Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 18:49:09 (3810)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það vill þannig til að ég er af sunnlensku galdrakyni. Það eru galdramenn í minni föðurætt sem komist hafa á bækur. Ég hef reyndar ekki orðið vör við að ég beri slík gen í mér þannig að ég ætla nú ekki að reyna neinar galdrakúnstir í skattheimtu. En auðvitað er um það að ræða að það að hækka tekjuskattinn er eitt, það að ná inn fjármagnstekjuskatti er annað og ekkert segir að þessar 4.000 millj., sem meiningin er að létta af atvinnuvegunum, þurfi að koma inn í gegnum tekjuskattinn einvörðungu. Náttúrlega eru aðrar leiðir til þess.
    Þótt ég hafi í raun ekki séð neina útreikninga á þeirri leið, sem við höfum verið að fara, dreg ég ekki í efa að sú leið er einfaldlega réttlátari við þær aðstæður sem við búum við. Launakjör á bilinu 60 til 70 þús. kr. eru einfaldlega þannig að fólk sem hefur slíkar tekjur, og ég tala nú ekki um barnafólk, er ekki aflögufært, því miður. En hjá ríkisstjórninni virðist vera svo að aldrei megi snerta við þeim sem ríkari eru. Fjármangstekjuskattinum er frestað ár eftir ár. Loksins þegar samþykkt er hátekjuskattþrep upp á 5% þá er það til tveggja ára. Þá vaknar auðvitað spurningin um hvort einhverjir hér muni standa eftir fimmtán ár og samþykkja hátekjuskattinn í fimmtánda sinn.