Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 23:10:22 (3845)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég heyrði á ræðu hv. þm. að hann hefur ekki verið hér í dag og þess vegna misst af þeim upplýsingum sem fram komu. Ég vil benda hv. þm. á að ef litið er á útgjöld og tekjur íslenska ríkisins þá kemur í ljós að skatttekjur íslenska ríkisins á næsta ári og skatttekjur ríkisins í ár eru lægri en 1991, 1990, 1989 á sama verðlagi og það þarf að leita aftur til 1988 til að finna sambærilegt. Þetta er auðvitað vegna veltusamdráttarins í þjóðfélaginu þannig að heildarskatturinn er minni þegar tekið er tillit til alls. Við megum ekki gleyma því, hv. þm., að það hafa fallið brott skattar, þar á meðal jöfnunargjaldið sem gaf 1 milljarð í tíð síðustu ríkisstjórnar. Sá skattur er ekki fyrir hendi og nú er verið að taka 4.000 millj. af fyrirtækjunum í gegnum skattheimtuna og skila aftur til sveitarfélaganna. Þetta kom ekki fram hjá hv. þm.
    Þá ætla ég að snúa mér að útgjöldunum. Af því að hv. þm. þekkir mjög vel til heilbrigðismála vil ég taka fram að til heilbrigðismála er niðurskurðurinn samkvæmt fjárlagafrv. ekki meiri en svo að útgjöld til heilbrigðismála á föstu verðlagi er meiri á næsta ári og reyndar á yfirstandandi ári líka en árið 1990. Að vísu eru áherslurnar aðrar vegna þess að atvinnuleysið hefur bæst við. Þetta eru að nokkru leyti atvinnuleysistryggingabætur. Nú eru útgjöldin meiri þrátt fyrir allan niðurskurðinn. Ég veit að hv. þm. vill vera sanngjarn. Hann talar mikið um sanngirni og réttlæti og ég tel að hv. þm. ætti að skoða staðreyndirnar með því hugarfari.