hygg að hæstv. menntmrh. sem væntanlega hefur ekki séð þetta frekar en við hin fyrr en þá í dag ætti nú að verða sér út um eintak og stúdera þetta vandlega. Hér er upplýst að 14% álagning virðisaukaskatts eins og henni verður hagað og með tilliti til þess að innlendar bækur, tímarit og dagblöð voru undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt núgildandi kerfi en útgáfufyrirtækin fengu eftir sem áður endurgreiddan innskatt af öllum aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum. Þetta var auðvitað mjög hagstætt fyrirkomulag og er alveg ljóst að í skattalegu tilliti bjó þessi starfsemi við verulegt hagræði, enda var það ætlunin. Það var ætlun manna að styrkja innlenda bókagerð og íslenskt mál með slíkum ráðstöfunum. En þetta leiðir til þess að 14% virðisaukaskatturinn lendir allur út í verðið af því að enginn frádráttarréttur myndast á móti sem ekki var þegar fyrir hendi. Það er þess vegna mat Þjóðhagsstofnunar að umsvif í bóka-, blaða- og tímaritaútgáfu muni dragast saman um 10--11% í heild við þessa breytingu. Veltan er upp á 6.400 millj. kr. á árinu 1991 og með framreikningi þýðir þetta þá tekjusamdrátt upp á 650--700 millj. kr. í greininni. Ef fyrirtækin í þessari grein mundu bregðast við, segir Þjóðhagsstofnun, með því að draga úr starfsmannahaldi sem því nemur gæti ársverkum fækkað um allt að eitt hundrað. Ekki er það falleg hliðarbúgrein við þessa breytingu hjá hæstv. ríkisstjórn að til viðbótar auðvitað því áfalli sem þetta er innlendri bókagerð, prentiðnaði og íslensku máli þá muni þetta þýða fækkun starfa um eitt hundrað. Er þá enn eftir að hugleiða áhrif þessa á prentiðnaðinn sem auðvitað er mjög háður umsvifum í þessari útgáfu. Ef þar bætast svo við e.t.v. einn til tveir tugir starfa í viðbót, sem tapast, er dæmið farið að verða harla svart.
    Ég held, hæstv. forseti, að þetta sé með dapurlegri öngunum í þessu máli, það að hæstv. ríkisstjórn sé hér að taka upp bókaskatt eða lestrarskatt. Það er ekki lengra eða tvö eða þrjú ár síðan að menn ákváðu í mikilli hrifningu og einróma að fella niður virðisaukaskatt, sem áður hafði verið söluskattur á bókum, og styrkja með því alveg sérstaklega þá starfsemi og þar með íslenskt mál. Hvort sem það er að einhverju leyti eða að miklu leyti afleiðing af þeirri breytingu þá er alveg ljóst að að minnsta kosti hvað bókaútgáfu snertir hafa verið blómlegir tímar síðustu árin og menn hugsa til þess með hryllingi ef þar fer allt á niðurleið aftur.
    Í efh.- og viðskn. var borin fram sú spurning hvort ekki væri unnt og hvað það mundi kosta að undanþiggja að minnsta kosti námsbækur. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. í því sambandi: Hefur sá kostur verið skoðaður? Hefur menntmrn. reynt að útfæra hugmyndir um hvernig væri hægt að undanþiggja að minnsta kosti námsbækur þessari virðisaukaskattlagningu? Auðvitað er það þannig að námsmenn eru eini hópurinn sem er beinlínis þvingaður til þess að borga þennan skatt, verður að gera það ef hann vill á annað borð vera í námi og kaupa námsbækur. Það eru vonandi til svo miklir bókamenn á Íslandi enn þann dag í dag að það megi segja að þeir verði þvingaðir til að borga þennan skatt af því að þeir geti ekki án bókanna verið en það er þó með öðrum hætti en námsmenn eru settir. Ég held að það hljóti að vera svo, þó svo að ríkisskattstjóri hafi skilað efh.- og viðskn. heldur nöldurslegu minnisblaði um þennan möguleika þar sem menn höfðu allt á hornum sér gagnvart því að undanskilja námsbækurnar. Það var þetta venjulega sem við höfum heyrt þúsund sinnum áður, það var svo erfitt. Það þurfti allt að vera svo einfalt og ekki mega vera undanþágur og það er svo miklu erfiðara að vera með svona mörg skattþrep, sagði ríkisskattstjóri. Einhvern tímann hef ég heyrt þetta áður. Samt eru menn hér að fara að leggja á virðisaukaskatt í tveimur þrepum. Er það ekki? Hafandi haldið þúsund ræður um að það væri ekki hægt, að mætti ekki.
    Það væri gaman að rifja upp ræður hæstv. núv. utanrrh. sem stóð hér dögum oftar á árunum 1987--1988 og barðist gegn því að t.d. matvæli yrðu höfð á lægra skattþrepi með þeim einu rökum, ef rök skyldi kalla, að það mættu ekki vera tvö skattþrep, það yrði að vera eitt, hitt væri svo flókið. En hvað er að gerast í dag? Verið er að taka upp annað skattþrep á tiltekna hluti. Þannig verður það t.d. í rekstri í ferðaþjónustu að fyrirtækin borga umvörpum bæði skattþrepin í hinum daglega rekstri. Leggjandi á bæði skattþrepin, ekki satt? Er það þá orðið eitthvað öðruvísi en að hafa tvö skattþrep lýði, t.d. í búðum?
    Ef við skilgreindum mjög þröngt hvað skuli teljast námsbækur þá væru það eingöngu þær bækur sem væru gefnar út sem námsbækur sem væru á námsskrám skólanna og jafnvel væri hægt að tengja þetta við starfsemi skólanna þannig að menn fengju niðurfellinguna í gegnum einhvers konar uppáskrift frá skólum sínum. Svo dæmi sé tekið þá mundu menn ekki fá felldan niður virðisaukaskatt af Njálu þó svo hún væri notuð til hliðsjónar við kennslu að einhverju leyti. En af því að hún var ekki gefin út sem slík --- og þó veit maður það aldrei hvað vakti fyrir höfundinum á sínum tíma. Það getur vel verið að hann hafi einmitt verið að skrifa námsbók í ýmsum mannlegum samskiptum. Alla vega má margt af Njálu læra. Segjum sem svo að menn mundu afsala sér því að slíkar bækur yrðu teknar með til að einfalda málin og ekkert annað en námsbækur yrðu gefnar út slíkar og væru á námsskrám skólanna. Jafnvel væri hægt að hugsa sér að eingöngu tilteknar verslanir, sem uppfylltu ákveðin skilyrði, sem hefðu þessa niðurfellingarheimild. Það væri hægt að hafa það þannig, t.d. til að losna við söluturna og aðra slíka aðila sem eru kannski með einhverjar vasabrotsbækur. Þetta mundi þýða að kannski næðist ekki alveg utan um námsbókaflokkinn sem slíkan og þetta mundi girða fyrir misnotkun og mundi tryggja að hinar eiginlegu námsbækur væru undanþegnar.
    Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh.: Er hann ánægður með námsbækur sem skattstofn? Telur hann ekki eitthvað á sig leggjandi til að reyna að bjarga, þó í litlu sé, andlitinu í þessu máli og reyna að gangast fyrir vinnu sem hafi það að markmiði að finna færar leiðir, sem eru örugglega til, og ég þykist hafa að hluta til sýnt fram á til að hafa námsbækurnar undanþegnar? Að vísu er svo að það hefur læðst að mér efi um að það væri að öllu leyti rétt að leggja það til að námsbækur yrðu undanþegnar. Ég skal segja hvers vegna. Ég held nefnilega að þetta sé skattur sem sé svo óvinsæll og vitlaus að hann muni verða afnuminn aftur. Þá gæti það þvælst frekar fyrir mönnum en hitt að hann væri þó ekki lagður á námsbækur. Mér liggur eiginlega við að segja að ég held að það væri eiginlega betra að þetta væri þá bara nógu vont til þess að örugglega yrði hægt að sópa þessu burtu aftur næst þegar hugsandi menn kæmust að stjórnveli. ( Gripið fram í: Ef það verður ekki búið að leggja bókaútgáfu í rúst.) En þá getur vel verið að bókaútgáfan verði öll farin úr landi og meira og minna allt hrunið í þessu, það veit maður auðvitað ekki. Vonandi verður það ekki svo svart. En það er ekki nokkur minnsti vafi á því að þetta verður meiri háttar áfall fyrir þessa grein.
    Að lokum um þessi virðisaukaskattsmál þá er þó eitt í þessu sem rétt er að komi fram og er sjálfsagt að hafa í huga og það er að þetta á ekki að taka allt saman gildi strax og reyndar minnst af þessu. Sumt tekur gildi á næsta ári eða við önnur áramót. Það er m.a. ástæða þess að ég geri að nokkru umtalsefni þætti eins og skattlagninguna á farseðlana í innanlandssamgöngunum að ég bind nokkrar vonir við það þrátt fyrir allt að menn noti þann tíma sem þá er fyrir hendi áður en þetta tekur gildi til að hugsa sinn gang. Ég geri það nú þrátt fyrir allt. Svona óforbetranlegur bjartsýnismaður er ég. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að menn séu komnir á það stig í þessum efnum að þeir skelli þessum virðisaukaskatti t.d. ofan á flugfarseðlana. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því. Ég vil þess vegna leyfa mér að ljúka umfjöllun um virðisaukaskattinn með þeim orðum að hvetja menn til að setjast yfir þetta á nýju ári. Ég er alveg viss um að efh.- og viðskn. --- sem hefur unnið vel saman að skoðun þessara mála þó hún hafi því miður ekki haft, mér liggur við að segja aðstæður til að vera sammála um afgreiðslu þeirra að lokum, hendur sumra voru þar bundnar eins og við vitum --- er örugglega tilbúin og verður örugglega tilbúin til að vinna á næsta ári að þáttum eins og skattlagningu bókanna, fargjaldanna og á fleiri hlutum, hvort ekki er unnt að fella þetta niður eða a.m.k. finna á þessu einhverja skynsamlegri útgáfu.
    Hæstv. forseti. Ég ætlaði þá aðeins til þess að það falli ekki niður að nefna vaxtabæturnar sem hér eru á ferðinni og er auðvitað mikið áfall að hæstv. ríkisstjórn skuli ákveða að skerða vaxtabætur þess fólks sem

lagt hefur í kostnað vegna öflunar íbúðarhúsnæðis á undanförnum árum. Það er eitt af þessu mjög svo dapurlega sem hér er á ferðinni í þessum pakka og ég hef þegar farið yfir það. Að mínu mati eru þar á ferðinni hin hreinustu brigð gagnvart því fólki sem hefur treyst því kerfi og fyrirkomulagi sem lögfest hefur verið á undanförnum árum. Hefur treyst margendurteknum yfirlýsingum um að það yrði ekki komið aftan að því í þessu sambandi, hefur hlustað á ráðamenn réttlæta hækkun vaxta í húsnæðislánakerfinu með því að á móti komi vaxtabæturnar sem geri það að verkum að lágtekjufólkið fái hina auknu vaxtabyrði endurgreidda í verulegum mæli eða alveg. Þetta á nú að svíkja, svo einfalt er það. Það hljóta að teljast veruleg tímamót á ferli hæstv. núv. félmrh. að láta það yfir sig ganga. Að vísu hefur heyrst að samstarfsráðherrar hæstv. ráðherra í ríkisstjórn séu orðnir leiðir á hótunum hæstv. ráðherra um að segja af sér sem mun vera orðið nokkuð slitin plata ef svo má að orði komast og þess vegna hafi það bitið óvenjulítið í þessari lotu. Kannski er það ástæða þess að hæstv. félmrh. virðist lítið hafa getað varið sig og situr uppi með þetta. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðherra hafi þótt ákaflega þungbært að verða að ganga á bak marggefinna loforða um að vaxtabætur verði ekki skertar.
    Ég vek athygli í þessu sambandi á umsögn Húsnæðisstofnunar ríkisins sem má best til þekkja og gerst vita hvaða áhrif geta orðið af því að raska þannig greiðslugrundvelli fjölskyldnanna. Húsnæðisstofnun varar mjög sterklega við því í umsögn sinni að slík áhrif verði höfð á greiðslugetu fólks og bendir réttilega á að fjölmargir hafi á undanförnum missirum sloppið í gegnum lögbundið greiðslumat húsnæðislánakerfisins og fengið þá fyrirgreiðslu sem frekast mátti ætla að þeir gætu staðið undir. Nú er þeim grundvelli raskað og afleiðingarnar geta ekki orðið aðrar en þær að verulegir erfiðleikar steðja að hjá þessu fólki.
    Hæstv. forseti. Ef maður reynir svo að draga þetta saman í lokin þá er það auðvitað í fyrsta lagi ljóst að vinnubrögðin í þessu máli eru ekki til eftirbreytni eða fyrirmyndar. Ég held að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., sem hljóta að eiga að teljast bera nokkra ábyrgð á þeim þætti málsins, báðir og sameiginlega, væru nú menn að meiri að viðurkenna það. Þetta er búið að vera eitthvert mesta klúður sem maður hefur lengi séð, satt best að segja. Ef hægt er að vinna eitthvað með handarbökunum þá er það á þennan hátt.
    Í öðru lagi er auðvitað ljóst að hér á sér stað umtalsverð skerðing á lífskjörum almennings í landinu. Hún er að stórum hluta til ákveðin með ráðstöfunum stjórnvalda. Þetta hefur leitt til mjög versnandi andrúmslofts í samskiptum ríkisvalds og launamannahreyfingarinnar. Þó það sé ekki mitt að spá í þá hluti þá verður ekki fram hjá því horft að mjög alvarlegar vísbendingar hafa komið fram um það á undanförnum dögum að það stefni í hörð átök á vinnumarkaði og miklu meiri óróleika almennt í þjóðfélaginu en við höfum séð um árabil. Hæstv. ríkisstjórn getur ekki hlaupið frá ábyrgð sinni í þeim efnum. Hún hefur sagt sundur friðinn. Slitið samstarfi við verkalýðshreyfinguna og valið að keyra sínar tillögur í þessum skattamálum fram án minnsta samráðs við þá aðila. Það er staðreynd og það er alveg sama hvað hæstv. forsrh. segir heilagur í framan niðri í kringlu. Þannig bar þetta til og afleiðingunum hlýtur hæstv. ríkisstjórn að taka.
    Í fjórða lagi held ég að það sé því miður einnig staðreynd að ójöfnuðurinn vex í gegnum þessar aðgerðir. Hann minnkar að minnsta kosti ekki, hv. þm. Ég held að margs konar aðstöðumunur fólks aukist ef eitthvað er. Að vísu má kannski segja að með því að falla frá að skerða barnabæturnar og þeirri sértæku skattlagningu á tiltekna hópa sem þar var á ferðinni og fara í staðinn yfir í hárbeittan niðurskurð með lækkun persónufrádráttar sé þetta gert að almennara áfalli fyrir menn. En hv. formaður efh.- og viðskn. veit þó vel að margar aðrar og miklu réttlátari aðferðir eru til að dreifa þessari skattbyrði en sú að lækka persónufrádráttinn. Það hefði að mínu mati verið miklu skárri aðferð að hækka þá skattprósentuna meira og endurgreiða svo einhvern hluta af þeim tekjum í gegnum hærri persónufrádrátt. Hefði t.d. hv. formaður efh.- og viðskn. haft tíma til þess þá er ég viss um að hann hefði verið tilbúinn til að reikna út það dæmi að í staðinn fyrir 1,5% hækkun hefði hún orðið 2,5% og síðan hefði verulegum hluta þeirra tekna sem þannig kom inn verið ráðstafað í gegnum hærri persónufrádrátt. Þar með verður breyting í skattstiganum. Skattbyrðin færist til og lendir meira upp á hærri tekjubilin. Þetta er augljóst mál. En í staðinn lendir hæstv. ríkisstjórn í þessum hroðalegu ógöngum að enda með því að lækka persónufrádráttinn. Það er varla að ég trúi því enn að þetta sé sama ríkisstjórnin og lofaði mönnum ekki bara gulli og grænum skógum heldur miklum skattalækkunum fyrir einu og hálfu ári.
    Auðvitað eru býsna dökkar horfur í okkar þjóðfélagi, hæstv. forseti. Það liggur fyrir að það styttist í nýja þjóðhagsáætlun. Við í efh.- og viðskn. höfum fengið ákveðnar upplýsingar um breytingar sem Þjóðhagsstofnun þykist sjá og ég leyfi mér að upplýsa um það hér sem ég veit. Ég skyldi það svo að sú þjóðhagsáætlun væri þá í vændum á næstu dögum. En hvað sem því líður þá er alveg ljóst að Þjóðhagsstofnun segir nú: Það verður meiri samdráttur þjóðartekna, það verður meira atvinnuleysi og það var á flestan hátt þannig að þær breytingar sem stofnunin taldi upp horfðu til hins verra.
    Að vísu var með varfærnum orðum sagt að atvinnuleysið yrði meira en 4%. Þegar gengið var á forstjóra Þjóðhagsstofnunar og spurt: Hvað þýðir meira? Þá varð fátt um svör, kannski ekki jafnmikið atvinnuleysi og VSÍ eða ASÍ nefndu fyrr í haust, 15 eða 25% en meira gæti þýtt eitthvað á bilinu 4--7%. Sex til sjö prósent atvinnuleysi hafa sumir talað um. Ég held að vaxandi atvinnuleysi, þar með vaxandi fjöldi fólks og heimila í landinu sem í raun og veru missir grundvöll sinn, fellur þannig í tekjum að stórkostlegir erfiðleikar hljóta að skapast. Þegar við höfum svo í huga að skuldir heimilanna í landinu hafa vaxið hroðalega á undanförnum árum og það er auðvitað ekki bara sök núv. ríkisstjórnar enda þótt núv. stjórnarflokkar hafi

setið býsna drjúgum við stjórnvölinn á sl. tólf árum þá hafa fleiri komið þar við sögu. Mér er sagt að fyrir liggi tölur um að skuldir heimilanna hafi fjórfaldast á tíu til tólf árum. Það er alvarlegt umhugsunarefni. Mönnum er tamt að hugsa fyrst og fremst um erfiðleika atvinnulífsins og fyrirtækjanna og hafa miklar áhyggjur af því að nú geti fyrirtækin ekki staðið í skilum og ekki borgað af lánum og ekki gengið. En guð minn góður, hvað gerist ef þessi algengasta eining í þjóðfélaginu, fjölskyldan, heimilið, getur ekki klárað sitt dæmi? Hvers konar hrun verður þá ef greiðsluþrot verður almennt og upp til hópa hjá heimilunum í landinu? Þá fyrst munu menn sjá ,,infrastrúktúrinn`` í þjóðfélaginu hrynja ef svo má að orði komast. Ef heimilin almennt lenda í þessum erfiðleikum þá mun keðjuverkunin fyrst láta til sín taka í þjóðfélaginu ef menn geta ekki staðið í skilum með lán sín, ekki keypt eða borgað fyrir þá þjónustu sem þeir þurfa að njóta og það mun síðan segja til sín með margfalt öflugri hætti gegnum keðjuverkun í þjóðfélaginu en þó eitthvert fyrirtæki lendi í erfiðleikum. Þess vegna held ég að athygli manna hafi ekki því miður í nógu miklum mæli beinst að þessum þætti, skuldastöðu heimilanna og möguleikum þeirra til að bera greiðslubyrði af þeim skuldum.
    Hæstv. forseti. Ég ætlaði að lokum að blaða aðeins í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar sem heitir þessu ótrúlega nafni miðað við núverandi aðstæður: ,,Velferð á varanlegum grunni.`` Ég held að öllu neyðarlegra nafn hefði hæstv. ríkisstjórn ekki getað valið sér þótt hún hefði legið undir feldi í hundrað ár og reynt að finna eitthvað sem væri virkilega neyðarlegt við núverandi aðstæður í landinu ( VE: Hefur þú hringt í bókmennta . . .  ) en þetta: ,,Velferð á varanlegum grunni.`` Í vaxandi atvinnuleysi, við skerðingu lífskjara, vaxandi skattpíningu, þá heitir stefnuskrá ríkisstjórnarinnar þetta. (Gripið fram í.) Það var verið að koma til mín gagnlegum upplýsingum um það sem ég var að ræða, þ.e. skuldastöðu heimilanna, sem ég þakka fyrir. Það staðfestir það sem ég var að segja að skuldastaðan hefur aukist hrikalega á tiltölulega skömmum tíma á innan við tíu árum. Á sama tíma hafa skuldir fyrirtækjanna reyndar nánast staðið í stað. Þær eru nú um 75% af landsframleiðslu eins og ég reyndar nefndi hér fyrr í ræðu minni. Ég mundi þá ekki töluna nákvæmlega en talaði um eitthvað í nágrenni við 70%, sem segir að þrátt fyrir nokkrar vökur er minni ræðumanns nokkurn veginn í lagi, og hér koma upplýsingar um að skuldir heimilanna hafa hins vegar á þessum tíma frá því á árinu 1984 aukist úr 26% af landsframleiðslu í yfir 60%.
    En hæstv. forseti. Það er aðeins um stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Það er svo að þegar maður les yfir þetta núna í ljósi þess sem hefur gerst þá fer maður að velta því fyrir sér hvort þetta hafi átt að vera einhvers konar andsönnun eða öfugmælaframsetning á þessari stefnuskrá. Þ.e. menn hafi átt að lesa þetta með því hugarfari að ríkisstjórnin meinti ævinlega þveröfugt við það sem hún segði. ( Gripið fram í: Eigum við ekki að senda stefnuskrána í keppni um menningarverðlaun?) Jú, því ekki það. En þar segir t.d. hér undir liðnum: Ríkisbúskapur, í hvítu bókinni, Velferð á varanlegum grunni. Það er mikil speki. Þar segir: ,,Skattheimtan verður umfram allt að vera hófleg þannig að hún dragi ekki úr framtakssemi og áræði einstaklinga við nýsköpun og atvinnuuppbyggingu.``
    Var þetta hugsunin á bak við það að lækka arðsprósentuna og draga á hlutafjárfrádráttinn? Svo segir: ,,Skattstofnar eiga að vera skýrt afmarkaðir og með sem fæstum undanþágum svo að skatthlutföll verði sem lægst og hætta á undanskotum sem minnst.`` Sem lægst, hvað eru þau að gera í dag? Og hætta á undanskotum sem minnst. Það er líklegt að það dragi stórlega úr hættu á henni núna hjá einstaklingunum. Svo kemur alveg dýrleg málsgrein á bls. 18. Þar segir: ,,Skatthlutfall einstaklinga hefur hækkað verulega frá því að staðgreiðsla tekjuskatts var tekin upp. Enn fremur hefur tekjutenging færst í vöxt, sem leiðir til þess að raunverulegur skattur hefur farið hækkandi.`` --- Þetta er ljótt mál. --- ,,Stefna verður að lækkun skatthlutfallsins í kjölfar minni ríkisumsvifa og með endurskoðun sérstakra skattaafslátta og annarra ívilnana.`` --- Stefna verður að lækkun skatthlutfallsins. Ég vek athygli á því að það er verið að ræða um skatthlutfall einstaklinga sem ríkisstjórnin í sinni stefnuskrá telur að hafi hækkað ískyggilega á undanförnum árum og í tengslum við aukna tekjutengingu sé þetta orðið hið versta mál. Þetta er nú það sem gekk á prent hjá ríkisstjórninni í fyrrahaust.
    Nú bið ég þá sem hér eru til svara fyrir hæstv. ríkisstjórn að útskýra fyrir mér hvernig skattahækkanirnar sem nú eru að ganga yfir séu liður í þessari stefnu ríkisstjórnarinnar. Ef maður á að taka eitthvert mark á þessari bók, eða er kannski búið að fella hana úr gildi? Það var að vísu upplýst að hún hefði aldrei verið samþykkt í þingflokkum stjórnarliðsins, aldrei verið sýnd þar. Ég leyfði mér því einhvern tímann að kalla þetta handbók ráðherranna.
    Svo er meira fjallað um þetta, hæstv. forseti, á ýmsum stöðum og er það næsta kostuleg lesning. Ég vek t.d. athygli manna á kaflanum um ráðdeild í ríkisrekstri. Þar er fín setning. Þar segir: ,,Það er staðfastur ásetningur ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. að ná jafnvægi í ríkisfjármálum, draga úr ríkisútgjöldum og skapa skilyrði fyrir lækkun skatta``, o.s.frv. --- Staðfastur ásetningur ríkisstjórnarinnar að skapa skilyrði fyrir lækkun skatta. Þarna er aldeilis ekki verið að boða skattahækkanirnar, ónei. Enda mun það vera svo að í kosningabaráttu Sjálfstfl. í hita leiksins voru frambjóðendur Sjálfstfl. í Reykjavík látnir gangast undir krossapróf. Ef ég man þetta rétt var þetta nokkuð langur og mjór bæklingur og það voru reitir til að krossa í. Þetta var bæklingur sem Samband ungra sjálfstæðismanna eða Heimdallur eða eitthvert slíkt fyrirbæri gaf út og lagði fyrir frambjóðendur Sjálfstfl. í Reykjavík, vel að merkja. Það voru frambjóðendurnir í Reykjavík, segja þingmenn Sjálfstfl. af landsbyggðinni til þess að þeir verði frígjörðir af þessu og er þeim hér með veitt aflausn. Frambjóðendur Sjálfstfl. í Reykjavík svöruðu þessu krossaprófi. Um hvað var

spurt? Ekki: Hyggst þú beita þér fyrir skattahækkunum? Nei. Og ekki: Hyggst þú beita þér fyrir óbreyttum sköttum? Nei. Þessi litla hógværa spurning sem var lögð fyrir frambjóðendur Sjálfstfl. var: Munt þú, þegar þú kemst til valda, hv. frambjóðandi Sjálfstfl. --- þar á meðal hæstv. forsrh. --- beita þér fyrir afnámi allra skatta vinstri stjórnarinnar eða bara sumra, strax eða í hvelli eða seinna? ( Forsrh.: Spurningin hljóðaði ekki þannig.) Þetta er mjög nálægt því að vera orðrétt en hér er hæstv. forsrh. sem getur sagt hvernig þetta var orðrétt og jafnvel fært okkur bæklinginn. Væri mér mikil þökk í því ef hæstv. forsrh. vildi síma í þá uppi í Valhöll og senda undirrituðum eitt eintak af bæklingnum með krossunum því ég þykist muna það rétt að einn sá allra galvaskasti í krossaprófinu var hæstv. forsrh. Ég man ekki annað en hann hafi sett bara X við já, já, já, fella niður alla skatta ríkisstjórnarinnar strax. ( ÓRG: Það var bara eitt já hjá honum.) Bara eitt já. Þá var nú ekki aldeilis kengurinn í mínum manni. Það er varla hægt að gera þá kröfu til ræðumanns að hann kunni orðrétt utanbókar alla texta Sjálfstfl. í síðustu kosningabaráttu og er með ósanngjarnari kröfum sem hér hafa komið fram en efnislega var þetta svona. Það var spurt hvort frambjóðendur Sjálfstfl. væru tilbúnir til þess að beita sér fyrir því að fella niður alla þessa vondu skatta sem ríkisstjórnin hefði komið á. Þessi skattaglaða vinstri stjórn. ( ÓRG: Það var enginn sem hafði efasemdir nema Geir H. Haarde.) Já, það var víst einn maður sem hafði smáefasemdir og setti eitthvað í B-flokk eða C-flokk. Hann var ekki alveg viss um að hann gæti fírað þessu öllu út strax, en það var ekki efinn hjá hæstv. forsrh. ( IBA: Hann var ekki sá eini.) Þetta er að verða mjög áhugavert. Hér koma fram ýmsar upplýsingar. Hv. 5. þm. Reykv. upplýsir að hann hafi haft efasemdir eða er væntanlega að tala fyrir sjálfs síns hönd. Ég tel að það gangi ekki að ljúka þessari umræðu nema bæklingurinn komi fram í dagsljósið, hæstv. forseti, og við getum fengið það alveg á hreint hvernig menn exuðu við í prófinu. En eitt er alla vega á hreinu og það er að hæstv. forsrh. stóð keikur og hafði engar efasemdir um að hann mundi fella niður alla skatta sem þessi vonda vinstri stjórn hafði komið á. Hvar stendur nú sá maður í dag eða situr? Í hverjum sporum er hann?
    Reyndar er það rétt að t.d. í kosningayfirlýsingu Sjálfstfl., sem ég hef fengið í hendur fyrir góðra manna hjálp, er alveg afdráttarlaus yfirlýsing um þetta. Það stendur í 4. lið, III, eða stjórnmálaályktun fundarins: Fjármál ríkisins verði tekin nýjum tökum. Fyrsta skrefið verði að hverfa frá skattahækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar og ná jafnvægi í fjármálum ríkisins. Þensla í umsvifum ríkiskerfisins verði stöðvuð og raunverulegum sparnaði náð. Í framhaldi af því verði unnið að því að lækka skatta. --- Það dugar ekkert minna.
    Svona er þetta, hæstv. forseti. Nú þjónar þessi málfundur kannski ekki í sjálfu sér þeim tilgangi að svara því fyrst og fremst hvort aðstæður á Íslandi í dag séu þær að þetta hafi verið mögulegt. Það geta menn auðvitað alltaf og endalaust rifist um. Lærdómurinn ætti þá auðvitað að vera að menn ættu ekki að vera að lofa öðru en því sem einhverjar líkur væru á að hægt væri að efna. Það er svo sem ekki málið. En hitt er rétt að það liggi fyrir hvað menn sögðu í þessum efnum.
    Stjórnarliðar hafa reynt að réttlæta það að ljúka afgreiðslu samningsins um Evrópskt efnahagssvæði með einföldum naumum meiri hluta á þingi, hunsandi kröfur um þjóðaratkvæði og breytingar á stjórnarskrá --- með hverju? Með hverju? Með því að þeir hafi fyrir síðustu kosningar gert afstöðu sína til málsins kunna. Þess vegna megi þeir gera það sem þeim sýnist í þessu máli og hunsa vilja þjóðarinnar og hunsa allar kröfur um breytingar á stjórnarskrá. En hvað sögðu þá stjórnarflokkarnir um skatta fyrir síðustu kosningar? Og ber þeim ekki með sama hætti og þeir telja sig nú geta gert í EES-málinu að umgangast sín eigin loforð um skatta frá síðustu kosningum? Eru það bara sum loforð og bara sum mál sem menn tala um fyrir kosningar sem má taka mark á en önnur ekki? Ef Sjálfstfl. vill lýsa því yfir að allt sem hann segir um ríkisfjármál og skatta sé ekki í þeim hópi sem taka eigi mark á, þá eru það tíðindi út af fyrir sig og gagnlegar upplýsingar fyrir kjósendur komandi ára og áratuga jafnvel, ef Sjálfstfl. verður til svo lengi eins og nú stefnir.
    Í öllu falli er það alveg á hreinu, hæstv. forseti, að þetta er einhver sú hroðalegasta magalending og útreið sem einn flokkur hefur í langan tíma fengið í íslenskum stjórnmálum hvað varðar annars vegar loforð og fyrirheit og hins vegar efndir í skattamálum. Það hlýtur að verða mikil velgja á ferðinni í mögum þeirra hv. þm. Sjálfstfl. þegar þeir greiða þessari skattasúpu atkvæði.