Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 21:36:44 (3831)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru örfá atriði sem komu fram í ræðu hv. þm. Fyrst vil ég víkja að skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það er hárrétt sem hv. þm. sagði að það hefur lengi verið á stefnuskrá flokks okkar að losna við þennan skatt. Um það höfum við rætt árum saman reyndar. En ég vil benda á eitt sem ég held að sé mjög mikilvægt að komi fram í þessari umræðu. Það er verið að varpa aðstöðugjaldinu af fyrirtækjunum, hvorki meira né minna en 4.000 millj. kr. Þessi gjöld eru greidd að langmestu leyti af verslunar- og þjónustufyrirtækjum og þess vegna er það auðvitað léttbærara fyrir þau fyrirtæki að bera verslunar- og skrifstofuskatt en nokkurn tímann fyrr. Hann skilar reyndar áttfalt minna miðað við aðstöðugjaldið því hann skilar ekki nema 500 millj. í ríkissjóð. Þetta vildi ég að kæmi fram og eins hitt að þessi skattur fellur náttúrlega ekki eingöngu á eina stétt, heldur á þau fyrirtæki sem hafa húsnæði sem notað er undir skrifstofur.
    Í öðru lagi vil ég nefna það hvaða leið var notuð, hvort það ætti að fara barnabótaleiðina sem ríkisstjórnin stakk upp á. Ég vil taka á mig alla ábyrgð á að hafa flutt þetta frv. Nefndin ber auðvitað ekki ábyrgð á því. Nefndarmeirihlutinn stóð hins vegar frammi fyrir vali og valdi frekar þá leið sem farin hefur verið og vildi dreifa vandanum á sem flesta.
    Þá kem ég kannski að aðalatriði í málinu og það er að verið er að færa til skatta í þjóðfélaginu af fyrirtækjunum --- af hverju? Jú, vegna þess að við viljum létta þeim byrðina þannig að atvinnulífið eflist. Hvers vegna er það? Jú, til þess að hægt sé að halda úti fleiri störfum og til þess að færri verði atvinnulausir því það eru einmitt þeir sem við eigum fyrst og fremst að hugsa um. Það er nefnilega þannig, hv. þm., að atvinnulausir eru líka fólk með tilfinningar og börn og það er sá hópur sem við eigum núna að hafa í fyrirrúmi að vernda í þeim erfiðleikum sem við öll stöndum í og ættum öll að sameinast um að leysa úr.