Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 21:59:31 (3839)


     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ef það er svo að hér fari fram skákmót í hliðarherbergi þá held ég að það væri ágætt að hæstv. forseti tilkynnti stöðuna í skákmótinu á milli þess sem menn halda hér ræður. ( JGS: Eða tilkynnti skákmönnum að hér fari fram þingfundur.) Það væri ekki lakara, hv. þm. Jóhannes Geir.
    Ég hygg, virðulegur forseti, að það sem menn muna einna skýrast frá kosningabaráttu stjórnmálaflokkanna frá árinu 1991 sé það að Sjálfstfl. lofaði miklum skattalækkunum kæmist hann til valda að afloknum þeim kosningum. Þessi skattalækkunarloforð Sjálfstfl. hljóma nú þannig í eyrum þeirra sem hlusta á hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, formann Sjálfstfl., að það hafi staðið til að stöðva skattahækkunarskriðu þeirra flokka sem þá voru við völd. Eða öllu heldur að það hafi ekki staðið til að hækka skattana. Þegar hins vegar fréttamenn Stöðvar 2 ganga hart að því við forsrh. að nú séu skattar hækkaðir þá segir hann: Sko, skattahækkanir eru ekki skattahækkanir þó svo skattarnir séu hækkaðir. Þetta eru aldeilis trúverugar röksemdafærslur af hálfu hæstv. forsrh.
    En hversu fáránlegar sem þessar röksemdafærslur allar eru og hversu aulaleg sem undanbrögð forsrh. eru í þessum efnum talar landsfundarályktun Sjálfstfl. frá því 10. mars 1991, sem ég er hér með í höndum, langskýrustu máli um það hverju Sjálfstfl. lofaði kjósendum sínum fyrir síðustu kosningar. Þeir kjósendur sem lásu þá landsfundarályktun og þeir frambjóðendur Sjálfstfl., sem fóru um allt land, hvort sem þeir voru í Reykvík eða Reykjanesi, hvort sem þeir gengust undir krossapróf af hálfu forsrh. eða ekki, þá lofuðu allir frambjóðendur Sjálfstfl. fyrir kosningarnar 1991 að skattar skyldu lækkaðir. Enda unnu þeir í samræmi við þá ályktun sem samþykkt var á landsfundi Sjálfstfl., að ég hygg, í lok 10. mars. Eftir að Davíð Oddsson, núv. hæstv. forsrh., hafði verið kosinn formaður Sjálfstfl. þá lofaði Sjálfstfl. íslenskum kjósendum því, og hér ætla ég, með leyfi forseta, að vitna í nokkur atriði úr 29. landsfundarsamþykkt Sjálfstfl. frá 1991. Þar segir í fyrstu setningu:
    ,,Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta.`` Það er fyrsta setning landsfundarályktunarinnar um skattamál. Síðan segir: ,,Skattbyrði heimilanna`` --- og við skulum gá að því að þetta er árið 1991 þegar Sjálfstfl. er í stjórnarandstöðu --- ,,er nú með þeim hætti að ekki verður við unað. Svo mikil er skattbyrðin orðin að alþýðufjölskyldan hefur vart fyrir brýnustu nauðsynjum.`` Síðar í ályktuninni, af því að hæstv. fjmrh. situr hér í salnum, varaformaður Sjálfstfl., segir: ,,Til að einfalda skattheimtuna og gera hana skilvirkari þarf að lækka skatthlutföll og fækka skattþrepum.`` Síðar í ályktuninni segir, sem er öllu merkilegra: ,,Leita þarf leiða til að lækka núverandi skatthlutfall niður í 35% eða lægra hlutfall.``
    Hvað hæstv. forsrh. segir nú um það hverju hann lofaði eða hvað hann sagði fyrir kosningarnar 1991 skiptir auðvitað engu máli. Hæstv. forsrh., eins og aðrir ráðherrar flokksins, hlýtur að vera að vinna eftir landsfundarsamþykkt flokksins. Landsfundurinn er æðsta vald í málefnum flokksins á hverjum tíma. Það sem eftir stendur í hugum Íslendinga núna fyrir jólin þegar þeir heyra hverjar skattahækkanirnar eru, hvað það er sem er verið að gera, er það eitt að loforðin sem voru gefin fyrir 20. apríl 1991 standa ekki lengur. Flokkurinn sem við kusum, flokkurinn sem sagðist ætla að lækka skattana og flokkurinn sem lofaði okkur skattalækununum hefur svikið okkur.
    Og forsrh., sem hér er núna og stýrir ríkisstjórninni, maðurinn sem mest hefur talað um sjálfan sig í þeim efnum að hann standi við allt sem hann lofar, hefur nefnt fáránlegan lista yfir allt sem hann hefur gert hjá Reykjavíkurborg þegar hann var þar einráður. Allt sem ég hef sagt, hefur hæstv. forsrh. sagt, er staðið við, tímasetningarnar, dagsetningarnar og allt. Þjóðin fylgist hins vegar með því í dag að ekkert stenst af því sem hæstv. forsrh. segir. Það stenst ekkert af því sem Sjálfstfl. lofaði fyrir síðustu kosningar. Það er allt saman svikið.
    Hér ætla ég að taka hæstv. fjmrh. af því að fjmrh. er ráðherra duglegastur við að sitja undir þessari umræðu og er hugmyndafræðingurinn að ,,Báknið burt`` og einn af fáum mönnum í þessari ríkisstjórn sem ég hygg að taki hlutverk sitt nokkuð alvarlega og vill gera vel. En hann kemst ekki upp með það bæði út af samstarfsmönnum og líka vegna þess því miður að hann ræður að mörgu leyti ekki við það hlutverk sem hann er að fást við. En það vill oft verða þannig með menn að þeir lenda einu þrepi of ofarlega og hafa ekki stuðning sinna manna til að gera það sem gera þarf. En hæstv. fjmrh. vill vel, ég er sannfærður um það.
    Sjálfstfl. sagði fyrir síðustu kosningar, eins og ég vitnaði í úr hans landsfundarályktun, að hann vildi lækka skatthlutfallið, sem þá var 39,85%, niður í 35%. Hvað þýddi þetta fyrir fólkið í landinu sem alls ekki hafði gert sér grein fyrir því hvaða flokk það vildi kjósa? Það kom fram í skoðanakönnunum hvað eftir annað að 40--50% þjóðarinnar voru óákveðin. Hvað þýddi þetta fyrir þennan hóp, 50% þjóðarinnar, sem var óákveðinn? Auðvitað tók það fólk upp sína vasatölvu og reiknaði. Það þýddi skattalækkun upp á 9.150 millj., hæstv. fjmrh. Ef þú hefur reiknað rétt, hæstv. fjmrh., að 1,5% skattahækkun þýddi 2.850 millj. þá þýðir hér um bil 5% skattalækkun 9.150 millj. Þessu lofuðuð þið, hæstv. frambjóðendur Sjálfstfl., fyrir síðustu kosningar, ekki bara í Reykjavík heldur hvar sem þið fóruð um landið, fólkinu í landinu: skattalækkunum upp á 9.150 millj. kr.
    Hvað er menn að gera í dag? Skatthlutfallið sem var 39,85% mun verða frá þessum áramótum 41,35%. 1,5% hækkun? Nei, skattalækkunarloforð ykkar upp á 9.100 millj. þýðir fyrir okkur öll hin skattahækkun upp á 2.850 millj. kr., tæpa 2,9 milljarða kr. Er þetta í einhverju samræmi, hæstv. fjmrh., við það sem þú og frambjóðendur þínir í Reykjavík og alls staðar annars staðar á landinu lofuðuð kjósendum fyrir kosningar? Auðvitað verjið þið ykkur með því að ástandið sé svo bölvanlegt. En ég segi: Þið sköpuðuð þetta ástand. Þið bjugguð þetta ástand til sjálfir í lok kosninga. Og það veist þú, hæstv. fjmrh., manna best. Vegna þess að þú sem hæstv. fjmrh. í þessari ríkisstjórn hafðir frumkvæði að því að hækka skatta, að hækka vexti.
    Það kom einnig fram í þessari ágætu landsfundarályktun ykkar frá árinu 1991 að þið vilduð fækka skattþrepum. Hefur það gengið eftir? Nei, hæstv. fjmrh. Það hefur ekki gengið eftir. Þið eruð með þessum skattaormi sem hér er verið að leggja fyrir að fjölga skattþrepunum í virðisaukaskattinum um eitt, jafnvel tvö. Þið eruð að útbúa nýtt skattþrep sem sérstaklega námsmenn, sem þið þó eruð búnir að ganga harðast í skrokk á af öllum hópum í þjóðfélaginu, eiga núna að greiða ásamt öðrum þeim sem þurfa að greiða 14% virðisaukaskatt af því sem ekki þurfti að greiða virðisaukaskatt af áður. Þetta fólk kemur til með að borga 1.800 millj. kr. árið 1993. Eruð þið að framfylgja landsfundarályktun Sjálfstfl. með því að fjölga skattþrepum? Nei, hæstv. fjmrh., þið eruð ekki að því.
    Vaxtabætur verða lækkaðar um 400 millj. kr. samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir. Og af því að þið vitnuðuð sérstaklega í það að skattbyrði heimilanna væri nú með þeim hætti að ekki yrði við unað, var sagt í mars 1991: ,,Svo mikil er skattbyrðin orðin að alþýðufjölskyldan hefur vart fyrir brýnustu nauðsynjum.`` Hvar heldur hæstv. fjmrh. að skerðing vaxtabótanna komi niður? Það er hjá unga fólkinu sem hefur á undanförnum árum verið að fjárfesta í íbúðarhúsnæði og hefur trú á því að opinber stofnun eins og Húsnæðisstofnun ríkisins væri að gefa heilsteypta ráðgjöf um það hversu mikið menn mættu skulda, hversu háa upphæð menn mættu eyða í það að eignast eigið húsnæði af því að menn hefðu ákveðnar tekjur. Nú er öllum þessum grundvelli kippt í burtu og eftir stendur fólk sem trúði því að opinber stofnun eins og Húsnæðisstofnun ríkisins væri í raun og veru að gefa heilsteypta ráðgjöf og því mætti treysta sem sú stofnun segði. Þetta fólk lendir í miklum erfiðleikum við þessa breytingu. Það fer að skulda og verða vanskilafólk. Innan fárra ára mun sú staða skapast að þetta fólk þarf á aðstoð hins opinbera að halda, á greiðsluerfiðleikalánum.
    Ég ætla að minnast á nokkur atriði enn áður en ég kem að því hversu alvarleg þessi skattastefna ríkisstjórnarinnar er. 5% hátekjuskattsþrep sem skilar í raun ekki nema 300 millj. kr. er að mínu viti sett við of lágar tekjur. Skattleysismörkin, hæstv. fjmrh., lækka við 1,5% tekjuskattshækkunina úr 60.258 kr. í 58.073 kr. Var þetta ekki nóg, hæstv. fjmrh., lækkun á skattleysismörkunum? Þurfti að stíga það skref að lækka þau um 400 kr. til viðbótar með sérstökum aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar? Var það sérstakt markmið hjá þeim flokkum sem sögðu í kosningabaráttunni hvar sem var á landinu, eins og Alþfl., við viljum hækka skattleysismörkin í 70.000 kr. ef við komumst til valda að afloknum kosningum.
    Ég man ekki hvort hæstv. fjmrh. sagði það nokkurn tímann í kosningabaráttunni en ég heyrði það hjá mörgum hv. þm. Sjálfstfl. að menn sögðu að kjarabótin lægi í því að hækka skattleysismörkin. Og þá voru yfirboðin oft ekki 70 þús. kr. heldur 70--80 þús. kr.

    Það kom fram í fréttum í kvöld í Ríkisútvarpinu frá miðstjórnarfundi Alþýðusambands Íslands að skattleysismörkin hefðu lækkað í raun um 15 þús. kr. síðan staðgreiðslan var tekin upp. Úr 72.000 raunskattleysismörkum í 57.000 kr.
    En hvenær skyldi nú aðallækkunin hafa átt sér stað? Einn þriðji var sagt, ef ég tók rétt eftir, ég ætla ekki að fullyrða það, hæstv. fjmrh., í tíð núv. ríkisstjórnar sem þó hefur ekki starfað nema í tæp tvö ár. Hvað er með skatta? Hvað er með kosningaloforðin hjá þessum tveimur flokkum, Alþfl. og Sjálfstfl., sem lofuðu fólki fyrir síðustu kosningar. að skattleysismörkin skyldu hækka?
    Þó held ég að því miður hafi enginn flokkur gengið jafnhart fram í kosningaloforðum fyrir síðustu kosningar og Alþfl. Hér er ég með, virðulegur forseti, kosningabækling Alþfl. frá síðustu kosningum. ,,Ég set X við A-listann af því að:`` Og síðan koma átján ástæður, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. Og eftir að vera búin að hækka skattana, tekjuskattinn, skera niður persónuafsláttinn, skera niður vaxtabæturnar og allt þetta þá birtið þið mynd sem sýnilega er af opinberum starfsmanni sem þó, ef hann er í hópi þeirra manna að greiða meðlag því það kom fram á fundi í heilbr.- og trn. í dag að það eru opinberir starfsmenn sem greiða hverju einustu krónu í meðlag, þá segir þessi ágæti maður og lagði allt sitt traust á ykkur fyrir síðustu kosningar: Ég kýs Alþýðuflokkinn, sagði hann, af því ég treysti honum til þess að lækka tekjuskattinn á launafólkið.
    Hvar skyldi þessi maður vera í dag? Það veit ég ekki, en ég trúi því ekki að ef hann hefur bara kosið Alþfl. út á þetta sé hann enn í þeim flokki.
    En hvað skyldi hinn virðulegi tónlistarmaður Rögnvaldur Sigurjónsson segja í dag sem kaus Alþfl. fyrir síðustu kosningar vegna þess að Alþfl. leit á Ísland sem samfélag um menningu? Það er akkúrat í dag með þessum skattaormi, sem Alþfl. stendur heill og óskiptur að, verið að skattleggja menninguna á Íslandi í fyrsta skipti í langan tíma. Og á öðrum stað í þessum ágæta bæklingi --- sem er að mörgu leyti mikið áróðursplagg og stórvel gerður og ég öfunda Alþfl. að mörgu leyti af því að hafa komið út slíkum bæklingi en ég öfunda hann ekki af því að hafa fengið þetta fólk til þess að tjá sig um það af hverju það kaus Alþfl. í dag.
    Hér er landsþekktur íþróttamaður sem heitir Alfreð Gíslason, stjarna okkar Íslendinga í B-keppninni í Frakklandi, stóð sig manna best af öllum sem þar komu fram, ef ég man rétt. ( Gripið fram í: Er það frá 1987?) Mér er alveg sama hv. þm. hvort það er frá 1987, þetta fólk var að lýsa yfir stuðningi við Alþfl. og ég trúi því ekki, hv. þm., að það geri það bara yfir eina nótt. Það er að koma fram opinberlega vegna þess að það treystir þessum flokki sem það ætlaði að kjósa þá og hefur sennilega líka gert 1991, en þessi hv. íþróttamaður sem var sómi Íslands á erlendri grund ( Gripið fram í: Og er.) og er, er reyndar hættur að spila með landsliðinu í dag. Hann er sómi ungs fólks á Akureyri í dag, hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson, og reyndar um land allt. Hann sagði: Ég kýs Alþfl. af því þeir vilja efla íþróttirnar. --- Á morgun horfum við hins vegar fram á það, hv. þm. Alþfl., og um það munu liggja fyrir tillögur að skera niður fjárveitingar til Ungmennafélags Íslands og Íþróttasambands Íslands, þessara fjöldasamtaka í landinu sem eru með nálægt 100 þús. manns innan borðs. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir af hálfu stjórnarandstöðu og velviljaðra þingmanna í stjórnarflokkunum þá hefur ekki tekist að fá sömu fjárveitingu til þessara fjöldasamtaka íþróttafólksins sem þessi sómi Íslands sagðist kjósa Alþfl. út á. Þið ætlið samt að skera þetta niður.
    Það eina sem eftir stendur af öllu því sem menn lofuðu, hvort sem það var í kosningunum 1987 eða 1991, mér er alveg sama, það skiptir engu máli, eru svikin kosningaloforð. En af hverju? Af hverju skyldi ég ekki taka fleiri dæmi um fólk sem er hingað og þangað í þjóðfélaginu sem af þeim 18 ástæðum sem hér eru nefndar kaus Alþfl. og hefur orðið fyrir vonbrigðum? Það er einfaldlega vegna þess að ég veit ekki til þess að neinn af þessum 15 sem eftir eru séu enn í Alþfl. Af hverju skyldi þetta fólk ekki vera þar? Flokkurinn hefur brugðist.
    Það eru svikin kosningaloforð frá síðustu kosningum sem er megineinkennið á stefnu þessara tveggja flokka í ríkisstjórninni. En auðvitað trúi ég því og mér finnst það vera eðlilegt --- það eru í raun og veru eðlileg og aulaleg viðbrögð að reyna að bera því við að erfiðleikarnir séu svo miklir að ekkert sé hægt að gera. En eins og ég sagði áðan er það heimatilbúinn vandi og menn geta ekki ætlast til þess ef þeir útbúa vandann sjálfir, hvort sem það er þjóðin eða einhverjir aðrir, eða stjórnarandstaðan, ég tala nú ekki um það, að þetta sé allt saman leyst fyrir þá. En það er sagt: Við verðum að setja peningana í annað. Við verðum að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir atvinnuleysið. Og hæstv. fjmrh. flutti hjartnæma ræðu fyrr undir þessari umræðu í andsvari og sagði hvers konar vá væri fyrir dyrum ef menn tækju ekki almennilega á. Í því tilfelli ætlaði hæstv. ríkisstjórn að setja peninga í vegagerð til þess að ýta undir atvinnuna í landinu. Það var haldinn sérstakur blaðamannafundur, hæstv. fjmrh., þar sem ég veit að virðulegur ráðherra var settur til hliðar og sjónvarpsvélarnar náðu mjög sjaldan að ná honum í fókus, --- þar var ákveðið, hæstv. fjmrh., að setja hundruðir millj. kr. í vegagerð. Til hvers? Koma í veg fyrir atvinnuleysi. Koma dráttarvélunum, koma gröfunum, koma vörubílunum af stað. En var það til þess að setja fólkið af stað? Nei, fólkið skipti engu máli. Það voru vélarnar sem skiptu öllu máli.
    Löngu síðar eru efnahagsaðgerðir tilkynntar og hvað gerist þá? Þá telur hæstv. forsrh. að þetta sé eitthvert það alstærsta skref sem stigið hefur verið til atvinnuaukningar á Íslandi. Á morgun stöndum við frammi fyrir því að búið er að skera þetta allt niður. Það var allt saman tómt rugl sem ríkisstjórnin var að tilkynna okkur. Það er búið að lækka allar þessar tölur. Blaðamannafundurinn, yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í efnahagsmálum, allt misskilningur. Búið að skera þetta allt saman niður. Vonin hjá fólkinu, sem trúði því að það ætti að gera eitthvað í atvinnumálunum, er ekki lengur til staðar. Síðan átti að setja peninga í viðhald á opinberum byggingum sem alltaf eru að hrynja. Ekki út af núverandi ríkisstjórn og það er alveg hárrétt, ástand opinberra bygginga er að mörgu leyti í miklu óstandi og það er ekki hæstv. núv. ríkisstjórn að kenna. Þar bera framsóknarmenn mikla ábyrgð. Menn hafa alltaf verið að bögglast við það að loka fjárlögunum með sem minnstum halla. Menn hafa verið að reyta hingað og þangað, tína af milljónir hér og milljónir þar til að geta lokað fjárlögunum með sem minnstum halla. Framsóknarmenn bera ábyrgð á þessu. Ríkisstjórnin vildi stíga nýtt skref og setja 500 millj. kr. í þetta. Blaðamannafundur um málið. Fjmrh. var ánægður með það sem átti að gera og hæstv. forsrh. enn þá ánægðari. Yfirlýsing frá hæstv. forsrh. um að þetta sé aldeilis í samræmi við það sem aðilar vinnumarkaðarins hefðu óskað eftir. Þetta skapaði vinnufúsum höndum atvinnu. Hver er niðurstaðan? Við sjáum hana á morgun. 500 millj. verða þá orðnar að 100 millj. kr. Ekkert mark takandi á blaðamannafundinum, ekkert mark takandi á yfirlýsingunni, allt tómt plat. Eftir stendur það sama að öllu sem var lofað er svikið eins og kosningaloforðin voru svikin fyrir kosningarnar 1991. Nákvæmlega eins, hæstv. fjrmh. Erfiðleikarnir eru miklir, það er að vísu alveg rétt. En þeir eru heimatilbúnir að langstærstum hluta.
    Hins vegar hefur hæstv. ríkisstjórn óskað eftir samstarfi og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins á mörgum sviðum. Við fylgdumst með því í fjölmiðlum, við fylgdumst með því í allri umræðunni í þjóðlífinu þar sem ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins voru allir að reyna að ná saman um aðgerðir til að tryggja atvinnuna, halda uppi atvinnustigi í landinu. Síðan slitnaði upp úr þessu öllu saman. Ríkisstjórnin hefur síðan alið á því að allt sem hún hafi gert sé nákvæmlega það sama og aðilar vinnumarkaðarins vildu gera, þó svo að þing Alþýðusambands Íslands og allir forustumenn launþegahreyfinganna í landinu hafi neitað þessu öllu saman þá leyfir hæstv. félmrh. sér það í umræðu um atvinnuleysi, sem er núna meira en við Íslendingar höfum nokkru sinni fyrr horft fram á, að segja, með leyfi forseta: ,,Í veigamiklum atriðum eru efnahagsaðgerðirnar byggðar á tillögum aðila vinnumarkaðarins. Að vísu förum við`` --- segir hæstv. félmrh. --- ,,ekki eins langt eins og var í tillögum ASÍ varðandi t.d. skattaaðgerðir.``
    Það væri nú aldeilis fróðlegt fyrir Alþingi að fá viðbrögð Alþýðusambandsins við því sem hæstv. vinnumálaráðherrann lýsti yfir í gær við umræðu um atvinnuleysið. Það var aldeilis fróðlegt að fá álit þeirra samtaka á því sem hér er um að vera því í dag, ef það er rétt sem hermt var eftir frá miðstjórnarfundi Alþýðusambandsins, þá er þar sagt að álögurnar hafi aldrei verið jafnmiklar og þær eru í dag. Og ef eitthvað er að marka ályktun Dagsbrúnar, sem er kannski eitt af stærstu verkalýðsfélögum innan Alþýðusambandsins, þá kvartar sá hópur þúsund manna, við skulum bara segja að það hafi verið fundur um níu hundruð manna í verkamannafélaginu Dagsbrún í Reykjavík, yfir því hversu álögurnar eru miklar. Þeir kvarta. ( Gripið fram í: Hvernig ætlar Framsókn að bregðast við?) Virðulegur þingmaður. Hér hafa komið upp á undan mér í þessari umræðu tveir hv. þm. Framsfl., Halldór Ásgrímsson og Jóhannes Geir Sigurgeirsson. ( Gripið fram í: Það er ekkert annað.) Já, það er nú ekkert annað, hv. þm. ( Gripið fram í: Ég hélt það hefði verið Ingi Björn.) Hv. þm. Ingi Björn Albertsson er ekki enn þá kominn í Framsfl. en þar var stutt á milli ef marka má þá ræðu sem hann flutti hér áðan. Þessir þingmenn báðir sem ég talaði um áðan, (Gripið fram í.) hv. þm. Halldór Ásgrímsson, ( Forseti: Ekkert samtal á fundinum.) og hv. þm. Jóhannes Geir, lýstu því nákvæmlega hvernig við framsóknarmenn hefðum viljað standa að í skattamálum í tveggja og hálfs tíma langri framsöguræðu fyrir áliti minni hlutans sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson flutti áðan og hygg ég að ef hv. þm. hefði hlustað þá hefði hv. þm. orðið var við hvað framsóknarmenn vildu gera í þessum efnum. Það þarf engum að dyljast neitt í þeim efnum.
    En félmrh. er kokhraustur. Á sama tíma og öllu, sem ríkisstjórnin er að gera, er hafnað þá segir hæstv. félmrh., vinnumálaráðherrann: Þetta er nákvæmlega eins og þeir vildu gera þetta, þeir vildu hins vegar ganga heldur lengra.
    Er þetta trúverðugt á sama tíma og ályktanir koma frá þessum fjöldasamtökum um að allt sem búið er að gera sé tóm vitleysa? Það er það því miður alls ekki.
    En hvað þýða þær aðgerðir sem verið er að grípa til nú rétt fyrir jólin ef við reynum að líta aðeins á þær hlutlægt út frá því sem er að gerast? Hér kemur ríkisstjórnin inn á síðustu dögum fyrir jól þegar fólkið í landinu má ekkert vera að því að hlusta á hvað það er í raun og veru sem er að gerast. Það er í jólaundirbúningnum. Þá kemur ríkisstjórnin með fleiri lagafrv. inn á Alþingi og segir: Það verður að taka ákvörðun, það verður að samþykkja þetta í hvelli. Við verðum að að fá þetta samþykkt svo fjárlögin standist.
    Hvað er þarna verið að tala um? Það eru einkum tvö frv. sem leggja álögur á almenning. Það er þessi skattabandormur sem hér er til umræðu og frv. sem mun koma eftir 2. umr. á morgun eða á mánudaginn sem er breyting á almannatryggingalögunum. Þetta eru kannski þau tvö frv. sem ríkisstjórnin þarf að fá í gegn áður en þing fer heim. Hvað þýðir það í raun og veru sem þarna er um að vera? Fólkið í landinu gerir sér enga grein fyrir því fyrr en um mánaðamótin janúar--febrúar og allt árið 1993 hvað þarna hefur í raun og veru verið gert. Það er verið að leggja tekjuskatt á almenning upp á 2 milljarða 850 þús. millj. kr. (Gripið fram í.) --- Mér er alveg sama, hæstv. umhvrh., hvort hann er frá 1987 eða þó hann hafi verið frá kosningunum 1991, ef það er ekkert að marka ykkur, ef það er ekkert að marka Alþfl. nema í fáa daga þá er auðvitað gott fyrir kjósendur að vita það alveg sérstaklega. Þá er sérstaklega gott að vita það að þið hafið ekkert meint með því sem þið sögðuð 1987 og enn þá minna 1991. Kannski er það svo að

þið meinið enn þá minna með því sem þið eruð að gera í dag vegna þess að það er morgundagurinn sem skiptir öllu máli fyrir fólkið sem á að borga.
    Hér er verið að leggja skattaálögur upp á 2.850 þús. millj. í beinum tekjuskatti. Í virðisaukaskatti upp á 1.800 millj. Vaxtabætur eru lækkaðar um 400 millj. kr. sem er bein skattahækkun á þá sem hafa verið að fjárfesta á undanförnum árum. Bensíngjald fyrir alla þá sem þurfa að nota bílana, keyra í vinnuna --- 350 millj. Verið er að leggja skatta á foreldrana sem eiga börnin og þurfa að senda krakkana sína til skólatannlæknis eða til almenns tannlæknis í Reykjavík í skólaskoðun, eftirlit og meðferð, til tannlæknis almennt 200 millj.; sjúklingana sem þurfa fyrst að fara til heimilislæknis áður en þeir fara til sérfræðings til þess að fá reikninginn að fullu greiddan 270 millj.; og lyfjaskatt sem sjúklingarnir þurfa að borga til viðbótar við það sem þeir borga í dag 500 millj.
    Þetta bætist, virðulegur forseti, á árinu 1993 við það sem lagt var á árið 1992, og hvað var það? 1.000 millj. kr. lyfjaskattur sem hæstv. heilbr.- og trmrh. Alþfl. lagði á fólkið í landinu. 700 millj. kr. skattur á þá sem þurfa að sækja læknishjálp sérfræðinganna. Hækkunin úr 900 kr. í 1.500 kr. þýðir fyrir þennan hóp 700 millj. kr. 370 millj. kr. fyrir fólkið sem þarf að sækja þjónustu heilsugæslustöðvanna þar sem það gat í tíð fyrrv. ríkisstjórnar gengið beint inn og fengið þjónustuna að kostnaðarlausu hjá sínum trúnaðarlækni. Nei, Alþfl. lagði á 600 kr. gjald. Það þýðir 370 millj. 260 millj. kr. skattur á elli- og örorkulífeyrisþegana sem var tekinn í tekjutengingu elli- og örorkulífeyrisins. 280 millj. kr. skattur á sjómennina. 220 millj. kr. skattur á námsmennina. Og nú á árinu 1993 sem ég skal viðurkenna, hæstv. fjrmh., er ekki skattur en eru álögur sem menn eru að flytja frá ríkinu yfir á einstaklingana, 500 millj. kr. frá ríkinu yfir á þá sem eiga að sjá um framfærslu barnanna hvort sem það eru, virðulegur fjmrh., þeir sem sjá um meðlagsgreiðslurnar eða þeir sem hafa forræðið. Þetta er samtals fyrir báða þessa aðila 500 millj. kr. á árinu 1993.
    Sjálfstfl. hefur á undanförnum árum sérstaklega kvartað undan því að þær aðgerðir sem fyrri ríkisstjórnir hefðu gripið til væru afskaplega sértækar aðgerðir, alltaf væri verið að bjarga einhverjum. Hafi það verið rétt þá er það svo nú að þegar ríkissjórnin grípur til aðgerða þá hefur hún alltaf verið að reyna að drepa einhvern. Þetta er auðvitað mjög alvarleg ásökun. En svo langt er gengið í þessum efnum, því miður, að það stendur í landsfundarályktun Sjálfstfl. frá árinu 1991 og er rétt að skattbyrði heimilanna sé með þeim hætti að ekki verði við unað. Svo mikil er skattbyrðin orðin að alþýðufjölskyldan hefur vart fyrir brýnustu nauðsynjum. Hafi hún ekki getað staðið undir þessu árið 1991 þá gerir hún það ekki í dag. Þá gerir hún það ekki eftir þessar breytingar sem nú er verið að gera á almannatryggingalöggjöfinni og skattalöggjöfinni. Hverjir bera ábyrgð á því? Það eru tveir flokkar, Alþfl. -- Jafnaðarmannaflokkur Íslands, þvílíkt öfugnefni. ( Gripið fram í: Ó.) Og Sjálfstfl., flokkurinn sem lofaði fólkinu í landinu skattalækkun ef það kysi flokkinn í kosningunum 1991. Ég hef ekki lagt það saman, ég hef ekki þorað það, hæstv. fjmrh. að leggja þær tölur saman sem ég hef verið hér með yfir skattaálögurnar, skattahækkanirnar sem þessi ríkisstjórn er að leggja á fólkið í landinu. Ég sagði í umræðunni að það væri 3,5 milljarðar, bara í almannatryggingunum. Það er miklu meira. Því miður hefur mér ekki unnist tími til að tína saman nema örlítið brot af öllu þessu. En það verður fróðlegt þegar mönnum gefst tækifæri til að fara heim í jólafrí að taka aðeins saman hve skattaálögurnar voru miklar árið 1992 sem hæstv. fjmrh. lagði á fólkið í landinu. Og hverjar verða þær árið 1993? Virðulegi fjmrh., auðvitað hlæja allir að því --- og jafnvel þú sjálfur --- hvort sem það er ég eða einhverjir aðrir að koma hér í þennan ræðustól og segja: ,,Það er ekki um neinar skattahækkanir að ræða.`` Þetta er svo broslegt að hafa hins vegar sagt við 1. umr. fjárlaga: ,,Jú, auðvitað er ég skattakóngur lýðveldisins.`` En núna: ,,Það er ekki um neinar skattahækkanir að ræða.`` Þetta er jafnbarnalegt og þegar hæstv. forsrh. segir það í viðtali við fréttamenn Stöðvar 2 að skattahækkanir séu ekki skattahækkanir þótt verið sé að hækka skatta. Hvers konar rugl er þetta, virðulegi forseti? Er það svo að menn geti í raun og veru boðið þjóðinni upp á slíkt? Hvað eru menn að segja með því? Menn eru að segja svo ótrúlega hluti sem ég ætla ekki að segja hér. Það segir allt um álit þessara manna á því fólki sem þeir eru að tala við þegar þeir segja að skattahækkanir séu ekki skattahækkanir þó svo verið sé að hækka skattana. Hver trúir þessu? Það trúir þessu auðvitað enginn. En hér er um sértækar aðgerðir að ræða. Sértækar aðgerðir sem snúa að ákveðnum hópum í þjóðfélaginu. Hverjir eru þessir hópar? Það eru annars vegar ellilífeyrisþegarnir, það eru öryrkjarnir og það eru sjúklingarnir sem ég set á einn stað undir þennan hatt. Hins vegar er fólkið á aldrinum 25 til 45 ára, fólk á mínum aldri. Þetta eru þeir markhópar sem ríkisstjórninni finnst sérstök ástæða til að skattleggja. En veltum við því fyrir okkur hverjir það eru sem taka ákvarðanir um það hvað skuli gert, hverjir skyldu þetta vera? Ég sannfærðist um það í kvöld, virðulegi forseti, þegar ég hlustaði á hv. þm. Inga Björn Albertsson, þá sannfærðist ég um það að Sjálfstfl. hefur ekki talað um neitt af þessu við nokkurn af alþingismönnum sínum. Það er þess þröngi hópur, ( Gripið fram í: Valhöll.) þessi þröngi hópur ríkisstjórnarliðsins sem þó eru ekki allir saman komnir í þeim hópi vegna þess að það er Valhallargengið og þar fá ekki allir inni, það vitum við, það sannaði landsfundurinn í mars 1991. Þar fá ekki allir inni og þar bera ekki allir sömu ábyrgð. En ábyrgð þeirra sem vilja bera ábyrgð á hæstv. forsrh., sem veit ekkert hvað hann er að gera, er auðvitað miklu meiri en sú ábyrgð sem virðulegur forsrh. á sjálfur að bera. Vegna þess að það er hættulegt að bera ábyrgð á ríkisstjórn sem gengur fram með þessum hætti. En hverjir taka ákvarðanirnar? Jú, það eru menn sem eru um eða yfir fimmtugt. Það eru karlmenn sem eru um eða yfir fimmtugt. Menn sem fjárfestu í íbúðarhúsnæði þegar peningarnir voru óverðtryggðir. Karlmenn sem hafa orðið í dag háar tekjur, hærri tekjur en hátekjuskatturinn er. Af því var

honum haldið niðri --- skilar bara 300 millj. Það eru menn sem greiða ekki námslánin sín til baka vegna þess að þeir fengu námslán og lifðu góðu lífi en þau voru óverðtryggð. Þegar maður talar við þessa menn þá segja þeir hiklaust: Að greiða af námslánunum? Það eru 100 til 200 kr. á ári. Á meðan ég fullyrði að fólk á mínum aldri, sem varð samferða mér í gegnum háskólann, er að greiða á bilinu 100--200 þús. kr. af námslánunum sínum á ári og margir miklu meira. Auðvitað skynja þessir menn ekkert hvað er að gerast. Þeir skynja ekki hvað er að gerast í þessu þjóðfélagi, ekki neitt. En það eru þeir sem taka ákvarðanirnar. Það eru þessir karlmenn sem taka allar ákvarðanirnar. Það er þessi hópur sem lendir fyrir barðinu á þessu. Af því að þessir menn, sem betur fer eru allir við góða heilsu, þurfa ekki að borga fyrir lyfin, þeir þurfa ekki að borga sjúklingaskattinn. Nei, sem betur fer sleppa þeir við það allt saman. ( RG: Þeir veikjast ekki.) Þeir veikjast ekki. Ekki af því, hv. þm., að þeir eru svo efnaðir, þeir geta veikst þótt þeir séu efnaðir. Því er nú verr, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir alþingismaður Alþfl., að veikindin fara ekki eftir því hvort menn eiga peninga eða eignir eða ekki. ( RG: Ég hélt að þingmaðurinn ætti einmitt við það þegar hann sagði þetta.) Það átti þingmaðurinn ekki við. En ef alþýðuflokksþingmenn halda það almennt að þetta fari eftir þessum línum þá er það mikill misskilningur og þá er málið auðvitað allt í heild sinni einn tómur misskilningur. Það eru sjúklingarnir, öryrkjarnir og ellilífeyrisþegarnir sem verða fyrir barðinu á þessum mönnum. Þessum mönnum sem eru komnir yfir fimmtugt, eru með allt sitt á þurru. En fólkið sem er 25--45 ára, sem er að koma yfir sig húsnæði með fullri verðtryggingu og fullum vöxtum, sem er að eignast börnin, sem er með meðaltekjurnar sem er að borga af námslánunum sínum, verður fyrir þeim árásum sem hérna er um að ræða. Ég segi árásum vegna þess að það eru árásir. En ég skal þó virða þessum mönnum það til vorkunnar að kannski vita þeir ekki hvað þeir eru að gera. En ekki mun líða á löngu ef haldið verður áfram á þessari braut þar til verður ákveðinn hópur í þjóðfélaginu, fólkið sem er úti í samfélaginu, sem mun rísa upp, fólkið á aldrinum 25--45 ára. Fólkið sem er að eignast börnin. Fólkið sem er að koma sér upp húsnæði, fólkið sem er með meðaltekjurnar, fólkið sem er að greiða af námslánunum. Þetta fólk mun rísa upp og segja: Hingað og ekki lengra, nú er kominn tími til að menn átti sig á hvað er að gerast. Það er nefnilega kominn tími til. Það sem er merkilegt að þetta skuli geta gengið yfir okkur á Alþingi núna rétt fyrir jólin eða það er sama hvenær það væri. Vegna þess að ég fór yfir það í dag þegar ég sat hér í sæti mínu og var að velta þessum hlutum fyrir mér að mikil breyting varð á aldurssamsetningu Alþingis í síðustu alþingiskosningum. Það eru 23--25 alþingismenn sem eru á þessum aldri. Nú verðum við, sem erum á þessum aldri, að bindast samtökum þvert á flokkslínur, og stöðva þá hluti sem hér eru að gerast. Af hverju? Vegna þess að þeir hlutir sem hér eru að gerast eru hlutir sem eru byggðir á misskilningi. Hlutir sem byggðir eru á vanþekkingu. Á vanþekkingu þeirra manna sem taka ákvarðanir og ætla að keyra þær í gegnum Alþingi á þekkingarleysinu. En einn og einn þingmaður, og þá á ég ekki við þingmenn stjórnarandstöðunnar, kemur auga á þetta og sér hvað er að gerast. Það er líka einn og einn þingmaður í stjórnarliðinu sem áttar sig á þessu og stendur upp og segir hiklaust: Þetta er ranglæti, þetta er ranglæti. Við urðum vitni að því í kvöld þegar einn af hv. alþm. Sjálfstfl. stóð upp og sagði: Hingað og ekki lengra. En það er auðvitað ekki nóg þó að einn og einn þingmaður stjórnarliðsins standi upp öðru hverju í þessum ræðustól og segi: Ég greiði ekki atkvæði með hinu og þessu. Við sem erum á aldrinum 25--45 ára þurfum að bindast samtökum, við sem erum í forsvari fyrir þennan hóp. Fólk sjúklingana, öryrkjanna --- og nú sé ég að hæstv. forsrh. er í fríi frá skákinni, hann er kominn hér í hliðarherbergi og væri gaman að vita hjá hæstv. forseta hver staðan er í skákmóti Sjálfstfl. hér á eftir þegar ég hef lokið ræðu minni. En við hv. þm., sem erum á þessum aldri, verðum að átta okkur á því hvað er að gerast. Við verðum að stöðva þetta. Gerum við það ekki, hverjir munu gera það? Það mun fólkið úti í þjóðfélaginu gera. Það er ranglæti sem gengur yfir á Alþingi þessa stundina og hefur verið að gerast og mun verða á næstu dögum, vikum og mánuðum.
    Þetta er ekki bara krafa mín, þetta er krafa fólksins úti í þjóðfélaginu. Krafa fólksins sem er að fylgjast með hvað hér er að gerast. Gleggsta dæmið um það er auðvitað nýhaldinn fjöldafundur hjá Verkalýðsfélaginu Dagsbrún í Reykjavík þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Það er því krafa stjórnar Dagsbrúnar í krafti hins fjölmenna félagsfundar að árásum á lífskjör launafólks linni og ríkisstjórnin snúi sér að því af alvöru að útrýma vaxandi atvinnuleysi ella fari ríkisstjórnin frá og Alþingi verði sent heim og efnt til nýrra kosninga eins og kom fram á fundinum og tekið var undir með lófataki.``
    Hvað er hægt að hugsa sér ömurlega en að fá slíka ályktun yfir sig? Ekki bara fyrir ríkisstjórnina og ríkisstjórnarliðið heldur auðvitað líka fyrir stjórnarandstöðuna. Að senda þingmennina heim af því að þeim er ekki treystandi til að koma hér á breytingum, að tryggja atvinnuna, að koma á réttlæti. Þetta er svo langt gengið, virðulegur forseti, og það ætla ég að hafa mín síðustu orð í þessari umræðu. Í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi er viðtal við varaþingmann Sjálfstfl., hv. varaþingmann Hrafnkel A. Jónsson, formann verkamannafélagsins Árvakurs. Virðulegi forseti. Ég vitna fyrst í það sem fréttamaðurinn hefur eftir hv. varaþingmanni Hrafnkeli A. Jónssyni, með leyfi forseta:
    ,,Hrafnkell gefur ekki mikið fyrir þau orð formanns efh.- og viðskn. að ekki sé verið að hækka skatta. Hann segir þau ekki sæma Vilhjálmi Egilssyni, þetta sé orðhengilsháttur. Hann segir að verið sé að auka útgjöld fjölskyldunnar, m.a. þeirra sem hafa bara eina fyrirvinnu og jafnvel lægri tekjur en 60.000 kr. á mánuði.`` Nú ætla ég ekki að kalla á hv. þm. Vilhjálm Egilsson til vitnis vegna þess að ég veit að hann

er að halda upp á afmælið sitt og ég samgleðst honum í þeim efnum. Enda held ég að sá hv. þm. hann hafi komið því viti í þetta frv. sem vit er í. Og það væri vitlausara og verra fyrir fólkið í landinu færi það hér í gegn án þess að hv. þm. hefði komið þar nærri. ( Gripið fram í: Þeir fengu nú aðhald frá stjórnarandstöðunni.) Og auðvitað stjórnarandstaðan. Hins vegar fer það nú að verða umhugsunarefni hversu mjög stjórnarandstaðan á að koma viti í vitlaus frv. sem ríkisstjórnin er að flytja í þinginu. En síðan segir hv. varaþingmaður Sjálfstfl., Hrafnkell A. Jónsson, formaður verkalýðsfélagsins Árvakurs á Eskifirði orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Enda er það nú þannig að ég, ásamt væntanlega velflestum frambjóðendum Sjálfstfl. í síðustu alþingiskosningum, fór hér um kjördæmið sem ég var í framboði fyrir, fór hér á milli launafólks og lofaði því að berjast fyrir lækkun skatta, hækkun skattleysismarka. Þetta var eitt af þeim kosningaloforðum, sem allir voru sammála um, og ég sé ekki hvernig ég á að koma fram fyrir þetta sama fólk ef ég held áfram í pólitík og biðja það um stuðning eftir að ríkisstjórnin, sem minn flokkur veitir forstöðu, hagar sér með þessum hætti.``
    Síðan spyr fréttamaðurinn, með leyfi forseta:
    ,,Nú sagði Benedikt Davíðsson, nýkjörinn forseti Alþýðusambandsins, í viðtali í sjónvarpsþætti í gærkvöldi að það væri í rauninni rétt að verkalýðshreyfingin beitti sér í því að koma ríkisstjórninni frá ef stjórnarstefnan væri með þeim hætti að það bitnaði illa eða eða ranglátlega á launafólki. Ertu sammála þessu?`` spyr fréttamaðurinn.
    Hrafnkell svarar, með leyfi forseta:
    ,,Já, ég er hjartanlega sammála Benedikt í þessu. Það breytir engu þó það hittist nú þannig á að ríkisstjórnin, sem er að níðast á láglaunafólki nú, er studd af Sjálfstfl.``
    Þá ætla ég að enda á því, virðulegur forseti, sem ég sagði hér í upphafi ræðu minnar. Hér er það staðfest af frambjóðanda Sjálfstfl. í síðustu alþingiskosningum, sem reið um héruð á Austurlandi, að Sjálfstfl. lofaði skattalækkunum fyrir kosningarnar. Hann hefur svikið það. Ég er búinn að færa rök fyrir því, enda segir einn núv. varaþingmaður flokksins, formaður verkalýðsfélagsins á Eskifirði: Sjálfstfl. hefur svikið kosningaloforðin.