Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 16:53:51 (3788)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sá er munurinn á hv. þm. og fólkinu á Breiðdalsvík að fólkið á Breiðdalsvík skilur gjörla við hvers konar erfiðleika er að etja í þjóðarbúinu núna. Það skilur það gjörla þó hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skilji það ekki. Fyrir utan það að bera fram rangar upplýsingar nema ef vera kynni að hv. þm. sé farinn að gæta sérstaklega núna hagsmuna Flugleiða og sé orðinn nokkurs konar kynningar- og blaðafulltrúi Flugleiða í þinginu. Það má vel vera að hann sé kominn á slíkan mála hjá þessu ágæta fyrirtæki sem hann hefur hingað til kennt við kolkrabbann, en er kannski búinn að skipta um ham og kominn í nýtt hlutverk. Það er auðvitað aldrei að vita við hverju maður getur búist frá mönnum sem tala eins og þeir hafi ekki lifað í landinu í tvö ár og þekkja ekki einu sinni fólkið í landinu. Það væri nær fyrir hv. þm. að spara sér orðin og fara að kynnast kjörum fólksins í landinu þannig að hann verði fær um það að leggja fram einhverjar tillögur, frekar en eyða dýrmætum starfstíma til að láta okkur hlusta á gagnrýni ofan á gagnrýni, nöldur ofan á nöldur. Tími sá er liðinn. Við höfum engan tíma til slíkra starfa núna að hlusta á gagnrýnisorðin aftur og aftur. Við verðum að stilla saman strengi til þess að ná fram samstöðu um aðgerðir til þess að bregðast við þeim vanda sem nú er við að etja. (Gripið fram í.) Hv. formaður Alþb., Ólafur Ragnar Grímsson, þú varst ófeiminn við að leggja sjálfur á skatta þegar þú varst ráðherra og með stuðningi hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hvort hann gerði það með bros á vör veit ég ekki. Ég geri það ekki með bros á vör en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þolir ekki að leggja neina skatta á lengur vegna þess að hann á kannski ekki forustu um að móta þær aðgerðir sem nú er verið að standa að og þess vegna hefur hann ekki þrek til þess að taka þátt í að leysa vandamál þjóðarinnar eða alla vega hjálpa fólki að lifa með þeim.