Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 23:35:24 (3850)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja ræðu mína með því að minnast örfáum orðum á þinghaldið. Ég vil taka það fram að í ágreiningi við ríkisstjórnina biðst ég ekki vægðar þó að jól séu í nánd. Við eigum skyldum að gegna á þessu löggjafarþingi og mikil verkefni liggja fyrir þinginu. Við sjáum það núna, hverja stund, að hér eru að koma inn í þingið ný og ný gjalda- og skattafrumvörp af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hér hefur ríkisstjórnin og forseti þingsins leyft sér það að keyra þinghaldið í umræðu um EES-málið í þrjá sólarhringa til þess að reyna að þreyta þingmennina og ræða mál sem allir eru sammála um að getur vel beðið næsta árs og er auki þannig gert að það ber að geyma fram yfir áramót. Það þarf að fá úrslit í það mál og sjá þann samning sem raunverulega verður gerður áður en það mál verður tekið fyrir. En þetta var tæknibrella af hálfu ríkisstjórnarflokkanna til þess að ná því fram að helgihald jólanna yrði til þess eins að hægt væri að smygla inn drápsklyfjum á íslenskan almenning og það yrði gert á kvöld- og næturfundum og næði ekki eyrum þjóðarinnar og hafa þeir gert kröfur á stjórnarandstöðuna um að þeir fengju frið við þessa iðju sína.
    Ég er þakklátur fyrir það að þúsundir íbúa höfuðborgarsvæðisins munu nú fylgjast með umræðu frá Alþingi Íslendinga þar sem kosningaloforð Sjálfstfl. eru svikin, þar sem þeir eru að koma aftan að þjóðinni og fara allt öðruvísi að en þeir hétu í kosningunum. Ég mun rekja það í ræðu minni að nokkru og varpa á það ljósi. Því er það svo, hæstv. forseti, að ég er ósáttur við þá keyrslu sem nú ríkir og tel hana óeðlilega því að það er mikilvægt við þessar aðstæður að málefnaleg umræða fari fram af hálfu Alþingis og að hinir ýmsu aðilar þjóðfélagsins nái að koma inn í þá umræðu til þess að stöðva ríkisstjórnarflokkanna. Enginn vafi er að þessar miklu drápsklyfjar, sem nú er verið að leggja á fólkið og heimilin, munu leiða af sér gjaldþrot heimila og fyrirtækja. Nóg er að gert í þeim efnum. Þeir aðilar sem hafa komist til að veita þessum skattafrumvörpum umsögn sína eru allir sammála um það eitt að þessar drápsklyfjar munu gera það að verkum að gjaldþrotum heimilanna mun fjölga, hjónaskilnuðum mun fjölga og fyrirtækin munu í tugum eða hundruðum fara á hliðina.
    Það gerðist hér fyrr á þessu þingi að varaþingmaður stjórnarliðsins var kallaður hér inn, hv. varaþm. Hermann Níelsson. Hann lagði fram örlitla fsp. sem hann hefur sjálfsagt ekki gert með vilja stjórnarflokkanna. Það var fsp. um hvernig gjaldþrotin hafa þróast. Við sjáum þá þróun sem verið hefur frá því að núv. ríkisstjórn tók við og stefna hennar komst í framkvæmd, þá hefur það því miður gerst að gjaldþrotunum hefur fjölgað til mikilla muna. T.d. hefur á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar farið svo að 540 fyrirtæki á Íslandi hafa orðið gjaldþrota. Því miður spurði þingmaðurinn ekki um hversu margir einstaklingar hefðu orðið gjaldþrota á þessu tímabili, en ég hygg að þeir skipti þúsundum. Það er framferði ríkisstjórnarinnar í málefnum þjóðarinnar sem ræður þarna ferðinni. Af þessum 540 fyrirtækjum varð t.d. 321 fyrirtæki gjaldþrota í Reykjavík á þessu ári. Nú er það spá manna að gjaldþrotunum muni fjölga og að ráðstafanirnar muni gera það að verkum að hundruð manna ef ekki þúsundir muni missa atvinnu sína vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Þetta er sorgleg stefna sem ber að stöðva og almenningur er að byrja að vakna.
    Hinn mikli fundur Dagsbrúnar, sem haldinn var í fyrradag eða svo, boðar tíðindi í þessu þjóðfélagi. Hann boðar að menn ætli ekki að sætta sig við þessa stefnu. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þegar þúsund Dagsbrúnarmenn eru komnir saman til fundar þá er þar einhver stór hópur manna sem hefur kosið þessa ríkisstjórn í kosningunum. Með leyfi forseta ályktaði Dagsbrúnarfundurinn á þá leið og það var á þennan veg:
    ,,Þá kom fram á fundinum að stjórnarflokkarnir hefðu svikið öll þau loforð sem þeir gáfu fyrir síðustu kosningar, skattar hefðu verið hækkaðir stórkostlega með álagningu þjónustugjalda og hækkun lyfjakostnaðar og heilbrigðisþjónustan skert.`` Það er nefnilega svo, hæstv. forseti, að Íslendingar eru ekki jafnvitlausir og menn halda eins og hæstv. fjmrh. orðaði það hér áðan. Þeir gera sér grein fyrir því að gjaldtaka er líka skattur. ( KSG: Vextir.) Vextir, kallar hv. formaður fjárln. hér fram í. Auðvitað er það svo og í þeim efnum liggur dauðasök ríkisstjórnarinnar því að fyrsta verk hennar var að hækka vexti til stóreignamanna á Íslandi um ein 30%. Það var sú aðgerð sem gerði það kannski að verkum að 540 fyrirtæki fóru á hliðina á Íslandi árið 1992. Það gerði það að verkum að hagur heimilanna versnaði stórlega þannig að þetta frammíkall kom á réttum tíma. Og gerum okkur grein fyrir því líka að hópur einstaklinga í atvinnurekstri hefur sagt mér það að þessar fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi gert það að verkum að menn seldu fyrirtæki sín, menn losuðu sig við atvinnurekstur sinn og hafa síðan verið með það fjármagn sem þeir fengu í sölu fyrirtækisins á vöxtum, á gjaldeyrisreikningum, í braski, í peningasöfnunarkerfi fjmrn. Hvaða vexti er nú ríkisstjórnin að borga þessum stóreignamönnum? Útlánsvexti bankanna á víxlum og verðbréfum. Verið er að borga stóreignamönnum 10 og 11% raunvexti á sparifé. Þeir lifa við þokkalega afkomu um þessar mundir því að ríkisstjórnin hefur neitað að skerða hár á höfði þessara stuðningsmanna sinna. Þeir skulu fríir fara frá borði mestu skattálagningar sem farið hefur fram á Alþingi Íslendinga.
    Ég var að lesa úr ályktun Dagsbrúnarfundarins þegar hv. þm. Karl Steinar Guðnason kallaði fram í ræðu mína. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í stað efnda á loforði um hækkun skattleysismarka væri nú lagt til að hækka álagningarprósentu og sveitarfélögum bent á að hækka útsvarsprósentu til að mæta niðurfellingu aðstöðugjalds.`` Síðan segir: ,,Það er

því krafa stjórnar Dagsbrúnar í krafti hins fjölmenna félagsfundar að árásum á lífskjör launafólks linni og ríkisstjórnin snúi sér að því í alvöru að útrýma vaxandi atvinnuleysi, ella fari ríkisstjórnin frá og Alþingi verði sent heim og efnt til nýrra kosninga`` eins og kom fram á fundinum og tekið var undir með lófaklappi þar sem þúsund baráttuglaðir Dagsbrúnarmenn sáu þann vænstan kost að halda ekki frið við ríkisstjórn sem hafði rofið friðinn, svikið kjarasamningana við alþýðuna á Íslandi og þá þjóðarsátt sem hér var samstaða um. Og síðan þetta gerðist verðum við varir við það að fleiri og fleiri verkalýðsfélög koma saman, segja upp kjarasamningum og boða stríð við fjandsamlegt ríkisvald. Þetta er sú staða sem nú blasir við enda var það svo að daginn áður en Alþýðusambandsþingið kom saman ákvað ríkisstjórnin með einu pennastriki að færa 10--12 milljarða yfir á launafólkið í landinu, taka byrðarnar af fyrirtækjunum. Þar notuðu þeir þá neyðaráætlun að mörg fyrirtæki eiga í erfiðleikum og vildu bæta stöðu þeirra en þar var ekkert skeytt um þó að vel gengi á einu sviði. Þar voru allir settir undir einn hatt. Stórgróðafyrirtækin voru meðhöndluð eins og þau væru á hausnum. Þetta er sú alvara sem nú blasir við.
    En það sem gerir það að verkum að maður hikar ekki við þessa umræðu nú í desembermánuði er það að flótti er að koma í stjórnarliðið. Kjarkurinn er að bresta. Menn eru að vakna til vitundar. Ég hygg að þeir Reykvíkingar og höfuðborgarbúar sem fylgjast með þessari umræðu geri sér grein fyrir því að í þessu húsi er það nú að gerast að einhverjir stjórnarliðar eru tilbúnir að yfirgefa mörg af þeim fólskuverkum sem nú á að fremja í nýrri skattálagningu. Það hefur komið hér fram í umræðunni í kvöld. Það hefur komið fram og hér hefur verið lesið bréf frá varaþingmanni Sjálfstfl. á Austurlandi, Hrafnkatli A. Jónssyni, að hann hikar ekki við að reisa hönd sína gegn þessari ríkisstjórn. Það hefur komið fram að harðasti andstöðumaður við þessa ríkisstjórn á ASÍ-þinginu á Akureyri á dögunum var varaþingmaður Alþfl., Pétur Sigurðsson varaþingmaður á Vestfjörðum. Sem betur fer rámar ýmsa af þingmönnum og þingmannsefnum stjórnarliðsins í ýmsar þær ályktanir sem gerðar voru fyrir síðustu kosningar og sætta sig ekki við það sem hér er að gerast.
    Ég ætla í ræðu minni að fara skjótt yfir sögu. Ég ætla að fletta kosningaloforðum stjórnarliðsins og sýna mönnum hverju Sjálfstfl. lofaði fyrir kosningar og einstakir þingmenn. En áður en ég geri það ætla ég að leggja áherslu á það sem ég var að segja að einstakir menn og einstök félög eru að rísa upp. Ég er t.d. með í höndunum fréttabréf frá Drífanda sem er fréttabréf sjómannafélagsins Jötuns, Verkakvennafélagsins Snótar og Verkalýðsfélags Vestmannaeyja. Hver er tónninn sem er sendur ríkisstjórninni í þessu síðasta fréttabréfi, hæstv. forseti?
    Fyrir hæstv. forsrh., hæstv. ráðherra og stjórnarliða, svo og fyrir þá fjölmörgu sem fylgjast með þessari umræðu les ég úr þessu fréttabréfi en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Skattahækkun upp á 1,5%, skerðing barnabóta, hækkun hitakostnaðar er hrikalegt óréttlæti á þessum krepputímum. En það virðist ekkert lát vera á jólaglaðningum ríkisstjórnarinnar. Það nýjasta var að koma í ljós sl. mánudag, þar afnema Viðeyjarundrin mæðra- og feðralaun með fyrsta barni og hækka barnsmeðlög um 51%. Hvað verður næst?
    En vel á minnst. Hvar eru herramennirnir sem heilsuðu upp á okkur fyrir síðustu kosningar og sögðust ætla að hækka persónufrádrátt fiskvinnslufólks. Það væri ekki nema sanngjarnt. Hvar eru sömu herrarnir sem sögðu að það kæmi ekki til greina að hækka skattana? ,,No more taxes`` voru kosningaloforð Bush og herrarnir vildu auðvitað feta í fótspor hans. Það hafði gefist þjóðinni, sem kaus hann, svo vel þó að hann yrði síðan fljótur að svíkja það loforð og auðvitað þurftu herrarnir okkar að gera eins. Samningar eru til að brjóta þá, sagði Hitler sálugi. Loforð eru til að svíkja þau, segja stjórnmálamennirnir. En munið það, elskurnar, að Bush steinlá í næstu kosningum. Það kæmi mér ekkert á óvart þó að eins færi fyrir Davíð og co. fyrir öll svikin``, segir í þessu bréfi frá þremur verkalýðsfélögum í Vestmannaeyjum þar sem ég sé að þeir eru ábyrgðarmenn sem eru mjög framarlega í liði stjórnarflokkanna. ( Gripið fram í: Hvar er Árni Johnsen?) Ja, hvar er hv. þm. Árni Johnsen? er hér spurt. Annaðhvort hefur hann svikið fólkið, sem kaus hann út á loforðin, eða vill forðast þá umræðu sem hér fer fram.
    Síðan segir í þessu sama blaði, með leyfi forseta: ,,Stóryrtar yfirlýsingar.`` Þar er fjallað um ASÍ-þingið á Akureyri og þar segir:
    ,,Ástæðan fyrir reiði þingfulltrúa var sú að um það bil tveimur vikum áður hafði Morgunblaðið birt viðtal við forsrh. þar sem hann gaf þá stóryrtu yfirlýsingu að ríkisstjórnin mundi ekki hlaupast undan merkjum.`` Það væri nú fróðlegt, hæstv. forseti, að fá hæstv. forsrh. í salinn. Mér þætti vænt um ef hæstv. forseti vildi gera hæstv. forsrh. boð. ( Forseti: Forseti skal kanna það þegar í stað.)
    Ég sá í leiðara Alþýðublaðsins í fyrradag: ,,Öll él birtir um síðir.`` Mig minnir að Njáll heitinn á Bergþórshvoli hafi mælt þessi orð nokkrum klukkustundum áður en hann brann inni. Það kæmi mér ekki á óvart að alþýðuflokksmenn geri sér grein fyrir því að þeir verða að ljúka þessu frjálshyggjusamstarfi ef þeir eiga ekki að brenna inni, ef þeir tapa ekki öllu sínu fylgi í þeim kosningum sem geta orðið fyrr en varir? Þetta er eitt dæmið um það að ágreiningur stjórnarflokkanna er að vaxa. Dæmi um það að vökumenn, sem vilja berjast gegn þessum áformum ríkisstjórnarinnar, skulu ekki hika við að boða til fundar í pólitískum félögum stjórnarflokkanna og ræða við þessa forustumenn. --- Meðan ég bíð eftir hæstv. forsrh. þá sá ég að rennt var inn á borð mitt nýju skattafrv. Í hverju skyldi það skattafrv. hafa verið fólgið? ( Gripið fram í: Standa við loforðin.) Það er frv. um það að leggja á Garðyrkjuskóla ríkisins og bændaskólana í landinu gjaldtöku. Ágætu áheyrendur, dæmið um hvernig þessi ríkisstjórn hefur gengið til hliðar við öll

jöfnunaráform sem hér hefur ríkt. Þeir hafa farið eins og kettir í kringum heitan graut hvað tekjuskattinn varðar því að þá rámar annað veifið í kosningaloforðin og þess vegna ganga þeir á sveig í skatttökunni og fara í vasa foreldranna á Íslandi og skólafólksins. Það er nefnilega þetta sem er að gerast. --- þarna sé ég nú hæstv. forsrh. bregða fyrir til hér hliðar. ( Gripið fram í: Undur og stórmerki.) Vænt þætti mér um að heyra hvort hæstv. forseti hefur kallað hann hér til þingstarfa. ( Forseti: Forseti hefur látið kanna það að að hæstv. forsrh. er í húsinu og ég vænti þess að hann komi senn til að hlýða á hv. ræðumann.) Ég vil spyrja hæstv. forseta þingsins: Til hvers eru allir þessir ráðherrastólar? ( Gripið fram í: Til skrauts.) ( Forseti: Hv. ræðumaður spyr um það sem hann veit. Þeir eru til þess að sæti sé fyrir ráðherra í ríkisstjórn Íslands.) Þess vegna er það nú svo um þessar mundir að hér situr aðeins einn hæstv. ráðherra. Er það viðsk.- og iðnrh. (Gripið fram í.) Já, hæstv. félmrh. gengur í salinn og mun ég ræða við hann síðar. En mér þætti vænt um ef forsrh. gæti sest stutta stund í þann stól sem hann barðist fyrir að fá með afli og sigraði. Hæstv. forseti, er það möguleiki? ( Forseti: Ég vil benda hv. ræðumanni á að það frv. sem hér er á dagskrá lýtur forræði hæstv. fjmrh. í ríkisstjórninni og hæstv. fjmrh. er í salnum.) Hæstv. forseti. Forsrh. er aðalmaður þessarar ríkisstjórnar og forráðamaður hennar. Hann fer með forræði ríkisstjórnarinnar. ( Gripið fram í: Í efnahagsmálum.) Fer með efnahagsmálin og stjórnar að ég vænti áformum ríkisstjórnarinnar í meginatriðum. Ég vil þá spyrja hæstv. forseta hverju það sæti að forsrh. gengur ekki í salinn. ( Forseti: Forseti álítur að hæstv. forsrh. sé á þýðingarmiklum fundum hér í húsinu en væntir þess að hv. ræðumaður geti haldið áfram máli sínu.) Hæstv. forseti. Ég minnist þess þegar Sjálfstfl. var í stjórnarandstöðu, þá voru oft og tíðum allir ráðherrar ríkisstjórnar kallaðir hér til þess að hlýða á þingmenn stjórnarandstöðunnar. Ég hef farið fram á það lítilræði að hæstv. forsrh. komi í salinn. ( IBA: Hann er að tefla.) Við annað verður ekki unað. ( ÓÞÞ: Við höfum biðlund. Ræðumaður verður bara að standa rólegur í stólnum.)
    Hæstv. forseti. Við ætlumst til þess að þeir sem gegna forsetastörfum séu forsetar þingsins og hefði ég haldið að sá forseti sem nú situr virti þær leikreglur af gamalli reynslu eftir 25 ára starf að gæta hlutleysis og gera kröfu til ráðherranna að þeir hlýddu á mál örstutta stund. ( Forseti: Forseti vill taka það fram sem hv. ræðumanni er kunnugt að hann hefur látið gera hæstv. forsrh. viðvart að hans sé óskað hér til að hlýða á mál hv. 5. þm. Suðurl. og vænti ég að hans sé von þegar minnst varir. Hv. ræðumanni er auðvitað frjálst að halda áfram ræðu sinni ellegar lúka henni og kveðja sér hljóðs síðar þegar hæstv. ráðherra er viðstaddur eða gera þá hlé á máli sínu.) Mun ég, hæstv. forseti, halda ræðu minni áfram og vænti þess að forseti gangi eftir því að forsrh. verði hér síðar á fundinum.
    Ég sagði áðan að full ástæða væri til þess, þar sem þessi áform ríkisstjórnarinnar í tekjufrumvörpunum snúa að mjög mörgum atriðum og eru svik á kosningaloforðum, að renna yfir kosningabaráttuna sem fram fór fyrir 20 mánuðum eða svo, þremur mánuðum fyrir kosningar. Það er vert að byrja þar sem Morgunblaðið predikaði og lagði línur fyrir stjórnarflokkana sem áttu að taka við. Með leyfi hæstv. forseta stendur í leiðara Morgunblaðsins í febrúar 1991:
    ,,Skattheimtustjórn ber dauðann í sér. Því eru sem betur fer takmörk sett, eins og hér hefur verið rakið, hve langt er unnt að ganga í skattheimtu. Þeir sem líta fyrst á útgjöld ríkissjóðs og segja að vandinn verði síðan leystur með því að hækka skattana lenda að lokum í ógöngum. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar er komin í þessar ógöngur þótt forsrh. og fjmrh. telji enn nauðsynlegt að hækka skattana.``
    Þetta segir í leiðara Morgunblaðsins og harðar hnútur eru settar fram á ríkisstjórn sem senn var að ljúka störfum. En nú vitum við og íbúar þessa lands að enn þá harðvítugri skattheimtustjórn hefur tekið við völdum. Í þessum sama leiðara segir:
    ,,Árið 1987 voru heildartekjur ríkissjóðs 23,6% sem hlutfall af landsframleiðslu. Í ár er talið að þetta hlutfall verði 28,1%.``
    Við skulum líta á fleira sem Morgunblaðið hefur að segja í skattamálum: ,,Eyðslan í ríkisbúskapnum og skattheimtan er í raun tvær hliðar í sama fyrirbærinu. Þess vegna er mergurinn málsins við ríkjandi aðstæður að stöðva viðvarandi vöxt hinnar opinberu eyðslu, m.a. með auknu aðhaldi, hagræðingu og sparnaði. Samtímis verður að búa íslensku atvinnulífi rekstrarlegt umhverfi til að standast samkeppni við umheiminn, til að auka verðmætasköpun í þjóðarbúskapnum, til að stækka skiptahlutinn í samfélaginu.``
    Þetta var boðskapurinn. Og hvernig hafa þessir herrar sem út á þennan boðskap náðu völdum í landinu efnt þau loforð? Í ályktun Sjálfstfl. segir, með leyfi forseta: ,,Tekjuskattar verði lækkaðir í 30--35%.``
    Hvað er að gerast þessa stundina? Það er verið að hækka tekjuskatta í 41,5% og þar er er verið að sækja til almennings á Íslandi 2,8 milljarða í nýjum sköttum fyrir utan hitt að ríkisstjórnin lækkar viðmiðunarmörkin og sækir til viðbótar þær 640 millj. 3,5 milljarða er nú áformað að sækja í auknum tekjusköttum. Sjálfstfl. sem boðaði það hreint í stefnu sinni að tekjuskattar yrðu lækkaðir í 30--35%. Þó skal það viðurkennt að einn hv. þm. flokksins, sá sem situr nú í forsetastóli, talaði aðeins úr annarri átt og segir í kosningabaráttunni að ekkert svigrúm sé til skattalækkana í fyrstu lotu. En hann var ekki vinsæll í hópnum því það var talið að hann hefði með þessari yfirlýsingu sinni hrætt af flokknum eitthvert fylgi.
    Hæstv. menntmrh. Ólafur G. Einarsson segir í kosningabaráttunni: ,,Stefna Sjálfstfl. er að lækka skatta.`` ,,Ekki annað verið samþykkt en að skattar lækki strax,`` segir hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. ,,Stefna Sjálfstfl. er að lækka skatta og hygg ég að það komi skýrt fram í ályktunum landsfundarins, sagði Ólafur G. Einarsson, formaður þingflokks Sjálfstfl., þegar borin voru undir hann þau ummæli Pálma Jónssonar alþingismanns í Morgunblaðinu í gær að ekkert svigrúm væri til skattahækkana á komandi árum vegna

linnulauss hallareksturs sem núv. ríkisstjórn bæri ábyrgð á.`` Eyjólfur Konráð Jónsson alþingismaður sagði: ,,Mér vitanlega hefur engin af stofnunum flokksins samþykkt aðra stefnu en þá að skattar verði strax lækkaðir þegar Sjálfstfl. nær valdi til að knýja það fram.`` ( EKJ: Þetta er rétt.) Þetta er rétt, kallar hv. þm. Eyjólfur Konráð.
    Nú er það spurning með þá menn sem fastast gengu fram og dekkuðu stærstan hóp kjósenda. Styðja þeir þær skattahækkanir sem nú eru áformaðar? Það hefur komið hér fram í drengilegri ræðu hv. þm. Inga Björns Albertssonar að hann hefur sett fyrirvara um það hvort hann styðji þau áform sem nú eru á borðum ríkisstjórnarinnar.
    Sjálfstfl. fjallaði mjög mikið um að skattleysismörk yrðu hækkuð. Og svo gerðist það einnig að Alþfl. talaði mjög mikið um það sama efni í kosningabaráttunni, að skattleysismörk yrðu hækkuð. Með leyfi forseta segir í ályktun sem samþykkt var á fulltrúafundi Alþfl., sem haldinn var um helgina, að eitt meginverkefni Alþfl. verði að auka jöfnunarhlutverk tekjuskattskerfisins með hækkun skattfrelsismarka og markvissari beitingu persónuafsláttar, barnabóta og húsaleigubóta. Þetta var boðorð Alþfl., hæstv. félmrh. Sýnist mér nú að öll þau stefnumál séu út af borðinu. Ég hygg að kjósendur þessa lands sætti sig ekki við slík áform.
    Hér vantar til þessa fundar þann mann sem leiðir efh.- og viðskn., hv. 5. þm. Norðurl. e., Vilhjálm Egilsson. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við það. Ég veit að þingmaðurinn er með leyfi en hann hefur haft þá einkennilegu stöðu að geta talað úr tveimur áttum. Hann hefur haft á bak við sig mikil samtök sem oft og tíðum hafa ráðið miklu um stjórnarstefnuna þegar Sjálfstfl. er við völd.
    Það gerðist fyrir kosningarnar að Verslunarráð Íslands, sem hann veitir forustu, tók að tala eins og heill maður í kosningabaráttunni. Um hvað skyldi Verslunarráðið hafa talað? Það talaði um að virðisaukinn ætti að fara í 15%. ( KÁ: Eins og stefnt er að hjá EB.) Eins og stefnt er að hjá EB, kallar hér fram í hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir. Það var akkúrat það sem Verslunarráðið predikaði. En hverjar hafa efndirnar orðið?
    Jú. Það sem þessi ríkisstjórn hefur nú verið að gera með örlagaríkum hætti er að taka upp 14% skatt á það sem bar ekki virðisaukaskatt og mun hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Virðisaukaskatt á bækur og tímarit, virðisaukaskatt á ferðaþjónustu, virðisaukaskatt á fjölmiðla, virðisaukaskatt á húshitun, virðisaukaskatt á fólksflutninga o.s.frv. Þetta er allt í skattatillögum ríkisstjórnarinnar sem við ræðum á löngum fundum og ég mun koma að síðar að mun hafa alvarlegar afleiðingar.
    Verslunarráðið lagði svo mikla áherslu á lækkun virðisaukaskattsins og hvað það væri mikilvægt að þeir sneru því upp í að það snerist um að elska konuna sína og þykja vænt um börnin sín. Þessi umræða snerist um að það væri mikilvægt að fá þessa lækkun fram til þess að rétta grunn heimilanna. Nú sjáum við, og ég kem að því síðar, að þetta mun hafa þær afleiðingar í för með sér að fleiri og fleiri fyrirtæki munu hætta rekstri í landinu.
    Hv. þm. Eyjólfur Konráð, sem ég hef minnst á fyrr, segir í stórri fyrirsögn í grein: ,,Fólkið fyrst, svo ríkissjóður.`` Þetta var stefna Sjálfstfl. fyrir kosningar. Fólkið fyrst svo ríkissjóður. Hv. þm. segir, með leyfi forseta:
    ,,Það kostar fólkið of mikið að kaupa vöruna sem skattlögð er eins og menn væru óðir orðnir og það kostar fólkið of mikið að borga skattana sem verða til þess að það glatar heilsu sinni, eignum sínum og lífshamingju, fjölskyldum sínum og vinum.`` ( Gripið fram í: Hver sagði þetta?) ( EKJ: Þetta er líka rétt og mjög vel sagt.) Þetta er vel sagt og þetta er sannleikur. ( SJS: Hvar stendur þetta?) Þetta stendur í ágætri grein sem einn virtasti þingmaður Alþingis í dag ritar í hita kosningabaráttunnar. Og þetta var megininntakið í stefnuskrá Sjálfstfl. Fólkið fyrst, svo ríkissjóður. ( Fjmrh.: Þú verður að geta hver sagði þetta.) En ég hygg að þeir séu ekki allir þau karlmenni sem stjórnina styðja að þeir ætli að standa við þessi orð sín. Ég treysti hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni til þess að standa við orð sín og mér býður í grun að þessi hv. þm. hafi oftar en einu sinni á þessu hausti flutt þessa ræðu við litlar undirtektir í sínum flokki.
    Hv. þingflokksformaður Sjálfstfl., Geir H. Haarde, leyfir sér það í hita kosningabardagans hinn 6. apríl 1991 að segja 16 milljarða minnisleysi og fjallar þar um skatta og ræðst að fyrri ríkisstjórn. En hér er þessi hv. þm. að leggja á fjölskyldurnar um allt land tugi milljarða í nýjum álögum frá því að ríkisstjórnin tók við, 10--12 milljarða eina nóttina um daginn og hér koma fram skattafrv. hvert á fætur öðru sem munu gera það að verkum. Ég hef því kosið í þessum stól að reyna að hressa upp á minni hv. þm. Sjálfstfl.
    Hv. þm. Sturla Böðvarsson hefur verið einn vaskasti liðsmaður fjárln. við að færa nýjar álögur á fólkið í landinu. Hvað segir hann hinn 10. apríl, rétt fyrir kosningarnar og hvað skyldi hann hafa fengið mörg atkvæði á Vesturlandi? Hann fékk alla vega það mörg atkvæði út á þessa grein að þeir félagar komust tveir inn úr því kjördæmi. Skatta þarf að lækka. Þýddi þessi grein að skatta ætti að hækka? Hvar er minni þessa hv. þm. sem hefur verið ötulasti verkamaður frjálshyggjunnar við að færa gjöldin yfir á fólkið í landinu sem varaformaður fjárln.?
    Hvernig hefur svo hæstv. ríkisstjórn hagað sér gagnvart skattsvikunum öllum? Við minnumst þess að þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var fjmrh. gerði hann iðulega harða hríð að hinum ýmsu fyrirtækjum hvað skattsvik varðar og náði þar verulegum árangri. Nú er þetta mest á pappírum hjá Sjálfstfl. og því miður hefur þessu ekki verið fylgt eftir. En þegar hæstv. fjmrh. sneri sér að því ná í skattsvikarana hvar byrjaði hann? Hann réðist með offorsi á íþróttastarfsemina í landinu. Hann taldi að þar væru aðalþrjótarnir, í

íþróttafélögunum og ungmennafélögunum, og meira að segja til þess að leggja áherslu á það, þá mun það vera svo í fjárlögum þessa hausts að framlög til ungmennafélaganna og íþróttafélaganna eru stórkostlega skert og ég spyr þingmenn Sjálfstfl.: Ætla þeir að standa að því að skera öll fjárframlög niður til íþróttahreyfingarinnar?
    Hæstv. dóms- og kirkjumrh. Þorsteinn Pálsson heitir því í kosningabaráttunni: Fjármagnstekjuskattur í staðinn fyrir eignarskatt. Hvernig fór með fjármagnstekjuskattinn þegar álögurnar voru lagðar? Þá hopaði liðið undan og ákvað að láta þessa stóreignamenn sem eru með tugi milljóna, jafnvel hundruð milljóna á vaxtafóðri upp á 10--11% uppi í eignaumsýslu ríkissjóðs í friði, sem hafa þar tugi milljóna á slíkum kjörum og fleiri milljónir í tekjur á ári í gegnum það. Þetta fólk fékk ekki byrðar þessa hausts.
    Hv. þm., tíminn er ekki floginn hjá. Það liggur ekkert á, hv. þm. stjórnarliðsins, að afgreiða þessi mál. Með þessari stórkostlegu skattaáætlun mun þyngja mjög á heimilunum, eins og ég hef rakið, þá mun þyngja á fyrirtækjum. Þess vegna hygg ég að það væri skynsamlegra fyrir þá þingmenn stjórnarliðsins, sem ég hef hér hrært upp í minninu á, að þeir komi því í gegnum þingflokka sína að þingið láti af störfum nú fyrir jól og ríkisstjórnin fái tíma til þess að semja um nýjan frið í þjóðfélaginu og nái að snúa af mörgum þeim vitlausu áformum sem hér eru uppi.
    Ég ætla að fara út í nokkur áform sem standa til. Ég ætla að minnast á einn skattinn og spyrja ykkur um réttlæti þess skatts. Það er húshitunarskatturinn. Það var einn skatturinn að setja virðisaukaskatt á húshitunina. Hæstv. félmrh., eigum við kannski að fara smástund yfir þá áætlun og hvað hún mun þýða og hvert er réttlæti hennar? Við skulum taka 400 rúmmetra húsnæði um allt land og líta á réttlætið. Að hita slíkt húsnæði í Reykjavík kostar 36 þús. kr. á ári. Skatturinn, ef endurgreiðsla er sem yrði engin í Reykjavík, mundi þýða 5 þús. kr. hækkun í Reykjavík. En eigum við að líta á ýmsa sem hafa mjög háa skatta? Eigum við t.d. að skoða Hitaveitu Rangæinga þar sem kostar að hita samsvarandi húsnæði 88 þús. á ári? Skatturinn yrði svipaður þannig að Rangæingurinn yrði að borga 94 þús. á ári meðan Reykvíkingurinn yrði að borga 41 þús Það getur vel verið að þessar 5 þús. kr. sem koma þarna í viðbót geri það að verkum að eitthvert fólk gefst upp undan byrðinni. Það er nógu erfitt fyrir þannig að þetta getur verið dropinn sem fyllir mælinn. Og nú vil ég spyrja hv. þm. Sunnlendinga: Eru þeir tilbúnir að leggja þennan skatt á Hitaveitu Rangæinga sem er ein sú dýrasta á Íslandi?
    Mig minnir að einn boðskapurinn í kosningabaráttu Sjálfstfl. hafi verið að jafna rafmagns- og húshitunarkostnað um allt land. Við getum litið líka á Vestmannaeyjar. Í Reykjavík var kostnaðurinn 36 þús. á ári, í Vestmannaeyjum 75 þús. Þetta fer upp í 80 þús. Það er glórulaust að leggja slíka skatta á húshitun á Íslandi. Það er engin jöfnun til í því. Þetta eru drápsklyfjar sem gera það að verkum að einhverjir munu gefast upp, hverfa frá eignum sínum og lífsstríði.
    Ég get farið yfir margar fleiri hitaveitur en ætla ekki að þreyta þingmenn með því. En mér þykir hv. þm. Sjálfstfl. og Alþfl., sem á landsbyggðini búa og predikuðu ekki síst þetta atriði í kosningabaráttunni, hafa brugðist. Og því verður ekki trúað að þessir skattar verði lagðir á. Þetta mál hlýtur að standa í stjórnarflokkunum. Það hlýtur að gerast að þeir stoppi málið því í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Lífskjör verða jöfnuð, m.a. með lækkun húshitunarkostnaðar þar sem hann er hæstur.`` Jöfnuðurinn er fólginn í því að 5 þús. kr. til viðbótar eru lagðar á heimilin sem eru þegar að kikna undir þessum mikla kostnaði. Það segir líka í hvítbók: ,,Einnig mun ríkisstjórnin leita leiða til að jafna enn frekar húshitunarkostnað í landinu.`` ( Gripið fram í: Hvað segir forsrh. um það?)
    Ég ætla að hverfa frá hitaveitunum og líta aðeins á áform um skerðingu vaxtabótanna sem snýr að hæstv. félmrh., sem hlýtur að vera hér nærri. Mér þætti vænt um að hæstv. forseti gerði hæstv. félmrh. viðvart. Ég er með í höndunum ályktunum frá fundi húsnæðismálastjórnar, 10. des. 1992, sem segir allt í þessu máli. Ég les hluta af þessu bréfi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ljóst er að ráðstöfunartekjur almennings í landinu munu lækka verulega á næstunni frá því sem verið hefur um leið og atvinna dregst saman og atvinnuleysi eykst. Möguleikar húsbyggjenda og kaupenda til að standa í skilum vegna íbúða sinna versna því mjög af þeim sökum. Skerðing vaxtabóta til viðbótar breytir aðstæðum þeirra enn til hins verra. Þeir gengust undir greiðslumat og voru í góðri trú um fjárhagslega getu sína þegar ráðist var í framkvæmdir.
    Hafa verður í huga í þessu sambandi hinn mikla áróður sem rekinn hefur verið í seinni tíð allt frá tilkomu húsbréfakerfisins um að fólk fari ekki út í byggingu eða kaup á húsnæði nema með fullu öryggi. Húsnæðismálastjórn varar sterklega við afleiðingum vaxtabótaskerðingar hjá eignalitlum fjölskyldum með lág eða miðlungslaun sem nú þegar eru á mörkum þess að ráða við greiðsluskuldbindingar sínar. Afleiðingar slíkra aðgerða munu koma fram í auknum vanskilum við byggingarsjóðina og afkoma þeirra og möguleikar til að standa við áætlanir sínar versna.``
    Þetta er ályktun húsnæðismálastjórnar. Hverjir skyldu eiga meiri hlutann í þeirri stjórn? Ætli það sé ekki hæstv. ríkisstjórn sem á þar flesta stuðningsmenn? (Gripið fram í.) Nei, því miður, heyrist úr stjórnarliðinu. Eigi að síður er hér ábyrg stjórn sem hefur komist að sameiginlegu áliti og sendir viðvaranir sínar heim til ríkisstjórnarinnar í þessu máli.
    Sjálfstfl. hefur haft það mjög á orði að hann standi vörð um lýðræði og málfrelsi og honum sé lýðræðið hugleikið. Ein aðgerð ríkisstjórnarinnar snýr mjög að því að skerða lýðræðið á Íslandi. Það er virðisaukaskatturinn upp á 14% sem á að leggja á tímaritaútgáfu, bókaútgáfu o.s.frv. Ég ætla að vitna örstutt í

álit sem Magnús Hreggviðsson, stjórnarformaður Fróða, sendi efh.- og viðskn. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Nokkur bókaforlög standa tæpt fjárhagslega. Álagning 14% virðisaukaskatts mun leiða af sér mjög alvarlegar afleiðingar í gjaldþrotum og fækkun starfa. Hækkun verðs á bókum mun leiða af sér val fólks í stórum stíl á öðrum hlutum en bókum í jólagjafir vegna hækkunar. Sá samdráttur einn gæti leitt af sér 25--30% samdrátt í bóksölu milli áranna 1992--1993. Ríkissjóður mun tapa miklum fjárhæðum vegna fækkunar starfa, minni veltu og minnkandi skatttekna.``
    Skyldi þessi aðvörun ekki hitta einhvern í hjartastað? Það er ekki bara að málfrelsið og íslensk menning muni líða fyrir þessar aðgerðir, heldur mun þetta valda því, hæstv. fjmrh., að velta mun minnka og skatttekjur munu tapast. Og í þessari ágætu grein Magnúsar Hreggviðssonar segir hann síðar, með leyfi forseta:
    ,,Ef ofangreindar íþyngingaraðgerðir í virðisaukaskatti á tímarit verða framkvæmdar mun tvennt gerast að mínu viti. Í fyrsta lagi munu útgefendur neyðast til að flytja prentun íslenskra tímarita úr landi til að minnka skattlagningu. Í öðru lagi og samhliða mundi tímaritum fækka enn frá því sem komið er. Fróði mundi líklega neyðast til hvors tveggja. Að mínu áliti mundu afleiðingarnar líklega verða þessar:
    Íslenskum tímaritum með íslensku efni og íslenskum texta mun fækka um þriðjung. Prent á íslenskum tímaritum mundi að verulegu leyti flytjast úr landi. 40 störf færu úr landi frá Fróða. Þeir sem misstu störfin fengju ekki önnur störf. Íslensk tímarit kæmu til Íslands erlendis frá með pósti. Erlend póstfyrirtæki fengju póstburðargjöldin. Störfum í íslenskum tímaritafyrirtækjum mundi fækka um þriðjung. Þeir sem misstu störfin fengju ekki önnur störf. Margumtöluð fimmföldunaráhrif í hagfræðinni vegna ofangreinds samdráttar mundi skapa samdrátt hjá einkaaðilum, ríki og sveitarfélögum.``
    Síðan kemst Magnús að þeirri niðurstöðu að samtals útgjöld ríkissjóðs umfram núverandi ástand yrðu 167 millj. kr. Ríkið tapar tekjum upp á 167 millj. Einhver hundruð manna munu missa atvinnu sína. Stór prentverk munu leggjast af. Útlendingar munu á þessu sviði, eins og svo mörgum öðrum, taka verkefnin af Íslendingum. Ætla hv. þm. Sjálfstfl. og Alþfl. að láta þetta níðingsverk ganga fram? Ætla menn að drepa bókaútgáfuna og hina lýðræðislegu umræðu í blöðum og bókum?
    Eitt hefur hér mjög verið rætt um. Það er meðlagspabbaskatturinn, sem svo hefur verið kallaður. Hæstv. heilbr.- og trmrh. sagði í þinginu fullum rómi eitt kvöldið að það væri mikilvægt að koma þessari breytingu í framkvæmd og hann sagði að það væri svo mikilvægt til þess að kenna körlum að vera ekki að yfirgefa konur sínar og börn. Þeir mundu hugsa sig um áður, sagði hæstv. heilbr.- og trmrh. ( ÓÞÞ: Sérstaklega ef þeir skildu nú.) Nú liggur það fyrir að þegar hjón skilja eru það ekki alltaf karlarnir sem þar eiga alla sök. ( ÓÞÞ: Það má sortera þetta . . .  ) Þar eiga báðir aðilar einhverja sök. Stundum eru það konur og stundum eru það karlar. Það er kannski sorglegt til þess að hugsa að um þessar mundir er þriðja hvert barn á grunnskólastigi í Reykjavík barn einstæðs foreldris. Slík er nú staðan. En það er enginn vafi að þessi áform ríkisstjórnarinnar, þó hún hafi að einhverju leyti snúið frá þeim, munu valda því að fjöldi manna verður gjaldþrota. Það liggur fyrir hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga að í dag eru þar mikil vanskil vegna þess að þeir einstæðu feður, sem hafa lent í þessum hremmingum, geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Og þessi áform munu auka á þennan harmleik. En ríkisstjórnin er sjálfri sér lík. Það er ekki bara hæstv. heilbr.- og trmrh. sem kastar hnútum að karlmönnum á Íslandi.
    Morgunblaðið er oft notað til verkanna og einstaka blaðamenn þar. Hér er ég t.d. með grein sem birtist í blaðinu í dag. Þar er blaðamaðurinn Agnes Bragadóttir kölluð fram og skrifar hún um aumingja meðlagspabbana í bitrum tón og sendir þeim kaldar kveðjur. Hér er nefnilega ríkisstjórnin að ráðast á fólk sem á erfitt. Það eru ekki allir sem hafa lent í þeim harmleik við skilnað að horfa á eftir börnum sínum því að í 99% tilfella mun það vera svo hafi mál farið í hart að konur hafa unnið réttinn yfir börnunum. Og feður sem eiga þrjú, fjögur börn og verða að borga þungar meðlagsgreiðslur hafa ekki átt auðvelt með að komast í sambúð á nýjan leik. Ýmsir af þeim hafa að vísu gert það og eignast börn með nýjum konum. Ég hygg að stöðu þessara manna verði raskað í þessum áformum ríkisstjórnarinnar.
    Svona mætti halda áfram lengi nætur ef vildi. En mín lokaorð eru þau að ríkisstjórnin hefur bæði svikið kosningaloforð sín og brugðist í þeirri vinnu sem fer fram á Alþingi Íslendinga.
    Það er umhugsunarefni, hæstv. fjmrh., hvað ráðherraveikin leikur nú menn grátt. Mér sýnist að mein löggjafarstarfsins liggi í því að ráðherrarnir kalla flokksgæðinga sína inn í ráðuneytin til að vinna alls konar óþurftarverk, stefnuskráratriði flokka sinna, og skeyta engu. Þess vegna er hér verið að henda inn ófullbúnum og lítt grunduðum frv. sem koma öllum í koll. Traustið á milli stjórnmálamannanna, ráðherranna og embættismannanna í ráðuneytunum virðist á seinni árum hafa brugðist. Þarna þyrftu ráðherrar að endurskoða störf sín. Ég hygg að það væri heppilegt núna í jólamánuðinum að hvíla sig frá þeim störfum sem hér fara fram, eins og ég hef glöggt rakið í ræðu minni.
    En ríkisstjórnin er, ég vil segja því miður, trausti rúin. Ég er ekki svo ranglátur að bera þá ósk í brjósti að ríkisstjórn eins lands sé trausti rúin. Ég held að það sé ekkert mikilvægara fyrir íslenska þjóð en að eiga ríkisstjórn sem hún treystir. En þessi ríkisstjórn hefur farið þannig að í störfum sínum, í stríði sínu við þjóðfélagsþegnana, að hún er trausti rúin og henni ber að fara frá. Ef hún ekki fer frá, þá verður hún að endurskoða vinnubrögð sín. Ég vil trúa því að í þessum tveimur ágætu þingflokkum, Sjálfstfl. og Alþfl., séu það margir rétt hugsandi einstaklingar að þeir sjái villu síns vegar og vilji fá tíma til að fara ofan í áform

sín, kanna afleiðingar frv., sem liggja þegar fyrir og eru nú að koma inn í þingið, sem drápsklyfjar á alþýðu landsins. Ég vil í lok ræðu minnar leggja áherslu á að þingið fái þann tíma sem það þarf til þess að endurskoða mörg þessara frv.
    Hæstv. forseti. Ég treysti ekki síst á að forsætisnefnd þingsins átti sig á virðingu Alþingis í þessum efnum því hún má aldrei bresta. Ég hygg að fólkið skilji það að við erum ekki að beita málþófi bara af bölvun við þessa ríkisstjórn. Við erum hér að rökræða við einstaka ráðherra og þingmenn flokkanna til þess að fá þá til að hugsa um þau frv. sem þeir eru með hér í höndunum, um þá skatta í milljörðum sem þeir eru að leggja á fólkið, og snúa frá því.
    Þessu erum við að berjast hér fyrir og það er hart undir þeim kringumstæðum að forsetar þingsins skuli því miður oftar en ekki virðast vera í vinnumennsku hjá ríkisstjórninni. Ég sætti mig ekki við það. Ég vil sterka forsætisnefnd sem treystir sér til þess að slá á fingur ríkisstjórnarinnar þegar hún gengur með of mikilli hörku að þinginu. Forsætisnefndin er nefnilega hér ekki bara í umboði þingsins. Þjóðin trúir sem betur fer á margt þetta fólk, veit að það er réttlátt í hjarta sínu og treystir því að í gegnum forsætisnefndina náist það fram að Alþingi vandi sín vinnubrögð í þeim erfiðu málum sem nú er unnið að á Alþingi Íslendinga.