Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 18:44:21 (3807)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Síðasti ræðumaður spurði eftir fjölskyldustefnu ríkisstjórnarinnar. Hún felst m.a. í því að reyna að tryggja það að fyrirvinnur fjölskyldna hafi atvinnu og þess vegna er verið að fella niður aðstöðugjald sem lækkar vöruverð og treystir atvinnuna, sérstaklega í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Það er líka alveg ljóst að aðstöðugjaldið lækkar vörur hvað mest í matvöru og þeim vörum sem lágtekjufólk þarf á að halda þannig að sú verðlækkun sem þar kemur fram gagnast láglaunafólki fyrst og fremst. Sú leið sem hv. þm. boðar að hafi verið betri en sú leið sem var valin, þ.e. að taka hækkunina á tekjuskattinum sem var nauðsynleg vegna niðurfellingar aðstöðugjaldsins út í hækkun á skattprósentunni, kemur alls ekki betur út þegar upp er staðið. Við verðum að átta okkur á því að skattprósentan er fyrst og fremst skattur á yfirvinnunni hjá lágtekjufólkinu. Ef við tökum t.d. þá leið sem hv. þm. var að tala um, sem hefði auðveldlega getað komið fram í hækkun á prósentunni um 4,5 í staðinn fyrir 1,5, þá getum við sagt okkur það að maður sem eykur tekjur sínar með yfirvinnu úr 60 þús. upp í 75 þús. er með hækkun á prósentunni búinn að borga meira í skatt með því að hækka prósentuna um 1,5% en að lækka persónuafsláttinn um 400 kr. Þess vegna er ekki þetta réttlæti sem þið eruð að boða, hv. stjórnarandstæðingar og ágætu félagar, það er ekki alveg svona svart og hvítt. Þið verðið að skoða þetta aðeins betur.