Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 16:56:02 (3789)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var viðtal við einn af forustumönnum launamanna í gær í fjölmiðlunum og hann var spurður að því hvort launamannafélögin, samtökin sem hafa verið að álykta síðustu sólarhringa, væru að biðja um kauphækkanir. Talsmaðurinn taldi ekki svo vera. Menn gerðu sér grein fyrir því að það væri takmarkað svigrúm til beinna launahækkana, en --- sagði hann --- við erum að biðja um réttlæti. Við viljum réttlátar aðgerðir hvað varðar dreifingu þessara byrða á þjóðina. Það er það sem þetta mál snýst um, hv. 5. þm. Austurl., séra Gunnlaugur. Það snýst um réttlæti. Og ef hv. þm. ætlar með miklum hávaða að halda því fram að skattastefna hæstv. ríkisstjórnar sé réttlát og að við stjórnarandstæðingar, sem höfum leyft okkur að gagnrýna hana, skynjum ekki þjóðina, höfum ekki búið í landinu, séum úr takt við veruleikann, þá held ég að hv. þm. sé kominn á þunnan ís. Ég held hann sé kominn á mjög þunnan ís. Ég held að t.d. fundur Dagsbrúnarmanna í Reykjavík eða yfirlýsingar Hrafnkels A. Jónssonar í fjölmiðlum í gær séu miklu betri svör um það hvernig fólkið í landinu talar eða hugsar en orðræður okkar, mínar og hv. þm., um það efni. Við getum sjálfsagt lengi deilt um það hvor okkar finni betur hjartslátt þjóðarinnar án þess að komast að samkomulagi.
    En þegar fólkið sjálft er að tala, eins og það gerir þessa daga, þá held ég að hv. þm. ætti að fara varlega í það, hvort sem það er úr þessum stóli eða einhverjum öðrum stólum, að tala eins og hann gerði áðan. Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að átta sig á því að hún er ekki mjög vel liðin þessa dagana, fólkið í landinu hugsar henni þegjandi þörfina. Ég held að hv. þm. hafi ekki tekið mikið af leigubílum eða ferðast mikið um, farið í gegnum margar flugstöðvar, litið inn á vinnustaði, ef hann er virkilega þeirrar skoðunar að þetta sé allt í fína lagi, að fólkið telji þetta réttlátar og sanngjarnar ráðstafanir. Það gerir það ekki. Það að hækka lyfjakostnað aldraðs fólks, það að ráðast að barnafjölskyldum og húsbyggjendum, það að lækka skattleysismörkin --- það er ekki réttlæti við núverandi aðstæður, á sama tíma og verið er að stórlækka skatta fyrirtækja. Fólkið upplifir þetta ekki sem réttlæti. Það er ekki þannig.