Samkomulag um kvöldfund

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 19:03:17 (3818)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég útskýrði áðan hvernig stóð á þeim mistökum að því er varðar Framsfl. eða hvernig stóð á því að enginn af þeim bæ var með í ráðum þegar fundurinn var haldinn. Hins vegar var talað við

tvo af þeirra þingmönnum, þar á meðal formann flokksins. Mér var ekkert kunnugt um það, og ég veit ekki hvort öðrum þingflokksformönnum var kunnugt um það, hverjir sitja í varastjórn þingflokks framsóknarmanna. Ég er bara ekki það kunnugur innviðum þess flokks. En mér þykir leitt og ég bið hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson velvirðingar á því ef hann á þar sæti án þess að við hinir höfum vitað af því. En ég vek athygli á því að þeir forustumenn úr stjórn þingflokksins, sem voru hér fyrr í dag, hafa ekki gert okkur boð um það hverjir ættu að mæta í þeirra stað á þessa fundi sem eru nú haldnir daglega.
    Ég vil bæta því við vegna fyrirspurnar hv. síðasta ræðumanns að gert hefur verið ráð fyrir því að ljúka umræðum um skattafrv. sem nú er til meðferðar og í umræðu og byrja síðan á umræðum um hið Evrópska efnahagssvæði þó þannig að þar verði aðeins fluttar tvær ræður, þ.e. fyrsti ræðumaður sem er á mælendaskrá sem mun vera hv. 6. þm. Vestf. og síðan hæstv. starfandi utanrrh., sem verður það ekki lengur á morgun, en hann hyggst svara nokkrum spurningum sem til hans hefur sérstaklega verið beint í þeirri umræðu. Þannig var frá þessu gengið.