Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 21:43:01 (3834)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að síðustu klukkutímarnir ættu að færa okkur heim sanninn um að nú sé mál að við förum að hætta í kvöld og reynum að ná einhverri hvíld fyrir 3. umr. fjárlaga á morgun.
    Mér sýnist allt benda til þess þegar nú síðast ráðherrar eru farnir að nota andsvaratíma til árása á þingmenn úti í sal sem ekki hafa tækifæri til þess að svara fyrir sig nema í formi þingskapaumræðu, virðulegi forseti, sem ráðherrar síðan lýsa úti í þjóðfélaginu sem ofbeldi og aðgerðum sem hér eigi ekki að líðast, þá sé kominn tími til þess að við tökum okkur hlé.
    Virðulegi forseti. Ég vil einnig benda á það að nú er svo komið að við erum með aðgerðir í ríkisfjármálum, skattalagafrv., í höndunum sem meira að segja að mati stjórnarliða er svo illa unnið að ekki sé um annað að ræða en að senda yfir í nefnd aftur. Þá sé ég ekki betur en hv. 5. þm. Reykv. hefði frekar átt að skrifa undir minnihlutaálit efh.- og viðskn. sem segði það sem þingmaðurinn sagði áðan að málið sé svo illa unnið af hálfu ríkisstjórnarinnar og tímapressan svo mikil að það sé ekkert annað að gera en að senda það til föðurhúsanna aftur. Ég ítreka það við hv. 5. þm. Reykv. að mér sýnist samkvæmt þessu að það hefði verið miklu nær að hann hefði skrifað undir nál. með okkur í minni hlutanum. Því hvað þetta snertir fara skoðanir okkar algjörlega saman.
    Ég bendi einnig á að ein höfuðástæðan fyrir því hvernig komið er er sú að skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar komu ekki fram fyrr en komið var undir miðjan desember. Tíminn til að vinna þetta er enginn og hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh., sem á stól í þinginu, hefur varla sést hér meðan umræðan um efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar, skattafrumvörpin, hefur farið fram. Það getur vel verið að hæstv. forsrh. hafi skömm á þingskapaumræðum, ég ætla ekki að deila um það við hann, en að hann sýni þinginu þá lítilsvirðingu að láta nánast aldrei sjá sig í þingsölum er aftur hlutur sem hann verður að gera bæði Alþingi og þjóðinni grein fyrir.
    Hér hefur farið fram málefnaleg umræða um skattahliðina á efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar í allan dag og ég veit, virðulegi forseti, að hæstv. forsrh. hefur verið í þinghúsinu en hæstv. forsrh. telur sér skyldara að sitja í bakherbergjum og taka þátt í skákmótum sem þingflokkur Sjálfstfl. skipuleggur þar en hlusta á umræður. ( Forseti: Þetta finnst forseta ekki viðeigandi.) ( ÖS: Hvar er hægt að skrá sig í mótið?) Virðulegi forseti. Ég frábið mér þessa viðvörun. Ég benti virðulegum forseta á það að hann leið ráðherra áðan að ráðast að þingmanni úti í sal í andsvaratíma en ef það gerist hér að almennur þingmaður greinir frá staðreyndum gagnvart því hvernig vinnubrögð fara fram í þinginu, þá er hann víttur. Ég bendi á það að ég beindi þessum ummælum til hæstv. forsrh. sem iðulega hefur farið með staðlausa stafi og svívirðingar um þingmenn á opinberum vettvangi. Ég frábið mér, virðulegur forseti, vítur fyrir það. Ef virðulegur forseti veit það ekki þá hefur það ítrekað gerst meðan á þingfundi stendur að þingflokkur Sjálfstfl. er með skipulagt skákmót í stigaherberginu. Í því móti tekur þátt m.a. hæstv. forsrh. sem nennir ekki að sitja yfir almennum umræðum meðan þær standa og sendir okkur síðan tóninn í fjölmiðlum.
    Nú getur það vel verið, virðulegi forseti, að það sé svo komið hjá mér eins og mörgum öðrum hér sem búnir eru að vaka hverja einustu nótt alla vikuna að það sé farið að setja svip á minn málflutning en við hvert einasta orð af því sem ég hef sagt get ég staðið. ( ÓÞÞ: Það eru næg vitni að því.) Það eru næg vitni að því. Nú sé ég að hæstv. forsrh. er kominn í hliðarherbergi og það þurfti þetta til til þess að hann léti sjá sig. ( Gripið fram í: Búinn að vera nokkra stund.)
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þau skattafrumvörp sem hér liggja fyrir. Þau hafa vakið þann óróa úti í þjóðfélaginu að það er vandséð hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að komast frá þeim málum. Ég ætla þó að nefna hér örfáa efnisþætti. Ég vil nefna það að fulltrúar hæstv. ríkisstjórnar, ráðherrar og aðrir, hafa ítrekað nefnt það að þessar tillögur séu í meginatriðum samhljóða því sem aðilar vinnumarkaðarins höfðu lagt til. Þessu mótmæli ég harðlega og vil í því sambandi m.a. vitna til greinargerðar sem Alþýðusamband Íslands hefur látið frá sér fara þar sem tíundaðar eru þær aðgerðir sem þar var verið að vinna að og á hvern hátt menn vildu standa að málinu.
    Ég vil einnig nefna sérstaklega annað atriði og það er hækkun á virðisaukaskatti. Það eru til ýmsar kenningar um hvernig beita á skattlagningu, m.a. sú kenning sem Ronald Reagan stýrði eftir, að með því að lækka skatta almennt gætu menn aukið það mikið veltu í þjóðfélaginu að það horfði til bata í efnahagslífinu og öllu þjóðlífinu. Þessi kenning var rækilega afsönnuð í valdatíð Ronalds Reagans. Eins og þar var afsannað að slík kenning er algild, þá er það alveg jafnljóst að á jaðarsviðum í viðkvæmum greinum stenst hún á þann hátt að skattlagning dregur úr umsvifum og virkar í reynd öfugt og getur í einstökum tilfellum orðið til þess að minnka tekjur ríkissjóðs. Svo er að mínu mati nú. Það á við um útgáfu bóka og tímarita og ferðaþjónustuna. Við fulltrúar í efh.- og viðskn. höfum reyndar í dag, eftir að hafa ítrekað um það beðið, fengið staðfestingu á þessu frá Þjóðhagsstofnun. Þjóðhagsstofnun bendir á að skattlagningin á bækur og tímarit geti fækkað störfum um allt að 100 en treystir sér ekki til þess að meta hver samdráttaráhrifin yrðu í prentiðnaði. Sömuleiðis hefur Þjóðhagsstofnun reiknað út að í ferðaiðnaði getur verið um að ræða fækkun starfa allt að því 70.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að fara örfáum orðum um hvernig ég sé þessar aðgerðir almennt séð.
    Það var alveg ljóst þegar ríkisstjórnin ætlaði að fara þá leið í haust að hafa samvinnu við aðila vinnumarkaðarins að sú leið var afar vandasöm. Þórarinn V. Þórarinsson, formaður Vinnuveitendasambands Íslands, sagði að það væri rammur grautur sem þar þyrfti að kokka og það var alveg ljóst að þetta var afar vandasamt. Ríkisstjórninni hefur mistekist þetta ætlunarverk sitt. Þær aðgerðir sem við sjáum nú eru í engu samræmi við það sem aðilar vinnumarkaðarins voru að ræða í vetur. Það eina sem þar stendur eftir er afnám aðstöðugjaldsins og skattahækkanir á einstaklinga. Við vissum allan tímann að það þyrfti að gera en því miður hefur tekist afar óhönduglega til við tilflutning á þeim sköttum.
    Hæstv. forsrh. talaði um hátekjuskattinn sem sálfræðilegt trikk. Eflaust hafði hann sínar sálfræðilegu afleiðingar og róaði einhverja sem vildu láta þá sem hærri höfðu tekjurnar borga. En, virðulegur forseti, ég held að það sem hæstv. ríkisstjórn gerði á lokasprettinum, og knúði meiri hluta efh.- og viðskn. til að samþykkja, að lækka persónuafsláttinn sé ekki sálfræðilegt trikk. Ég held að það sé sálfræðilegt sprengjuefni. Ef ríkisstjórnin dregur þetta ekki til baka, ef hún gerir ekki tilraun til þess að ná frekari samstöðu um þetta mál, þá springur þetta mál framan í andlitið á ríkisstjórninni.
    Við heyrum nú þegar viðbrögð aðila vinnumarkaðarins. Það sem snýr að almenningi í landinu eftir þessar fréttir er að það er búið að færa aðstöðugjaldið yfir á almenning en því var ekki jafnt dreift. Þeim var hlíft sem eiga miklar eignir og þeim sem hafa miklar tekjur. Það er kjarni málsins. Það er hægt að sýna fram á það með tölum að skerðingin sé meiri hjá hátekjufólki en lágtekjufólki en munurinn er sá að þeir sem hafa lægst kjörin hafa af engu að taka. Þar er ég algjörlega sammála hv. 5. þm. Reykv. Þeir hafa af engu að taka meðan þeir sem úr mestu hafa að spila vita ekki af þessu. Og það sem meira er, virðulegur forseti. Þeim sem hafa allar sínar tekjur af fjármagnseign, lifa af fjármagnstekjum, er algjörlega hlíft. Margítrekuð loforð um að leggja á hátekjuskatt hafa eina ferðina enn verið svikin.
    Virðulegur forseti. Ég mun ekki hafa mína ræðu lengri en ég beini því aftur til virðulegs forseta hvort ekki sé mál að linni og við þingmenn leyfum okkur þann munað einu sinni, í það minnsta þeir sem hér hafa verið hvert einasta kvöld og nánast hverja einustu nótt og gegnt sinni þingskyldu, að eiga sæmilega hvíld eina nótt.