Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 21:31:57 (3828)

     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kem upp til að bera blak af formanni efh.- og viðskn. sem nú er fjarstaddur og ég tel að hann njóti skilnings flestra viðstaddra á því að hann er í burtu í kvöld enda hefur hann verið hér viðstaddur í þingsal í allan dag svo sem honum ber, en við vitum öll hvers vegna hann hefur skroppið frá í smátíma.
    Það er e.t.v. spaugilegt að ég sé að blanda mér í þessi mismunandi sjónarmið þeirra félaganna í Sjálfstfl. því að þeir eru báðir nefndarmenn í efh.- og viðskn. en mér finnst mér skylt að koma upp sem varaformaður þeirrar nefndar. Við höfum fjallað um þetta frv. saman, öll nefndin, og formaðurinn verið einstaklega lipur að verða við öllum óskum allra um að fá á fund, hvern sem óskað hefur verið eftir og reyna að skoða sem flest sjónarmið þannig að hægt sé að koma sér saman, ekki síst fyrir okkur í meiri hlutanum.
    Á vissan hátt mætti halda og þess vegna kem ég hér upp, að efh.- og viðskn. væri að flytja þetta mál, væri að flytja þetta skattafrv. og þess vegna þyrfti þingmaðurinn að ræða við formann sinn. Við tókum við frv., við unnum við það, og við erum með efnahagsaðgerðir á borðum okkar sem eru búnar að fara í þingflokka. Auðvitað er rétt að það er eitt og annað sem hver og einn þingmaður hefur athugasemdir við og oft er mjög sársaukafullt að fallast á aðgerðir. En einhvern veginn finnst mér að sú ræða sem hér var flutt hafi verið flutt á röngum stað. Við vorum ekki að umbylta þessu frv., við tókum á ákveðnum þáttum innbyrðis eftir ítarlega umfjöllun eftir hlustun á þá sem komu á fund nefndarinnar. Það er ekki gleðiefni fyrir neitt okkar að gera tillögur um lækkun persónuafsláttar en á sinn hátt voru það viðbrögð við því að okkur fannst að barnafjölskyldur bæru of mikinn þunga af því sem þarna var sett fram. Á sama hátt og við vorum með viðbrögð við því að þegar niðurstaða var að viðhalda arðsfrádrætti þá mundum við hækka tekjuskatt fyrirtækja frá því sem fyrirhugað var.
    Ég ætla ekki að ræða efnislega þá þætti sem komu fram í ræðu þingmannsins en mér finnst alveg nauðsynlegt að það komi fram að verið var að reyna að taka á ákveðnum þáttum, reyna að lagfæra hluti sem við höfðum möguleika á og að við þá vinnu var reynt að sýna allan þann lipurleika sem hugsast gat.