Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 16:51:43 (3787)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er þakklátur hv. 5. þm. Austurl. að hafa hlustað með athygli á alla mína ræðu eins og hann vitnaði um að hann hefði gert og virði það við hann. Bara til ábendingar þá hef ég aldrei heyrt að menn leystu fram úr málum, yfirleitt leysa menn úr vandamálum eða leysa frá skjóðunni. Svo geta menn lent í því að leysa niður um sig. Ekki veit ég hvort það hefur verið í huga hv. þm. Það kann að vera að ég hafi ekki eytt miklu af ræðutíma mínum í að útlista úrræði okkar stjórnarandstæðinga. Þau liggja a.m.k. fyrir í tilviki okkar alþýðubandalagsmanna. Það ætti hv. þm. að vita. Við höfðum þó það við, meira en aðrir flokkar, að strax snemma á þessu hausti lýstum við okkar viðhorfum í formi bæði aðgerða í ríkisfjármálum, skattlagningu og úrræða í atvinnumálum sem er meira en Alþfl. getur sagt, sem hefur verið að taka þátt í þessu klúðri hverju á fætur öðru á næturfundum nú á síðustu dögum.
    Hv. þm. skorar því ekki miklar keilur með því að ætla að snúa sig út úr vandanum, sem hann sannarlega er í sem stuðningsmaður stjórnarliðsins, með því að skammast út í það að aðrir hafa ekki eitthvað til málanna að leggja. Það gerir hlut ríkisstjórnarinnar hvorki betri né verri hvort stjórnarandstaðan hefur sett fram meiri eða minni tillögur. Hann er eins og hann er, hv. þm. Álögurnar á almenning eru eins og þær eru. Það sem ríkisstjórnin ætlaðist fyrir t.d. gagnvart barnafólkinu segir sína sögu um hugsunarhátt þann sem ræður ferðinni í ríkisstjórninni eða lækkun persónufrádráttarins nú.
    En gæti e.t.v. verið að það sem gerði það að verkum að hv. 5. þm. Austurl. kom upp í þessu hugarástandi sem hann gerði hafi verið upplýsingarnar sem ég kom með um að það eigi að hækka flugfargjaldið á Breiðdalsvík í yfir 20.000 kr. með aðgerðum ríkisstjórnarinnar? Gæti það verið?