Skattamál

86. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 01:02:08 (3864)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég tel mér skylt að upplýsa að í dag var rætt meðal þingflokksformanna hvernig fundi skyldi hagað hér í kvöld. Forsætisnefnd kom mér vitanlega ekki að því máli eins og hæstv. starfandi forseti hefur upplýst, en skv. 10. gr. þingskapa er það forsætisnefnd sem á að skipuleggja þinghaldið. Á fundi formanna þingflokka í dag var rætt um það að hafa kvöldfund, ég endurtek það, hafa kvöldfund, ekki næturfund, og ljúka ef hægt væri umræðu um skattafrv. Gengi það vel að taka þá til umræðu EES-málið og að tveir ræðumenn kæmust þar að. Nú hefur verið upplýst að það sé fallið frá því að taka EES-málið á dagskrá, enda hefur umræðan um skattafrv. dregist lengur en svo að hægt sé að kalla þetta kvöldfund. Ég hygg að enn séu tveir ræðumenn á mælendaskrá og ég mundi vilja beina því til hæstv. forseta að spyrja þá ræðumenn hvort þeir hefðu hug á að fresta sinni ræðu til 3. umr. eða hvort þeir mundu vilja ljúka henni í kvöld því að það var rætt í dag að ljúka þessari umræðu ef það drægist ekki mikið fram yfir miðnætti.