Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 23:17:03 (3848)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að kenna hæstv. núv. ríkisstjórn um allt það sem hæstv. ráðherra spurði mig um en stór hluti af því sem ráðherrann spurði er núv. hæstv. ríkisstjórn að kenna. Auðvitað er um ákveðinn fortíðarvanda að ræða. Ég fer ekkert dult með það og viðurkenni það fúslega að Framsfl. eins og aðrir flokkar sem hafa verið í stjórn þessa lands og allir vildu gera vel á þeim tíma. (Gripið fram í.) Mikil skelfing, og gerðu náttúrlega margt miklu betra heldur en það að ná niður verðbólgunni og ég tala ekki um allt sem við gerðum á sviði félagsmála. En margt hefur mistekist og það eru allir stjórnmálaflokkar á Íslandi sem bera ábyrgð á mistökum. Menn eiga ekkert að segja: Þetta er ekki okkur að kenna, þetta er bara núv. ríkisstjórn að kenna. En það sem er núv. ríkisstjórn að kenna er atvinnulífið á Íslandi. Þegar menn fóru frá 1991 og síðari hluta árs 1990 var það þannig að atvinnulífið á Íslandi hafði rekstrargrundvöll. Það gat borgað skuldir sínar. Það hafði ágóða af því sem það var að gera. Það skiptir öllu máli. Það skiptir engu máli hve skuldirnar eru miklar eða til langs tíma. Hafirðu tekjur til að standa undir því sem þú skuldar, þá skiptir það máli og það er það sem atvinnulífið á Íslandi hafði þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar fór frá og það er höfuðatriði. En ég skildi hæstv. fjmrh. svo að hann væri að segja að hann liti á að fólkið á Íslandi væri svo vitlaust að það skildi ekki hvað hér væri um að ræða. Það voru ekki mín orð. En þeir sem segja það að skattahækkanir séu ekki skattahækkanir enda þótt verið sé að hækka skatta, þeir halda ýmislegt um fólkið á Íslandi.